Kreistu mig fast

Kreistu mig fast

Mannslíkaminn er auðlind, hann er uppspretta og farvegur ríkulegra gæða og þú átt þinn líkama. Þú hefur umboð fyrir þínum eigin líkama. Þú getur valið að gefa ást þína og atlot og þú getur líka valið að halda því öllu fyrir þig. Gæðin eru hjá þér, í þér.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
27. janúar 2013
Flokkar

Í dag ætlum við að tala um ástina. Ég vil bara segja það fyrst að öll erum við peð í því tafli og enginn er sigurvegari í ást. Við höfum ekki uppskriftina, þekkjum ekki leiðina þótt við reynum hvert og eitt með sínum hætti að þreifa okkur áfram í leit að ást. En það er með ástarsamskipti eins og öll önnur samskipti, að þar eru sum gildi betri en önnur. Í sögunni um Sölku Völku farast skáldinu svo orð: „Ekkert á jörðinni er eins yndislegt og sönn ást milli pilts og stúlku í góðu veðri um nótt á vori, þegar hestarnir eru sofnaðir í túnunum.“ Svo skáldleg sem þessi orð eru og bera í sér vissan sannleik þá eru þau engu að síður röng fullyrðing. Svo dýrðleg sem ástin er í lífi hinna ungu þá er þó til önnur og fegurri ást. Þegar við mætum gömlum hjónum á götu sem haldast í hendur og við greinum á göngulagi þeirra hina löngu samleið sem að baki er, þá er eitthvað innra með okkur sem staðnæmist og fagnar. Ég gleymi aldrei einum morgni fyrir meira en áratug þegar ég var með henni Ingibjörgu ömmu minni uppi í sumarbústað. Ég var eitthvað að skrifa og hún var með mér einhverja daga blessunin eins og stundum áður. Það var kaldur morgunn og ég var búinn að kveikja upp í arninum og hita kaffi en gamla konan, komin um nírætt, var í herbergi sínu. Og sem ég geng framhjá dyrunum sé ég að amma situr frammá og er að rýna í einhver gulnuð blöð. „Hvað ertu að lesa, amma mín?” spurði ég. „Æ, þetta á nú bara að fara í eldinn Bjarni minn.” ansaði sú gamla. „Þetta er ekki handa neinum þegar ég er farin.” Og þennan morgunn dagaði upp á mig sú staðreynd að amma hafði geymt stóran bunka af ástarbréfum sem Hróbjartur afi hafði skrifað henni í tilhugalífinu. Og vegna þess að við vorum svo góðir vinir og hún var farin að sjá svo illa fékk ég eftir nokkrar fortölur að setjast hjá henni og lesa fyrir hana nokkur valin bréf. Ævinlega er ég þakklátur þessari einu morgunstund sem amma gaf mér innsýn í ástina í lífi hennar og afa og hvað hann var feginn að „hún skyldi vilja vera vina sín” eins og hann orðaði það í bréfi nr. 2, eftir að sveitastúlkan austur í Flóa hafði svarað umleitan hans sem ungs manns í höfuðstaðnum. Þarna sat hún ellihrum með hjartað fullt af ást þótt afi væri löngu dáinn, og síðan býr með mér sú sæla vissa að afi og amma voru elskendur. Hefur þú tekið eftir því að flestar sögur sem sagðar eru fjalla ýmist um ástina eða dauðann, nema hvort tveggja sé? Og þar eru sögur Biblíunnar engin undantekning. Hin stóra saga sem fléttast í gegnum allar bækur Biblíunnar er sagan um ástina sem sigrar dauðann.

Í vikunni féll brúnt umslag inn um bréfalúguna heima. Þar var ein góð amma hér í hverfinu að senda mér ljósmyndir sem hún hafði tekið er fjögurra ára ömmustelpa hafði skömmu fyrir jól sett alla fjöskyldumeðlimi í hlutverk. Hún var María mey, Afi var Jósef, aðrir fjölskyldumeðlimir voru vitringar með gjafir, uppáhaldsdúkkan var Jesúbarnið og geithafur úr basti var fulltrúi sauðfjárins og svo fór fram á heimilinu óvænt helgistund þar sem sagan um ástina sem sigrar dauðann var lifuð og sögð og maður þarf að vera stropaður að innan til að sjá ekki lífsþorstann og ástarviskuna í augum barnsins sem þannig leiðbeindi fólkinu sínu inn í helgi jólanna. Í guðspjalli dagsins (Matt 25.14-30) segir Jesús: „Hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur.” Góðu fréttirnar um Jesú eru þær að Guð gerist maður af holdi og blóði og með líkama sínum og blóði gerir hann sáttmála við heiminn, sáttmála um ást. Stöldrum við hérna. Sáttmáli um ást unninn með líkama og blóði er kjarni kristinnar trúarvitundar. Ekki missa af þessu. Nú bið ég þig að sjá fyrir þér í huga þínum tvær fullveðja manneskjur í samförum. Ég er ekki að klæmast. Ég bið þig að setja þér fyrir hugskotssjónir tvær manneskjur af holdi og blóði sem þú þekkir ekki hafa mök. Hvað er að gerast þegar tveir einstaklingar eiga þannig samskipti? Það getur verið að þarna séu elskendur að staðfesta gagnkvæman sáttmála um ást. En vandinn er sá að við vitum það ekki, því nákvæmlega sama mannlega atferlið getur falið í sér andhverfu ástarinar. Með sama ytra atferli, kynmökum, er hægt að tjá niðurrif allrar ástar og fyrirlitningu á lífi og limum annarar manneskju. Þá heitir það nauðgun eða misbeiting. Mannslíkaminn, líkami þinn og líkami minn, er svo magnað fyrirbæri að hann er fær um að miðla öllu því besta og öllu því versta sem til er. Með snertingu okkar getum við miðlað virðingu og vanvirðu, umhyggju og fálæti, öryggi og ótta, aðdáun og andúð, ást og hatri. Líkaminn er uppspretta og farvegur merkingar og hann getur líka orðið farvegur hins algera merkingarleysis þegar honum er beitt með ofbeldi. Í fyrradag fór litla sonardóttir mín fljúgandi til úlanda með foreldrum sínum. „Kreistu mig fast” sagði hún við ömmu sína að skilnaði. „Kreistu mig fast”. Þarna er ung persóna sem farin er að bera skynbragð á gæði líkamans og kann að tjá það í orðum. Viðurkennd kynjafræði skilgreina kynverund manneskjunnar á þá leið að við fæðumst sem kynverur. Það merkir það að við fæðumst með þann hæfileika að geta teygt okkur út fyrir okkur sjálf og tengst öðru fólki. Við fæðumst sem kynverur og við erum kynverur þar til við gefum frá okkur síðasta andvarpið. Kynverund okkar er hæfileikinn til þess að tengjast, virða og elska. Og þegar réttum þroska er náð og réttar aðstæður skapast getur þessi hæfileiki orðið kynferðislegur. Það sem gerir kynferðislegt ástarsamband sérstakt og ólíkt öðrum samböndum er það hvernig við gefum þeim sem við elskum líkama okkar og tjáum þannig sáttmála um gagnkvæma ást og þjónustu. Elskendur eru hvor annars þjónar. Þess vegna krjúpa brúðhjón við altarið á brúðkaupsdegi og eru með því að segja: Við ætlum að ganga saman á hnjánum þar til dauðinn skilur okkur að. Við ætlum að þjóna hvort öðru uns dauðin heilsar. Þannig eiga hjón sína sameiginlegu sögu um ástina og dauðann og þau eiga hana einungis að því leyti sem þau lúta hvort öðru, þjóna hvort öðru. „Hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur.” Mannslíkaminn er auðlind, hann er uppspretta og farvegur ríkulegra gæða og þú átt þinn líkama. Þú hefur umboð fyrir þínum eigin líkama. Þú getur valið að gefa ást þína og atlot og þú getur líka valið að halda því öllu fyrir þig. Gæðin eru hjá þér, í þér. „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur.” Segir í pistli dagsins sem lesinn var hér áðan. (1Kor 3.10-15) „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur.” Þetta gildir ekki síður í kynferðislegum samskiptum fólks en öðrum samskiptum. Jesús Kristur hefur opinberað þann frum sannleika að líf okkar öðlast merkingu sína að því marki sem við lifum því fyrir aðra. Að því leyti sem ég er handa öðrum er ég að lifa. Það er þess vegna sem það er svo merkilegt að elska og lifa kynlífi og það er þetta sem gerir hjónaband svo áhugavert og eftirsótt sem raun ber vitni borið saman við allt vesenið sem af því hlýst, eins og ótal dæmi sanna. Lífið okkar öðlast merkingu í þjónustu við lífið og lifandi fólk og fá þorskatækifæri eru stærri og meira ögrandi en það að vera maki annarar ófullkominnar manneskju. Þú átt líka ekkert stærra og dýrmætara að gefa heldur en líkama þinn. Og hér er líka komin ástæða þess að valdaójafnvægi er eitur þegar kemur að kynferðislegum samskiptum. Ef kynferðisleg samskipti eiga að miðla sáttmála um gagnkvæma ást og þjónustu þá er hvorki rými fyrir yfirgang né undirlægjuhátt. Valdaójanfvægi úthýsir inntaki alls kynlífs og gerir það að andhverfu sinni. Í s.l. viku var mikið verið rætt og ritað um klám og skilgreiningar á því. Ég vil skilgreina klám þannig að það sé lýsingar á kynferðislegum samskiptum þar sem hallar á einhvern í tengslunum og valdamisjafnvægið sem ríkir milli aðila er gert aðlaðandi. Í guðspjalli dagsins, dæmisögunni um talenturnar, er sögð saga af þremur mönnum sem treyst var fyrir miklum auðæfum. Tveir brugðust við í trúnaði við lífið og ást á verkefni sínu en sá þriðji lét óttann stjórna för. Hann missti allt, líka þessa einu talentu sem hann þó hafði tryggilega grafið í jörð. „Hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur.” Klámheimur tíðarandands lætur óttann stjórna för og gerir lítið úr mannslíkamanum, líkamsmeiðingar og annað sem ögrar heilsu og öryggi er gert að afþreyingarefni og söluvöru eins og við þekkjum öll úr sjónvarpinu heima í stofu og valdaójanvægi er túlkað sem kynferðislega aðlaðandi. Í Guðsríkinu og veruleika heilags anda er hins vegar trúnaður við lífið. Þar er mannslíkaminn í hávegum hafður, sagan um ástina sem sigrar dauðann er sett í öndvegi, heilsa líkamans og öryggi haft í forgrunni og gagnkvæm þjónusta gerð kynferðislega aðlaðandi. Ég gat þess í upphafi að ekkert okkar er sigurvegari í ást. Öll erum við særðir elskendur og hver einasta manneskja sem vogar að elska og leita ástar útsetur sjálfa sig um líka um leið fyrir veseni og óvissu. En kjarni ástarinnar er alltaf sá að treysta líkamanum og trúa gæðum hans sem einungis er unnt að miðla í gagnkvæmri þjónustu. Þar gilda orð Krists að hverjum þeim sem hefur muni gefið verða. Gangi þér vel á vegi ástarinnar í Jesú nafni, amen.  

Textar: 5Mós 8.7, 10-11, 17-18 1Kor 3.10-15 Matt 25.14-30