Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag er nýjársdagur í kirkjunni. 1. sunnudagur í aðventu markar upphaf nýs kirkjuárs. Þessi dagur er mikill hátíðisdagur víða um heim. Í gamla daga var talað um jólaföstu, nú notum við oftast orðið aðventa yfir þennan tíma kirkjuársins, en aðventa þýðir koma Drottins. „Hósanna syni Davíðs!“ söng fólkið þegar Jesús reið inn í Jerúsalem forðum eins og við heyrðum lesið hér áðan. Fólkið fagnaði honum og tengdi við konunginn sem þjóðin beið eftir. Konunginn sem myndi bjarga henni. Sumir biðu eftir konungi sem hefði allt vald á jörðu og kæmi á réttlæti og friði. Aðrir biðu frelsara, andlegs konungs. Sá sem valdið hefur getur gert allt í krafti valds síns. En þessi sonur Davíðs sem reið inn í Jerúsalem til að taka þátt í hátíðinni var hógvær og lét asna bera sig inn í borgina. Fögnuðurinn var samt mikill og fólk sýndi hann með söng og látbragði.
Þær tóku á móti okkur með miklum fögnuði konurnar á sléttunum í Chikwawa-héraði í Malaví þegar við komum þangað í febrúar síðast liðinn, en ég var þar með starfsfólki Hjálparstarfsins og fleirum. Við vorum að kynna okkur verkefni Hjálparstarfsins þar og hvernig gegni með þau. Konurnar höfðu enda ærna ástæðu til að fagna, ekki komu okkar, heldur aðstoðinni sem þær höfðu fengið héðan frá Íslandi í gegnum Hjálparstarf Kirkjunnar. Hún breytti lífi þeirra og líka barnanna þeirra og eiginmanna þeirra. Þær sungu og dönsuðu af miklum þrótti, það var það besta sem þær kunnu til að fagna gestunum. Þær sýndu okkur með stolti brunna þar sem nóg vatn kom upp og líka hreint vatn. Þær höfðu lært um hreinlæti og að ekki er nóg að dæla upp hreinu vatni ef hendurnar eru fullar af óhreinindum og bakteríum. 1. sunnudagur í aðventu hefur undanfarin ár verið upphafsdagur jólasöfnunar Hjálparstarfs Kirkjunnar. Við erum hvött til að gefa gjöf sem skiptir máli, því hreint vatn bjargar mannslífum. Við fáum einnig að vita að okkar stuðningur geri „kraftaverk. Aðgangur að hreinu vatni er ekki sjálfgefinn. Hjálparstarf kirkjunnar gerir fólki kleift að byggja brunna í Afríku“ stendur á veggspjaldi sem Hjálparstarfið dreifir söfnuninni til stuðnings.
Okkur sem búum í annarri heimsálfu, í landi íss og elds, þar sem nóg er af vatni kann að þykja vatnsskorturinn í Afríku víðsfjarri og ekki á okkar valdi að bæta hann. Heldur ekki okkar hlutverk að bæta hann, enda næg verkefni hér heima sem vinna þarf til betra mannlífs. En staðreyndin er sú að okkur kemur náungi okkar við hvar sem hann eða hún býr í veröldinni. Og við getum komið til hjálpar, breytt heiminum og bætt mannlífið. „Enginn getur hjálpað öllum, en allir geta hjálpað einhverjum“ er stundum sagt og á það við þegar safnað er fyrir vatnsverkefnum Hjálparstarfsins í Malaví, Eþíópíu og Uganda. Þessi setning varð raunveruleg í ferð minni til Malaví. Skrifstofur lútersku kirkjunnar í Malaví bera þess merki að veraldleg gæði eru af skornum skammti. Engar tölvur, léleg hreinlætisaðstaða, margnotaðar möppur, bilaðir stólar og gömul borð. Uppi um veggi var skipulag skrifað á stór spjöld svo og framtíðarsýn. Engin excelskjöl þar á ferð.
Hafi ég efast um að nauðsynlegt væri að fylgja verkefnum eftir með því að mæta og sjá árangurinn hvarf sá efi fljótlega. Ég sannfærðist um að nauðsynlegt er að sjá það sem unnið hefur verið og heyra heimamenn lýsa framkvæmdum og þeirri breytingu sem hreint vatn og önnur hreinlætisaðstaða bætir daglegt líf, heilsufar og framtíðarsýn fólksins.
Þó vatnsskortur sé tilfinnanlegur í mörgum löndum Afríku þá hefur komið í ljós að nóg hreint vatn er langt undir yfirborðinu. Þegar búið er að bora allt að 70 metra ofan í jörðina kemur upp nóg hreint vatn. Þó langt sé í land með að allir íbúar Chikwawa-héraðs í suðurhluta Malaví geti skrúfað frá krana og fengið hreint vatn eru þau mörg sem geta farið út að brunninum og pumpað upp hreinu vatni og farið með heim. Með vatninu kemur líka möguleiki á að rækta meira af grænmeti og með stolti var okkur sýndur kálgarður sem áður var óhugsandi að gæti vaxið í þurrum jarðveginum. Dýrin þurfa líka sitt vatn og fróðlegt var að hitta bóndann sem hafði fengið þrjár geitur frá Hjálparstarfinu en átti nú sextíu og sjö.
Það var mögnuð tilfinning að standa við vatnspumpuna og dæla upp hreinu vatninu, vitandi að fermingarbörnin mín í Bolungarvík höfðu ásamt fermingarbörnum um land allt, tekið þátt í að safna fyrir þessum brunni.
Hann reið inn í Jerúsalem konungurinn, sem allir höfðu beðið eftir. Hann hagar innreið sinni á þann hátt að sýna að hann kemur sem kóngur fullur mildi og auðmýktar. Þau sem fagna og syngja hafa heyrt af honum og taka á móti honum sem sigurvegara. Taka á móti Jesú, spámanninum frá Nasaret, syni Davíðs, sem kemur í nafni Drottins.
Aðventa, koma Drottins. Við getum slegist í för með pílagrímunum sem fögnuðu í Jerúsalem forðum. Kirkja Krists eru þau sem eru í liði með Jesú. Þau sem trúa á hann og leitast við að feta í sporin hans. Þess vegna látum við okkur náungann skipta, hvort sem hann býr í næsta húsi eða í annarri heimsálfu. Þess vegna stefndur Hjálparstarf Kirkjunnar fyrir söfnun á aðventunni. Það er árviss atburður. Samhugur hefur alla tíð ríkt í Kirkju Krists, enda er kærleiksboðskapur Kristinnar trúar ekki bara orð, heldur ekki síður verk. Trúin er dauð án verkanna, segir Jakob postuli í bréfi sínu. Við sýnum trúnna í verki með því að gera öðrum gott og bæta líf.
Okkur kann að finnast á stundum að yfirvöld hvers lands eigi að sjá um samfélagsleg verkefni. Eigi að sjá til þess að jafnrétti ríki og réttlæti sé framfylgt. Eigi að tryggja öllum íbúum aðgang að lífsnauðsynjunum, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þess vegna eigi almenningur ekki að þurfa að taka þátt í söfnunum og verkefnum tengdum almannaheill. Kirkjan hefur bent á nauðsyn þess að sýna kærleikann í verki. Það er hreint ekki nein afskiptasemi eða tilætlunarsemi heldur heilög skylda hennar. Þannig fetar hún í spor Krists. Hann gagnrýndi yfirvöld ef honum fannst þau ekki vera að ganga fram í réttlæti og kærleika. Hann breytti hugsunarhætti fólks í nafni kærleikans. Hann læknaði og bætti líf í nafni kærleikans.
Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu. Í dag er líka fullveldisdagur okkar Íslendinga. Menn lögðu sig fram um að finna fullveldinu farveg og það tókst. Við eru sjálfstæð þjóð og viljum vera það. Það er ekki sjálfgefið að þannig verði það um aldur og ævi nema að við séum meðvituð um það að gæta að fullveldinu og sjálfstæðinu. Þekking sem bætir líf okkar má ekki hverfa héðan. Tæki ekki úreldast án þess að önnur komi í staðinn. Við verðum að fræða hin ungu um rætur okkar og menningu þannig að þau skilji sjálf sig og uppruna sinn. Það verður ekki gert með því að þurrka út allt sem viðkemur kristinni trú á opinberum vettvangi. Kristinn arfur okkar hefur gert okkur að þeirri þjóð sem við erum. Hún hefur alla tíð haft áhrif á mótun samfélagsins, ekki bara frá árinu 1000 heldur frá upphafi byggðar.
Nú þegar tæknin gerir okkur kleift að hafa samband við fólk um allan heim á auðveldan hátt ættum við að vera meðvitaðri um þau sem búa við skort og óréttlæti. Það er sama hvar fólk býr og við hvaða kjör. Við þráum öll gott líf og innihaldsríkt. Það er langur vegur milli Íslands og Malaví. Það er líka langur vegur frá því að konan sem dælir vatni úr brunni í Malaví búi við sömu lífskjör og við hér á landi. Hafandi séð það með eigin augum þá finnst mér að við búum við allsnægtir.
Því miður er það ekki svo hjá öllum í okkar samfélgi. En það er í það minnsta eitt sem við höfum jafnan aðgang að og það er Kirkjan. Hún er öllum opin, nú á aðventunni sem aðra daga. Þar hljómar lofsöngur til konungsins sem kom ríðandi á asna inn í Jerúsalem forðum. Þar er leitast við að sýna kærleikann í verki. Þar er andlega næringu að fá, sem er ekki síður nauðsynleg en sú líkamlega. Þar er skjól að fá og vonandi mannlega hlýju. Við megum öll biðja til þess Guðs er reið inn í Jerúsalem auðmjúkur og lítillátur. Til þess Guðs er kom inn í þennan heim í barninu Jesú, ekki með valdi heldur með kærleika til allra jarðar barna. Kraftur Guðs er að verki í heiminum og verður sýnilegur þar sem réttlæti ríkir og kærleikur dafnar. Greiðum honum leið og leggjum okkur fram um að láta hann sjást.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.