Vírus í forritinu

Vírus í forritinu

Þetta er gömul saga og ný. Sagan um vírusinn í forritinu í okkur. Vegna hans er talað um mannlegt ástand, fallin heim, erfðasynd.
Flokkar

Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans. 16Drottinn Guð bauð manninum og sagði: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur. Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: Af því að þú gerðir þetta skaltu vera bölvaður meðal alls fénaðarins og meðal allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skaltu skríða og mold eta alla þína ævidaga. Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn. Við konuna sagði hann: Mikla mun ég gera þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér. Við Adam sagði hann: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. 19Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa. Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa. 

Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim. Og Drottinn Guð sagði: „Nú er maðurinn orðinn sem einn af oss fyrst hann ber skyn á gott og illt. Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“ Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af.  Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré.

Þetta er gömul saga og ný. Sagan um vírusinn í forritinu í okkur. Vegna hans er talað um mannlegt ástand, fallin heim, erfðasynd.

Eins og í syndafallssögninni er talað um orma í tölvum sem valda því að þær fara að gera eitthvað annað en upphaflegi forritarinn ætlaðist til. Allt í einu í miðri ræðusamningu prests fer tölvan hans að leggja lið við hryðjuverk. Það af því að hakkari hefur komið upp tengslum við hana og lagt hana upp í prógram sem margar margar tölvur um víða veröld eru óafvitandi þátttakandur í. Það þarf mikið lið í stórar aðgerðir og upplagt að nota í það tölvur sem eru bara í verki sem er jafn auðvelt fyrir fartölvu og ræðusamningin. Þar er það nefnilega ræðuritarinn sem vinnur verkið. Tölvan geymir bara á tiltölulega einföldu kerfi.

Skipunin var: Það má eta af öllum trjám nema einu! Ormurinn kom inn með gagnskipun: Það er í lagi að eta einnig af því! Og þá var kominn gikkur í gangverkið, aðgerðin gat ekki orðið eins og til var ætlast af forritaranum. Hægt og bítandi sýktist allt kerfið og fór að vinna vitlaust.

Draumur hakkarans er kannski sá að tölvan í bankanum hans fari að setja örbrot af hverri færslu inn á reikning hans sjálfs. Það munar engan um það, en færslurnar eru gríðar margar og þá er það fljótt að varða risavaxnar upphæðir. Hver sem tilgagnurinn kann að vera þá er hægt að koma miklu til leiðar með sakleysilegum aðgerðum ef þær eru bara nógu margar.

Ef hvert okkar lýgur einu sinni á dag þá eru það sjö milljón lygar á dag í öllum heiminum. Kannski stel ég sakleysinginn 10.000 á ári með einum eða öðrum hætti og hef aldrei haldið það vera stuld. Hvað eru svo morðin mörg? Misþyrmingarnar?

Margir geta ekki stillt sig og gera eða segja eitthvað sem kemur illu til leiðar, líka við. Svo eru ýmsir stórvirkari en við.

Af hverju er þetta? Af því við tökum sénsinn á að þetta sé í lagi. Það mun ekki gerast neitt hættulegt. Það stenst ekki en við gætum grætt. Til dæmis fengið innherjaþekkingu sem gerði okkur kleift að beita okkur til hagnaðar.

Adam og Eva dóu ekki af ávextinum af skilningstrénu. Þau öðluðust mikilvæga þekkingu. Áttuðu sig á að þau voru klæðalaus og gat mögulega orðið kalt, jafnvel fengið kvef, blöðrubólgu eða eitthvað verra og gerðu því ráðstafanir. Þau gátu meir að segja reynt að sjá við Skapara sínum. En brotið hafði einnig ófyrirséðar afleiðingar sem leiddu óhjákvæmilega til þess að þau dóu bæði, sem þau hefðu ekki gert ef þau hefðu hlýtt og látið tréð vera.

Svona er nú lífið og sjálfsagt vissi Guð þetta fyrir og leyfði þessu að verða en hann er ekki ábyrgur fyrir syndinni. Það erum við sem áttum eitt augnablik séns og völdum svo vitlaust og því fór sem fór. Djöfullinn, hvaðan sem hann kom nú, á líka þátt í þessu en hann tók ekkert epli. Þau gerðu það forfeður okkar og við höfum gert þetta að ættarvenju. Getum ekki að okkur gert. Erfðasynd. Förum enda öll allrar veraldar veg fyrr eða síðar.

Sonur Guðs kom hins vegar með lausnina til okkar og greiddi leið um dauðans dyr og þaðan inn til Paradísar á ný. Ef við erum í honum, trúum á hann og beitum elsku af þrá og vilja eins og hann og gerum gott í elskunni þá er vegurinn opinn. Elskan er ekki aðgöngumiðinn, ekki okkar elska alla vega. Heldur trúin. Elskan er til marks um það að við erum í honum. Hún er ávöxtur trúar. Munum það. Elskum í trú. Trúum í elsku til hans sem gaf líf sitt fyrir okkur.