Þjóðkirkja á þröskuldi III

Þjóðkirkja á þröskuldi III

Nú virðist tími til kominn að hefja stórfellda sameiningu sókna og prestakalla í þéttbýli og þá ekki síst á suð-vesturhorninu. Ágætt skref í þá átt virðist að skipta Reykjavík upp í tvö prestaköll eða starfssvæði hugsanlega á grundvelli núverandi skiptingar í prófastdæmi. Slík sameining mundi geta lagt grunn að nýjum starfsháttum í kirkjunni og þar með snúið vörn í sókn.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
25. febrúar 2018

Í fyrsta pistlinum undir þessari fyrirsögn var því haldið fram að við næstu kynslóðaskipti muni verða róttæk umskipti til hins verra hvað varðar samband þjóðkirkjunnar og þjóðarinnar verði ekkert að gert. Það mun svo óhjákvæmilega binda endi á núverandi þjóðkirkjuskipan, þ.e. réttarfarslega stöðu þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum og stjórnarskrá. Í öðrum pistlinum var leitast við að skýra hvers vegna þessi staða er upp komin í ljósi kirkju- og trúarsögu landsins á 19. og 20. öld.

Nú verður leitast við að rýna frekar í þær aðstæður sem þjóðkirkjan býr við einkum ytra skipulag þjóðkirkjunnar.

Er sótt að þjóðkirkjunni?
Í umræðum kirkjufólks um stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu eru tvö orðatiltæki öðrum algengari: „Það er sótt að þjóðkirkjunni“ og „Þjóðkirkjan á undir högg að sækja“. Bæði afhjúpa þau kirkju í vörn sem leitar skjóls í hefðbundnu trúarlegu hlutverki — píslarvættishlutverkinu. En er þetta raunhæf greining á samtímanum og rétt viðbrögð við honum? Hér skal því haldið fram að svo sé ekki.

Píslarvættiskomplex þjóðkirkjunnar stafar af því að kristni á Íslandi og þá ekki síst þjóðkirkjan býr nú við nýjar menningar- og samfélagslegar aðstæður. Í stað þeirrar trúarmenningar sem hér ríkti áður fyrr (sjá Þjóðkirkja á þröskuldi II) ríkir nú að nokkru leyti fjölmenning en þó fyrst og fremst algerlega veraldleg menning. Að minnsta kosti er svo meðal stórra þjóðfélagshópa og þá ekki síst þeirra sem eru mest áberandi í opinberri umræðu. Þegar svo er komið er auðvitað við því að búast að afstaða til þjóðkirkjunnar verði gagnrýnni en áður var. Í þessu á þjóðkirkjan vissulega sammerkt með öðrum opinberum stofnunum og er ekki meiri vorkunn en þeim. — Hitt má harma að gagnrýni á kirkju og trú hér á landi er oft slagorðakennd, yfirborðsleg og byggð á lítilli þekkingu en ríkum tilfinningum. Það á þó ekki aðeins við um trúmálaumræðuna!

Við þessar aðstæður hættir mörgum þó til að horfa til fortíðar með glýju í augum og syrgja það sem liðið er. Hollt er að minnast þess að um daga trúarmenningarinnar risti trú einstaklinganna ekki alltaf djúpt og samstaða þeirra með kirkjunni var oft yfirborðsleg og byggð á gamalli hefð og lagalegum skyldum. Þá má vel færa rök fyrir því að þjóðkirkjan hafi aldrei staðið sterkar sem kirkja eða trúfélag en einmitt nú. Það sem mest ríður á nú á dögum er að þjóðkirkjan fóti sig í nýjum veruleika fjölhyggju og veraldarhyggju. Það verður m.a. gert með þróun starfshátta.

Tvær kirkjur í landinu
Þegar rætt er um stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar á líðandi stundu er mikilvægt að horfast í augu við að innan ramma þjóðkirkjunnar starfa nú tvær kirkjur sem um margt eru ólíkar og eiga við mismunandi vanda að glíma. Þetta eru þéttbýlis- og dreifbýliskirkjan sem endurspegla andstæðurnar milli stærsta þéttbýlissvæðis landsins og hinna brothættu byggða.

Dreifbýliskirkjan er arftaki kirkjunnar í gamla bændasamfélaginu og á í ýmsu sammerkt með henni. Hún býr víða að gamalli festu og gagnrýni veraldarhyggjufólks mæðir síður á henni en þéttbýliskirkjunni. Hún á aftur á móti við þann vanda að etja að víða um land fækkar fólki á stórum svæðum svo örðugara reynist að starfa innan hins gamalgróna kerfis fámennissóknanna.

Þéttbýliskirkjan er á hinn bóginn tiltöluleg ný hér á landi og má rekja upphaf hennar til 1940 er tekið var að skipta höfuðborginni upp í prestaköll og sóknir. Hún er þó mun yngri þar sem það tók þjóðkirkjuna langan tíma að aðlaga starfshætti sína að borgarlífinu. Það gerðist ekki að verulegu ráði fyrr en eftir breytingu á innheimtu sóknargjalda á 9. áratugi liðinnar aldar. Þá jukust tekjur fjölmennra sókna mikið, mögulegt varð að reisa safnaðarheimili, ráða starfsfólk við hlið presta og þróa safnaðarstarf af ýmsu tagi.

Tvenns konar viðmið
Við endurskoðun á starfsháttum þjóðkirkjunnar er mikilvægt að viðurkenna muninn á dreifbýlis- og þéttbýliskirkjunni og ganga þar út frá tvenns lags viðmiðunum. Í þéttbýliskirkjunni er einfalt að beita höfðatölu þegar um skiptingu í sóknir og prestaköll er að ræða. Það eru takmörk fyrir því hvað er raunhæft að ætla hverjum og einum kirkjulegum starfsmanni að veita mörgum einstaklingum viðeigandi þjónustu.

Í dreifbýliskirkjunni er á hinn bóginn ekki mögulegt að ganga einvörðungu út frá fjölda sóknarmanna. Þar verður að taka tillit til fjarlægða, samgangna og jafnvel samkenndar fólks, þ.e. tilfinningu þess fyrir því hvaða landsvæði heyri eðlilega saman og hver ekki. Þegar þróa skal starfsskipulag í dreifbýliskirkjunni verður að leggja til grundvallar þá lagalegu og siðferðislegu skyldu þjóðkirkjunnar að tryggja viðunandi viðveru og þjónustu um landið allt. Verði vegalendir til kirkjulegra starfsstöðva of langar, verði of torvelt að sækja þangað eða verði samkennd fólksins á svæðinu of veik er hætt við að raunveruleg nærvera þjóðkirkjunnar um land verði aðeins í orði en ekki á borði.

Dreifbýliskirkjunni hefur blætt
Hingað til má segja að dreifbýliskirkjunni hafi blætt við skipulagbreytingar og að hún sé víða orðin götótt. Þar hafa prestaköll verið lögð niður, sóknir sameinaðar og prófastdæmum verið slegið saman. Skiplagsbreytingar af þessu tagi eru að sönnu óhjákvæmilegar en þar skiptir máli að tryggt sé að sóknir, prestaköll og prófastdæmi séu starfhæf og horft sé til fleiri viðmiða en fólksfjölda.

Nú virðist tími til kominn að beina athyglinni að þéttbýliskirkjunni og spyrja hvort þar sé ekki kominn tími til stórfelldra sameininga. Þjóðkirkjan hefur í raun aldrei aðlagast þéttbýlinu að fullu heldur var á sínum tíma látið nægja að flytja gömlu sveitakirkjuna á mölina án skipulags- og starfsháttabreytinga.

Fráleitt virðist t.a.m. að núverandi skipulag kirkjunnar í Reykjavíkurprófastdæmunum tveimur sé það heppilegasta miðað við aðstæður. Er þar einkum átt við fjölda sjálfstæðra sókna og/eða prestakalla. Raunar má líta svo á að skipting höfuðborgarinnar í sóknir þjóni einvörðungu hlutverki deililíkans til að úthluta sóknargjöldum. Sóknarvitund er þar á hinn bóginn á hverfanda hveli og má raunar segja að þar hafi gamalgróið sóknarkerfi gengið sér til húðar.

Sameiningar í þéttbýlinu
Nú virðist tími til kominn að hefja stórfellda sameiningu sókna og prestakalla í þéttbýli og þá ekki síst á suð-vesturhorninu. Ágætt skref í þá átt virðist að skipta Reykjavík upp í tvö prestaköll eða starfssvæði hugsanlega á grundvelli núverandi skiptingar í prófastdæmi. Slík sameining mundi geta lagt grunn að nýjum starfsháttum í kirkjunni og þar með snúið vörn í sókn.

Með sameiningu yrði opnað fyrir skilvirkt samstarf milli allar þeirra kirkjulegu starfsmanna sem nú er haldið í spennitreyju úrelts skipulags. Með samstarfinu yrði jafnframt opnað fyrir áður óþekktan sveigjanleika í öllu starfi kirkjunnar. Innan þeirra fjölmennu starfshópa sem þannig yrðu til mætti svo auka sérhæfingu starfsmanna til mikilla muna og stuðla að þróun þeirra í starfi. Þá má benda á að með sameiningu af þessu tagi væri auðvelt að koma á reglubundnum vinnutíma hjá prestum, organistum og öðrum sem verst verða fyrir barðinu á kvöld-, helgar- og hátíðavinnu. Þar með yrði þjóðkirkjan fjölskylduvænni vinnustaður en nú er. Loks er líklegt að mikil hagræðing yrði að sameiningu án þess að sparnaður ætti að vera sjálfstætt markmið. Sameining ætti svo ekki að leiða til fækkunar starfsstöðva, þ.e. kirkna og safnaðarheimila.

Sameining af þessu tagi gæti lagt grunn að algerlega nýjum starfsháttum kirkjunnar a.m.k. í þéttbýli. Eftir sameininguna gæti svo vel komið í ljós að í Reykjavík sem hér er tekin sem sérstakt dæmi þyrfti alls ekki eins marga presta og nú eru að störfum á svæðinu. Með auknu fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar mætti þá opna fyrir þann möguleika að fjölga djáknum, barna- og æskulýðsleiðtogum og stofna jafnvel ný og áður óþekkt störf í kirkjunni til að mæta þörfum nútímasamfélags. Hér er þó vissulega bryddað upp á umdeildu atriði sem vel getur unnið gegn sameiningarhugmyndum á borð við þá sem hér er reifuð! — Þó er mikilvægt að hafa í huga að þjóðkirkjan er ekki fyrst og fremst vinnumarkaður fyrir prestsmenntað fólk. Gæta verður fleiri sjónarmiða ef þjóðkirkjan vill snúa vörn í sókn. Þar skiptir ekki minnstu máli að kirkjan hafi á að skipa blönduðum og fjölbreyttum hópi starfsfólks.