Breytingartillaga við frumvarp um skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga

Breytingartillaga við frumvarp um skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga

Þó svo að við styðjum í megindráttum það frumvarp sem nú liggur fyrir varðandi skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga gerum við enn alvarlegar athugasemdir við eitt grundvallaratriði í því, þ.e. þá aðgreiningu sem þar er gerð á trúfélagi og lífsskoðunarfélagi.

Þó svo að við styðjum í megindráttum það frumvarp sem nú liggur fyrir varðandi skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga gerum við enn alvarlegar athugasemdir við eitt grundvallaratriði í því, þ.e. þá aðgreiningu sem þar er gerð á trúfélagi og lífsskoðunarfélagi.

Djúpstæður ágreiningur er um það meðal ólíkra félagasamtaka og hreyfinga hversu þröngt eða vítt beri að skilgreina trúarhugtakið og er það meðal helstu viðfangsefna almennra trúarbragðafræða að greina þann ágreining. Þannig kjósa ýmis félög að skilgreina sig sem trúfélög meðan önnur sverja af sér öll trúartengsl og kalla sig eingöngu lífsskoðunarfélög enda þótt innan almennra trúarbragðafræða séu þau greind sem trúfélög af fjölda trúarbragðafræðinga.

Það eru sjálfsögð réttindi viðkomandi félaga að fá að skilgreina sig annað hvort sem trúfélög eða lífsskoðunarfélög út frá eigin forsendum. Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisvaldsins að festa í lög hvernig greina beri á milli slíkra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og skilgreina þar með trúarhugtakið.

Þess í stað nægir að fram komi í lagatextanum hvaða skilyrði þau félög þurfi að uppfylla til að geta hlotið skráningu sem ýmist kjósa að skilgreina sig sem trúfélög eða lífsskoðunarfélög. Þessi skilyrði ættu m.a. að vera þau að félagið byggist á lífsskoðunum og siðferðisgildum sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur og varða átrúnað, trú eða guðleysi og að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir, nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.

Aðeins þau félög sem uppfylla þessi og önnur tilgreind skilyrði í lagatextanum eiga að geta fengið skráningu alls óháð því hvort þau kjósi sjálf að kalla sig trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Með öðrum orðum þá gerir ríkisvaldið ákveðnar kröfur til þeirra félaga sem hljóta skráningu en það er undir félögunum sjálfum komið hvort þau kalli sig trúfélög eða lífsskoðunarfélög.

Hafa ber í huga að öll þau atriði sem tilgreind eru í frumvarpinu sem sérkenni lífsskoðunarfélaga eru einnig einkenni trúfélaga út frá forsendum almennra trúarbragðafræða. Færa má rök fyrir því að þær lífsskoðanir sem t.d. kristnir eða islamskir trúarhópar aðhyllast séu í grundvallaratriðum veraldleg. Öll trúfélög miða starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt. Og öll trúfélög fjalla um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Sú aðgreining sem gerð er milli trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í frumvarpinu stenst því ekki fræðilega skoðun.

Breytingartillaga okkar að 3. gr. frumvarpsins er eftirfarandi:

3. gr. Almennt skilyrði skráningar.

Skilyrði fyrir skráningu félags sem skilgreinir sig sem trúfélag eða lífsskoðunarfélag er að um sé að ræða félag sem byggist á lífsskoðunum og siðferðisgildum sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur og varða átrúnað, trú eða guðleysi.

Enn fremur er það skilyrði skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem tekur þátt í starfsemi þess og styður lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Þá er það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir, nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.