Jesús gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni

Jesús gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni

Kristin trú getur hjálpað okkur við það verkefni vegna þess að kristin trú er trú vonar og kærleika. Hún er trú hugarfarsins sem eru grunnur verkanna. Hún er trú ábyrgðar gagnvart öllu því sem skapað er. Hún er trú ljóssins og lífsins.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
21. apríl 2019
Flokkar

Jes. 25:6-9; 1. Kor. 15:1-8a; Matt. 28:1-10.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega páskahátíð kæru áheyrendur. Það er vissulega ástæða til að koma saman og gleðjast á mestu hátíð kristinna manna. Kristið fólk um víða veröld safnast saman og fagnar upprisunni, grundvelli trúar okkar kristinna manna, grundvelli þess samfélags sem við köllum kirkja.

Kirkjan er samfélag þeirra sem vilja kannast við hinn krossfesta og upprisna Krist. Kirkjan skiptist í margar kirkjudeildir sem allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa séð þörfina á því að standa saman um það sem sameinar en um leið virða mismunandi túlkanir hver annarrar á nokkrum trúaratriðum eins og skírninni og kvöldmáltíðarsakramentinu. Við sáum í sjónvarpsfréttum á föstudaginn langa að siðir tengdir föstudeginum langa eru mismunandi eftir löndum og kirkjudeildum og hið sama á við um aðra mikilvæga daga í kirkjuárinu.

Maríurnar tvær sem guðspjallið greinir frá höfðu staðið við gröf Jesú. Þær höfðu staðið þar og þjáðst vegna örlaga vinar síns sem hékk á krossi, niðurlægður og smáður. Í huga þeirra hafa eflaust bærst margar tilfinningar og allar daprar.
Augu hins vestræna heims hafa beinst að Notre Dame undanfarna daga. Kirkjan er Maríukirkja eins og svo margar kirkjur um veröld víða. Hún var reist á árunum 1163 til 1345. Á heimasíðu kirkjunnar segir að kirkjan sé meira en sögulegt minnismerki, hún sé umfram allt Guðs hús og geymi reynslu kynslóðanna. Í Notre Dame dómkirkjunni mætist arfur hins vestræna heims, trúarlegur, menningarlegur og sögulegur. Þessi kirkja stóð í ljósum logum fyrir nokkrum dögum og margir fylgdust með hinum færu slökkviliðsmönnum berjast við eldinn í margar klukkustundir. Fyrir fagmennsku þeirra og þrautseigju tókst þeim að koma í veg fyrir algjöra eyðileggingu kirkjunnar. Tilfinningar þeirra sem stóðu við hið brennandi hús breyttust úr ótta og sorg í létti og gleði.
Forseti Frakklands lýsti því yfir að kirkjan skyldi endurgerð og auðmenn hétu fé til framkvæmdanna. En þá reis upp mikil reiði meðal almennings sem taldi að velgjörðarmennirnir hefðu annað í huga en eintóma gæsku við dýrt verkefni. Ég hef fyrir hönd þjóðkirkjunnar sent sendiherra Frakklands hér á landi samúðarkveðju vegna brunans og tek undir hvatningu þess efnis að við öll sem unnum kirkju og kristni styrkum endurreisn þessa mikla guðshúss.

Það getur verið vandlifað í veröldinni eins og dæmin sanna og það höfðu þær rekið sig á konurnar sem Vilborg Dagbjartsdóttir yrkir um í kvæði sínu Páskaliljur.

„Morguninn eftir komu konurnar
til þess að gráta við gröfina.
Og sjá þær fundu gul blóm
sem höfðu sprungið út um nóttina.
Vorið var komið þrátt fyrir allt.“

Vilborg tengir upprisuna vorinu og víst er að á vorin er mynd upprisunnar hvað sterkust í náttúrunni. Þá er ljóst að fræið hefur í frostinu sofið og Drottins vald vakið það upp á ný.

Morguninn eftir komu konurnar til þess að gráta við gröfina segir Vilborg í ljóði sínu. Þær voru harmi slegnar eins og svo margir vinir Jesú þennan morgun. Hann hafði ekki aðeins látið líf sitt á krossinum, heldur hafði hann einnig verið niðurlægður mjög. Það var sem dauðinn hefði sigrað, illu öflin hefðu sigrað, mannlegt vald hefði sigrað. Þær höfðu staðið við krossinn og horft á vin sinn niðurlægðan, smáðan og píndan til dauða. Harmur þeirra var því mikill.

En eins og við vitum og heyrðum blasti önnur sjón við þeim en þær höfðu vænst. Margar tilfinningar hafa bærst í brjóstum þeirra. Gleði, ótti, efasemdir, tregi. Þær mættu upprisnum meistara sínum. Lífið hafði dauðann deytt og leiðin til lífsins var greidd. En það krefst aðgæslu að varðveita lífið. Það höfum við heyrt og séð undanfarin ár. Dauðinn ógnar jörðinni okkar, þeirri einu sem við höfum. Nú er unnið hörðum höndum að því að hún rísi upp aftur til lífsins. Sjónvarpsmaðurinn heimsþekkti David Attenborougth gaf út harðorða yfirlýsingu um loftlagsbreytingarnar sem ógna heiminum. Hann segir jarðarbúa standa frammi fyrir „óafturkræfum skaða á náttúrunni og samfélagslegu hruni“. Jafnframt tekur hann fram að enn sé von. Upprisuboðskapurinn er boðskapur vonar. Upprisuboðskapurinn er boðskapur lífs. Við vitum ýmislegt um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Vísindamenn hafa frætt okkur um að nú verði að breyta um stefnu eigi lífið að sigra eyðileggingu jarðar og dauða lífs á jörðu. Nú er komið að siðferðinu, hugarfarinu, lífsstefnunni. Það er komið að því að við jarðarbúar verðum að breyta um lífsstíl. Allar fræðigreinar geta hjálpað okkur við það verkefni. Kristin trú getur hjálpað okkur við það verkefni vegna þess að kristin trú er trú vonar og kærleika. Hún er trú hugarfarsins sem eru grunnur verkanna. Hún er trú ábyrgðar gagnvart öllu því sem skapað er. Hún er trú ljóssins og lífsins.

Hin 16 ára Greta Thunberg gagnrýndi leiðtoga Evrópusambandsins fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum þegar hún ávarpaði Evrópuþingið í síðustu viku. Þessi unga stúlka hefur haft mikil áhrif á loftslagsumræðuna og lifir í samræmi við málflutning sinn og flýgur til dæmis ekki á milli staða. Sjálftekið leyfi hennar frá skóla á föstudögum til að mótmæla aðgerðarleysi ráðamanna í loftslagsmálum hefur verið fyrirmynd ungs fólks í mörgum löndum, meðal annars hér á landi. Þessi unga stúlka hefur svo sannarlega haft áhrif á heimsbyggðina og hugsunarhátt fólks. Á Evrópuþinginu lét hún þau orð falla að ef ráðamenn hugsuðu alvarlega um aðgerðir í loftslagsmálum þá væru þeir ekki að nota tíma sinn í að ræða skatta og Brexit. Hvað er nauðsynlegt, hvað er gagnlegt, hvað er forgangsverkefni? Við höfum eflaust mismunandi skoðanir á því en um loftslagsbreytingarnar eru aðeins eitt svar, þær eru staðreynd og eru farnar að hafa áhrif á allt líf á jörðinni, líka hér á landi.

Undanfarnar vikur hef ég vísiterað eða heimsótt söfnuðina hér í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og einnig í Skagafirði. Það er áhugavert að sjá hvað söfnuðirnir eru orðnir vakandi fyrir umhverfismálum og vinna eftir ákveðnu skipulagi að því að fá umhverfisvottun sem græn kirkja. Í söfnuðunum er fólk sem vill tilheyra kirkjunni, sækja hana og vinna fyrir hana. Þar er hin lifandi kirkja, með sterka sjálfsmynd og vissu um að hlutverk kirkjunnar hér í heimi er mikið og lífgefandi. Kirkjustarfið byggist á samvinnu launaðra sem ólaunaðra sjálfboðaliða, fólks sem leggur sig fram um að ná til allra aldurshópa í starfi sínu og er þess fullvisst að hlutverk kirkjunnar er mikilvægt í hverri sókn. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem bera uppi starf kirkjunnar fyrir ómetanlega þjónustu. Þið hafið byggt kirkjuhúsin og haldið þeim við. Þið sjáið til þess að allt sé til reiðu fyrir athafnir í kirkjunum. Þið haldið þeim hreinum og snyrtilegum. Þið takið á móti kirkjugestum með bros á vör. Þið leiðið sönginn og stjórnið tónlistinni. Þið boðið í orði og í verki. Án ykkar væri erfitt að halda uppi kirkjustarfi og koma hinum mikilvæga boðskap upprisunnar á framfæri.

Okkar íslenska þjóðkirkja tekst á við svipaðar áskoranir og systurkirkjurnar í Skandinavíu og í Evrópu. Skráðum meðlimum fækkar, skírnum fækkar en þátttaka í athöfnum stendur að miklu leyti í stað. Kirkjuskipanin í borginni er byggð upp á sama máta og kirkjuskipanin á landsbyggðinni en áskoranirnar eru ólíkar í þéttbýlinu og dreifbýlinu. Okkar lútherska kirkja hefur aðeins einn leiðtoga, þann er reis upp á þriðja degi en talsmenn hennar eru margir þó biskupinn leiði þann fríða flokk.

Lífið er stöðug barátta milli ills og góðs og við ættum að sigra það illa með góðu. Þetta endurspeglar það sem gerðist á Golgata á föstudaginn langa og við gröfina á páskadagsmorgunn. Það átti sér stað heilmikil barátta þessa daga í Jerúsalem fyrir nærri 2000 árum. Það var veraldleg valdabarátta, það var andleg valdabarátta, það var innri barátta þeirra sem við sögu komu. Það var barátta Pílatusar, það var barátta Jesú, það var barátta fylgjenda hans. Og þó að svona sterkar tilfinningar séu ekki daglegt brauð hjá okkur, þá geta komið tímabil sem við göngum í gengum mikla baráttu í lífi okkar. Baráttu við okkur sjálf, við annað fólk, við sjúkdóma og við allt mögulegt sem ógnar lífi okkar.

Þess vegna er svo gott að minnast upprisunnar. Minnast þess að eftir krossfestinguna kom upprisan. Eftir dauðann kom lífið. Eftir vonleysið kom vonin. Eftir veturinn kemur vorið. Við skulum því aldrei gefast upp fyrir því sem miður fer, eða því sem ógnar okkur, hræðir okkur eða veldur okkur hverskonar sársauka, því upprisa Jesú boðar okkur nýja tíma og nýja von. Trúin á Krist hefur umskapandi áhrif í lífi okkar. Enginn verður samur og áður, eftir að hafa mætt hinum upprisna Jesú í trúnni. Hann gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni, ég lifi og þér munuð lifa, sagði hann. Dauðinn á ekki síðasta orðið. Það er huggun þess sem syrgir og saknar.

Allt frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja boðað trú á Krist, upprisinn og lifandi frelsara. Við getum mætt honum í trú og þáð boð hans um eilífa samfylgd. Það er boðskapur páskanna að Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.
Gleðilega hátíð, gleðilega páska.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.