Ef bróðir þinn syndgar gegn þér ...

Ef bróðir þinn syndgar gegn þér ...

Guðspjallstextinn sem lesinn var hér áðan er úr Matteusarguðspjalli 18. kafla. Til upprifjunar má geta þess að Guðspjöllin eru fjögur og heita Matteusarguðspjall, Markúsarguðspjall, Lúkasarguðspjall og Jóhannesarguðspjall. Við ættum að vera duglegri að lesa í Guðspjöllunum, en þau boða okkur þann mesta fögnuðu sem nokkurt eyra hefur fengið að heyra.

Ef bróðir þinn syndgar gegn þér , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna. Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.

Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.

Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. Mt 18.15-20

Guðspjallstextinn sem lesinn var hér áðan er úr Matteusarguðspjalli 18. kafla.

Til upprifjunar má geta þess að Guðspjöllin eru fjögur og heita Matteusarguðspjall, Markúsarguðspjall. Lúkasarguðspjall og Jóhannesarguðspjall.

Við ættum að vera duglegri að lesa í Guðspjöllunum, en þau boða okkur þann mesta fögnuðu sem nokkurt eyra hefur fengið að heyra.

Svo eru þau líka útaf fyrir sig ein helstu verk heimsbókmenntanna að byggingu og gerð. Já, allir ættu að lesa í Guðspjöllunum - láta uppbyggjast af þeim láta orð þeirra næra hjarta og sál og ekki veitir nú af slíku í veröld sem full er freistingum og tálsýnum er kalla á okkur, bjóða okkur að koma til sín og skora á okkur að gera hluti sem við vitum í hjarta okkar að eru ekki réttir og leiða okkur jafnvel á villustig.

Á einum stað í Sálmum Davíðs nánar til tekið sálmi númer 119 er spurt: "Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?" og svarið er: "Með því að gefa gaum að orði Drottins"

Á lífsvegi okkra stöndum við oft og mörgum sinnum - jafnvel á hverjum degi - frammi fyrir því að velja og hafna.

Á ég að fara í bíó eða á ég að sinna því sem ég á eftir að gera í heimanáminu?

Á ég að fara á fyllerí um helgina, detta í það eða ætti ég bara að vera heima með fólkinu mínu - taka þátt í fjölskydulífinu og klára jafnvel þau verk sem ég eftir að sinna?

Á ég að hugsa á jákvæðan og uppbyggilegan hátt eða á ég að sunka mér niður í neikvæðni og jafnvel ósanngjarna gagnrýni?

Já, hver er ég? Hvernig á líf mitt að vera? Stefnir það í rétta átt er ég sáttur við það? Eða blasir það við, að ég verð að gera breytingar á lífsháttum og lífsstíl?

Okkur er öllum hollt að staldar við og taka eftir lífinu og íhuga hver þjónusta okkar við það er og hver við viljum að hún sé.

Guðspjöllin vísa okkur þá leið sem gefur festu og styrk, - kraft og mátt, - kærleika og von, - gleði og trú.

Já það er gott að lesa í Guðspjöllunum og ganga Guðs veginn, eftir sinni bestu getu og mætti en þó aðalleg og umfram allt í einlægri trú. Því það er trúin sem styrkir okkur að ganga veginn rétta til þess góða sem hvert okkar og eitt vill í hjarta sínu stefna til.

Og hingað erum við komin að sækja næringu, gleði og styrk í Guðs orð og Jesús er að kenna okkur hvað við eigum að gera ef einhver syndgar gegn okkur.

Ef einhver beitir okkur órétti, svikum prettum, lygi, táli eða jafnvel ofbeldi. Hvað eigum við þá að gera? Þá eigum við að tala við þann sem órétti beitir - en láti hann sér ekki segjast þá eigum við að fá einhvern með okkur til þess að tala um fyrir honum fá einhvern til að koma með okkur inn í aðstæðrunar og hjálpa til. - En gangi það ekki eftir að heldur þá eigum við að reyna enn frekar og þá með fleira fólki. Sé svo allt þetta án árangurs unnið þá skulum við ekki vera í samneyti við þann sem hagar sér með slíkum hætti, sem lýgur að okkur, svíkur okkur, eða lemur.

Textar Guðspjallanna erum stundum mjög auðskildir en stundum er ekki einfalt að túlka þá eins og guðspjallstexta þessa dags og einnig má líka sjá í þeim fjölþætta merkingu.

En það sem öllum textum guðspjallanna er sameiginilegt er það, að orð Guðs, kærleikur hans og miskunn skín þar gegn og þá ekki síst í dómstextunum þar sem Jesús er að vanda um fyrir okkur og hvetja okkur til þess að lifa algáðu lífi, taka eftir því og hugsa um, hvað það er sem skiptir mestu máli í tilverunni.

Já, hvernig eigum við að koma fram við þá sem vinna okkur mein og vekja jafnvel ugg og skelfingu í lífi okkar. Við eigum að gera allt sem við getum áður en við segjum skilið við þá persónu, hvort sem um barn okkar , systkini, foreldri eða einhvern annan nákominn er að ræða.

Það er engin tilviljun, að í samhengi þessa texta - á undan honum - talar Jesús um gleði Guðs, þegar syndarinn snýr aftur á réttan veg, þegar týndi sauðurinn finnst. - En svo í beinu framhaldi kemur frásagan af því þegar Pétur spyr Jesús hversu oft maður eigi að fyrirgefa þeim sem syndgar gegn manni og hann fær það svar: "Þú átt að fyrirgefa aftur og aftur, aftur og aftur."

"Eru ekki mótsagnir í þessu öllu saman?" kann nú einhver að spyrja og hver eru eiginlega mörkin. Hér er svarið: "Kærleikurinn og fyrirgefningin eiga að ráða ferðinni. Kærleikurinn sem þú sýnir náunga þínum og líka kærleikurinn sem þú sýnir þér sjálfri og sjálfum þér."

Og hvaðan fáum við svo viskuna, og spekina til að geta þetta. Já hvaðan fáum við hugrekkið og svarið er: "Hjá Jesús sjálfum - í bæninni og trúnni því hann er hjá okkur."

"Og hverja þá bæn sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu mun faðir minn á himnum veita þeim. Því hvar sem tveir eða þrír erum saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra"

Já, öll erum við hér saman komin í Jesú nafni, með bænir okkar. Góðir biskupar þjóðkirkju okkar, kirkjuþingfulltrúar og margt fleira fólk sem vinnur að framgangi kirkjunnar og á þá heitustu og bestu ósk að allir starfshættir, fyrirkomulag og uppbygging séu fullkomalega framkvæmd í einlægri trú kærleika og virðingu fyrir öllu fólki.

Skipulag kirkjunnar skiptir miklu máli í þjóðlífi okkar, já, auðvitðað á hún að vera fyrirmynd í öllum starfsháttum sínum, fyrirmynd annarra stofnana og fyrirtækja í landinu þar sem við viljum að réttlæti, sanngirni og eindrægni ríki.

Og þetta getur kirkjan því hún grundvallast á því bjargi sem Jesús Kistur er, starfi hans, orði hans, dauða hans og upprisu. Allir leiðtogar og fulltrúar hvort sem þeim er trúað fyrir litlum félögum, öflugum stofnunum ráðuneytum eða þjóðþingum verða góðir leiðtogar, ef þeir leiðast af orði Jesú Krists. Þá munu þegnarnir sjá og upplifa réttlæti.

Hér er líka glæstur hópur æskufólks sem syngur Guði lof og dýrð. Þetta er fólk úr Menntaskólanum í Reykjavk þeim góða skóla, þar sem kennarar og rektor og aðrir er þar starfa eiga þá hugsjón að hjálpa nemendum sínum og styðja þá á allan hátt til þess að þeir muni eiga góða ævi og líf. Guð blessi störf nemenda og kennara hins lærða og góða skóla sem samofinn er sögu Dómkirkjunnar og um leið sögu þjóðar okkar. Hafið kæra þökk góðu vinir fyrir framlag ykkar til þessarar messu.

Svo erum við hin sem tilheyrum söfnuðinum á einhvern annan hátt, börnin, unga fólkið sem ætlar að fermast í vor og margir aðrir, já öll erum við hér til þess að sækja hingað andlega næringu og kraft til þess að dagarnir haldi litum sínum og til þess að við tileinkum okkur þá mestu speki og visku lífsins, sem er að elska Drottinn af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti. Og að elska nánuga okkar ein og okkur sjálf.

Guð gefi að við getum haldið okkur við orð hans, bænir og auðmjúka trú.