Guð elskar þig og kallar

Guð elskar þig og kallar

Og undir okkur er komið að tekið sér mark á boðskapnum. Ef við lifum ekki samkvæmt því sem við boðum er ekki von að við náum eyrum þeirra sem ekki hafa meðtekið ást Guðs. Við þurfum að vera það sem við erum kölluð til að vera og elska hvert annað, eins og Jesús segir.

Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Þessi máttuga kveðja er úr Rómverjabréfinu, 1. kafla. Hún er síðari helmingurinn af versi 7, en það byrjar svona: Ég heilsa öllum sem Guð elskar í Róm og kallar til heilags lífs.

Ég heilsa öllum sem Guð elskar - í Reykjavík, á Raufarhöfn, á Íslandi, um víða veröld – öllum sem Guð elskar og kallar til heilags lífs.

Og það er einmitt þetta tvennt sem mér liggur á hjarta í dag: Að Guð elskar okkur og ást hans fylgir köllun - hvatning og áskorun og efling - til að lifa í samræmi við heilagleika hans, að líkjast Jesú Kristi. Þegar ég var nítján ára gömul við messu í dönsku kirkjunni í París einn fagran vordag í apríl fyrir meira en tveimur áratugum kallaði Guð mig til að ganga inn í þjónustu við hann. Þá var það fyrst þetta sem hann lagði fyrir mig: Að segja fólki að Guð elskar alla, já, að Guð elskar þig. Hina hliðina á málinu, að hann kallar okkur til heilags lífs, skildi ég ekki fyrr en miklu seinna – og það er æviverkefni mitt að tileinka mér þann sannleika.

Til að hjálpa okkur að skilja þetta skulum við lesa saman guðspjallið sem valið hefur verið fyrir þennan dag, næstsíðasta sunnudag kirkjuársins, en margar kirkjur víða um heim fylgja svokölluðum textaröðum sem miðast við ákveðinn takt á göngunni með Jesú Kristi. Núna, þegar aðventan nálgast, minna ritningartextarnir á endurkomu Krists, dóminn og síðustu tíma. Þeim er ætlað að skerpa okkur enn frekar í trú okkar og minna okkur á að ef við fáum elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins (1Jóh 4.17).

Guðspjall dagsins er þó ekkert dómsdagsguðspjall heldur miklu fremur huggunar, Matt 11. 25-30.

25. Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. 26. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

27. Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

28. Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. 29. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. 30. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.

Hulið spekingum og hyggindamönnum Skoðum fyrst versin 25 og 26. Þau minna mig á orð um bænina sem ég las um daginn í þýskri bók um Alþjóðlegan bænadag kvenna (úr dagskrá bænadagsins árið 1948):

Þið þurfið ekki að vera grasafræðingar til að hrífast af blómum. Þið þurfið ekki að kunna latnesk nöfn blómanna til að annast um þau svo þau vaxi og dafni. Þið þurfið ekki að vita hvernig atómin klofna til að finna áhrif þeirra. Við þurfum heldur ekki að skilgreina bænina í frumeindir sínar til þess að geta beðið. Við einfaldlega biðjum, við gleðjumst í bæninni og finnum að Guð er að störfum. Í: Helga Hiller (2. útg. 2006) Ökumene der Frauen, bls. 347
Við þurfum ekki að vera hámenntaðir guðfræðingar – spekingar og hyggindamenn - til að elska Guð og tala við hann. Mér finnst samt stórskemmtilegt að lesa guðfræði, kristna guðfræði úr öllum áttum - frá austurkirkjunni, rómversku kirkjunni, hvítasunnukirkjum og aðventkirkjum og auðvitað guðfræðina sem kennd er við Martein Lúther. Og löngun mín er að skrifa samkirkjulega guðfræði, sem byggir á því sem sameinar okkur kristið fólk, frekar en að einblína á það sem sundrar.

Innskot um ekúmeník Hér verð ég að koma með smá innskot. Það varðar samkirkjulegt starf – ekúmeník, eins og það heitir utan okkar ástkæra ylhýra málsvæðis. Orðið ekúmeník er dregið af gríska orðinu oikumene, sem Grikkir notuðu um alla heimsbyggðina og fornkirkjan um alheimskirkjuna. Við getum sagt að það hafi merkinguna að búa saman í sátt og samlyndi.

Það eru til ýmsar leiðir við að tengja saman kristið fólk þvert á kirkjudeildir og trúfélög. Sumir leggja áherslu á guðfræðilega umræðu, að ná sáttum um ágreiningsatriði í túlkun trúarinnar og skipulagi kirkjunnar. Aðrir leggja meira upp úr sameiginlegu starfi, að við komum saman sem kristið fólk til að biðja og vinna að útbreiðslu kirkju Krists með lífi okkar og verki.

Dæmi um hið síðarnefnda er bænastarf sem ég hef verið þátttakandi í síðan það hófst, í ágúst 2008. Við erum um tuttugu manns úr mörgum kristnum trúfélögum, þar með töldum Þjóðkirkjunni og Fíladeflíu, sem hittumst vikulega í Friðrikskapellu við Valsheimilið í hádeginu á miðvikudögum og biðjum fyrir landi og þjóð, ráðamönnum þjóðarinnar og heimilunum í landinu. Þetta bænastarf er öllum opið sem vilja leggja sitt að mörkum til endurreisnar Íslands og veit ég að fleiri bænahópar út um land eru að biðja fyrir landinu okkar, eins og líka er gert við hverja guðsþjónustu og á samkomum kristinna trúfélaga.

Í gær, laugardaginn 14. nóvember, lauk viku bæn og föstu sem við sameinuðumst um, Friðrikskapelluhópurinn, og báðum sérstaklega fyrir alþingismönnum og ríkisstjórn samfellt í sjö daga. Það var merkileg lífsreynsla að bera þetta fólk sem ræður málum þjóðarinnar fram á þennan hátt, hvert og eitt með nafni, og mér finnst þau hreinlega vera orðin hluti af stórfjölskyldunni, hvaða flokki sem þau tilheyra!

Annað dæmi um samkirkjulega samvinnu er ráðstefna fyrir leiðtoga sem haldin var í Neskirkju í fyrstu viku nóvember, 6. – 7. nóvember sl. Þar horfðum við á fræðsluefni sem sýnt var á sama tíma á 28 stöðum í heiminum og enn víðar á þessu hausti í fjölmörgum kirkjum. Við upphaf ráðstefnunnar minnti biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, viðstadda á að mikilvægasta embætti kirkjunnar er þjónusta fyrirbænarinnar og enginn leiðtogi hefur meiri áhrif en móðir og faðir sem kenna barni sínu að biðja og – má ég bæta við – að Guð elskar það og kallar til heilags lífs. Það gerir gæfumuninn að vita strax frá unga aldri að líf þitt hefur tilgang og að því er markaður farvegur til góðs.

Sjálf varð ég fyrir ákveðnum samkirkjulegum áhrifum strax í bernsku meðfram bænum foreldra minna, kirkjugöngu og þjónustu í kirkjunni minni frá unglingsaldri. Ég naut þess reyndar ekki að sækja sunnudagaskóla Hjálpræðishersins eins og margir sem ólust upp hér í Reykjavík, en það voru plöturnar og bækurnar frá Samhjálp sem komu inn í líf okkar sveitafólksins með vitnisburð og lofsöng sem aldrei gleymist ásamt ritum frá aðventistum og kaþólsku kirkjunni. Guð blessi spor þeirra sem töldu það ekki eftir sér að fara um landið til að dreifa kristilegu efni og líka presthjónanna út um þetta erfiða land sem í gegn um aldirnar bjuggu oft við lítinn kost og langt frá sínu fólki svo að engin landsins byggð yrði án fagnaðarboðanna um friðinn.

Síðar var ég vikulegur gestur hálfan vetur á heimili íslenskra vina minna í Kaupmannahöfn og við fengum kennslu um hina leyndardómsfullu Opinberunarbók frá vini þeirra sem var aðventisti. Í gegn um allt þetta og meira til varð mér eiginlegt að kristið fólk kæmi saman, óháð trúfélagi en bundið hinni einu játningu og ást Guðs sem kallar fólkið sitt til heilags lífs.

Og undir okkur er komið að tekið sér mark á boðskapnum. Ef við lifum ekki samkvæmt því sem við boðum er ekki von að við náum eyrum þeirra sem ekki hafa meðtekið ást Guðs. Við þurfum að vera það sem við erum kölluð til að vera og elska hvert annað, eins og Jesús segir (Jóh 15.12-17). Ég leyfi mér að segja að framtíð heimsins sé undir því komin að við lifum köllun okkar. Látum ekki heiminn hafa rétt fyrir sér þegar hann dæmir okkur fyrir flokkadrætti og misklíð. Elskum hvert annað og umheiminn og sýnum ást okkar í verki.

Brjóstabörn hins himneska veruleika En sem sagt, guðfræðin. Að lesa og iðka guðfræði skýrir hugsun mína og auðgar trúarlíf mitt. Enda merkir orðið guðfræði á erlendum tungumálum – theologi – að tala um Guð. Og hvað getur verið skemmtilegra en að tala um Guð? Jú, reyndar að tala við Guð, sem er auðvitað forsenda þess að hægt sé að tala um Guð. Við megum ekki tapa okkur í skilgreiningum og trúarkenningum. Trúin er blóm, lifandi veruleiki, sem höfðar til allra skynfæra manneskjunnar og snertir líf okkar allt, hverja stund, og næring hennar er bænin.

Þar erum við öll smælingjar, brjóstabörn hins himneska veruleika, eins og Jesaja spámaður talar um (Jes 66.10-13):

Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni, allir þér sem elskið hana, fagnið með henni og kætist, allir þér sem eruð hryggir hennar vegna svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar, svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar. Því að svo segir Drottinn: Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni og þeim hossað á hnjánum. Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Þetta er sýn spámannsins um efstu tíma þegar Drottinn kemur í eldi til að dæma alla jörðina (Jes 66.16). Sýnin birtir ást Guðs til fólksins síns, Gyðinganna fyrst, en líka allra þeirra sem elska þann veruleika sem Jerúsalem táknar, veruleika guðsríkisins. Hún sýnir þann Guð sem þráir heitast að hugga börnin sín, eins og móðir huggar barn sitt, og veita þeim gleði og fögnuð og saðningu. Guð elskar og mætir hverri þörf.

Sá er sonurinn vill opinbera hann Í öðru lagi segir Jesús þetta í guðspjalli dagsins:

27. Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

Að þekkja Guð er ekki eitthvað sem við getum framkallað sjálf, t.d. með því einu að lesa guðfræði. Sönn guðsþekking fæst aðeins með því að Sonurinn, það er Jesús Kristur, opinberi okkur Föðurinn. Trúin á Guð er gjöf. Hún er opinberun, eins og eitthvað ljúkist upp innra með okkur. Þetta gerist að frumkvæði Guðs. Það hjálpar vissulega að við leitum hans – og Ritningin segir okkur að gera það (t.d. Matt 6.33 og Post 17.27) – en stundum hellist trúarvissan yfir okkur eins og regnskúr af heiðum himni. Þá er bara að taka á móti og heilagur andi Guðs mun leiða okkur í allan sannleikann (Jóh 16. 13-15).

Heiðarleg játning og bæn hins leitandi sem veit ekki hvar Guð er að finna en þreifar sig eftir veruleika sem hann skynjar að sé til væri þá eitthvað á þessa leið: Mig langar að þekkja Guð en ég veit ekki hvernig. Jesús Kristur, viltu opinbera mér Föðurinn? Og svarið er: Já, barnið mitt. Ég er hér og ég elska þig.

Takið á yður mitt ok Í þriðja lagi segir Jesús:

28. Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. 29. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. 30. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.

Þetta eru lokaorðin á einni af þeim ræðum sem Jesús flutti á ferðum sínum um Ísrael. Sú ræða hafði verið nokkuð hörð. Hann hafði ávítað fólkið fyrir að vilja hvorki taka á móti sér né Jóhannesi skírara og borgirnar fyrir að taka ekki sinnaskiptum þrátt fyrir kraftaverkin sem hann hafði unnið. Eftir þann lestur – sem án efa hefur tekið á hann eins og við þekkjum sem þurfum stundum að skamma börnin okkar fyrir að neita að hlýða okkur – fylltist Jesús af fagnandi gleði heilags anda (sjá Lúk 10.21) og snéri orðum sínum til föðurins, Drottins himins og jarðar, sem opinberar nærveru sína smælingjunum.

Í þessum orðum, sem eru eins og hlýr faðmur, gefur Jesús okkur lykilinn að opinberun Guðs. Hann talar til allra þeirra sem erfiða og eru hlaðin þunga, til allra okkar sem eru reiðubúin að viðurkenna að við ráðum ekki við líf okkar í eigin mætti, að okkar eigin hyggindi og speki duga ekki til. Jesús talar til okkar um hvíldina sem hann veitir, um hvernig við getum lært af honum og hvernig hann vill skipta við okkur á byrði svo að sálin fái hvíld. Ég elska þig, segir hann. Hvíldu í mér.

Hin létta byrði Krists Þetta er kjarninn í ást Guðs til okkar. Guð elskar – og Guð kallar. Guð elskar þig svo mikið að hann vill skipta við þig, að þú fáir hans léttu byrði og hann þína þungu. Byrði Jesú Krists er létt því að hann hefur sigrað mestu þyngsli lífsins, dauðan sjálfan, og vill gefa okkur sigurinn með sér. Þegar þú finnur áhrif dauðans í lífi þínu, hvort sem það er í veikindum, skapgerðarbresti, fjármálaerfiðleikum eða hverju því sem virkar á þig eins og ósigur máttu vita að Jesús Kristur hefur sigrað það einnig.

Erfiðasti hjallinn er líklega að sigrast á sjálfum/sjálfri sér, að viðurkenna vanmátt sinn og að við þörfnumst elsku Guðs inn í líf okkar. Jesús biður okkur um að læra af sér. Og hvað er það sem við eigum að læra? Jú, að vera hógvær og af hjarta lítillát. Það er hið ljúfa ok Krists og hans létta byrði. Oftar en ekki er það stoltið sem vefst fyrir okkur, hrokinn sem stendur á milli okkar og Guðs. Þess vegna burðumst við um með byrðarnar okkar sjálf, flækjurnar og þyngslin sem draga okkur niður á svo mörgum sviðum.

Þess í stað eigum við að hlýða köllun Guðs, koma, koma til Jesú, vera eins og börnin sem kasta sér í fang mömmu eða pabba af feginleik og gleði þegar þau hittast að loknu dagsverki. Boðskapurinn er einfaldur: Guð elskar okkur og kallar okkur til heilags lífs, til að sigrast á sjálfum okkur. Í því verkefni erum við ekki ein heldur með þann frelsara okkur við hlið og þann anda í okkur sem býður okkur að taka kross okkar og fylgja sér, eins og Jesús segir í 10. kafla Matteusarguðspjalls (v. 38, sjá líka 16.24).

Þegar við tökum kross okkar erum við að að taka á okkur ok Jesú Krists, tileinka okkur hugarfar hans, hugarfar lítillætis og lausn undan eigingirni (sjá Fil 2.3-5). Að taka kross okkar merkir það sama og Páll postuli á við þegar hann segir að með því að trúa á Krist höfum við krossfest holdið með ástríðum þess og girndum (Gal 5.24). Það er að viðurkenna sekt sína og horfast í augu við að syndin er eins og djúp gjá á milli okkar og Guðs.

Dýrasta ástarjátning allra tíma Sú gjá verður ekki brúuð nema með krossi Krists, sem er dýrasta ástarjátning allra tíma. Þegar við tökum við henni, leyfum okkur að finna elsku Guðs streyma inn í líf okkar, erum við um leið kölluð til að lifa helguðu lífi, lífi Krists í hógværð og lítillæti, undir merki hans, sigurmerki krossins. Þar rúmast engin synd, þar er erfiði okkar lokið og hvíldin algjör. Það er sá veruleiki sem Guð kallar okkur inn í og við lifum hann fyrir náð Guðs og leiðsögn Heilags anda hvern dag og loks að fullu í hinni himnesku Jerúsalem, dýrðarríki Guðs barna við enda tímanna, eins og lýst er í Opinberunarbók Jóhannesar:

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins: Mikil og dásamleg eru verk þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir. (Opb 15.2-4)

Mikil og dásamleg eru verk þín, Drottinn Guð, þú alvaldi. Já, dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.