Guð gerðist maður

Guð gerðist maður

Við megum ekki gleyma í umræðunni að rétt eins og hægt er að velja trúleysi þá er hægt að velja trúrækni, og hvers vegna þarf hið fyrra að vega þyngra en hið síðara?
fullname - andlitsmynd Íris Kristjánsdóttir
25. desember 2007
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Jólahátíðin er gengin í garð og eins og ávallt á þessum tíma er ekki laust við að hjartað fyllist friði og fögnuði yfir því undri sem gerðist hin fyrstu jól. Enn á ný fáum við tækifæri til að rifja upp merkingu og innihald jólaboðskaparins og um leið velta því fyrir okkur hvaða erindi sá boðskapur á við okkur í heimi sem á stundum virðist ekki hafa rúm fyrir hann lengur.

Þetta undur hinna fyrstu jóla var fæðing lítils drengs. Í mannlegu samfélagi er barnsfæðing bæði venjuleg og einstök upplifun. Ef þú ert foreldri og átt von á barni, eða ert tilvonandi amma eða afi, frænka eða frændi, þá er fæðingin í vændum hið mesta undur og stórmerki. Ég var svo heppin á þessu ári að fá að upplifa fæðingu lítils drengs, og það verð ég að segja að fátt er jafn stórkostlegt og að verða vitni að slíku. En þegar við horfum á fæðingu í víðara samhengi verður okkur ljóst að hún er alls ekkert einstök – börn fæðast á hverjum degi, víðsvegar um heiminn, þúsundir þeirra, allsendis venjulegir atburðir sem hvorki þykja fréttnæmir né eftirminnilegir.  En hér erum við engu að síður saman komin í dag til að minnast fæðingu barns sem tengdist okkur ekki ættfræðilega á neinn hátt, fæddist ekki hér á Íslandi, heldur í fjarlægu landi fyrir um 2000 árum síðan. Hvers vegna munum við ennþá eftir þessari fæðingu? Hvers vegna skiptir hún máli?

Umgjörð þessarar fæðingar var hvort tveggja í senn, venjuleg og undraverð. Margt í frásögunni hljómar mjög kunnuglega á okkar tímum, þar segir frá ungri, óléttri stúlku, valdagráðugum harðstjórum, hælisleitendum – fólk sem við heyrum um í nútíma samfélagi, en tók einnig þátt í atburðum hinna fyrstu jóla. En margt var líka einstakt, svo sem hlutverk heilags anda, himnesku hersveitirnar, fjárhirðarnir, fjárhúsið og hið óvenjulega barnarúm, jatan, svo ekki sé talað um heimsóknina frá vitringunum þremur og gjafir þeirra, gull, reykelsi og myrru.

En allt þetta er ytri umgjörð hinnar undraverðu fæðingar. Mesta undrið var barnið sjálft, sem þó einnig var ofur venjulegt. Venjulegt lítið barn, ósjálfbjarga, háð foreldrum sínum hvað varðar fæðu, klæði, hlýju og kærleika. Venjulegt barn, svona rétt eins og við hér einu sinni. En allt frá upphafi hefur fylgt því sú saga að það hafi ekki verið svo venjulegt, heldur sonur Guðs, holdtekning Guðs, Guð sem varð maður.

Guðspjallstexti þessa helga jóladags er skráður í 1. kafla Jóhannesarguðspjalls, sá sem við heyrðum lesinn hér áðan. Hann ber heitið jólaguðspjall Jóhannesar en er hins vegar ekki þessi hefðbundna lýsing á fæðingu Jesú sem við höfum rifjað upp hér í dag. Ekkert er minnst á himneskar hersveitir, herbergi eða herbergisleysi í Betlehem, jötu eða fjárhirða. Við gætum ekki útbúið jólahelgileik með þeim upplýsingum sem Jóhannes gefur okkur! Þess í stað talar hann um þann sem kallaður er Orðið, og að þetta orð hafi verið til í upphafi tímans, að orðið sé hluti af Guði, óaðgreinanlegt frá Guði, já, í raun og veru Guð sjálfur. Og að orðið varð hold og bjó á meðal okkar. Hér er orðið notað á táknrænan hátt til að tala um Guð, Guð sem birtist í syninum Jesú Kristi. Áhersla Jóhannesar er ekki á að barn hafi fæðst í Betlehem og verið lagt í jötu, heldur á að Guð varð maður og að sá maður var Jesús. En hvernig er það hægt? Er það ekki einmitt þetta sem veldur fólki erfiðleikum við trúna og vekur upp efasemdir? Hvernig gat Guð bæði verið utan og óháður tíma, en samt innan hans um stund?   Alfred Hitchcock, hinn frægi leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi, var vanur að koma fram í örlitlum hlutverkum í sérhverri mynd sem hann gerði. Hann, sem bjó til myndirnar, hafði gaman af því að taka þátt í þeim líka. Það var auðvelt verk fyrir hann að leikstýra og framleiða mynd, sjá um alla sköpun hennar, og taka á sama tíma að sér eitt lítið hlutverk í henni, verða þannig hluti af eigin sköpunarverki.

Við gætum hugsað sem svo að á jólum hafi Guð orðið þátttakandi í mannlegu hreyfimyndinni sem í daglegu tali kallast líf, samhliða því að vera leikstjóri, framleiðandi og höfundur myndarinnar. En þessi einfalda líking nær þó ekki að lýsa þessu undri til fulls, því þegar Guð varð maður þá var hann ekki að leika í kvikmynd. Hlutverk Jesú var svo einstakt að það skipti mannkynssögunni í tvennt, fyrir og eftir Krist. Koma Jesú í heiminn varð það mikilvægasta af öllu sem gerst hefur í sögunni. Skaparinn varð hluti af sköpun sinni og þar með brúaði hann bilið á milli Guðs og manna. Hann gerði þetta til að finna og frelsa hið týnda, hann er góði hirðirinn sem leitar hinna týndu sauða. Hann gerði þetta svo að við yrðum synir hans og dætur, hjartkær börn hans, hvert og eitt einstök í augum hans. Hann gerði þetta til að kenna okkur að elska og fyrirgefa, í stað þess að hata og hefna.

Ég hef heyrt því lýst nánar á þennan hátt: Ef brýnasta þörf okkar hefði verið þekking þá hefði Guð komið sem kennari. Ef við hefðum þurft á tækninýjungum að halda þá hefði hann komið sem vísindamaður. Ef þörf okkar hefði snúist um peninga þá hefði komið sem hagfræðingur, ef við þyrftum mest á ánægju að halda þá hefði hann komið sem skemmtikraftur. En stærsta og ríkasta þörf okkar var eftir kærleika og fyrirgefningu og því kom hann sem frelsari – þess vegna gerðist hann maður, svo hann gæti kynnst okkur persónulega og mætt okkur í okkar eigin raunveruleika.

Jóhannes segir: Öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þessi gjöf sem felst í atburðum hinna fyrstu jóla er okkur öllum gefin. Og um leið hefur okkur verið gefið frelsi til að taka við gjöfinni eða hafna henni. Hátíðarhöld jólanna snúast einmitt um að fagna holdtekningunni og þeim áhrifum sem hún hefur haft á heiminn allar götur síðan. Í um þúsund ár höfum við Íslendingar fengið að heyra þennan boðskap og vissulega hefur hann haft áhrif á okkur. Líklega gerir ekkert okkar sér fyllilega grein fyrir hversu mikil áhrif, ja, kannski ekki fyrr en og ef við sjáum áhrifin dvína. Og það held ég að ekkert okkar vilji. Það er kominn tími til að við hættum að skammast okkar fyrir trú okkar og menningu, en verðum stolt í staðinn. Ég er stolt af því að fá að taka þátt í því sem hófst hin fyrstu jól og fékk nýja merkingu á hinum fyrsta páskadegi, upprisudegi. Ég er stolt af því að fá að fagna hver jól með það í huga. Um leið er ég einnig glöð yfir að hafa frelsi til að taka þessar ákvarðanir fyrir sjálfa mig, rétt eins og sá sem tekur gagnstæðar ákvarðanir.

Það merkilega er að þetta frelsi á rætur að rekja í trúararfi okkar, hinum evangelíska lútherska trúararfi. Og sannarlega höfum við nýtt okkur þetta frelsi, oft til góðs, en einnig til tjóns. Við megum ekki gleyma í umræðunni að rétt eins og hægt er að velja trúleysi þá er hægt að velja trúrækni, og hvers vegna þarf hið fyrra að vega þyngra en hið síðara? Við sem kristin erum hljótum að mega velja það að viðhalda hinum kristna boðskap í samfélagi okkar án þess að fá bágt fyrir. 

Með komu Krists í heiminn gerðist eitthvað nýtt í veraldarsögunni sem óumdeilanlega hefur markað djúp spor á mannkynið. Guð sýndi okkur áþreifanlega væntumþykju sína til okkar, hann bauð okkur til borðs með sér hin fyrstu jól, augliti til auglitis, sem kærleiksríkur og nálægur Guð, leitandi eftir persónulegu sambandi við hvert og eitt okkar.  Þess vegna er þessi fæðing svona merkileg, þess vegna munum við ennþá eftir henni. Með það fyrir augum vona ég að við getum öll tekið undir orð sálmaskáldsins er hann fagnar jólahátíðinni með eftirfarandi orðum:

Kom blessuð, ljóssins hátíð - helgi þín minn hug og vilja göfgi, vermi, fylli, svo máttug verði' og heilög hugsun mín og hörpu mína Drottins andi stilli.     (Sálmur 77 í Sálmabók)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.