Ástundum það sem kristnu nafni er samboðið

Ástundum það sem kristnu nafni er samboðið

Með Tómasi spyr sig margur: Hvaða stefnu á ég að taka í lífinu? Hvaða leið er mér til heilla? Og með Filippusi andvarpa hjörtun: Mig langar að sjá Guð, finna Guð, vita að hann er til.

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“ Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“ Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna. Jóh 14.1-11

Á Menntadegi presta, sem haldinn var í Neskirkju síðastliðinn mánudag, bar ýmislegt á góma. Prestar, djáknar og fleira áhugasamt fólk fræddist um persónumörk og hlutverkamörk, um fagleg vinnubrögð í viðkvæmum sálgæslumálum og hugmyndafræði sem kallast þjónandi forysta eða servant leadership á ensku. Þá var farið yfir nýjar leiðir í boðunarstarfinu og prestar hvattir til að vera virkir á Facebook, Twitter og öðrum samskiptasvæðum á netinu, en á annað hundrað þúsund Íslendinga nota slíkar síður.

Megum við vera mennsk? Eitt af því sem vakti mig til umhugsunar þennan lærdómsríka og sólríka dag í vesturbæ Reykjavíkur var hin sígilda athugasemd um að prestar væru líka mennskir eins og allir aðrir. Var þar meðal annars átt við að okkur prestunum eru auðvitað takmörk sett, bæði hvað varðar vinnuálag og líka tilfinningaþrek, og stundum þurfum við á því að halda að taka af okkur kragann og klæðast þægilegri flíkum! Ég hugsa stundum til starfsbræðra minna frá fyrri tíð sem voru bæði prestar og bændur – en sú samsetning er nú hverfandi - og fengu ákveðna tilbreytingu með því að taka duglega á í girðingarvinnu og heyskap inn á milli, anda að sér útilofti og finna mold á milli fingra.

Hitt er annað að presturinn tekur sér auðvitað ekki frí frá því að vera kristinn. Víst erum við öll mennsk en við erum fyrst og fremst kristnar manneskjur og það skyldi móta líf og framgang í hvívetna.

Hin sanna mennska Í kollektu dagsins, bæninni sem beðin er á undan ritningarlestrunum, er áhersla lögð á einmitt þetta atriði: Gef öllum þeim sem játast undir kristið nafn, að hafna öllu, sem andstætt er því nafni, og ástunda það sem því er samboðið.

Þetta ætti að vera okkur öllum til umhugsunar: Að hafna öllu sem andstætt er kristnu nafni. Að ástunda það sem kristnu nafni er samboðið. Hvernig gengur okkur það frá degi til dags? Hvernig förum við að því?

Það krefst stöðugrar umhugsunar. Það krefst þess að við séum reiðubúin að mótast til þeirrar guðsmyndar sem við erum sköpuð í og Jesús Kristur endurreisti í okkur með sigri sínum yfir öllu því sem afskræmir þá mynd. Það gerir þær kröfur til okkar að við leyfum heilögum anda Guðs að virka í öllu sem við segjum, erum og gerum. Hin sanna mennska er gjöf Guðs fyrir Jesú Krist og gefst fyrir bæn.

Þetta ferli er kallað helgun. Heilagur andi Guðs kemur því til leiðar í lífi okkar að við séum sjálfum okkur samkvæm – að við lifum í samræmi við orð Guðs og ætlun.

Hvers vegna gjörið þið ekki sem hann bauð ykkur? Í setningarræðu sinni á nýafstaðinni prestastefnu í Kópavogi komst biskup Íslands meðal annars svo að orði (sjá ræðuna á www.kirkjan.is):

Nú um jólin kom út stórmerk bók eftir Árna Bergmann og nefnist „Glíman við Guð.“ Þar vitnar hann í Karl Barth sem fjallar um guðleysi Vesturlanda síns tíma: „Það guðleysi, segir Barth, sem er hinn raunverulegi óvinur er „kristni“ þeirra manna sem játa trú á Guð eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut en lifa í hugsun og athöfn eins og enginn Guð sé til. Þar með er Guð orðinn eins og gömul mubla sem eigandinn vill ekki losa sig við en hefur engin not fyrir, eða réttara sagt: gætir þess vel að nota ekki því það gæti verið óþægilegt, ef ekki hættulegt”. Sömu hugsun setur Nóbelsskáldið þýska, Heinrich Böll fram í skáldsögu sem segir frá heimkomu landflótta manns til Þýskalands eftir stríð. En hann spyr: „Fyrst þið trúið á hann (þeas Krist) hvers vegna gjörið þið ekki sem hann bauð ykkur?“

Þetta eru sannarlega orð sem við hvert og eitt þurfum að íhuga og skoða okkar eigin líf í ljósi þessarar spurningar: Geri ég það sem hann bauð mér? Er ég samkvæm sjálfri mér – og Guði?

Með og á móti Hvað er þá andstætt kristnu nafni? Hverju eigum við að hafna? Á sama hátt þurfum við að spyrja: Hvað er samboðið kristnu nafni? Hvað er það sem við eigum að ástunda?

Ég gæti gert hér tvo minnislista, langa lista sem ég í mínum takmarkaða skilningi, byggðum á orði Guðs, Biblíunni, sé sem andstæðu annars vegar og hins vegar samfellu við kristna trú. Það gæti verið gagnlegt fyrir sjálfa mig og kannski ykkur, en listinn verður seint tæmdur og fyllist út jafnóðum og við mætum áskorunum lífsins.

Augljóslega er allt sem vinnur gegn lífinu andstætt kristnu nafni. Lífið er heilagt og hver einstaklingur á rétt til mannsæmandi lífs. Arðrán og græðgi hverskonar, sem ávallt er á kostnað annarra, fellur t.d. þar undir.

Það sem við eigum að ástunda er þá allt sem styður lífið, það sem hlúir að hinu viðkvæma og veika, það sem vekur von og kærleika, allt sem stuðlar að virðingu og viðreisn sköpunar Guðs. Hagsmunaárekstrar Stundum er sem eitthvað stangist á. Það verða hagsmunaárekstrar. Sumt kristið fólk er t.d. meðfylgjandi virkjunarframkvæmdum af því að þær veita fólki vinnu sem er auðvitað lífsgrundvöllurinn í hinu veraldlega lífi. Annað kristið fólk er andsnúið öllu því sem spillir umhverfinu af virðingu við náttúruna og komandi kynslóðir. Þetta eru tvö sjónarmið sem auðveldlega má færa rök fyrir út frá kristnu lífsviðhorfi. Þarna reynir á samvisku hvers og eins, upplýsta af orði Guðs, Biblíunni, og innsæinu sem heilagur andi gefur.

Í okkar daglega lífi geta líka orðið slíkir árekstrar. Þá þurfum við biðja Guð um að sýna okkur rétta leið svo að við vitum hvað er mikilvægast. Við foreldrar ungra barna og unglinga þekkjum t.d. vel togstreituna sem stundum skapast þegar við reynum að sinna störfum okkar af vandvirkni og á sama tíma að vera börnunum sú kjölfesta sem okkur er ætlað að vera. Hvort tveggja útheimtir tíma og umhyggju og eigi eitthvað undan að láta ætti það að vera vinnan - vonandi ekki börnin.

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið segir Jesús Kristur við lærisveininn Tómas í guðspjalli dagsins. Tvær spurningar eða athugasemdir venjulegs fólks eru það sem samtalið snýst um, spurning Tómasar og bón Filippusar.

Tómas spyr: Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn? Filippus biður: Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.

Bæði birta þessi innskot tilvistarlegar vangaveltur venjulegs fólks. Með Tómasi spyr sig margur: Hvaða stefnu á ég að taka í lífinu? Hvaða leið er mér til heilla? Og með Filippusi andvarpa hjörtun: Mig langar að sjá Guð, finna Guð, vita að hann er til.

Þrá manneskjunnar eftir æðri mætti, einhverju að reiða sig á, birtist á ótal vegu. Við sáum það til dæmis á fréttum í gær af gríðarlegum mannfjölda í Háskólabíói sem vildi hlýða á boðskap bandaríska leikstjórans David Lynch um innhverfa íhugun eða TM – Transcendental Meditation. Á tímum sem þessum, þegar margir eru vondaufir og finna til undan vanmætti sínum gagnvart erfiðum kringumstæðum, eiga tilboð um töfralausnir greiðan aðgang að fólki.

Ég er ekki andsnúin því að fólk taki frá tíma daglega til að kyrra huga sinn, þvert á móti. Við þurfum bara að gæta að því hvað það er sem við fyllum hugann af þegar hann tæmist af stressi og áhyggjum, eins og raunverulega gerist þegar við gefum okkur tóm til bænar. Ekkert er betur til þess fallið en orð Guðs að fylla okkur af sönnum, andlegum verðmætum, af þeirri nærveru sem sál okkar þráir.

Sæll er sá sem... hefur yndi af leiðsögn Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki. Allt, sem hann gerir, lánast honum.
Sálm 1.1-3

Taizé-messur í Háteigskirkju Fastur liður í starfi margra safnaða um allt land eru fyrirbænamessur og kyrrðarstundir með ýmsu sniði. Af starfinu hér í Háteigskirkju langar mig að nefna sérstaklega Taizé-stundirnar sem í á annan áratug hafa verið á sínum stað á fimmtudagskvöldum, síðari árin kl. 20, allan ársins hring.

Um kyrrðina sem er kjarni þeirra stunda, ásamt með mildum og nærandi söngvum, segir á heimasíðu hins samkirkjulega Taizé-bræðralags, www.taize.fr:

Það er erfitt að lýsa samfélagi okkar við Guð með orðum. En djúpt í veru okkar biður Kristur í heilögum anda á máttugri hátt en okkur er unnt að skilja.

Guð þráir að eiga samtal við okkur, en hann ryðst aldrei inn í líf okkar. Rödd Guðs heyrum við oft sem blíðan vindblæ, kyrrlátan andardrátt. Að sitja í kyrrð í nærveru Guðs, opinn fyrir heilögum anda hans, það er í sjálfu sér bæn.

Vegurinn til sjálfsþekkingar snýst ekki um að ná innri kyrrð, hvað sem það kostar, með einhverri sérstakri aðferð sem kann að skapa innri tómleika. Ef við þess í stað erum einlæg eins og börnin og leyfum Kristi að biðja í okkur munum við komast að raun um að djúpt í veru okkar er Nærvera Guðs.

Við þurfum að hafna öllu sem andstætt er nafni Krists sem okkur er gefið og ástunda það sem því er samboðið. Bæn okkar á að vera bæn í Jesú nafni, kyrrð okkar falin Guði, kærleiksverk okkar knúin áfram af heilögum anda Guðs, siðgæðisþrekið mótað af honum, sem er Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Samskot til Einstakra barna Hér í Háteigskirkju eru tekin samskot í hverri messu, eins og gert er á nokkrum stöðum í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og víðar. Þar er fylgt venju allt frá tímum postulanna, eins og við lesum t.d. í Postulasögunni 2.45: Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.

Í maí er safnað til Einstakra barna hér í Háteigskirkju. Á heimasíðu félagsins, www.einstokborn.is, má lesa um tilgang þess, en það hefur verið starfandi í tólf ár:

Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar.

Þeir sjúkdómar og skerðingar sem börn og ungmenni félagsins lifa með eru allir langvinnir og hafa varanleg áhrif á líf þeirra og fjölskyldur. Þar sem um sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða hafa margir þeirra lítið verið rannsakaðir og í fæstum tilfellum er til eignleg meðferð við þeim. Allir sjúkdómarnir eru alvarlegir og hafa sumir áhrif á lífslíkur og lífsgæði. Sumir sjúkdómarnir eru það sjaldgæfir að aðeins örfá tilfelli eru til í heiminum. Nokkur börn í félaginu eru með enn sjaldgæfari sjúkdóma og hafa ekki fengið neina staðfesta sjúkdómsgreiningu þrátt fyrir ítarlega leit.

Með því að styðja starf þessa félags og annarra ámóta sýnum við sem sækjum kirkju trú okkar í verki og stuðlum að betra mannlífi fyrir breiðan hóp fólks. Hjálparstarf kirkjunnar er að sjálfssögðu líka fastur liður í samskotum safnaðanna, sem og söfnun til handa dóttursöfnuðum íslensku kirkjunnar í Afríku.

Gefum með okkur og verum það sem við erum kölluð til að vera, kristnar manneskjur, full sannfæringar þess að þeir sem sá með tárum muni uppskera með gleðisöng, Sálm 126. Mætti líf okkar færa fram verk Guðs svo þau sem ekki fá trúað orðunum geti trúað vegna sjálfra verkanna, Jóh 14.

Leyfum að lokum orðum Jesú í guðspjalli dagsins að næra sál okkar. Hann segir við þig sem hlustar hér í Háteigskirkju í dag og þig sem situr við útvarpið eða tölvuna – já líka þig sem lest þessa prédikun á www.tru.is:

Hjarta þitt skelfist ekki. Trúðu á Guð og trúðu á Jesú Krist, hinn eina veg, því enginn kemur til föðurins nema fyrir hann. Í honum er allt það fólgið sem hjarta þitt þráir. Hann mun sýna þér hvaða stefnu þú átt að taka í lífi þínu, vísa þér veginn til heilla, já veginn til Guðs, þar sem þú færð dvalið í friði allar stundir lífs þíns, þó á ýmsu gangi í hinu ytra, og leiða þig inn í hinn eilífa frið þegar stund þín kemur.

Guð veri með þér.