Baráttudagur gegn fátækt

Baráttudagur gegn fátækt

Það er enn þannig að fátækir verða fátækari og ríkir ríkari. Hvers vegna breytist það ekki? Er það eitthvert náttúrulögmál? Nei, það er það ekki. Þessu er hægt að breyta og það skulum við gera með því að berjast og standa saman.
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Sverrisdóttir
17. október 2010
Flokkar

1. ritningarlestur Sálm.104. 27-28,30.33. Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum. Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til og þú endurnýjar ásjónu jarðar. Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

2. ritningarlestur 2. Kor. 8.1-9 En svo vil ég, bræður mínir og systur skýra ykkur frá þeirri náð sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu. Þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem þeir hafa orðið að reyna hefur hin ríka gleði þeirra leitt í ljós hve örlátir þeir eru þrátt fyrir sára fátækt. Ég get vottað það hversu þeir hafa gefið eftir efnum, já, umfram efni sín. Af eigin hvötum lögðu þeir fast að mér og báðu um að mega taka þátt í samskotunum til hinna heilögu. Og þeir gerðu betur en ég hafði vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni og síðan mér að vilja Guðs. Það varð til þess að ég bað Títus að hann skyldi og leiða til lykta hjá ykkur þessa gjöf eins og hann hefur byrjað. Þið skarið fram úr í öllu, í trú, í mælsku og þekkingu, í allri alúð og í elsku ykkar sem ég hef vakið. Þannig skuluð þið skara fram úr í þessari gjöf. Ég segi þetta ekki sem skipun heldur er ég að ganga úr skugga um hvort kærleiki ykkar sé einlægur samanborið við ósérplægni annarra. Þið þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gerðist fátækur ykkar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þið auðguðust af fátækt hans.

Guðspjall Lúk. 3.10-14.

Mannfjöldinn spurði Jóhannes: „Hvað eigum við þá að gera?“ En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“ En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“ Hermenn spurðu hann einnig: „En hvað eigum við að gera?“ Hann sagði við þá: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“

Þurfamaður ert þú mín sál Þiggur af Drottni sérhvert mál Fæðu þína, og fóstrið allt Fyrir það honum þakka skalt Þetta er vers úr fyrsta Passíusálmi Hallgríms Péturssonar. Hann þekkti hvað var að skorta fæðu og það er kannski þess vegna sem honum finnst svo mikilvægt að þakka fyrir sérhverja máltíð. Hann þakkar Drottni fyrir það sem hann fær og lítur þannig á að hann fái lífsgæði sín úr hendi hans. Hallgrímur þekkti tímana tvenna og mörg okkar þekkjum sögu hans þegar hann barðist við fátækt og barnamissi. Í þeirri neyð ákallaði hann líka Guð og hver veit nema hann hafi verið Guði reiður mitt í neyð sinni og jafnvel efast um að hann væri til. En samt leitaði hann huggunar og styrks hjá Guði. Þegar ég hugsa um fátækt og skort hér á Íslandi þá hugsa ég til ömmu minnar, Ólafíu Eiríksdóttur. Hún átti 10 börn og afi fékk aðeins vinnu endrum og sinnum. Fátækt þeirra er ekki dregin fram hér til að segja að allt sé miklu betra núna og engin þurfi að kvarta. Það er að vísu rétt að ástandið hjá okkur er ekki jafn skelfilegt og var á fyrri hluta síðustu aldar og margt hefur verið gert til að bæta lífskjör efnalítils fólks. En hvorki þá né nú velur fólk sér fátækt sem lífsstíl eins og Hildur Eir Bolladóttir sagði í prédikun á Akureyri fyrir stuttu. En hugsið ykkur, það er staðreynd að ef þeir peningar sem eytt er í hernað væru notaðir til að seðja hungraða í heiminum þá væri ekki einn einasti maður svangur á þessari jörð. En lítum nú á þá Biblíutexta sem við höfum heyrt í dag. Þeir fjalla allir að einhverju leyti um líkamlega næringu, mat. Í fyrri ritningarlestrinum var sagt: „...þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma“ (Sálm. 104.27). Sá sem er ávarpaður er Guð og hann er sá sem gefur allri sköpuninni næringu svo lífið viðhaldist. Það er skondið að talað er um að Guð gefi öllum að borða á réttum tíma. Ekki veit ég nákvæmlega hvað er átt við en í dag er talað um að hollast sé að borða reglulega og með ákveðnu millibili. En það er ekki aðalatriðið. Aðalatriði að það er Guð sem gefur og það er verið að leggja áherslu á umhyggju Guðs fyrir öllu því sem hann skapar. Í sálminum er einnig sagt að Guð ljúki upp hendi sinni og að allir mettist af gæðum hans. Traustið til Guðs er óbilandi og það veitir öryggi. Bara að lífið væri svona fagurt og að sérhver manneskja á jörðinni hefði þessa reynslu. Í öðrum ritningarlestri er sagt frá kristnum söfnuði í landinu Makedóníu. Það kemur fram að fólkið þar er fátækt en engu að síður hjálplegt. Þegar það heyrir af hungursneyð hjá söfnuðinum í Jerúsalem skipuleggur það söfnun þeim til hjálpar. Fólkið þekkti ekki þau sem það hugðist hjálpa en Páll postuli hafði sagði þeim frá hungursneyðinni. Páll segir þau í Makedóníu örlát þrátt fyrir sára fátækt og hann segir „Ég get vottað það hversu þau hafa gefið eftir efum, já, umfram efni sín.“ (2.Kor.8.3) Síðan tekur Páll líkingu um Jesú Krist. „Hann gerðist fátækur ykkar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þið auðguðust af fátækt hans.“ (2.Kor. 8.9)

Eru þetta ekki hálfgerð öfugmæli? Er hægt að auðgast af fátækt einhvers? Hér er komið kjarnaatriði kristinnar trúar. Það er verið að segja okkur að við höfum auðgast af því að Jesú Kristur kom og gaf sig allan til að við gætum öðlast frelsi fyrir líf hans og dauða á krossi. Svipaðar andstæður eru á fleiri stöðum í Nýja testamentinu t.d. í sögunni af fátæku ekkjunni. Hún gaf örfáar krónur en margir gáfu mörg þúsund. En hvað sagði Jesús? Jú, að hún hefði gefið mest því hún gaf af skorti sínum en hinir gáfu af allsnægtum sínum (Lúk. 21.1-4). Það virðist vera stundum þannig í lífinu að þau sem hafa minnstu að tapa séu fúsust til að gefa. Hugum þá að guðspjallinu. Boðskapur þess er róttækur: „Ef þú átt tvær yfirhafnir gefðu þá aðra þeirra þeim sem enga á og ef þú átt mikinn mat gefðu þá þeim sem engan mat hefur.“ Boðskapur guðspjallsins er krefjandi – það segir okkur nákvæmlega hvað skal gera þegar einhver líður skort og annar á meira en nóg. Hugsið ykkur! Lífið hér á jörðu væri Paradís ef við færum öll eftir þessu. En getum við ímyndað okkur að þetta gæti orðið veruleiki hér hjá okkur? Við vitum vel að gæðum er misskipt þrátt fyrir að hér sé velferðarríki. Að mínu mati er hvatning Jesú sú alróttækast sem hefur verið sett fram. Ekki einum sinni róttækustu jafnaðarmenn hafa komist með tærnar þar sem Jesús hefur hælana. Þrátt fyrir alla þessa texta um mikilvægi matar segir Kristur: „Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman, heldur á sérhverju orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matt.4. 4, þýð. 1917). Maðurinn þarf meira en líkamlega næringu hann þarf líka andlega næringu. Það þarf að vera jafnvægi. Trú og verk þurfa líka að vera í jafnvægi. Kirkjan boðar okkur að sýna trú okkar bæði í orði og verki. Það er prédikað og það er stundað hjálparstarf. Máltækið látum verkin tala er hér í fullu gildi. Það er alltaf einhver hugsjón sem gerir það að verkum að fólk vill styðja náungann. Hugsjón og trú eru sterkir drifkraftar og við sem erum kristin vitum að fyrirmynd okkar er Jesús Kristur og orð hans um að sýna hvert öðru kærleika, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli 15.12. „Þetta er mitt boðorð að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.” Minnum okkur einnig á miskunnsama Samverjann. Það getur verið erfitt að halda úti í hjálparstarfi hvort sem það er á vegum einstaklinga eða kirkju. Án þess að fá endurnýjun og hvatningu frá helgihaldinu í kirkjunni og eigin helgihaldi þá er hætt á að við gleymum hvaðan drifkraftur kemur, hvaðan við höfum fengið hlutverk okkar til að þjóna náunganum. Ég sé þetta þannig fyrir mér að við förum í kirkju og uppbyggjumst í trúnni og heyrum boðskapinn um náð Guðs. Við göngum síðan út í hið hversdagslega líf með þann boðskap að þjóna Guði og mönnum og gera okkar besta til þess. Það er ekki sérlega auðvelt. Hjálparstarf kirkjunnar er til vegna þessa að það hefur verið prédikað að skylda okkar sé að styðja fólk í erfiðum aðstæðum. Í áratugi hefur fólki hér á landi verið hjálpað þó hugsanlega hafi starfið erlendis oft verið meira áberandi. Aðstoð er veitt um allt land. Hún felst í ráðgjöf, mataraðstoð, greiðslu fyrir lyf og stuðningi við börn og ungmenni vegna skóla og tómstunda. Ég vil nefna nokkrar tölur frá síðasta vetri því þær gefa okkur innsýn í hversu mikil aðstoð er veitt. 82 milljónum var varið til verkefna innanlands auk þess sem vörur voru gefnar að verðmæti um 8 milljónir króna. Mataraðstoð var veitt 5.074 fjölskyldum í 11.753 úthlutunum. Við getum verið stolt yfir þessu starfi og glöð yfir að fá að vera þátttakendur í því. Alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt er í dag og í ár er Evrópuár gegn fátækt og félagslegri útskúfun sem Evrópusambandi stendur að ásamt Noregi og Íslandi. Ég hafði aldrei heyrt minnst á tilvist þessa baráttudags fyrr en fyrir nokkrum mánuðum. Það talar sínu máli og segir okkur að núna fer það að skipta sköpum að berjast gegn fátækt í eigin landi. Mér brá þegar ég heyrði að 80 milljónir Evrópubúa lifðu undir lágmarkstekjumörkum. Þessi tala er svo há en almennt er þó talið að lífskilyrði í Evrópu séu góð. Þegar þessi tala er skoðuð betur sýnir sig að því austar og sunnar sem við förum í Evrópu því meiri fátækt. Við erum því á svæði þar sem fátækt hefur verið mjög lítil. Á Íslandi hafa um 10% íbúa lifað undir lágtekjumörkum. Þetta hlutfall er 17% í Evrópu sem heild. Við gætum farið að hreykja okkur upp af því að hér sé minni fátækt en annars staðar en við óttumst öll að það sé liðin tíð. Skyndilega eru margir að upplifa það í fyrsta skipti á ævinni að endar nái ekki saman. Við vitum ástæðuna og erum ósátt við hana. Samfélag okkar má ekki hrynja meira en orðið er. Við vitum þó að ekki eru til peningar til alls á næstu árum. Það ríkir hér mikið sundurlyndi og máltækið sameinuð stöndum við en sundruð föllum við virðist ekki vera til í orðabók ráðamanna. Það er enn þannig að fátækir verða fátækari og ríkir ríkari. Hvers vegna breytist það ekki? Er það eitthvert náttúrulögmál? Nei, það er það ekki. Þessu er hægt að breyta og það skulum við gera með því að berjast og standa saman. Þið hafið sjálfsagt orðið vör við greinaskrif um fátækt í fjölmiðlum um helgina. Í þeim og á neti kirkjunnar www.kirkjan.is er að finna margs konar umfjöllum um fátækt. Félagsmálaráðherra, Guðbjartur Hannesson, skrifar eins og fleiri og hvetur okkur til að taka þátt í baráttunni gegn fátækt. Mér finnst lokaorð hans mikilvæg en þar talar hann um vonina um að baráttan beri árangur. Höldum fast í vonina. Trúna. Vonina. Kærleikann. Félagsmálaráðherra segir:

„Við skulum öll ... nota daginn til að hugleiða hvað við getum lagt af mörkum í baráttunni. Til áminningar um þetta verður öllum kirkjuklukkum landsins hringt lengur en venja er. Við skulum hlýða á hljóm þeirra sem fyrirheit um árangursríka baráttu.