Erfðasynd mannlegs samfélags

Erfðasynd mannlegs samfélags

Höfundar Jobsbókar velkjast ekki í vafa um að ólán fólks hefur ekkert með guðlega refsingu að gera og samfélagið, sem ól af sér Gamla testamentið og nútímafólk myndi að flestu leyti álíta forneskjulegt, velktist ekki í vafa um að samfélaginu í heild og einstaklingunum, sem mynda það bæri að tryggja lífsviðurværi öryrkja, sem í Gamla testamentinu nefnast „ekkjur, munaðarleysingjar og fátæklingar“.

Prédikun flutt í Grensáskirkju 19. 09. 2021.
Lexía: Job 5. 8-11, 17-18
Pistill: Fil 1.20-26
Guðspjall: Jóh 11.32-45

„Biblían er svo af innihaldi barmafull að engin önnur bók hefur upp á eins mikið að bjóða til íhugunar eða umhugsunar um mannleg málefni.“

Eitthvað á þessa leið ritaði þýski skáldjöfurinn Johann Wolfgang von Goethe fyrir rúmum tvö hundruð árum. Orð hans eru enn í fullu gildi því líklega hefur ekkert eitt einstakt rit – eða réttara sagt ritsafn – sem varðveitt hefur verið, að geyma eins fjölbreytta flóru bókmenntaforma og spannar eins vítt svið mannlegrar reynslu. Þetta á í það minnsta við um vestrænan menningararf.

Textar Ritningarinnar hafa löngum verið fólki uppspretta tímalausrar visku, djúphygli um eðli manns og náttúru en ekki síst vitnisburður um birtingarmyndir guðdómsins og hugmyndir manna um og kynni þeirra af honum. Á það bæði við um gyðinga og kristna. Sú staðreynd hins vegar, að líklega þúsund ár skilja á milli elstu og yngstu texta Biblíunnar, gerir það óhjákvæmilega að verkum að í þeim er að finna ólíkar og stundum jafnvel gagnstæðar hugmyndir en það vitnar einmitt um hið flókna tilurðarferli textanna. Hin praktíska skýring á þessu ástandi er sú að jafnvel árhundruðum áður en það sem við köllum Gamla og Nýja testamentið öðluðust formlega stöðu sem heilagt „Guðs orð“ (innan gæsalappa) og fastmótað helgiritasafn í kristinni kirkju nutu textarnir slíkrar virðingar að jafnvel þótt einhverjir fræðimenn eða prestar væru á ákveðnum tíma ósáttir við þann boðskap, sem texti í þáverandi mynd sinni, flutti, þá strokuðu þeir ekkert út heldur bættu aðeins við og færðu til í þeim tilgangi að gera sínar eigin hugmyndafræðilegu áherslur ríkjandi í textanum. Þetta ritstjórnarferli, sem svo er kallað, er sérstaklega augljóst í Mósebókum og öllum spámannaritunum. Með þessum hætti tókust menn á við ríkjandi hugmyndir og komu sínum eigin á framfæri.

Fyrri ritningarlestur dagsins var úr Jobsbók og sú bók á sér einnig flókna tilurðarsögu. Jobsbók er á margan hátt afar nútímalegt rit; hún er uppáhaldsrit þeirra sem hafa sálgæslufræði sem sérsvið vegna þess að þar fremur en í nokkru öðru riti fær angist hins þjáða manns að hljóma og hvergi í Biblíunni er tjáð með viðlíka hætti réttlát reiði út í guðdóminn vegna ólýsanlegra hörmunga og þjáninga – líkar þeim sem allt of margt fólk hefur mátt þola í sögu mannkyns. En merkilegt nokk: Þessi lýsing stemmir ekki við ritningarlestur dagsins; þar er enga reiði að heyra, heldur þvert á móti lofgjörð:

Ég mundi leita til Guðs og leggja mál mín fyrir hann sem vinnur ómæld stórvirki, kraftaverk sem ekki verður tölu á komið. Hann gefur jörðinni regn og sendir vatn yfir vellina. Hann upphefur smælingja og syrgjendum verður hjálpað.

Til upprifjunar skal nefna að Jobsbók segir frá því er hinn réttláti og guðhræddi Job er sviptur öllu sem hann á, fjölskyldu og eignum, og sleginn viðurstyggilegustu kaunum að undirlagi Satans, sem er einn af hirð Drottins, og hefur það hlutverk að ráfa um Jörðina og sannreyna sekt og sakleysi manna. Hann er sem sé nokkurs konar saksóknari. Guðhræðsla og almenn góðmennska Jobs fer augljóslega í taugarnar á honum og hann sannfærir Drottinn um að leyfa sér að reyna Job og prófa þannig guðhræðslu hans. Raunin felst í því að yfir Job ríða mestu hugsanlegu hörmungar og það sem Satan ætlar sér er að fá Job til þess að bölva Drottni, sem er augljóslega versta mögulega synd sem hægt er að gera sig sekan um samkvæmt þeim hugmyndaheimi sem ritið er sprottið úr. Job stenst hins vegar þessa freistingu; hann bölvar aldrei Guði en bölvar hins vegar fæðingardegi sínum og sakar Drottin réttilega um rangláta meðferð.

Harmakvein Jobs og ásakanir hans verða vinum hans tilefni til þess að setja ofan í við hann og meirihluti ritsins samanstendur af ræðum vinanna og svörum Jobs. Fyrri ritningarlestur dagsins er einmitt úr fyrstu vinaræðunni, ræðu Elífasar. Í ræðu sinni hafnar Elífas því ekki að Job, vinur hans, sé í grunninn grandvar og guðhræddur maður, þvert á móti. Hann byrjar einmitt á því að reyna að uppörva og telja í hann kjark með vísan til þess um leið og hann setur ofan í við hann fyrir að missa móðinn. En um leið setur hann fram þá guðfræði að enginn mennskur maður geti verið fullkomlega syndlaus hvort sem hann viti af því eða ekki, það sé einfaldlega fylgifiskur ófullkomleika mannsins. Hér er ekki aðeins um klassíska guðfræði fornaldar heldur allra tíma að ræða. Hér er í raun um sömu hugsun að ræða og kemur fram í syndajátningu safnaðarins í klassískri messu og má segja að sé óumdeilanleg. Job sjálfur myndi einnig taka  undir lof Drottins sem skapara heimsins og verndara smælingjanna en það er seinni hluti ritningarlestursins sem stendur í honum:

Sæll er sá sem Guð leiðbeinir (/hirtir), sá sem hafnar ekki ögun Hins almáttka því að hann særir en bindur um, hann slær en hendur hans græða.

Þess ber að geta að þar sem biblíuþýðingin 2007 þýðir „leiðbeinir“ þýðir 81-þýðingin réttilega „hirtir“. Sú hugmynd sem þessi orð Elífasar birta, er ævaforn og felur í sér að öll ólukka manneskjunnar sé réttmæt refsing guðdómsins fyrir syndir eða brot, hversu litlar eða stórar og hvort sem viðkomandi er sér meðvitaður um að hafa brotið af sér eða ekki. Í huga Elífasar og þeirra, sem hugsa eins og hann, er þetta lögmál sem ekkert fær haggað og þess vegna hlýtur  þjáning Jobs að vera merki um hans eigin sekt. Höfundar Jobsbókar eru á öðru máli; það er einmitt höfuðtilgangur ritsins að mótmæla þessari hugmynd og saga Jobs er þeirra leið til þess að færa rök fyrir máli sínu.

Hefði Job fengið lungnabólgu eða hefði komið upp riða í fénu, þá hefði hann kannski verið sama sinnis og Elífas en raunin er sú að hörmungarnar sem hafa dunið yfir hann eru svo gríðarlegar að þær eru ekki í neinu samræmi við smáyfirsjónir sem hann gæti óafvitandi hafa gert sig sekan um. Þess vegna telur Job sig vera í fullum rétti í því að saka Guð um ranglæti á meðan vinir hans álíta hann uppfullan af hroka. Og þegar öllu er á botninn hvolft staðfestir Guð sjálfur í lokakafla ritsins að Job hefur rétt fyrir sér.

Hér er nokkuð flókin hugsun á ferðinni en ef boðskapur Jobsbókar er dreginn saman má segja að hann sé sá, að eðli guðdómsins og samband hans við sköpunina sé utan mannlegs skilnings og verði ekki fangað í manngerðum lögmálsreglum sem vilji setja Guð í hlutverk einskonar siðferðilegrar alheimslöggu. Um leið er því hafnað að ólán fólks sé endilega því sjálfu að kenna, eins og reynsla Jobs sannar. 

Af þessu er ljóst að þegar við lesum ritningartexta eins og lexíu dagsins, þá verðum við ávallt að gera það með fyrirvara um tilgang og merkingu textans í samhengi sínu. Það væri stórhættuleg nálgun að túlka hvert vers Biblíunnar gagnrýnislaust sem guðleg skilaboð. Miklu frekar skyldum við fylgja fordæmi Goethes og nálgast Ritninguna sem fjársjóð sem vekur okkur til íhugunar eða umhugsunar um mannleg örlög og samband manns og Guðs.

Textinn úr Job er einmitt mjög hentugur til þess og ekki síst nú í aðdraganda kosninga á Íslandi árið 2021. Nú, líkt og á öllum tímum, eru málefni þeirra, sem höllustum fæti standa í samfélaginu aðkallandi úrlausnarefni. Á öllum tímum segi ég og meina það bókstaflega því ekkert réttlætismál er ofar á baugi í Gamla testamentinu en einmitt það eins og endurspeglast í þessum orðum hjá Sakaría:

Svo segir Drottinn allsherjar:
Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.

Eitt af því sem lestur og íhugun Ritningarinnar kennir manni er sú staðreynd að þrátt fyrir öll sín vísindi og tækni, þá er mannlegt eðli og mannlegt samfélag samt við sitt, að því leyti er ekkert nýtt undir sólinni. Á dögunum kom út svört skýrsla um stöðu öryrkja í íslensku samfélagi og var í því sambandi bent á að ekkert hefði breyst til batnaðar í því tilliti á árunum eftir bankahrunið, þ.e.a.s. sl. 10-12 ár eða svo. En við sjáum með því að víkka út sjóndeildarhringinn, m.a. til vitnisburðar ritningarinnar, að raunveruleg staða þeirra, sem af einhverjum orsökum geta ekki fyrir eigin rammleik séð sjálfum sér og sínum farborða, hefur kannski lítið breyst hlutfallslega alla mannkynssöguna, sama til hvaða samfélags við lítum. Það mætti kannski segja að þessi misbrestur sé nokkurs konar erfðasynd mannlegs samfélags. Væntingarnar og kröfurnar um réttlæti til handa hinum bágstöddu eru þær sömu í íslensku samfélagi í dag og í hebresku samfélagi fyrir 2500 árum. kalla Og við hljótum að spyrja okkur um ástæðuna. Getur ástæðan verið sú að þær hugmyndir um eigin sök, sem skína í gegn í orðum Elífasar, vinar Jobs, í fyrri ritningarlestri dagsins, séu einfaldlega birtingarmynd djúpstæðra tilfinninga í mannlegu félagi þess eðlis að ólán fólks sé í raun því sjálfu að kenna? Það er, að ég hygg, mjög stutt í slík viðhorf hjá mörgum.

Og við getum jafnframt spurt okkur hvort við séum kannski að glíma við ómeðvitaða krafta í hjörðinni, sem útskúfar veikustu einstaklingunum svo þeir séu ekki hjörðinni til trafala? Erum við að glíma við goggunarröðina í hænsnahópnum? Þurfum við kannski að beita aðferðum atferlisfræðinnar, fræðanna, sem rannsaka atferli dýra, til þess að greina og skilja aðstæður öryrkja í hinu svo kallaða velferðarsamfélagi? Og ef svo væri, hvað segði það þá um okkur sem samfélag?

Höfundar Jobsbókar velkjast ekki í vafa um að ólán fólks hefur ekkert með guðlega refsingu að gera og samfélagið, sem ól af sér Gamla testamentið og nútímafólk myndi að flestu leyti álíta forneskjulegt, velktist ekki í vafa um að samfélaginu í heild og einstaklingunum, sem mynda það bæri að tryggja lífsviðurværi öryrkja, sem í Gamla testamentinu nefnast „ekkjur, munaðarleysingjar og fátæklingar“. Megi Guðs heilagi andi þannig opna hjörtu okkar í þessu samfélagi að okkur auðnist að uppfylla þessar grundvallarkröfur guðlegs réttlætis.