Opin rými: Lýðræðisleg vinnubrögð við kirkjulegar framkvæmdir
Kirkjur eru líklega með mest krefjandi verkefnum sem lenda á borðum arkitekta. Gildir þar einu hvort reist er ný kirkja eða gamalli breytt. Húsnæðið á að nýtast fyrir alla aldurshópa, það er vettvangur gleði og sorgar, í því er vísað til myndmáls og tákna, hefða og hugmyndafræði sem vísa í senn aftur í tímann og horfir fram á veginn. Þótt mikið hafi verið framkvæmt af þessum toga á síðustu áratugum virðist lítið hafa verið gert í því að halda utan um þá reynslu sem skapast hefur, það á bæði við um undirbúning og árangur. Þegar söfnuður leggur út í slíka vinnu hefur hann með öðrum orðum lítið aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf og eftirlit með því hvernig staðið er að verkum virðist að sama skapi hverfandi.
Nú er staddur hér á landi þýskur fræðimaður í boði Keflavíkursóknar og Kjalarnessprófastsdæmis, dr. Matthias Ludwig sem hefur sérhæft sig í kirkjubyggingum og rekur ráðgjafastofu á því sviði í heimalandi sínu. Hann er guðfræðingur að mennt en hefur einnig lagt stund á nám við listasögu og byggingarverkfræði. Um árabil hefur hann starfað á lista- og kirkjubygginga stofnun þýsku mótmælendakirknanna. Í vinnu sinni leitast Ludwig við að skapa lýðræðislegan vettvang innan safnaðanna þar sem fólk getur viðrað sjónarmið sín á þessu sviði í skipulagðri umræðu. Að því loknu gerir hann tillögur í samvinnu við byggingarnefnd viðkomandi safnaðar og ítarlega þarfagreiningu sem er þá afrakstur þessarar lýðræðislegu samræðu innan safnaðarins. Um leið myndast frekari tengsl kirkjunnar við sóknarbörnin. Þegar endanleg bygging rís eða endurbótum er lokið á henni má líta svo á að útkoman sé í þeim anda sem söfnuðurinn sá fyrir sér og eiga sóknarbörnin í vissum skilningi hlutdeild í því sem fyrir augun ber.
Vinnubrögð í þessum anda má kenna við opin rými þar sem forðast er í lengstu lög að takmarka hugmyndavinnuna við lokaða hópa eða ákveðna fagmenn heldur láta samræðuna stjórna förinni eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Þess ber einnig að geta að tilviljun ræður því ekki að slíkt verklag skuli tíðkast í Þýskalandi en það er hluti þess uppgjörs sem fram fór í kjölfar einræðistíma nasismans á áratugunum eftir stríð.
Ludwig kynnir þessa aðferðafræði á málþingi sem haldið verður í Keflavíkurkirkju laugardaginn 19. apríl á milli kl. 10 og 13. Að þinginu loknu stýrir hann vinnuhópum sem koma til með að starfa eftir þessari hugmyndafræði. Keflavíkurkirkja verður þar sérstaklega tekin fyrir en þar hafa farið fram talsverðar framkvæmdir á 40 ára tímabili og stendur til að endurnýja kirkjuskipið að innan. Vinnuhóparnir eru öllum opnir og standa frá lokum málþingsins til kl. 18:30 á laugardeginum og svo frá kl. 9 á sunnudeginum þar til guðsþjónusta fer fram kl. 11:00. Niðurstöður verða svo teknar saman kl. 12:30 að guðsþjónustu lokinni.
Áhugafólk um kirkjur og hönnun ætti að láta sjá sig.