As far as the laws of mathematics refer to reality, they are not certain, and as far as they are certain, they do not refer to reality. Albert Einstein
Mér er enn í minni fölskvalaus gleði fréttaþulunnar í seinni fréttum fyrir glettilega mörgum árum, þegar hún tilkynnti að hlutabréfavísitalan í kauphöllinni væri komin yfir 1500 stig og var það met á sinni tíð. Ég varð auðvitað kátur líka en var samt ekki alveg viss af hverju. En, ég meina, 1500 stig, þetta hlýtur að vera gott.
Eitthvað hafa þessi mál breyst síðan þá, úrvalsvísitalan farið yfir 8000 stig; það er víst betra en að hún sé í 1500 stigum, en svo hefur hún hnigið aftur, í dag er hún ein 5300 stig, en samt erum við ekki eins glöð og þegar hún var 1500 stig. Skrýtið.
Að sjálfsögðu eru tölur hinn eðlilegasti framsetningarmáti á frettum af viðskiptum og peningamálum. En ég er ekki frá því að svona framsetning, framsetning staðreynda og og álits í tölum - eða hreinilega framsetning veruleikans - þyki á einhvern hátt merkilegra en annars konar tjáning. Og um leið að hið mælda skipti meira máli en það sem ekki verður mælt. Guðfræði og hugvísindi hafa í áranna rás svo sem fengið að heyra að þar fari ekki vísindi í eiginlegum skilningi þess orðs því það sé svo erfitt að slá kvarða á afurðir rannsóknanna sem og það sem rannsakað er. Ég ætla svo sem ekkert að fara mikið útí þá sálma hér; það vita þau sem af alvöru hafa fengist við hugvísindi að sú glíma kostar öguð vinnubrögð og vísindalega hugsun. Og ég veit líka að það sem rannsakað er, skiptir oftar en ekki afar miklu máli. En verður að mæla allt á talnakvarða til að það verði einhvers virði?
Ég heyrði nýlega af því að nú væru menn farnir að reikna út velvildarstuðul fyrirtækja. Síst skal ég gera lítið úr því, vafalítið er hægt að finna hann út og þannig raða fyrirtækjum í kategoríur. Mér finnst samt merkilegra hvernig hér birtist þrá eftir því að geta raða öllu, sem mætir okkur, á skala. Að besta leiðin til að tjá sig og skilja heiminn í kringum sig, sé með tölum. Eigum við ekki að taka þetta bara alla leið; vel mætti ímynda sér fréttaþuluna okkar flytja eftirfarandi frétt:
Greindarvísitalan á Alþingi hækkaði um átta sig í dag og stendur nú í 6308 stigum. Munaði mest um djúphugsuð og yfirveguð ummæli 7unda þingmanns norðvesturkjördæmis í annarri umræðu frumvarps til laga um bætta stöðu landbyggðarinnar.
Er ekki annars meira að marka veruleikann ef hann er settur fram í tölum? Við getum haldið áfram og reiknað út samskiptavísitölu hjóna og þannig metið gæði hjónabands; án þess að það þurfi kannski að rata inn í fréttatímana. Eða hamingjustuðul barna. Svo má sjálfsagt líka finna frelsunarkvóta kristins manns.
Meðal þess sem Irenaeus kirkjufaðir glímdi við hjá gnóstíkerunum var ekkert ósvipaður framsetningarmáti þeirra, sem höfðaði ágætlega til hinna betur menntuðu borgara. Þannig að það er ekkert nýtt að tilveran í tölum heilli menn.
Jesús var einu sinni spurður að því hversu oft maður ætti að fyrirgefa náunga sínum. Er sjö sinnum nóg? Svar hans kemur ágætlega heim við þessa talnaumræðu.
Eða, var hann ekki annars örugglega að spauga með fjölda skiptanna?