Aftur til framtíðar

Aftur til framtíðar

Þegar tunglið fór fyrir sólu vorum við minnt á óendanleika himingeimsins og fundum smæðar í hinni stóru og miklu veröld. Okkur finnst við jafnvel vera eins og lítið sandkorn á stórri strönd. Megum okkur svo lítils og skiptir það nokkru máli sem við gerum eða segjum.

Það fór ekki framhjá neinum að það var sólmyrkvi síðasta föstudag. Það sást ekki mikið til hans hér á Vopnafirði og ekki reyndi á sólmyrkvagleraugun. Það var þó merkilegt að upplifa þegar það tók að skyggja um hábjartan dag og líka hversu fljótt það birti aftur. Það sem stóð hins vegar upp úr var hve styrkur ljósins er mikill, því þótt 99% sólarinnar væri hulin og lágskýjað, þá varð ekki svarta myrkur - aðeins rökkur. Á öldum áður þegar fólk þekkti ekki gang himintunglana, né gang tungls og sólu, þá olli þetta náttúrufyrirbrigði ótta og skelfingu. Fólk trúði jafnvel að um reiði Guðs væri að ræða eða að endir heimsins væri í nánd. Nú vitum við betur og horfum á sólmyrkvan áhyggjulaus og virðum fyrir okkur dýrð þessa fallega undur sköpunarinnar.

Það er ekki oft sem við horfum upp til himins í átt til stjarnanna, sólarinnar eða tunglsins eins og svo margir gerðu síðastliðinn föstudag og fannst mikið til koma. Í Davíðssálmum Biblíunnar lýsir sálmaskáldið frá upplifun sinni þegar hann horfir til himins og segir:

Þegar ég horfi á himinn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess? (Sl.8.4-5)

Á föstudaginn vorum við minnt á stórfengleika náttúrunnar og óendanleika himingeimsins og fundum eins og sálmaskáldið til smæðar okkar í hinni stóru og miklu veröld. Okkur finnst við jafnvel vera eins og lítið sandkorn á stórri strönd. Megum okkur svo lítils og skiptum svo litlu máli. Hvernig getur það sem við segjum og gerum í þessum stóra og mikla geimi haft áhrif?

Þetta er spurningar sem bæði heimspekin og vísindin hafa leitast við að svara um aldir eftir ólíkum leiðum. Myndirnar „Back to the future“ eða „Aftur til framtíðar“ sem eru nú endursýndar á Ríkissjónvarpinu og nutu mikilla vinsælda á sínum tíma fjalla um tímflakk. Þegar söguhetjurnar fara fram og til baka í tíma til þess að laga lítil atvik, sem geta haft mikil áhrif og breytt framtíðinni með slæmum afleiðingum. Söguþráðurinn er ekki úr lausu lofti gripinn, því hann byggir á gárukenningunni (ripple effect) sem fjallar um að það minnsta sem við gerum getur haft áhrif, eins og vængjasláttur fiðrildisins.

Trúin svarar einnig þessum spurningum játandi, því maðurinn er ekki eins og lítið sandkorn í augum Guðs, heldur þekkir Guð manninn með nafni. Hver manneskja er einstök og mikilvæg. Með sama hætti svarar sálmaskáldið spurningu sinni og segir:

Þú gerðir manninn litlu minni en Guð, krýndir hann hátign og heiðri, lést hann ríkja yfir handverkum þínum, lagðir allt að fótum hans. (Sl. 8.6-7)

Guð treystir manninum og felur honum mikilvægt hlutverk sem er að hafa umsjón með sköpunarverki sínu, vernda það og rækta. Það á við um allt í hinum skapaða heimi, líka mannlífið. Því skipta orð og verk okkar máli og allt sem við gerum. Þessi staða mannsins í heiminum getur hins vegar valdið ofmetnaði og að við lítum of stórt á okkur.

Guðspjall dagsins fjallar um ofmetnað og þrá mannsins að hafa stöðu til áhrifa. Bræðurnir Jakob og Jóhannes biðja Jesú um að hann veiti þeim vegsemd í dýrð hans. Þeir vilja verða Guði líkir. Bón þeirra er hjákátleg, því við vitum að það sem bíður Jesú er písl og þjáning. Jesús gerir ekki lítið úr þeim eða bón þeirra og svarar: “Sá sem mikill vill verða meðal ykkar sé þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll.“

Það er ekki mikilvægt að hafa stöðu, heiður eða vegsemd þegar kemur að því að hafa áhrif eða skipta máli, heldur þvert á móti þá er það þjónusta við náungann og samferðarfólk á vettvangi hins daglega lífs sem skiptir mestu. Hin smáu og góðu verk, sem okkur þykja svo sjálfsögð og eðlileg. Það er þjónusta sem birtist í fórnfúsum kærleika og krefst einskis fyrir sig, hrósar sér ekki upp eða ber sér á brjóst.

Í samanburði við öll þau risavöxnu vandamál sem heimurinn glímir við eins og hnattræn hlýnun, ófriður, stríð, óréttlæti, mannréttindarbrot og ofbeldi hvað stoðar þessi hversdagslega þjónusta. Hvernig getum við haft áhrif og snúið við þessari þróun? Við finnum til við smæðar okkar og vanmáttar og þá er auðvelt að skella skuldinni á Guð sem lætur svo skelfilega hluti gerast og spyrja hvar er hann?

Einu sinni var prófessor við guðfræðideild sem hafði umsjón með í endurmenntun presta í stórri borg. Í stað þess að nemendurnir sátu fyrirlestra, læsu þykkar bækur og lærði flóknar kennisetningar um tilvist Guðs, þá bauð hann nemendum sínum að dvelja í skólanum meðan þau færu um borgina og leituð að Guði. Nemendurnir þáðu það og fóru út um alla borg. Þau komu til baka og niðurstöðurnar voru á einn veg. Guð er ekki að finna í háskólum eða þykkum bókum, heldur lifir hann og starfar út í hinum stóra heimi og birtist í hjálpsemi, vinsemd, virðingu og samskiptum fólks. Nám, bækur og aukin skilningur á Biblíunni skiptir vissulega máli til að læra aðferðir til að sjá Guð að verki og að meta hvað gefur lífinu gildi. Guð er ekki flókið fræðilegt verkefni, sem er brotið er til mergjar og skilið til hlýtar, heldur eigum að njóta og upplifa þess hver hann er. Guð er ekki vandamál eða gáta, heldur lausn. Hann gaf son sinn, hann gaf anda sinn og hann er allur og heill í gjöf sinni.

Hér komum við saman í kirkjunni á helgum degi í friði og þiggjum þessa gjöf. Við uppörvumst í samfélaginu með hvert öðru og finnum styrk til þjónustu. Hér er líka stund til þess að staldra við, horfa til baka og sjá hvenær Guð hefur snert okkur. Hvar fannst þú Guð að verki í liðinni viku og hvaða gjöf þáðir þú? Var það í einlægni barnsins, uppbyggjandi samtali, samveru með fjölskyldu eða blíðum geislum rísandi sólar. Hvað gjöf gafst þú eða hvaða þjónustu lagðir þú að mörkum?

Við höfum tilhneigingu til þess að horfa til þess sem er stórt og merkilegt, en gleymum hinu smáa og fagra sem ber uppi samfélagið og mannlífið og er svo mikilvægt heill og velferð mannsins. Við getum lagt svo mikið að mörkum til samfélags okkar og stuðlað að friði, vinsemd, virðingu og sáttfýsi með afstöðu okkar, framkomu og þjónustu við samferðarfólk. Því eru orð Jesú í guðspjallinu svo þörf áminning þegar hann segir: „Sá sem mikill vill verða meðal ykkar sé þjónn ykkar.“ Þessi lífsafstaða trúarinnar hefur mótað kristna kirkju og söfnuði frá öndverðu andspænis vanmætti og smæð mannsins. Hún vakti meðal kristinna safnaða hugrekki til þjónustu og að sýna í verki elskuna til náungans, þar sem ekki var spurt um trú, kyn, stétt eða stöðu.

Stór eða lítil vandamál verða ekki leyst með töfraformúlum eða pennastriki, heldur er það ferli sem getur tekið langan tíma. Þá reynir á traust, þolinmæði og sáttfýsi. Að gefast ekki upp og hafa hugfast að við, ég og þú, skiptum máli. Afstað og skoðanir okkar hafa áhrif og allt það sem við gerum og segjum í smáu sem stóru, jafnvel hin smæstu verk daglegs lífs. Við vitum ekki hver áhrifin verða til framtíðar, kannski lítil eða engin, en við vitum að Guð er hér, hann blessar og gefur margfaldan ávöxt.