En hann var mjög stór

En hann var mjög stór

Páskarnir fjalla að miklu leyti um slíka steina og hvernig við mætum þeim. Ætlum við sjálf að ráðast á þá eða eigum við okkur þann bandamann í Jesú, í Guði, sem veitir okkur styrk til að sigrast á slíkum fyrirstöðum? Þannig var það í páskasögunni fyrstu. Steininum hafði verið velt frá – en hann var mjög stór.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
21. apríl 2019
Flokkar

Páskaguðspjallið kemur víða við. Upprisa er stef sem við tengjum ýmsum atburðum í lífi okkar og dauða.

Upprisur

Þegar við rísum upp úr lágdeyðu, fyllumst nýjum þrótti, þegar þvert á allar spár okkur tekst hið ómögulega – þá er gjarnan vísað með beinum eða óbeinum hætti til þessarar sögu sem við hlýddum á hér áðan.

Við prestar lesum páskasöguna gjarnan við útfarir. Hún snertir jú á mörgum sviðum tilverunnar, og miðlar til okkar birtu og von mitt í grafarmyrkrinu. Hún er óður til þess leyndardóms sem dauðinn er, tíminn, vitundin og þeir draumar sem dauðasvefnsins vitja. Hún talar líka til þeirra sem eiga mörg eftir að stíga þung spor við nýjar aðstæður eftir sáran missi. Já, það er svo margt í páskafrásögninni. Þar birtist okkur myrkur og ljós, von og ótti, undur og stórmerki.

Þegar kemur að útförum þá erum við prestar auðvitað hluti af stórum hópi fólks sem vill gera athöfnina sem best úr garði. Auk þjónustunnar er þar líka samankomið einvalalið tónlistarfólks, organisti og sönghópur. Ég hafði einhvern veginn alltaf ímyndað mér að þetta fagfólk einbeitti sér að sínum þætti í athöfninni og legði ekki um eyrun við því sem aðrir hafa fram að færa.

En svo gerðist það eftir eina útför hjá mér að einn kórfélagi gaf sig að tali við mig og sagði eitthvað á þessa leið: „Þú lagðir enga áherslu á steininn.“ Ég hváði en hann hélt áfram. „Það er þessi lýsing á steininum sem velt var fyrir grafarmunnann sem stendur þarna í miðri frásögninni: „En hann var mjög stór.“ Það er misjafnt hvaða orð í þessari setningu fær mestan þunga hjá prestum en hjá þér var þessi setning slíkt aukaatriði að þú gafst engu orði meira vægi en öðru.“

Það var reyndar alveg rétt. Af öllum fyrrnefndum tilfinningum og ráðgátum sem páskaguðspjallið býður upp á, skipti þessi blessaði steinn mig litlu máli. Ég hafði aldrei staldrað beinlínis við hann sem var þó, þegar ég fór að hugleiða það betur, ákveðin þungamiðja sögunnar, jafnvel í orðsins fyllstu merkingu. Þetta var jú helsta áhyggjuefni og umræðuefni kvennanna sem gengu að gröfinni. Og það var fyrsta furðan sem mætti þeim, hvernig þessi steinn, sem var mjög stór, gat hafa vikið í burtu frá grafarmunnanum. Var það ekki merkilegt?

Steinar á stígnum

Steinar geta jú verið allrar athygli verðir þótt þeir séu allt í kringum okkur. En þar sem þeim er stillt upp sem hindrun á leið okkar að markinu geta þeir orðið slíkt vandamál að hugur okkar kemst ekki lengra og markmiðin öll falla ekki bara um sig sjálf – við komumst aldrei að því að nálgast þau. Þannig var það jú í páskaguðspjallinu títtlesna.

Páskafrásögnin á, eins og aðrar stórar sögur í Biblíunni, í heilmiklum samræðum við aðrar sögur. Engillinn, eða þessi hvíklæddi ungi maður, ávarpar konurnar með sama hætti og englaherinn gerði í Bethlehem röskum þremur áratugum fyrr og sá sem vitjaði Maríu á boðunardegi hennar: „Óttist ekki“. Gangan að gröfinni á sér margar hliðstæður. Guðspjall morgundagsins er einmitt slík vegasaga þar sem lærisveinarnir hittu Jesú í leið að þorpinu Emmaus. Þeir þekktu hann ekki, fyrr en hann braut brauðið rétt eins og hann hafði gert við síðustu kvöldmáltíðina.

Og svo eru það auðvitað konurnar sem koma fyrir reglulega í guðspjöllunum – lýsandi fulltrúar fyrir þær umbreytingar sem fagnaðarerindið boðaði. Farísear og fræðimenn lögðu snörur sínar fyrir Jesú, valdsins menn reyndu mátt sinn andspænis honum en í samskiptum við konurnar ríkti jafnvægi og í raun jafnrétti.

Þessi steinn, sem glöggur kórfélagi hafði svona mikinn áhuga á að heyra lesið um, á sér líka bræður þegar kemur að því að draga fram fyrirstöður í lífi fólks og þjóða. Þar er ég ekki að tala um hyrningarsteininn sem sungið var hér í upphafi. Nú eða orð Jesú á pálmasunnudegi að ef fólkið ætti þagna þá myndu steinarnir hrópa. Frekar þar sem sagt er frá því er Jesús vakti Lasarus upp frá dauðum, en þá var grafarsteinninn einmitt til umræðu.

Mögulega eru þeir frægastir sem urðu á vegi Jósúa og annarra ferðalanga sem komu að hinni fornfrægu borg Jeríkó, á leið sinni til fyrirheitna landsins. Þá véku steinhleðslurnar fyrir söngnum og lúðrablæstrinum, nokkuð sem þjakaðir hópar hafa á ýmsum stundum litið til sem innblásturs í sinni baráttu. Fólk hefur hugleitt að engar fyrirstöður eru svo óvinnandi að ekki megi brjóta þær niður. Um þetta syngur kórinn okkar hér á eftir.

Þegar betur er að gáð reynist þessi stóri steinn fela miklu meira í sér en prest gæti í fyrstu grunað. Þetta er fyrirstaðan sem mætir okkur öllum á vegferð okkar. Það er svo í raun inntak trúarinnar á hinn krossfesta og upprisna Krist hvernig við sjáum fyrir okkur að steininum verði velt frá. Ætlum við sjálf að leggja til atlögu við hann? Stundum er hann þó svo þungur að kraftar okkar megna ekki að ýta honum í burtu. Eða er hann miklu minni, en situr fastur í skóm okkar á leið okkar þar sem hann mer iljar okkar og hæl? Situr hann í maga okkar eins og óþægileg minning, vitund um veikleika okkar og takmörk? Er hann skorðaður í hálsi okkar eins og kökkur sem ekki vill hverfa? Er hann þrítugur hamar, víggirtur á alla kanta með skotraufum sem stendur á leið okkar að því marki sem við stefnum að?

Páskarnir fjalla að miklu leyti um slíka steina og hvernig við mætum þeim. Ætlum við sjálf að ráðast á þá eða eigum við okkur þann bandamann í Jesú, í Guði, sem veitir okkur styrk til að sigrast á slíkum fyrirstöðum? Þannig var það í páskasögunni fyrstu. Steininum hafði verið velt frá – en hann var mjög stór.

Með þeim hætti mætir hann okkur þegar við stöndum frammi fyrir miklum missi, eins og þegar við kveðjum nákominn ástvin eða finnum sjálf fyrir nöprum andblæ hins kalda og myrka tóms. Það held ég einmitt að hafi vakað fyrir glöggum kórfélaga sem hnippti svona í mig og gerði athugasemd við það að ég skyldi muldra þá merkilegu staðreynd að steinninn væri mjög stór. Ég hef aldrei gert það síðan. Ég legg áherslu á ýmis orð í þeirri setningu því til áréttingar að steinarnir á stígnum okkar í lífinu eru margir hverir óárennilegir. En með Guðs hjálp er allt mögulegt. Sá er einmitt boðskapur páskanna.