Jesús og Hórus

Jesús og Hórus

Þegar betur er að gáð eru hinir tólf fylgjendur Hórusar stjörnumerkin enda var Hórus guð himinsins. Stjörnumerkin eiga lítið sameiginlegt með lærisveinum Jesú - nema þá kannski fjöldann.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
25. desember 2007

Í Fréttablaðinu um helgina var greinin Sóldýrkendur nútímans. Hún er rituð af blaðamanni Fréttablaðsins en Sigurður nokkur Hólm, stjórnarmaður í Siðmennt, segir hana mikið til byggða á grein sem hann sjálfur skrifaði.

Auk þess styðst þessi jólakveðja Fréttablaðsins við áróðursmyndina Zeitgeist sem farið hefur um netheima eins og eldur í sinu.

Flestir sem til þekkja viðurkenna að Zeitgeist hagræði sannleikanum, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Framleiðendur myndarinnar sjá sjálfir ástæðu til að vara fólk við því að taka myndinni sem sannleika og benda fólki á að leita hans eftir sínum leiðum.

Tæplega verður því haldið fram að Fréttablaðsgreinin sýni að höfundur hennar hafi tekið varnaðarorð höfunda Zeitgeist alvarlega og grennslast fyrir um hvort staðhæfingar þeirra eigi við rök að styðjast.

Greinin er að mestu gagnrýnislaus endurtekning á áróðrinum og rangfærslunum í Zeitgeist.

Dæmi um það eru samanburðurinn á Jesú og Hórusi. Þeir sem hafa fyrir því að kynna sér egypska goðafræði sjá fljótlega að með þeim er fátt sameiginlegt.

Það hvernig fólk hugsaði sér útlit Jesú og Hórusar segir sína sögu. Stundum tala myndir skýrar en orð.

Þar að auki er í hvorugri sögninni um fæðingu Hórusar um meyfæðingu að ræða þvert á það sem fullyrt er í Fréttablaðinu. Og Hórus var hvorki krossfestur né reis hann upp frá dauðum.

En Hórus átti reyndar tólf fylgjendur.

"A-ha!" hugsa sumir. "Samsvörun við lærisveina Jesú!"

Þegar betur er að gáð eru hinir tólf fylgjendur Hórusar stjörnumerkin enda var Hórus guð himinsins. Stjörnumerkin eiga lítið sameiginlegt með lærisveinum Jesú - nema þá kannski fjöldann.

Ég hvet fólk til að fara að ráðum höfunda Zeitgeist og kynna sér málin sjálft. Um Hórus má til dæmis lesa á vikkípedíu. Þótt hún sé ekki óbrigðul heimild sýnist mér hún í þessum efnum vera töluvert ábyggilegri en Zeitgeist og Fréttablaðið.

Ég tek á hinn bóginn undir orð sr. Þórhallar Heimissonar sem rætt er við í Fréttablaðsgreininni. Þórhallur segir Biblíuna fulla af þekktum táknum.

Trúarbrögðin eiga ótalmargt sameiginlegt. Það eru engin tíðindi fyrir okkur sem erum áhangendur trúarbragðasögulega skólans.

Þessi pistill birtist einnig á vefsíðu sr. Svavars og umræður um hann fara fram þar.