Einn fyrir alla og allir fyrir einn

Einn fyrir alla og allir fyrir einn

Í dag lýkur hinu trúarlega ferðalagi,sem við hófum á skírdagskvöld með einfaldri minningarmáltíð í kringum altarið. Á föstudaginn fórum við í gegnum orð Krists á krossinum eins og þau er að finna í Davíðssálmi 22. Um kvöldið heyrðum við píslarsöguna í tali og tónum. Síðan fjarlægðum við alla hluti af altarinu og gengum út úr kirkjunni myrkvaðri.
fullname - andlitsmynd Magnús Björn Björnsson
16. apríl 2006
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum? En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður. Mark. 16.1-7

Við skulum biðja: Þú, Jesús Kristur, Drottinn dýrðarranns, sem dauðans viðjar hefur látið falla, rís upp í hug og hjarta syndugs manns, þín heilög návist fylli veröld alla. AMEN

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Í dag lýkur hinu trúarlega ferðalagi,sem við hófum á skírdagskvöld með einfaldri minningarmáltíð í kringum altarið. Á föstudaginn fórum við í gegnum orð Krists á krossinum eins og þau er að finna í Davíðssálmi 22. Um kvöldið heyrðum við píslarsöguna í tali og tónum. Síðan fjarlægðum við alla hluti af altarinu og gengum út úr kirkjunni myrkvaðri. Aðfararnótt sunnudagsins fengum við að ganga inn í kirkjuna eins og gröfina, með eitt kertaljós. Við helguðum páskakertið og helguðum sjálf okkur Drottni á ný í skírn og kvöldmáltíð. Páskavakan er góð upplifun, þrungin merkingu, nærandi fyrir gönguna til páskasólar. Við fengum að fagna upprisunni, en í dag er hátíð, því nú höldum við upp á það að gröfin er tóm.

Hinn fyrsti dagur vikunnar Drottins dagur

Í dag skín páskasólin, nýr dagur, hinn fyrsti dagur vikunnar, eftir að Drottinn reis upp frá dauðum. Já, hinn fyrsti dagur í meira en einum skilningi. Eftir upprisuna hefur sunnudagsins verið minnst sem Drottins dags, þess dags, er Kristur reis upp frá dauðum. Upprisan var svo umskapandi atburður að samlíkingar voru nauðsynlegar úr Gamla testamentinu til samanburðar. Á hinum fyrsta degi sköpunarinnar, skapaði Guð ljósið. Það var nýtt upphaf. Jesús Kristur upprisinn og lifandi er hið sanna ljós, ljós heimsins, og á upprisudeginum er Guð sjálfur kominn í hinum upprisna. 'Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.' Það er orðið nýtt upphaf.

Drottinn Guð hvíldi sig samkvæmt sköpunarsögunni á hinum sjöunda degi, laugardegi. Sabbatinn er gyðingum heilagur. Sunnudagur, Drottins dagur er orðinn kristnum að hvíldardegi í stað hins sjöunda.

Á hinum fyrsta Drottins degi var veröldin orðin ný, því nýr sáttmáli var staðfestur orðinn. Jesús Kristur sagði við hina síðustu kvöldmáltíð, að blóðinu sem úthellt yrði til fyrirgefningar syndanna, væri hinn nýi sáttmáli. Hann sjálfur er hinn nýi sáttmáli. Hinn gamli sáttmáli var gerður á fjallinu Hóreb er Móses tók við boðorðunum tíu. Guð gaf mönnunum lögmálið til að þeir færu eftir því. Lögmálið gerir okkur ber að syndum. Það sýnir okkur aftur og aftur að við erum syndarar. En hinn nýi sáttmáli var fullkomnaður á föstudeginum langa, er blóði Krists var úthellt og líf hans var tekið. Upprisan staðfestir að hinn nýi sáttmáli er í garð genginn. Náðin og sannleikurinn er kominn í stað lögmálsins og fórnarinnar. Jesús Kristur, upprisinn og lifandi, er að verða allt í öllu. Á hvítasunnu, sunnudegi, var anda hans var úthellt, fyrst yfir lærisveinana, síðan yfir allt hold. Þann dag var kirkjan stofnuð. Hinn fyrsti dagur vikunnar er því dagur Drottins Jesú Krists og kirkju hans.

Sagan af tóma egginu

Prestur nokkur í Pensilvaníu hafði það fyrir sið á páskum að biðja börnin í söfnuðinum að setja það sem þeim þætti vænst um inn í bréfegg, sem þau bjuggu til úr pappakvoðu. Þau máluðu síðan eggin. Á páskadagsmorgni komu þau með eggin og lögðu þau á altarið. Presturinn tók síðan hvert eggið á fætur öðru og opnaði. Mátti þá t.d. sjá bangsa eða dúkku í eggjunum. Presturinn talaði síðan um mikilvægi væntumþykjunnar og kærleikans í framhaldinu. Í barnahópnum var drengur sem var fatlaður, svolítið málhaltur og hét Kenny. Hann kom með sitt egg og lagði á altarið. Þegar það var opnað kom í ljós að það var ekkert inni í því. Fóru þá börnin að hlæja og flissa, en presturinn sussaði á þau og spurði Kenny hvers vegna ekkert væri í egginu hans. Þá sagði hann:„Gröfin var tóm. Mér þykir vænst um tómu gröfina." Þessi atburður gaf prestinum tækifæri til að tala um páskana frá allt öðru sjónarhorni. Ári síðar dó Kenny úr sjúkdómi sínum. Eftir það var alltaf lagt tómt egg á altarið um hverja páska í minningu um Kenny og tómu gröfina, sem honum þótti vænst um.

Tóma gröfin

Alla tíð hefur tóma gröfin verið undirstaðan í boðun kristninnar. Á páskum eru það orð engilsins:, Hann er upprisinn, hann er ekki hér ' og vitnisburður kvennanna, sem mestu skipta. Það er ekki sjálfgefið, því margir veikleikar eru í þessum boðskap. Það er ólíklegt að frumsöfnuðurinn í Jerúsalem hefði getað staðið á þeirri kenningu, að Jesús væri upprisinn og gröfin tóm, ef Jesú hefði verið varpað í fjöldagröf eins og ræningja. Í annan stað fór af stað saga um að líkama Jesú hefði verið rænt. En hún hefur ekki fest rætur. Í þriðja lagi flýðu lærisveinarnir og földu sig fyrir yfirvöldum, sem mætti túlka sem vísbendingu um sekt en ekki sakleysi. Og í fjórða lagi voru það konur, sem komu með fréttirnar um að gröfin væri tóm. Það var mjög veikt, svo vægt sé til orða tekið, það var ómarktækt, því konur voru ekki vitnisbærar. Allt í kringum upprisuna virðist að meira eða minna leiti á brauðfótum reist.

Samt sem áður er vitnisburðurinn um tómu gröfina ennþá aðal atriðið, ekki aðeins á páskadag, heldur alltaf, þegar við skoðum hina kristnu trú.

Hin tóma gröf er boðskapur sérhvers páskadags. Fern trúarbrögð byggja á leiðtogum og leiðsögn þeirra, Gyðingdómur, Búddatrú, Islam og Kristin trú. Aðeins kristin trú auglýsir að gröf stofnandans hafi verið tóm. Árið 483 f. Kr. dó Búdda. Í búddískum ritum stendur að Búdda hafi dáið og þegar fylgismenn hans hafi spurt hann hvað þeir ættu að gjöra, sagði hann þeim að fara eftir kenningunni. En þar segir að “alls ekkert verði eftir skilið af hinu jarðneska.” Samt sem áður fannst fyrir nokkru bein, sem talið er hafa verið úr hönd Búdda. Það bein hefur farið um heiminn í öskju og verið til sýnis. Búddamunkar fara í skrúðgöngur er það kemur til landsins og margir búddistar hafa tignað beinið og talið sig hafa komist nær Búdda í návist þess. Beinið er því ekki þyrnir í augum þeirra sem tigna Búdda og stunda búddisma. En ef það fyndist bein úr líkama Jesú, er ég hræddur um að það myndi skekja verulega stoðir kristinnar trúar. Þegar konurnar komu í gröfina var ekkert eftir af líkama Jesú. Lærisveinarnir horfðu á hann stíga upp til himna á uppstigningadag. Þannig að líkaminn hvarf. Ef eitthvað fyndist væri trúin ónýt, upprisan ógild.

Dáinn fyrir syndir okkar

Jesús Kristur gekk í dauðann fyrir þig og mig. Hann gekkst undir hroðalegustu pyntingar og skeflilegustu aftökuaðferð sem þekkt var fyr og síðar. Hvers vegna? Með augum trúarinnar sjáum við og skiljum. Syndir mannanna og óhlýðni við boðorð Guðs var orðin svo mikil að það þurfti að friðþægja fyrir þær. Fyrir hvað og hvers konar syndir eru það, sem hafa leitt Guðs son til dauða?

Jesús Kristur dó fyrir mínar persónulegu syndir. Hann gekk í dauðann v.þ.a. ég hef syndgað. Hann stal hvorki né eyðilagði norkkurn tíma fyrir öðrum. Hann gekk í dauðann fyrir hverja þjófnaðarsynd mína. Hann braut ekki boðorðið: Þú skalt ekki stela. En við höfum brotið það. Jesús lifði hreinu lífi. Hann gekk í dauðann fyrir alla þá sem syndgað hafa á kynferðissviðinu. Samt umgekkst hann bæði karla og konur, en lifði alla tíð hreinu lífi. Klám, framhjáhald, ábyrgaðarleysi hafa valdið því að boðorðið: Þú skalt ekki drýgja hór, hefur verið brotið. Fyrir það hefur Jesús dáið.

Einu sinni var Adam mjög seint úti. Eva varð mjög æst. 'Þú hefur verið úti með öðrum konum.' sagði hún ásakandi.

'Þetta er ekki sanngjarnt' sagði Adam. 'Þú veist að það eru ekki aðrar konur til á jörðinni.'

Rifrildið hélt áfram þar til Adam sofnaði. Allt í einu vaknaði hann við að Eva var að pota í bringuna á honum.

'Hvað ertu að gera?' spurði Adam ákveðinn.

'Telja í þér rifin,' svaraði Eva.

Jesús hafnaði því að vera gerður að konungi, þó svo hann mettaði þúsundir karla og kvenna.

Löngun okkar í völd og þægindi, krafa okkar um áhyggjulaust og lengra líf, hafa leitt okkur afvega. Kærleikur mannanna hefur minnkað vegna þess að boðorðið: Þú skalt ekki girnast, konu náunga þíns, þjón, þernu, né nokkuð annað sem náungið þinn á, og boðorðið um að elska náungann eins og sjálfan sig hafa verið brotin.

Öll brotnu boðorðin hjá mér og hjá öllum mönnum komu niður á syni Guðs. Brotin leiddu hann til dauða, saklausan fyrir synduga menn. Og þó svo þú eða ég hefðu verið þau einu, sem hefðu brotið eitt boðorð, þá hefði það nægt. Því eitt brot gerir okkur sek við allt lögmálið.

Jesús hékk á krossi fyrir okkur, réttlátur fyrir rangláta. Biblían segir: Bölvaður er hver sá sem á tré hangir. Réttlátur fyrir rangláta dó hann fyrir okkur. En með því urðum við réttlætt, því dómurinn kom niður á honum. Hann tók út refsinguna. Hann sat ekki inni í 16 ár, heldur var tekinn af lífi. Sök allra varð hans sök. Réttarhaldið, dómsuppkvaðningin og refsingin var kveðin upp yfir honum. Hann tók einnig út dóminn í okkar stað. Aðeins Guðs sonur gat gert þetta sem staðgengill allra manna. Fyrir trú á soninn, réttlætumst við. Réttlætingin er gjöf, kærleiksgjöf Guðs, náðargjöf.

Allir fyrir einn. Einn fyrir alla

Í myndinni um þrælinn Spartakus var reynt að sýna fram á hvernig hugsjón frelsis og mannvirðingar er þess virði að deyja fyrir það. Spartakus segir: „Þegar frjáls maður deyr, óttast hann dauðann, því hann er að deyja frá öllu því, sem hann honum þykir eftirsóknarvert. Þegar þræll deyr, er hann að deyja frá þrældómi og niðurlægingu, en hans bíður frelsi. Þess vegna óttast hann ekki dauðann."

Í lok myndarinnar segjast allir karlar vera Spartakus og eru allir krossfestir. Þeir dóu allir fyrir einn. Spartakus gat ekki frelsað þá með dauða sínum. Í lok myndarinnar deyr hann á krossi. En hann gaf þrælunum samt tímabundið frelsi, mennska tilveru og hamingju mannsæmandi lífs.

Kristur Jesús dó einn fyrir alla. Við þurfum ekki öll að vera krossfest eins og Jesús, þrátt fyrir syndir okkar. Það nægir að Jesús var krossfestur.

Það sem við þurfum að gera er að tileinka okkur ávöxt réttlætisins.

Það gerum við með því að trúa á Krist Guðs son og bera ávöxt góðra verka. Ekki verka sem koma af ótta við refsingu Guðs eða manna. Heldur ávöxt góðra verka, sem koma af því að við elskum Guð og þráum að gera öðrum gott af þakklæti yfir því, sem Guð hefur í Kristi Jesú áunnið okkur og gefið.

Megi ávöxtur réttlætisins verða sýnilegur í lífi okkar.