Óttalaus um dimman dal

Óttalaus um dimman dal

Í dag er spurning hvort íslensk þjóð gengur óttalaus um dimman dal. Þjóðin hefur sýnt á sér hlið sem mörg okkar héldu að ætti sér einungis tilvist í íslenskum sögubókum. Tómas Sæmundsson, Jón Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson... þetta eru þjóðhetjurnar okkar. Í Jesú Kristi eigum við verðuga fyrirmynd og mörg okkar velja að feta í fótspor hans ...
fullname - andlitsmynd Ása Björk Ólafsdóttir
26. janúar 2009

Íslenska þjóðin hefur sýnt á sér hlið sem mörg okkar héldu að ætti sér einungis tilvist í íslenskum sögubókum. Tómas Sæmundsson, Jón Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson... þetta eru þjóðhetjurnar okkar. Sjálf er ég komin af Tómasi Sæmundssyni og hef ávallt verið stolt af því. Nú er nýtt upp á teningnum; næsti Tómas í mínu lífi, sonurinn Tómas Gabríel, er stiginn fram á völlinn til að verja sjálfstæði þjóðarinnar. Hann ritar í blöð og slær skjaldborg á milli óeirðaseggja sem leynast meðal mótmælenda og fámenns lögregluliðsins. Æska Íslands samanstendur ekki af viljalausu fólki sem vant er að fá allt upp í hendurnar eins og stundum hefur verið haldið fram. Hér er stór hópur fólks með sterka réttlætiskennd, framtíðarstjórnendur Íslands. Ég hef ekki áhyggjur.

Ofarlega í huga mér er morgunlestur frá fyrri viku: Jóh 5.19-24

Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gert af sjálfum sér. Hann gerir það eitt sem hann sér föðurinn gera. Því hvað sem hann gerir, gerir sonurinn einnig. Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt sem hann gerir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi svo að þér verðið furðu lostnir”.

Ég tel þá miklu djörfung sem fram er komin meðal ungs fólks hafa heilmikið með fyrirmyndir að gera. Hver kemur fyrst upp í huga fólks sem andstæðingur spillingar, fordóma og misbeitingar valds?

Þessari spurningu er mér auðvelt að svara; Jesús Kristur, frelsari okkar og lausnari, gaf líf sitt, bæði á meðan hann lifði á meðal fólksins og einnig á krossinum. Hann gaf okkur allt sem hann átti, líf sitt, vonina og botnlausan kærleikann, til þess að við mættum eiga í honum verðuga fyrirmynd og velja að feta í fótspor hans. Mörg okkar vilja feta í fótspor frelsarans. Hvort það er á okkar valdi, hvers fyrir sig, er ekki okkar sjálfra að fullyrða. Á meðan við gerum okkar besta í öllum þeim aðstæðum sem snerta líf okkar, megum við vera sátt. En, gætum þess að setja markið hátt.

Annað er, að þegar okkur verður á, þurfum við líka að vera tilbúin að draga inn netin og eftirláta öðrum að fiska.

Þessa dagana er mikið talað um flokkræði og flokkadrætti. Við í kristinni kirkju eigum ekki að leyfa okkur að falla í þess konar hjólför, því við erum öll í sama flokki. Mannvirðing er sá grundvöllur og það takmark sem við stefnum öll að, leynt eða ljóst.

Í dag er spurning hvort íslensk þjóð gengur óttalaus um dimman dal. Í 23. Davíðssálmi segir:

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. ... Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér,

Í Njarðvíkurkirkju í gær söng ég með börnunum barnasálminn: Með Jesú í bátnum get ég brosað í stormi. Það er auðvelt að leggja út frá þeim sálmi gagnvart öllum aldurshópum.

Í þeim bátum sem við siglum, í kirkjuskipi, örk sköpunar Guðs eða þjóðarskútunni, alls staðar skulum við muna að hafa Jesú ávallt með okkur í för.