Svo lýsi stjarna barnsins heimsins myrk upp skúmaskot

Svo lýsi stjarna barnsins heimsins myrk upp skúmaskot

• Jesús Kristur er Immanúel, "Guð með oss," • Jesús Kristur er góði hirðirinn, hinn réttláti friðarhöfðingi þjóðar sinnar, • Jesús Kristur er Guðs elskaði sonur.

Þessi er boðskapurinn sem höfundar fæðingarfrásagna Matteusar- og Lúkasarguðspjalls vilja miðla í frásögnum sínum af getnaði Jesú fyrir heilagan anda og fæðingu hans af Maríu mey.

 Tilgangur guðspjallamannanna með ritun fæðingarfrásagnanna er ekki að segja frá því hvernig atburðir áttu sér stað í raun, heldur að segja frá því hver Jesús er. Þetta sést einfaldlega á því að frásögnum Matteusar og Lúkasar ber ekki að öllu leyti saman, sem markast af því að höfundarnar nota mismunandi atriði til að undirstrika að Jesús sé sá frelasari sem gyðingaþjóðin hafði beðið eftir í árhundruð.  Þetta er niðurstaða Biblíufræðinga nútímans sem sjá líkindi við aðrar frásagnir af öðrum fæðingum mikilmenna fornaldar sem til var stofnað með undraverðum hætti og komu í kring við óvenjulegar aðstæður. En ef það er svo, þá gildir það sama um þær frásagnir; að þeim var ætlað að tjá hve merkileg viðkomandi persóna var. Oft var það eflaust með réttu að einhverjum var lyft á stall en oft hefur ævintýralegum frásögunum verið ætlað að gera meira úr verðleikum aðalsöguhetjanna en efni stóðu til.

Var um tilhæfulausa upphafningu Jesú að ræða í fæðingarfrásögum guðspjallamannanna? Svarið hlýtur að vera: Nei, hún var ekki tilhæfulaus. Það var ekki að ástæðulausu að guðspjallamennirnir töldu það Jesú sæmandi að hefja frásögnina af verkum hans með því að segja frá undraverðri komu hans í þennan heim. Undrið fólst í yfirnáttúrulegum getnaði hans, þ.e. hvernig heilagur andi kveikti líf í legi Maríu, sem aldrei hafði verið við karlmann kennd.

Jesús hafði við ýmis tækifæri gefið í skyn einstök tengsl sín og Guðs, annars konar en tengsl Guðs og manna almennt sem eru tengsl skapara og sköpunar hans. Jesús talar um sig sem son Guðs, ekki eins og maður talar um mennina sem börn Guðs heldur eins og hann sé sá eini. Þessi tengsl Sonarins og Föðurins eru svo náin að hann getur leyft sér að segja: „Ég og faðirinn erum eitt.“ Gyðingar litu á þetta sem guðlast og vildu grýta hann en hann svaraði þeim: „Ef ég vinn ekki verk föður míns skuluð þér ekki trúa mér en ef ég vinn þau þá trúið verkunum þótt þér trúið mér ekki svo að þér skiljið og vitið að faðirinn er í mér og ég í föðurnum.“

Jesús er í föðurnum, Guði, og faðirinn er í Jesú; ekki aðeins á táknrænan hátt eins og þegar Páll postuli fer fram á það við kristna menn að þeir íklæðist Kristi - eins og hann orðar það - með því að fara að hans vilja, heldur á miklu raunverulegri máta. Jesús og Guð faðir eru eitt frá upphafi; Jesús er í eðli sínu samur föðurnum. Jóhannes guðspjallamaður reynir að tjá þennan sannleika með því að skrifa: „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ en skömmu áður í textanum, í upphafi guðspjallsins, lýsir hann Orðinu þannig: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.“ Jóhannes notar heimspekileg hugtök og málfæri til að varpa ljósi á það sem Matteus og Lúkas reyna að tjá með því að hjúpa sögurnar af fæðingu Jesúbarnsins helgiljóma. Þeir reyna ekki að útskýra eða greina nákvæmlega  hvernig tengslin á milli Jesú og Guðs eru; það sem skiptir þá máli er að Jesús er frelsari mannanna, hinn heilagi sonur Guðs. Þessi skilningur nægir Jóhannesi ekki; hann sér sig knúinn til þess að skilgreina með hugtökum, þekktum úr grískri heimspeki, nákvæmlega hvernig sambandi Jesú við Guð er háttað. Guðspjallamanninn Jóhannes má því að sönnu kalla einn fyrsta guðfræðing kristinnar kirkju.

Jóhannes vitnar þar um að í manninum Jesú hafi hvorki meira né minna en Guðs eilífa hugsun og speki tekið á sig mannlega mynd. „Orðið“ er hið skapandi orð Guðs, sem liggur sköpun allra hluta til grundvallar og því má segja að í Jesú sjáum við hvernig grundvallarlögmál heimsins, sköpunarinnar, skuli birtast í samfélagi manna. Í einu orði má tjá það lögmál með orðinu „kærleikur“. Athugum samt að þá erum við að tala um kærleika víðari skilningi en svo að hann merki bara jákvæðar tilfinningar gagnvart öðrum. Í kærleikanum rúmast í raun allar helstu dyggðir manna: Traust, trúmennska, ábyrgð, þakklæti og fórnfýsi svo eitthvað sé nefnt. Fyrri hluti tvöfalda kærleiksboðorðsins setur fram eðlilegustu kröfu sem hægt er að hugsa sér, að maðurinn sem sköpuð vera elski skapara sinn, sem felur í sér þakklæti fyrir þá óskiljanlega stórkostlegu gjöf sem lífið er og kröfu um að vera honum trúr. „Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð“ segir Kristur. Öðlist maður þessa náð, að fá elskað Guð í þeim skilningi sem Jesús meinar, þá leiðir óhjákvæmilega af því uppfylling seinna boðorðsins: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“. Því er náungi okkar ekki einnig Guðs sköpun? Hefur hann ekki einnig fengið lífið að gjöf frá Guði? Hvernig ættum við þá að geta litið hann öðrum augum en okkur sjálf? 

 Ef kærleikurinn er grundvallarlögmál sköpunar Guðs, þá er ljóst að mannleg tilvera er oft og tíðum í mótsögn við það lögmál, þar sem ofbeldi, hatur og óeiningu er að finna á öllum sviðum tilverunnar. Þessa staðreynd kallar biblíuleg trú „synd“ en að syndga merkir í raun „að missa marks“ og getur átt við um ör úr boga bogmanns. Þegar kristin guðfræði talar um að maðurinn eða heimurinn sé syndugur er hún einfaldlega að benda á þessa grundvallarstaðreynd að manninum virðist fyrirmunað að lifa eftir lögmáli kærleikans sem Guð hefur lagt sköpun sinni til grundvallar.

 Vantrúarmenn, sem nú um stundir berjast hatrammri baráttu gegn trúarbrögðum og ekki síst kristni, hér á landi sem erlendis, trúa þeirri firru að allt illt í heimi hér myndi hverfa, bara ef trúarbrögð yrðu upprætt. Þessu hafa hámenntaðir forvígismenn vantrúaraflanna haldið fram. Hér er á ferðinni svo einfeldningsleg sýn á mannlega tilveru að hún er varla svaraverð. Eða eru nokkur dæmi þess að eigingirni, græðgi, hatur eða nokkuð það sem plagar mannheima, sé ekki til staðar í mannlegu samfélagi? Trúarbrögð voru illa séð í Sovétríkjunum og ríkið gerði hvað það gat til að uppræta þau. Sama var að segja um Austur-Þýskaland. Samt fóstruðu bæði ríki alræðiskerfi kúgunarinnar. En hvar var ljósið fóstrað í því myrkri og hvar var voninni viðhaldið í vonlausum aðstæðum? Hvar nema í kirkjunni!

Í myrkri kúgunar og ofbeldis lýsti Betlehemstjarnan hinum kúguðu að jötu Jesúbarnsins og það sem Jesaja sagði fyrir um rættist: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós!“ Og það gerist alls staðar um allan heim, stöðugt, því þörfin fyrir ljós Jesúbarnsins er alls staðar söm, því alls staðar er einhvers konar kúgun, einhvers konar ofbeldi að finna, alls staðar eru skúmaskot sem þyrfti að lýsa upp með ljósinu sem stafar af jötu barnsins í Betlehem. Megi Guð gefa að kristin kirkja haldi áfram að dafna og eflast svo fagnaðarerindi Jesú Krists breiðist út og verði að veruleika með öllum mönnum. Amen.