Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?
Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann. Jóh. 14.1-8
Hann er fallegur skírnarsálmurinn sem hér var sunginn. Hann orðar tilfinningar okkar þegar við höfum lítinn einstakling í örmunum, göngum með hann fram fyrir skírnarlaugina. Fyrsta erindið og um leið yfirskrift sálmsins lýsir vissulega þeirri kennd sem ber allt annað ofurliði þar sem okkur hefur hlotnast slíkur fjársjóður sem þessi.
Við erum full af gleði yfir þeirri dýrð sem býr í litlu barni. Og við hugsum til þess hvernig hjálpræðissagan um frelsun mannkyns hefst á þeim atburði að Guð mætir okkur sem ómálga barn á hinum fyrstu jólum og kallar þar fram í okkur gleðina. Gleðin er okkur efst í huga og hjarta þar sem barnið er borið til skírnar.
Skuggi umhyggjunnar
En þegar í öðru erindinu birtist hin hliðin – skuggi gleðinnar og stoltins og allra væntinganna sem birtast okkur í litlu barni: Óttinn fyrir það sem framundan er. „Full af kvíða fyrir huldri framtíð“, syngjum við og tjáum í þeirri hendingu þann ugg sem við berum í brjósti fyrir því sem ókomið er og við fáum ekki með nokkru móti höndlað, séð, skilið eða breytt þar sem við ferðumst frá fortíð til framtíðar í hverri þeirri andrá sem líf okkar geymir. Umhyggja okkar fyrir litlu lífi sem á allt sitt undir okkur komið er ósvikin. Og hún birtist svo sannarlega í ótta fyrir ýmsum þeim hættum sem heimurinn geymir og ókomnir tímar kunna að leiða í ljós.
Já, óttinn birtir umhyggjuna. Við óttumst um það sem okkur er annt um og okkur er kært. Stundum erum við með óttakennd í brjósti eða jafnvel í maganum dögum saman. Eitthvað hvílir á okkur. Eitthvað liggur þungt á okkur. Hvað er það? Stundum gerum við okkur ekki grein fyrir því mitt í erli daganna. Eru stór verkefni framundan? Ýtum við á undan okkur því sem þörf er á að vinna? Höfum við vanrækt skyldur okkar? Eða finnum við fyrir því hvað allt æðir áfram svo óþægilega hratt að það er eins og upp sé runnin helgi áður en við tókum eftir því að hún hófst og svo er hún liðin áður en við vissum af því. Skilur þessi tilfinning eftir sig spor óþæginda í líkamanum?
Lifað á ótta
Óttinn er svo mikill áhrifavaldur í lífi okkar. Án hans værum við ekki hér. Við gerðum þá engan greinarmun á hættum og því sem eftirsóknarvert er. Jafnvel á okkar dögum þar sem kröfurnar um öryggi eru nánast yfirþyrmandi og stöðugt dynja á okkur áminningar um að fara varlega í hinu og þessu – er ógnin skammt undan. Ef hún sækir ekki á okkur leitum við sjálfviljug í aðstæður sem kalla fram ótta. Menn leggja á sig mikið erfiði til þess eins að standa frammi fyrir örlögum sínum. Eða mæna sem dáleiddir á sjónvarpsskjáinn sem stöðugt býður upp á lýsingar af háska og huldri framtíð sem bíður við næsta götuhorn!
Óttinn birtist hvar sem er. Hundarnir sem nágrannar mínir eiga það til að æða geltandi á girðinguna er einhver kemur þar nærri. Þeir eru með þennan beyg í genum sínum sem gerir þá fullvissa um að vegfarendur vilji vinna heimili þeirra mein. Tölvan mín er forrituð til þess sama. Sjálfur er ég löngu hættur að veita því athygli þegar hún varar mig við einhverju – að nú þurfi ég að hlaða niður einhverjum hugbúnaði því ella geti ógn og skelfing dunið yfir harða diskinum og öllu því sem þar er að finna. „Tölvan þín gæti verið í hættu stödd!” segir hún er ég kveiki á henni.
Óttablandnar aðstæður á skírdag
Við skynjum sjálfsagt mörg óttann sem er í loftinu þarna á skírdag að lokinni máltíðinni síðustu sem vettvangur guðspjalls dagsins. Svo margt óskiljanlegt, óljóst og engan veginn fengið þá uppfyllingu sem vonir höfðu staðið til. Svo margt eftir ónumið og ólært! Og nú, sjálf kveðjustundin runnin upp og var þó ekki ævintýrið rétt að byrja? Gat verið að tíminn hafi liðið svo hratt – þessi ógnvaldur alls sem er og lifir. Hvað myndi hann bera í skauti sér? Nóttin var að skella á: „Full af kvíða fyrir huldri framtíð“
Á gólfinu, bleyta, olíuflaska og klæði. Fætur lærisveinanna ilmandi hreinir og mjúkir. Einhver merkilegasta predikunin að baki. Orðlaus að mestu. Þar sem hann laut niður og þvoði fætur lærisveina sinna – þvoði af þeim rykið og bar olíu á fætur þeirra, þrátt fyrir mótmæli. Sýndi þeim um leið hlutverk sitt og stöðu mannsins gagnvart Guði. Og líkami þeirra sjálfsagt enn með vott af notalegri tilfinningu eftir fótþvottinn sem blandaðist þó furðu og vandræðagangi yfir því að hlutverkum hafði verið svo rækilega snúið og ótta fyrir því sem framundan var. Hvað yrði um þá þegar öll kurl væru komin til grafar.
Kristur talar inn í þessar aðstæður. Það eru orðin fögru og huggunarríku sem við lesum svo oft yfir þeim sem lifað hafa allar stundir sínar hér í þessu lífi og hvíla í faðmi Drottins. Hann skilur svo vel ótta þeirra og angist. Hann veit svo vel hversu margt þeir eiga eftir að upplifa og ekki síst hvernig þeir eiga eftir að mæta takmörkum sínum þegar óttinn tekur öll völd og hver er sjálfum sér næstur. Orðin eru hlý og þau fela í sér mikinn styrk: „Hjarta yðar skelfist ekki“ segir Kristur.
Traustið
Kristur talar með þeim hætti sem sá einn gerir er getur sett sig í spor náungans. Það er þessi fullvissa og þessi styrkur sem þeir þurfa svo mjög á að halda sem skín út úr orðum hans. Jú, vissulega hrökk hún skammt á þeim tímum sem framundan voru. Þegar Pétur sjálfur átti eftir að afneita honum og hópurinn hlaupa sundraður í felur hver sem betur gat. Tómas, efasemdarmaðurinn sjálfur, sættir sig ekki við þennan boðskap þegar skjótra aðgerða er þörf. Hann er fulltrúi hins rökrétta. Hann er maður efans. Hvað á það að þýða að tala um veginn sem þeir þekkja. Hvað vita þeir núna? Líður þeim ekki eins og Sókratesi forðum sem var svo sannfærður um fávisku sína – og þótti fyrir vikið skara framúr öðrum Aþenubúum fyrir það hve vitur hann var!
En orðin lifðu og í fyllingu tímans rann það upp fyrir þeim hver þau voru. „Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.“ Kristur talar um þær aðstæður þar sem óttinn gagnast hvergi. Hann talar um hið tímalausa, eilífðina, lífið í ríki Guðs. „Hjarta yðar óttist ekki“, segir hann, „Trúið á Guði og trúið á mig.“ Í krafti þeirrar trúar getum við öðlast sátt við okkur sjálf og það sem okkar bíður. Hann vill að við sigrumst á þeim ótta sem mætir okkur gagnvart þeim aðstæðum sem eru ekki á okkar hendi að sigra og breyta. Það sem er í hendi Guðs. Sá óseðjandi ótti sem við reynum þó að kalla fram og yfirvinna í þörf okkar eftir háska og skaðvænlegum aðstæðum er andlag orða Krists.
Hinn eðlilegi vettvangur óttans
Það er hinn stöðugi uggur sem eitrar líf okkar við látum hann dafna og vaxa í hjartanu. „Full af kvíða, fyrir huldri framtíð“ syngjum við og orðum með því umhyggju foreldranna og allra þeirra sem standa að litlum og dýrmætum einstaklingi sem borinn er til skírnarlaugarinnar. Og bætum við: „Leggjum vér vort barn í þínar hendur. Blessun skírnar ein fær veitt oss styrkinn“.
Kristur orðar það svo að í húsi föður hans séu margar vistarverur. Sjálfsagt birtast falleg og fjölbreytt salarkynni í hugskoti margra okkar við lestur þess texta. En Kristur bendir með þessum orðum á það að við eigum ekki að leggja stund á þau ótakmörkuðu vísindi að reyna að skilja þau undradjúp sem þar bíða okkar. Nei, þar leggjum við fram hendur okkar í trausti. Við höfum séð hvernig Kristur starfar og sú lífgefandi þjónusta lýsir því best hvernig Guð er. Sá sem leggur sig eftir því að fylgja Kristi og læra af verkum hans hann veit hvernig Guð er og starfar.
Og hann lætur ekki hugfallast. Eða eins og postulinn segir: „Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður…Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.“
Blessunin veitir styrkinn
Blessunin veitir okkur styrkinn. Við greinum á milli þess sem við getum ráðið við og hins sem trúin ein veitir okkur fullvissu um og glæðir líf okkar nýjum tilgangi og merkingu. Umhyggjan fyrir okkar nánustu og lífsvilji okkar birtist stundum í kvíða fyrir því sem hulið er í þoku hins ókomna. Það er eðlilegt og jafnvel lofsvert. En kvíðatilfinningin fyrir því sem okkur hefur verið búið í ríki hins almáttuga Guðs er óþörf. Kristur hefur sigrað. Trúin sigrar og kristinn maður mætir Guði sínum með æðruleysi og styrk.