Vínflóð og ofgnótt

Vínflóð og ofgnótt

Á neðri hæð Neskirkju berjast menn gegn áfenginu en á efri hæðinni er mælt með að Jesús breyti vatni í vín! Rónarnir koma óorði á brennivínið, við á lífið, en ofangæðin fossa úr stórkeröldum himinsins fyrir alla og á öllum hæðum jafnt. Prédikun í Neskirkju 15. janúar 2006 fer hér á eftir.

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín.

Jesús svarar: Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.

Móðir hans sagði þá við þjónana: Gjörið það, sem hann kann að segja yður. Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.

Jesús segir við þá: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.

Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann. Jóh. 2. 1-11

Fyssingur í Hallgrímskirkju

Á kirkjulistahátíð 2005 var gjörningur myndlistarkonunnar Rúríar framinn í Hallgrímskirkju. Rúrí hefur gert mörg þekkt verk, t.d. regnbogahlutann við Leifsstöð. Fyssuverkið í Laugardalnum er annað. Stór hópur Rúríaraðdáenda hélt inn í myrkvaða kirkjuna. Ágústbirtan var mjúk. Ég var spenntur en óviss um hvað verða myndi. Sumir settust í kirkjusætin, aðrir stóðu og biðu. Síðan hófst gjörningurinn, fossamyndum var skotið upp á tjöld í kirkjunni og kirkjuskipið umbreyttist í fossheim. Við urðum öll sem hluti af rosalegu vatnsfalli, eiginlega kosmískum Dettifossi. Fíngerðum vatnssöng í bland við tryllingslegar drunur gljúfurrisans var varpað með hátölurum um allt rýmið og undir lék kantor kirkjunnar á stóra Klaisorgelið.

Kirkja, foss og lífið

Allir stóðu sem bergnumdir.Við urðum vitni að gjörningi, sem fyllti skilningarvit, huga, líkama, alla veru okkar af reynslu, sem var marga daga að setjast til. Kirkjurýmið, sem ég þekki svo vel og ann, varð allt í einu meira og fylltara en ég hafði áður upplifað. Náttúran var komin inn í kirkjuna, eins í Tarkofskykvikmynd. Tilfinningin fyrir heilagleika, bæði kirkju og sköpunarverksins, var sterk. Þessi mikla kirkjan hafði orðið eitt með náttúrunni. Í þessari samþættun birtist kraftur, eitthvað stórfenglegt kom og fyllti okkur sem vorum svo lánsöm að eiga þessa stund á kirkjulistahátíð. Tilfinningin fyrir hinu mikla og ríkulega fyllti sálina. Guðsvitund er ekki aðeins tengd hinu smágerða heldur líka hinu rosalegasta. Kirkjuskipið var eins og steinker, sem fylltist af andlegum gæðum. Við urðum fyrir hrífandi vímu sem greip og umbreytti. Mér varð þetta vitjun - Guðskoma.

Þessi magnaði gjörningur verður ekki endurtekinn, en margir lifðu stóra stund þegar Rúrí framdi hliðstæðan gjörning, sem hún nefnir Vocal 2 á tónleikum í Laugardalshöll fyrir liðlega viku síðan. Viðstaddir voru upprifnir, jafnvel þó Höllin sé ekki jafn hrífandi steinþró og kirkjan. En Guð er líka þar. Ég sé að prédikunarstóllinn í Neskirkju og Mogginn er á svipuðu róli því í Tímariti Morgunblaðsins í dag er grein um Rúri og verk hennar, ég þarf því ekki að útlista ferilinn, bara vísa í Moggann! (Sjá Tímarit Morgunblaðsins, Sunnudagur 15.01.2006, s. 13-17).

Krísan í Kana

Brúðkaupið í Kana. Já, hvernig var það nú aftur? Hvað er aðalatriði þeirrar sögu? Var ekki sagan um, að Jesús breytti vatni í vín? Jú, mikið rétt víngerð kemur meðal annars fyrir í sögunni. Var áherslan á, að töframaður var uppgötvaður, sem kunni ýmislegt fyrir sér í nýjum gjörningum? Nei. Vissulega er þetta oft nefnt fyrsta kraftaverkið. Jesús var að byrja starfsferil sinn. En í Kana var hann í prívat erindum, með mömmu sinni og vinum. Þetta var fjölskylduveisla.

Svo verður þessi pínlega sena, að veislukosturinn er búinn. Allir sómakærir veisluskipuleggjendur hræðast slíkt og reyna að fyrirbyggja að svo verði. María, Jesúmóðirin, kom hlaupandi og sagði syni sínum að nú væri illt í efni, vínið væri búið. Jesús brást við eins og hann ætlaði nú ekki að vera meðvirkur og spurði: “Hvað kemur það mér, eða þér við?” En María bjó svo um hnúta að Jesú yrði hlýtt, ef hann gerði eitthvað í málum.

Góður bruggari er nákvæmur í mælingum og þjónarnir fylltu steinker mikil - engin smámál, heldur tók hvert kerald um hundrað lítra og þau voru ekki bara tvö eða þrjú heldur sex keröld. Engin veit um fjölda veislugesta, né hvað menn voru búnir að drekka mikið áður en allt kláraðist. En það er nú ólíklegt, að veislugestir hafi verið búnir að svolgra yfir hálft tonn af áfengi! En nú voru stórkerin fyllt á barma af vatni, meistarinn kom að, undrið varð. Því, sem virtist stefnt í óefni, varð ekki aðeins reddað, heldur varð betra en það sem fyrir var.

Drykkjuprédikun?

Hvað þýðir svona texti? Getum við lært eitthvað af honum? Í kjallara Neskirkju er rekið öflugt AA og Al-Anon starf, já fjölmennustu AA-fundir á Íslandi er haldnir hér niðri. Er boðskapurinn hér uppi í hróplegri andstöðu við stefnuna neðra? Er Jesús í Kanasögunni bæði meðvirkur og barþjónn? Nei, málið er dýpra en svo yfirborðsleg túlkun og nálgun.

AA menn aldrei haldið fram, að áfengi væri djöfullegt, heldur að misnotkun og fíkn væri vond. Vissulega voru þau til sem mislíkaði, að Jesús væri glaður og til í gleðskap. Hann var uppnefndur vínsvelgur og gleðimaður. Munum það, þegar við döprumst. Nei, í þessum texta er fjallað um annað og mikilvægara en vín og misgóða notkun þess. Í textanum er heldur ekki verið að ræða eðli og hlutverk rétts hjúskapar. Allt slíkt er í útkanti sögunnar og eiginlega afleiðing meginatriðisins.

Hið mikla og yfirdrifna

Aðstæðurnar í Kana eru, að gleðiríkur viðburður er á barmi skandals. Brúðkaup er jafnan stórkostlegasta og íburðarmesta veisla hvers samfélags. Við þekkjum hversu ægilegar afleiðingarnar geta orðið, ef samkvæmi er illa undirbúið eða einhverjir bregðast í skipulaginu. Ég var einu sinni í fínu afmælisboði, sem rann út í sandinn vegna veitingaþurrðar – það þótti vont mál! Í guðspjallinu er ekki um neinar smáreddingar að ræða, ekki hlaupið í næstu hús til að sníkja dreitil hér og lögg þar - eða hringt í “góða bíla.” Nei mörg risaker, stórar steinþrær. Þetta finnst mér einna kímilegast og áleitnast í textanum.

Áherslan er á, að þegar allt er í strandi, er lausn Jesú ekki hæfileg heldur stórkostleg, yfirdrifin og vitaskuld handan við allt, sem brúkaup í litlu þorpi þarfnaðist.

Hvað merkir það? Jú, þegar tími Jesú kemur eru engar smáskammtalækningar, heldur gnægð, fossandi yfirdrífa. Jóhannesi guðspjallamanni var í mun, að minna fólk á að Jesús er Guð hins mikla og stóra, sjálfur ofurveruleikinn í smáheimi manna. Jesús er meiri en smásmugulegur guð lítils hóps og lögmálsbundinna fræðimanna og farísea. Jóhannes var líka meðvitaður um, að Jesús átti erindi við Grikki, já allt mannkyn. Því minnti hann á, að Jesús getur breytt vatni í vín rétt eins og Bakkus í grískri goðafræði. En Jesús er meiri en vínguðinn, hann býr til mikið magn og einnig það besta. Hjá honum fara magn og gæði saman. Jesús er ekki aðeins mikill, heldur undur lífsins, skapandi höfundur sem opnar framtíð. Þarna liggja skilaboðin. Vínþurrð er tákn um smæð og vanda en víngjöfin í textanum vísar til anda Guðs, sköpunar Guðs, lausnar Guðs, komu sjálfs Guðs.

Erum við í boðinu í Kana?

Kemur þetta þér við, mér, honum og konunni? Á þessi vínveisla erindi við þig? Já vegna þess, að ólánsveislan í Kana er sena um líf okkar, tákn um hvað við erum og upplifum, sem einstaklingar, en líka sem hópar, kirkja, þjóðir og menningarfylkingar.

Öll lendum við í Kanakreppunni á einn eða annan hátt. Er líf þitt ein samfelld happasaga? Hafa ekki einhvern tíma orðið stopp og áföll, einhver vínþurrð í lífinu, þegar þú lentir í vandræðum? Hefur ekki einhvern tíma í þínu lífi orðið skandall og allt fór á verri veg en til stóð? Lenda ekki allir hópar, allt mannlegt félag einhvern tíma í klúðri? Verða ekki slys og áföll í samfélögum, eitthvert fár sem enginn hafði búist við eða séð fyrir. Jafnvel kirkjan lendir í Kanaklípu eins og umræðan um samkynhneigða hefur opinberað okkur. Og í efnahagslegu góðærinu heyrum við ekki vel um hinstu gildi, en tíminn kemur þegar vínið þverr, gæðin eru slitin af okkur.

Hann kemur og umbreytir

Þegar á bjátar er mikilvægt, að muna eftir stóru kerunum í Kana. Í því er máttur þessa texta, boðskapur dagsins. Veislu, sem var í hættu, var borgið. Jesús er meiri en venjulegur vatnsberi. Hann er skapari og lausnari, nánd Guðs í veröldinni. Þegar allt er þrotið kemur hann að stóru kerum áfalla þinna, hópa, kirkju og þjóða og umbreytir og bætir.

Í þínu lífi mátt þú upplifa, að lífið fossar umhverfis þig og inn í þig. Ekkert áfall er svo stórt, að Guð geti ekki skapað kraftaverk í miðri ógninni. Engin sorg er svo djúp, að hann megni ekki að lýsa í afgrunn myrkursins. Engin náttúrvá er svo megn, að Guð sé ekki nálægur með bæði hjálp, hönd og huggun. Engin siðógn eða trúarglíma kirkjunnar er svo slæm, að vínþurrð verði í Guðsríki! Engin átök menningarheima er án vonar um, að kraftaverkið verði. Engin kreppa í samskiptum trúarbragða er svo slæm, að hinn mikli víngerðarmaður eigi ekki nóga andagift til að halda samkvæminu á floti.

Gnótt guðsríkisins

Þetta er það sem Jóhannes vill segja með því að skvetta yfir okkur úr kerunum. Textinn er um skömm, áfall og svo hins vegar um gjörning Jesú. Hvað ætlum við að gera við lífið og lífsbrotin? Í krafti hvers lifum við? Jesústarfið opinberar, að lífið er meira en hið smáa og aðkreppta. Lífið er stórkostlegt, yfirfljótandi gæði og möguleikar.

Jesús skapar 600 lítra gnægðar og hamingju. Þegar þú hefur tæmt alla skynsamlega möguleika, aðstæður eru hörmulegar, þú ert niðurfallin eða hrapaður í gímald einsemdar, depurðar og áfalls, þá er tími kraftaverksins kominn. Það er kallað á máli kirkjunnar að hann er upprisinn, að við búum í ríki Guðs þrátt fyrir að við séum í þessum heimi.

Stærri veisla - meira flóð

Þegar vatnsflóðið steyptist um alla Hallgrímskirkju á kirkjulistahátíð opnaðist fyrir mér, að auðvitað megum við alla daga að lifa í þeim veruleika, að Guð kallar okkur til meiri og stærri veislu en við höfðum ímyndað okkur. Kirkjuskipið er mikið, kirkjurnar eru flottar, steinþrær kirkjunnar eru stórar, en anda er þörf - máttur Guðs er í boði. Af sjálfri sér og brjóstviti sínu er kirkjan ekkert annað en smáveisla, sem þarf kraftaverk til að umbreyta í veislu himinsins. Náttúran er stór og mikil, en þó aðeins ofurlítill daggardropi í þeim stórsjó sem elska og undur Guðs er. Ástin og unaður í samskiptum er aðeins stroka í því stórfaðmlagi og ástaleik sem Guðsríkið er.

Áföllin eru hluti lífsins. Öll partý enda í vandræðum ef Jesús er ekki boðinn. Öll mannleg skipan, hjónaband, siðferði, samskipti og líf munu spillast og ekki ná hæðum nema í samskiptum við þennan, sem á svo mikið vín að engin botn er á. Lífsveislan verður ekki flott eða góð nema honum sé boðið. Ég held, að AA menn skilji alveg þennan boðskap. Það er ekki svo ólík prédikunin efra og neðra, vegna þess að við erum í sama boði - í Kana - og vitum hver blessar stóru kerin.

Amen