Ég hef rist þig í lófa mína

Ég hef rist þig í lófa mína

Markmiðið er ekki að losna algjörlega við áhyggjur heldur að hafa góða kjölfestu og rétta stefnu. Þá bíta ekki áhyggjurnar á manni og setja mann ekki úr skorðum í lífinu. Áhyggjurnar verða viðráðanlegar ef við erum viss um það að bjargið sem líf okkar hvílir á hreyfist ekki.

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!

Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.Matteus 6. 24-34

Í guðspjalli dagsins fáum við að heyra af fjölmennum hópi fólks sem hafði safnast saman til að hlýða á orð Jesú, líkt og við erum hér samankomin í dag til að hlýða á orð Guðs. Hópurinn sem kom til að hlýða á Jesú var stór, skipti hugsanlega þúsundum. Þetta var sama fólkið og Jesús hafði talað við á ferðum sínum um Galíleu og Júdeu. Sama fólkið og hann hafði hlusta á rekja raunir sínar, sama fólkið og hann hafði læknað, líknað og huggað.

Samankominn til að hlýða á Jesú var þverskurður af öllu samfélaginu. Bæði háir og lágir voru þarna komnir til þess að hlýða á manninn sem gat gert kraftaverk og gaf fólki von um betri tíð. Hjá flestum þeirra hefur lífið verið erfitt enda landið sem fólkið ræktaði erfitt viðureignar. Sumir hafa veitt í Galíleuvatni en flestir lifðu á einhverskonar jarðrækt eða búrekstri og voru því háðir veðráttu. Rómverjar tóku einnig sinn toll af fólki og flestir höfðu þannig lítið handanna á milli. Og á sama hátt og í dag hafa allir haft sínar áhyggjur. Fiskimennirnir höfðu áhyggjur af veiðinni í Galíleuvatni, bændurnir af búskapnum. Afkoma flestra var háð því að tíðin væri góð, að gróður fengi sína næringu og vatn og búfénaður dafnaði. Ef ekki veiddist fiskur þá sultu fjölskyldur fiskimannanna, ef uppskera eða búfénaður brást þá sultu bæði menn og dýr hjá bændunum. Það er því ósköp skiljanlegt að þetta fólk hefði áhyggjur. * * *

Eins er það víst að fólk hér til sveita og víðar um land hefur haft áhyggjur að morgni hvítasunnudags hinn 8. júní 1783 þegar á heiðum himni sást svart sandmistur og mökkur svo stór að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu. Það er séra Jón Steingrímsson sem lýsir upphafi Skaftárelda á þennan hátt en öll okkar vitneskja um Skaftárelda höfum við frá honum. Sr. Jón greinir einnig frá þeirri skelfingu sem heltók fólkið þessa myrku daga enda full ástæða til. En áhyggjur voru ekki það eina sem þjakaði. Við bættist að fólk gat lítið sofið út af jarðskjálftum, þrumum og eldingum, ösku og úrfelli. Þarna var raunveruleg ástæða til þess að óttast um líf sitt. Kvíða framtíðinni. Við vitum hvað beið fólksins, harðindi, móðuharðindin sem svo voru kölluð vegna þeirrar móðu sem fylgdi eldsumbrotunum. Sauðfé tók að drepast vegna nytjaleysis og vegna móðunnar gátu sjómenn ekki fundið miðin. Þessi áföll skóku íslenskt þjóðlíf allt bæði háa og lága.

Gefðu mér nú glaðvært sinni, góður guð, í sjálfum þér, því það svíar þjáning minni, þar um reynslan vitni ber.

Með þessum orðum bað séra Jón til Guðs um styrk til að geta haldið í bjartsýnina og gott viðmót til náungans. Þessa mikla þjáning gat oft og tíðum orðið til þess að hann fylltist vonleysi og vildi helst gefast upp en þá leitaði hann til Guðs í bæn og fékk ætið svar. Á einum stað í ævisögu sinni segir hann: Var ég í mínum guði svo hughraustur, því ég vonaði og trúði, að hann mundi hjálpa mér, bæði í því, og fram úr því öllu, ef ég gengi á hans vegum, og gerði mín embættisverk með trú og dyggð, hvað og svo skeði.

Þetta er einföld uppskrift að farsælu lífi, allt sem við þurfum að gera er að fela guði allt okkar líf og vinna öll okkar störf af trú og dyggð. Tökum okkur Jón til fyrirmyndar, hann sem enn í dag er ofarlega í huga fólks sem býr hér í eldplássunum eins og sveitirnar hér voru kallaðar. Sr. Jón var uppi þegar íslenska þjóðin stóð frammi fyrir svo miklum hörmungum að landið var talið óhæft til búsetu. Í gegnum þessar raunir hefur reynt á trúarlega kjölfestu íslensku þjóðarinnar en séra Jón fylgdi alla sína ævi orðum Jesú og trúði og treysti á hann. Hann sat þó ekki aðgerðarlaus og beið eftir því að hjálpin kæmi að himnum ofan. Hann leitaði hjálpar og sinnti búi sínu og störfum. Það kom honum oft á óvart að hann hefði kraft til þess að sinna prestsverkum sínum en vissi vel hvaðan sá kraftur kæmi og þakkaði fyrir það.

Erfiðleikar og áhyggjur voru til staðar hjá fólkinu sem hlýddu á fjallræðu Jesú, einnig hjá söfnuði séra Jóns Steingrímssonar og enn höfum við áhyggjur af lífinu og þeirri óvissu sem framtíðin ber í skauti sér. Það er erfitt að vera alveg áhyggjulaus og í raun er það ekki æskilegt. Áhyggjulaust líf er ekki til enda er Jesús ekki að tala um áhyggjuleysi, líf án fyrirhyggju. Við verðum að takast á við áhyggjurnar og rísa upp yfir þær og sjá hvað við ráðum við en fela Kristi það sem er óviðráðanlegt.

* * *

Áhyggjur eru eðlilegur hluti af lífinu. Sá sem hefur engar áhyggjur á það á hættu að verða ábyrgðarlaus og alveg sama um allt og alla. Áhyggjur beinast yfirleitt að því sem okkur þykir mikilvægt. Okkur er ekki sama um allt og alla og höfum því áhyggjur af mörgum hlutum. Þegar áhyggjurnar fara að hafa áhrif á líf okkar þannig að við eigum erfitt með að hafa stjórn á þeim þá er voðinn vís. En munum þá að Jesús læknar, líknar og huggar. Til hans getum við leitað með allar okkar áhyggjur.

Kjarna guðspjallsins sem við hlýddum á hér áðan er að finna í pistli dagsins þar sem Jesaja er að hughreysta fólkið sem er í útlegð í Babýlon og hefur áhyggjur af því að Guð hafi yfirgefið þau.

Fólkið segir áhyggjufullt: Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!

En Guð svarar og segir: Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.

Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína.

Guð gleymir okkur nefnilega aldrei. Við eigum að leggja allt okkar traust á það. Í lífinu eigum við að treysta Guði og hvílast í þeirri trú að hann hafi allt í hendi sinni. Bæði hið smáa og hið stóra. Við sem erum Kristin vitum þetta. Við vitum að við erum ásamt öllum heiminum sköpun Guðs og það er til hans sem við eigum að leita og gera að kjölfestu lífs okkar. Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Leitið og þér munið finna. Guð kom í heiminn til þess að brjóta á bak aftur allt það sem vill eyða lífinu. Okkar líf er í hans höndum og hjá honum leitum við styrks þegar áhyggjurnar þjaka okkur. Peninganna vald er fallvalt en Drottinn er eilífur Guð sem þreytist ekki.

Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, en þeir sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir.

Markmiðið er ekki að losna algjörlega við áhyggjur heldur að hafa góða kjölfestu og rétta stefnu. Þá bíta ekki áhyggjurnar á manni og setja mann ekki úr skorðum í lífinu. Áhyggjurnar verða viðráðanlegar ef við erum viss um það að bjargið sem líf okkar hvílir á hreyfist ekki. Þá er tilgangurinn ljós, lífið verður einfaldara eins og hjá fuglunum og blómunum. Allt sem við gerum er Guði til dýrðar. Við erum börn hans og líf okkar er hans. Það er ekki ábyrgðarlaust líf þar sem við förum í gegnum lífið án áfalla eða mótstreymis. Nei, en það er líf þar sem við vitum að sama hvað á bjátar, sama hvar við erum stödd í lífinu, í góðu eða illu, þá gleymir Guð okkur aldrei.

Fyrir það sé Guði, föður og syni og heilögum anda heiður og dýrð um aldir alda. Amen