Álengdar nær, í kafaldsbyl og kraftaverkum hversdagsins

Álengdar nær, í kafaldsbyl og kraftaverkum hversdagsins

Áður en ég vissi var ég sokkin í snjóskafl upp að mjöðmum, það þarf reyndar ekki mikið til þar sem ég er nú ekki há til hnésins. Þá var aldeilis munur að fá stuðning, sterka hönd bóndans sem tosaði mig áfram og allt í einu leið mér ekki lengur eins og ég væri að detta í 37 ára aldursárið, heldur bara 7 ára stelpa, heima í Hörgárdal á leið í fjós með mömmu í leiðindaveðri.

Það er sjaldnast á dagskránni að sofna með börnunum þegar við förum inn að lesa á kvöldin, en oftar en ekki endar það svo að ég sef eins og ungabarn á milli þeirra. Það fór einmitt þannig í kvöld og var ég nokkuð utangátta þegar eiginmaðurinn ýtti gætilega við mér klukkan rúmlega tíu, við áttum jú eftir að fara út í fjárhús og sæða einar tuttugu ær eða svo. Honum fannst ráðlegt að við yrðum samferða, úti var kafaldsbylur og skaflar komnir milli húsa. Það er þó ekki langt að fara, kannski tæpir 120 metrar. En mikið var ég fegin að geta ríghaldið í hönd hans þegar við örkuðum í kófinu, ég fann hvernig augnlinsurnar blotnuðu og klesstust svo ég sá ekki út úr augum og reyndi að komast yfir köfnunartilfinninguna með vindinn og bleytuna í andlitinu.

Áður en ég vissi var ég sokkin í snjóskafl upp að mjöðmum, það þarf reyndar ekki mikið til þar sem ég er nú ekki há til hnésins. Þá var aldeilis munur að fá stuðning, sterka hönd bóndans sem tosaði mig áfram og allt í einu leið mér ekki lengur eins og ég væri að detta í 37 ára aldursárið, heldur bara 7 ára stelpa, heima í Hörgárdal á leið í fjós með mömmu í leiðindaveðri, hún hélt mér þétt upp að sér og tosaði hettuna á loðúlpunni yfir andlitið eins og hægt var. Það er ákveðin þversögn fólgin í reynslunni í svona veðri, maður er að kafna í kófinu en samt svo ,,alive“ þegar í hús er komið.

Það gekk greiðlega að sæða og vonandi eiga þeir Saumur, Bósi, Tjaldur og Hvati eftir að eignast fyrirmyndar afkomendur ef allt fer blessunarlega vel. Einnig settum við hrút í hjá ánum í austurhúsunum, Svartur átti leik í kvöld, ekkert glæpsamlegt, hann átti ástarleik með Drottningu sem vonandi verður tvílembd í vor. Við vorum fljótari heim á leið enda með vindinn í bakið, rjóð og rennblaut í framan komum við inn rétt fyrir miðnætti. Þetta var langur og góður dagur. Fyrr um daginn hafði ég skírt litla stúlku í heimahúsi. Það var dálítið á brattann hjá henni í upphafi þegar hún kom í heiminn. Í skírninni var hún dásamlega vær og brosmild. ,,Svo nýkomin frá Guði“ hugsaði ég og þegar ég horfði í kyrru, djúpu augun hennar, þessa litla kraftaverks og ljósgeisla foreldra sinna, skynjaði ég glöggt hvað stundin var heilög, líkt og finna mætti hvernig andblær Guðs umlyki hana og okkur öll.

Og þannig var það líka í kvöld, í kuldanum og myrkrinu á leið í fjárhúsin og þegar við báðum í huganum Guð að blessa kindurnar. Því Guð er alltaf nærri.

Þegar nýtt líf kviknar, þegar það kemur í heiminn, þegar kraftaverkin verða, en líka þegar líf slokknar. Og ekki síst, þess á milli, í hversdeginum. Ég væri sennilegast enn á leiðinni út í fjárhús ef ég hefði farið ein, svo ómögulegt er mér að standa í lappirnar í svona veðri. En þannig er það líka í lífinu. Þegar mótlæti, myrkur og erfiðleikar mæta okkur og við sjáum ekki framúr þeim og finnst erfitt að standa í fæturnar, þá er Guð samt þar. Ég hef margoft fundið hann. Kraft kærleika Guðs, sem lyftir andanum, sálinni yfir skaflana í lífinu, teymir mann áfram, þó hægt fari. Það get ég ekki útskýrt með kenningum, útreikningum eða einhverjum reikniformúlum. Ég bara finn það, skynja það í bæninni, reynslunni og tengslum mínum við fólk, í gleði, sorg og í hversdagslegum atburðum. Í kuldatíð sem og sumarblíðu.

En nú er aðventa. Allskonar tilfinningar hafa bærst innra með mér á síðustu vikum, prófkvíði, stress, áhyggjur, tilhlökkun, söknuður og hryggð en líka gleði og þakkæti, einkum þegar ég baka smákökur og vandræði með börnunum mínum. En ég hef áttað mig á því að undir öllum þessum tilfinningum og þrátt fyrir annríki daganna, er friður. Innri friður, því Guð, er hér. Við höldum bráðum hátíð og fögnum því að Guð kom í heiminn, til að halda í hönd okkar og verða okkur samferða er við þræðum götur lífsins í þessari hverfulu veröld. En sú hugun og trú að hvernig sem á stendur í lífinu og hverju sem við mætum, er Guð álengdar nær og jafnvel nærri en þig grunar.