Falslaus sem dúfur

Falslaus sem dúfur

Langri baráttu gegn órétti, hatri og ranglæti var hrundið með réttlæti, umhyggju og kærleika að leiðarljósi. Hvatningu baráttu sinnar fann King í helgiriti trúar sinnar þar sem segir: Lát ekki hið vonda yfirbuga þig heldur sigra illt með góðu, en jafnframt hafði hann að leiðarljósi orð frelsara síns og taldi að mótmælendur ættu að vera kænir sem höggormar, en falslausir sem dúfur.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
25. janúar 2009

Á þriðjudaginn sór fyrsti þeldökki forseti bandaríkjanna eið sinn í Hvíta húsinu. Nýtt skref var tekið, skref sem hefði aldrei verið stigið ef ekki hefði verið fyrir öflug mótmæli þegna landsins í gegnum tíðina. Mótmæli sem risu hæst og af mestum krafti, í friðsamri mótmælabaráttu Marteins Lúthers King. Langri baráttu gegn órétti, hatri og ranglæti var hrundið með réttlæti, umhyggju og kærleika að leiðarljósi. Hvatningu baráttu sinnar fann King í helgiriti trúar sinnar þar sem segir: Lát ekki hið vonda yfirbuga þig heldur sigra illt með góðu, en jafnframt hafði hann að leiðarljósi orð frelsara síns og taldi að mótmælendur ættu að vera kænir sem höggormar, en falslausir sem dúfur. Fátt er samfélaginu mikilvægara en fólk sem mótmælir þegar því finnst réttu máli hallað, fólk sem lætur vita og stendur gegn því ranglæti sem því finnst viðhaft, slíkar raddir þurfa og verða að heyrast.

Án þeirra er voðinn vís, án mótmæla getur ranglæti fest rætur. King orðaði þetta best er hann sagði:

Það eru ekki öskur hinna vondu sem eru að sliga þennan heim, heldur þögn hinna góðu.
Þess vegna eru friðsamleg mótmæli mikilvæg, þau senda skilaboð um að einstaklingar verði að snúa af þeirri röngu leið sem reikuð er.

Sama dag og fyrsti þeldökki forsetinn tók við í Bandaríkjunum, fóru fram mótmæli á Íslandi sem eiga sér ekki hliðstæðu í lýðveldissögunni. Þúsundir tóku þátt og var meginþorrinn friðsamur og til fyrirmyndar.

Minni hópur varð hins vegar heiftinni að bráð og beitti ofbeldi og eignaspjöllum, réðst með hatri og ofsa á samborgara sína. Undir því yfirskyni að vilja byggja upp og bæta samfélagið, brutu þeir og brömluðu eigur þess sama samfélags.

Slíkt mun aldrei leiða til umbóta. Í anda Kings má minna á að: Myrkur getur aldrei hrakið myrkrið á brott, það gerir einungis ljós og birta.

Hatur mun heldur aldrei hrekja hatrið á brott, það gerir einungis kærleikur og umhyggja.

Í vegferð okkar að réttlæti megum við aldrei ekki gerast sek um ranglæti. Við megum ekki svala þorsta okkar eftir réttlæti og frelsi, með því að drekka af bikar haturs og illsku. Í íslensku samhengi undanfarinna daga má spyrja:

Hvernig fær það staðist að berjast fyrir réttlæti, með því ranglæti að grýta gangstéttarhellum í lögregluna?

Telja menn að þeir loki á ranglætið með því að kveikja í friðhelgum dyrum alþingis?

Byggjum við betra og kærleiksríkara samfélag, með því meina forsætisráðherra að aka um götur bæjarins? Hrópa að honum hatursorð og grýta hann eggjum? Er það grunnur til að byggja á? Við erum hér saman komin í dag, vegna þess að við viljum tryggja að sama hvaða málstaður brennur í hjarta okkar, þá er ofbeldið aldrei svarið. Þegar sætta á ólíkar skoðanir duga ekki krepptir hnefar. Krepptir hnefar geta aldrei tekist í hendur.

Góðir lesendur.

Kærleikur, umhyggja og friðsemd eiga að knýja öll mótmæli áfram. Kænska höggormsins er leyfileg svo lengi sem fölskvaleysi dúfunnar fylgist að. Þess vegna fögnum við mótmælendum sem standa í appelsínugulum bjarma friðsemdar en fordæmum þá sem standa í svörtum skugga ofsa og haturs. Það er nefnilega ekki öskur og illvirki þeirra vondu sem geta skemmt þennan heim heldur þögn þeirra góðu.

Látum aldrei hið vonda yfirbuga okkur heldur sigrum ávallt illt með góðu.