Gildin og stjórnarskráin

Gildin og stjórnarskráin

Sameiginlegur gildagrunnur samfélags okkar verður vart tryggður í framtíðinni með stjórnarskrárákvæðum. Þar skiptir miklu meira máli að fram fari opið samtal um gildi og gildismat, sem og áhrif þess og afleiðingar á öllum sviðum samfélagsins.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
27. febrúar 2012

Eins og lýðum er ljóst stendur nú yfir tilraun til að endurskoða stjórnarskrá okkar niður í kjölinn. Á sama tíma er stefnt að stjórnarskrárbreytingum í Noregi sem m.a. breyta stöðu norsku kirkjunnar. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá Norðmanna er í raun evangelísk-lúthersk ríkistrú þar í landi. Strax 2. gr. hennar er kveðið á um trúfrelsi en síðan segir:

Den evangelisk-lutherske Religion forbliver Statens offentlige Religion. De Indvaanere, der bekjende sig til den, ere forpligtede til at opdrage deres Børn i samme.

Eftir stjórnarskrárbreytinguna verður komið á þjóðkirkju sem væntanlega mun þó hafa nokkuð sterkari tengsl við ríkið en íslenska þjóðkirkjan hefur nú. Samtímis verður 2. greininni breytt í sérstaka gildagrein sem hljóða mun á þessa leið:

Værdigrundlaget forbliver vor kristne og humanistiske Arv. Denne Grundlov skal sikre Demokrati, Retsstat og Menneskerettighederne.

Í stjórnarskrá okkar er sem kunnugt er ekki að finna neina hliðstæðu þessa ákvæðis. Í lögum um grunnskóla (91/2008) má hins vegar finna ákveðna hliðstæðu þar sem segir:

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Gildin í stjórnarskránni Skýr gildi koma fram í stjórnarskrá okkar þótt hún skilgreini ekki sameiginleg gildi þjóðarinnar á borð við það sem að er stefnt í Noregi.

Í stjórnarskránni kemur t.a.m. fram að þjóðin veitir forseta og Alþingi umboð sitt. Þar kemur fram að við skulum öll vera jöfn fyrir lögunum og hljóta dóm af óháðum dómstólum ef við brjótum af okkur. Þá skulum við öll njóta jafnstöðu og jafnræðis „án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Við eigum að njóta mannréttinda.

Þau gildi sem í stjórnarskránni felast eru því gildi lýðræðis, réttaröryggis, jafnréttis og mannréttinda. Allt eru þetta góð og gegn vestræn gildi sem kirkjan á að geta fylkt sér um þótt hún ætti vissulega lengi erfitt með að samsama sig sumum þeirra. — Það er ein af þverstæðunum sem stundum koma fram milli kirkjunnar og kristninnar sem eru illu heilli ekki alltaf eitt og hið sama.

Er 62. grein stjórnarskrárinnar gildagrein? Í umræðunni um stjórnarskrárbreytingarnar sem nú standa yfir hefur þeirri spurningu verði velt upp hvort 62. grein stjórnarskrárinnar sé ekki í eðli sínu gildagrein á borð við þá norsku eða í það minnsta ígildin hennar. Ekki verður þó séð að svo sé.

Þegar danska og síðar íslenska stjórnarskráin voru settar á 19. öld var verið að afnema ríkisátrúnað og trúarnauðung sem og að aðgreina kirkjuna frá ríkinu. Þess vegna var lúthersku kirkjunni gefið nýtt heiti en hún hafði áður verið ríkiskirkja — eða öllu heldur óaðskiljanlegur hluti ríkisvaldsins. Eftir þetta skyldi hún njóta meira sjalfræðis og vera kirkja þjóðarinnar. Það þótti eðlilegt fyrirkomulag þar sem Danir og Íslendingar voru í raun lútherskar þjóðir þegar þessir atburðir gerðust. Kaþólskt fólk, reformert og gyðingar sem vissulega bjó í Danmörku á þessum tíma var af erlendu bergi brotið og hafði notið undanþága frá kröfunni um lútherska trú á þeim grunni.

Þrátt fyrir að ríkið ýtti lúthersku kirkjunni á þennan hátt armlengd frá sér vildi það ekki snúa baki við henni vegna þess að hún myndaði ramma um trúarlíf þjóðanna í löndunum tveimur. Því var kveðið á um að ríkisvaldið skyldi styðja hana og vernda að því leyti (...sem hún væri þessi rammi).

Þetta sýnir að ríkisvaldið var ekki á móti lútherskri trú. Það var reiðubúið að styðja lútherska kirkju vegna ofangreinds hlutverks hennar. Danska ríkið hélt svo og heldur enn í nokkrar frekari leyfar hins forna tíma. Þjóðhöfðinginn er t.d. skyldur til að vera lútherskur (en má þó líklega tilheyra fríkirkju!). Hér hefur aldrei verið gerð slík krafa enda bryti það gegn jöfnu embættisgengi allra til forsetaembættisins óháð trú. Af þessum sögulegu ástæðum er ekki mögulegt að líta svo á að kirkjuskipanin leiði til þess að grunngildi ríkisins séu eða eigi að vera lúthersk. Íslenska ríkið er í eðli sínu trúarlega hlutlaust en styður af sögulegum og „praktískum“ ástæðum lútherska kirkju umfram önnur trúfélög. Öll rök hníga því að þeirri túlkun að kirkjuskipan landsins (62. gr. stjskr.) sé lýsandi en ekki „normerandi“. Í henni felst með öðrum orðum ekkert gildismat nú orðið. Kristnin og þjóðin Þrátt fyrir að ríkisvald okkar sé trúarlega hlutlaust eins og við flest viljum ugglaust að það sé á 21. öldinni býr þjóðin að sameiginlegu gildismati sem hún hefur tekið að erfðum frá fyrri kynslóðum og stöðugt aðlagað nýjum tímum. Það hefur þó stundum mistekist eins og dæmin sanna. Að verulegu leyti eru þessi gildi kristin. Þau eru þó ekki öll sér-kristin heldur vestræn, húmanísk og jafnvel sammannleg. Þau eru ekki verri fyrir það.

Þessi samstaða um gildismat hvílir ekki á stjórnarskránni heldur sambúð þjóðarinnar í landinu og sambúð þjóðar og kirkju í þúsund ár. Sameiginlegur gildagrunnur samfélags okkar verður vart tryggður í framtíðinni með stjórnarskrárákvæðum. Þar skiptir miklu meira máli að fram fari opið samtal um gildi og gildismat, sem og áhrif þess og afleiðingar á öllum sviðum samfélagsins. Í því samtali þarf kirkjan að taka virkan þátt af heilindum og með einurð án þess að krefjast forræðis eða valdastöðu.