Namibía og við

Namibía og við

Við lærum hvað við erum að gera í norðri sem hefur áhrif á þau sem búa í suðri og öfugt og sá lærdómur er gríðarlega mikilvægur. Við lærum hvað kirkjur annarstaðar í heiminum eru að gera sem virkar vel og lærum af mistökum annarra. Hugmyndir fæðast og sjóndeildarhringurinn víkkar.

Ég stóð í röð á flugvellinum í Frankfurt og beið þess að komast um borð í flugvél sem var á leið til Windhoek í Namibíu. Ég tók eftir því að fyrir framan mig stóð maður sem starði á vegabréfið mitt. Hann leit svo á mig og sagði ,,frænka mín sagði að ég ætti að heimsækja Ísland einhverntíman, hefuru komið til Namibíu áður? Ísland á víst að vera mjög líkt Namibíu”. Í alvöru, ansaði ég? En áhugavert, ég hafði aldrei áður komið til Afríku og vissi því ekkert við hverju ég ætti að búast. Ég lenti í Windhoek klukkan 6, eftir 10 tíma næturflug, við sólarupprás í 20°C hita. Leigubílstjórinn spurði mig hvort mér væri ekki kalt, það væri svo hrikalega kalt þessa dagana, enda vetur í Namibíu. Ég var berfætt í sandölum og sólin var svo sterk að það lak af mér svitinn, hreint ekki kalt. Við keyrðum í 40 mínútur frá flugvellinum og á leiðinni sá ég marga tugi apa, ég sá villisvín, antílópur og allskonar dýr sem ég mun vonandi aldrei sjá á Íslandi, ég gapti á meðan að leigubílstjórinn blótaði öpunum sem eru víst óþolandi frekir. Líkindin blöstu ekki við! Ég spurði strákinn sem keyrði leigubílinn hvort hann væri búinn að vinna við það lengi. Hann sagði að hann hefði unnið við þetta í tvö ár, þetta væri mun skárra en að stela brauði á götunni, hann hefði að minnsta kosti eitthvað að gera á daginn þar sem hann ynni um 18 klukkustundir á sólahring til þess að eiga brauð ofan í fjölskylduna. Eitt augnablik skildi ég hversvegna það var kannski betra að stela, hann var greinilega heiðarlegur drengurinn.

Ég mætti á hótelið þar sem Heimsþing Lútherska heimssambandsins var haldið í tólfta sinn. Inni í þingsal voru nokkur hundruð manns í Biblíukennslu að fræðast um þema annars dagsins, humans – not for sale, eða manneskjur eru ekki til sölu. Það hlustuðu allir með svo miklum áhuga að ég áttaði mig strax á því að þessi ferð ætti eftir að breyta mér. Þema þingsins í ár voru þrjú og fjölluðu öll um það að við öll séum frelsuð fyrir náð Guð, (e. liberated by Gods grace). Þema fyrsta dagsins var Hjálpræðið – ekki til sölu (e. salvation not for sale), annars dagsins Manneskjur – ekki til sölu (e.humans not for sale) og þriðja dagsins Sköpunin - ekki til sölu (e.creation not for sale). (Frétt um hvert þema fyrir sig kemur innan skamms. )

Hver dagur byrjaði á helgistund þar sem þema dagsins var tekið fyrir í bænum, lestrum og söng. Síðan var Biblíukennsla þar sem þemað var fléttað inn í kennsluna, en hver Biblíukennslustund endaði á því að viðstaddir mynduðu fjögurra manna hóp og ræddu spurningar sem fyrirlesari setti fyrir. Þarna skipti máli að velja sér sæti einhverstaðar úti í sal þar sem maður sat helst sem lengst frá norðurlandabúum og sem næst þeim sem búa lengst í burtu, því þannig lærir maður mest. Næst á dagskrá hvern dag var fyrirlestur sérfræðinga um þema dagsins og í kjölfarið svokallaðar ,,village groups”, þar sem öllum þátttakendum var skipt í um það bil 20 manna hópa með einum hópstjóra, hittust og ræddu þema dagsins út frá sjónarhorni þeirra veruleika. Í þessum hópum fæddist alveg ótrúlegt samtal sem opnaði augu manns fyrir veruleikanum sem blasir við úti í hinum stóra heimi. Að ræða umhverfismál og baráttu fyrir jafnrétti við fólk frá Austur- og vestur Evrópu, Asíu, Afríku og norður- og suður Ameríku var ótrúlegt, og fékk mig til þess að átta mig betur á mínum eigin raunveruleika. Eftir hádegismat var haldið áfram með þema- vinnu þar sem allskonar hópavinna fór fram, fólk hafði tækifæri til þess að kynna starfið í sinni heimakirkju og við fengum kynningu á alls konar starfsemi tengdri þema dagsins. Seinni partur dags einkenndist svo af fundum og umræðum langt fram á kvöld þar sem skilaboð þingsins voru mynduð.

Þann 14. maí var mikil hátíð á Sam Nujoma leikvanginum í Windhoek þar sem 500 ára afmæli siðbótarinnar var fagnað með heimamönnum. Þriggja klukkutíma guðsþjónusta þar sem við fengum að heyra vitnisburði frá öllum heimsálfum sem endaði sem hátíð sem einkenndist af afrískum söng og dansi.

Lútherska heimssambandið gerir fólki úr öllum heiminum kleift að koma saman, þar sem allir eru jafnir, allir eru skapaðir og frelsaðir fyrir Guðs náð, og ræða um mál sem brenna á heimsbyggðinni hverju sinni. Vandamál sem blasa við allstaðar í heiminum. Við lærum af hvoru öðru. Við lærum hvað við erum að gera í norðri sem hefur áhrif á þau sem búa í suðri og öfugt og sá lærdómur er gríðarlega mikilvægur. Við lærum hvað kirkjur annarstaðar í heiminum eru að gera sem virkar vel og lærum af mistökum annarra. Hugmyndir fæðast og sjóndeildarhringurinn víkkar.

Eftir viku í Namibíu var förinni heitið heim, 10 tíma næturflug framundan og við mættum á flugvöllinn við sólarlag. Ég leit upp í himininn og sá stjörnurnar og mér varð hugsað til þess að ég væri ennþá bara á jörðinni þó að mér hefði stundum liðið eins og ég væri á tunglinu. Ég stóð undir sömu stjörnum og fólkið á Íslandi og þó að sólin snúist í öfuga átt við það sem við þekkjum í Namibíu, þá er það samt sama sólin og skýn á fólkið mitt heima á Íslandi. Líkindin eru auðvitað til staðar, við erum bara öll hluti af þessari sömu jörð sem við deilum. Við erum öll sköpuð fyrir náð Guðs, það er alveg sama hvar við erum stödd í heiminum.