Gistihús eða fjárhús?

Gistihús eða fjárhús?

Jólin snúast ekki síst um tengslin á milli atburða og væntinga, samhengi minninga og vona, sem er okkur svo mikilvægt. Jólin leitast við að vekja þá minningu sem mest varðar og dýpst áhrif hefur á okkur og tilfinningar okkar.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
25. desember 2007
Flokkar

Guð gefi okkur öllum gleðileg og fagnaðarrík jól í Jesú nafni. Megi náð hans og friður varðveita okkur á þessari helgu stundu. Amen.

Jólin eru komin til okkar á ný. Veruleiki þeirrar umvefur okkur. Við höfum fengið að heyra jólaguðspjallið, látlaust og fagurt, fagnaðarerindið. Framundan er jólanóttin með allri sinni djúpu helgi sem mýkir tilveru okkar og gerir hana fallegri. Hávaðinn hverfur og allt verður hljótt. Heimurinn þagnar og englarnir tala. Ég vona að fagnaðarboðskapur englanna nái eyrum þínum, hreyfi við þér. Ég vona að sála þín leggi við hlustir í kvöld. Guð gefi að svo verði.

Í marga daga höfum við verið upptekin við að undirbúa jólin, hvert með okkar hætti. Vafalaust er ég ekki sá eini sem er dálítið þreyttur eftir amstur undanfarinna daga.

Það er sýnd auglýsing í sjónvarpinu þar sem fólk sofnar við matarborðið á aðfangadag, örþreytt eftir vinnu og undirbúning daganna á undan. Og loksins, þegar klukkan slær sex, þegar jólin eru hringd inn, gefst langþráð tækifæri til að gefa sig þreytunni á vald. Já, skyldi þetta vera raunin hjá fólki í kvöld?

Allir vilja búa eins vel að jólunum sínum og þeir geta, og kosta oft miklu til. Öll viljum við greiða helgi jólanna veg inn á heimili okkar, til okkar sjálfra, inn í hjörtu okkar. En sú helgi sem jólin búa yfir, hún er ekki af jarðneskum toga, hún er ekki eitthvað sem við búum til eða sköpum handa okkur sjálfum, hún kemur til okkar að ofan, hún er himnesk. Við getum aðeins gengið á vit jólanna, þegið þá djúpu helgi sem þeim fylgja, opnað hjartað fyrir henni, tekið á móti henni, og þá gildir einu hvaðan við komum eða hvernig. Því að jólin eru gjöf: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn.“ Gleymum því ekki er við göngum á vit helgrar jólanætur.

Nú gefst okkur tækifæri til að minnast fæðingar Jesú, til að taka undir söng englanna, eignast hlutdeild í gleði hirðanna og sameinast vitringunum í lotningu sinni.

Núna!

Nú gefst tækifæri til að krjúpa niður og lúta höfði og taka á móti gleði og fögnuði jólanna og gera þau að okkar. Ekki vegna þess sem við gerum fyrir jólin heldur vegna þess sem jólin eru og þess sem þau vilja gera fyrir okkur.

Öll eigum við fagrar minningar sem tengjast jólunum, nándinni við fjölskyldu okkar og ástvini, gleðinni, þeirri tilfinningu að allt sé eins og það á að vera, eins og við viljum að það sé, bjart og fagurt og öruggt. Jólin snúast ekki síst um tengslin á milli atburða og væntinga, samhengi minninga og vona, sem er okkur svo mikilvægt. Jólin leitast við að vekja þá minningu sem mest varðar og dýpst áhrif hefur á okkur og tilfinningar okkar. Minninguna um Guð sem kemur til okkar sem lítið barn, um ljósið sem leggst yfir dimman heim og víkur burt skuggunum, stórum sem smáum. Þetta er minning sem læknar og græðir og veitir von. Þessa tilfinningu vilja jólin vekja með þér, minningarnar um hið góða, fagra, bjarta og örugga, og opna þar með dyr vonarinnar í lífi þínu.

Þegar ég hugsa til jóla bernsku minnar standa gjafirnar upp úr í minningunni – því er ekki að neita. Sjálfsagt er því eins farið með marga. Ég gerði mér miklar vonir um það sem kynni að leynast þar. Ég finn þetta líka hjá börnunum mínum í dag. Gjöfinni tengjast góðvild og gæska og hlýr hugur sem gleður. Það eru vissulega engin jól án gjafar því að jólin eru fólgin í gjöfinni stóru sem sem Guð færir okkur öllum. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Gleymum þessu ekki.

Um það snúast jólin, um gjöf Guðs til okkar, til þín; um Jesú Krist, sem vitjar okkar, sem vitjar þín. Án þeirrar gjafar eru engin jól.

Og nú er þessi gjöf þín, ef þú vilt þiggja hana. Hana er ekki að finna undir jólatré. Hún verður þín og þá aðeins þín þegar þú lýkur upp hjarta þínu fyrir Jesú Kristi, leyfir honum að fæðast þar að nýju. Hjarta þitt á að vera sem tóm jata fyrir barnið frá Betlehem að hvíla í, þar sem það fær að vaxa og dafa og veita ljósinu sínu inní líf þitt, innra sem ytra. Jesús vill hvíla í þér, til þess kom hann, þess vegna eru jólin. Jól án Jesú Krists eru alls engin jól.

Ég veit ekki hvort þið tókuð eftir stjörnunum í kvöld þegar þið komuð til kirkju. Ég sá glitta í tvær á leiðinni hingað. Þær eru á auðvitað allar á sínum stað, trúfastar sem fyrr, og skína bjart á himni í kvöld, svo fjarlægar en samt nálægar.

En það er eins og stjörnunar hafi fallið í gleymsku. Nú á tímum er maðurinn svo duglegur að búa til sín eigin ljós. Það líta æ færri upp á við, til himins, telja sig ekki þurfa þess, sjá ekki hvað þeir hafa þangað að sækja. Fólk hefur kannski enga hugmynd um að stjörnurnar eru ennþá til, að ljósin þeirra lýsa ennþá staðfastlega og fagurlega fyrir ofan okkur. Fólk á sín eigin ljós og svo mörg og sterk að stjörnunar og ljósið þeirra blikna í samanburðinum. Þetta er gömul saga og ný, sorgarsaga. „Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því. Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.“

Já, Jesú er vísað á burt. Á ólíklegustu stöðum virðist ekki pláss fyrir hann og honum því vísað á dyr, vinsamlega þó og mærðarlega, en engu að síður. Rímar þetta ekki sorglega vel við okkar tíma? Við horfum upp á þetta mitt á meðal okkar í dag. Maðurinn þarf sitt pláss og gerist sífellt heimtufrekari. Jesú er úthýst, beðinn að hafa sig á burt. Hann þurfti að láta fyrirberast í fjárhúsi, baka til, þar sem minnst færi fyrir honum, þar sem fæstir yrðu varir við hann.

Gistihúsum fjölgar í okkar samfélagi, stöðum þar sem Jesús er ekki velkominn. Jesús á helst að halda sig baka til og láta minnst af sér vita nema eftir honum sé spurt. Já, sorglegt er það. Fjárhúsum virðist fara fækkandi. Við skulum minnast þess að þetta er hluti jólanna líka, fyrr og síðar.

En er þetta hluti af jólunum þínum?

Hvort skyldi nú þessi heimur bera meiri svip af gistihúsi eða fjárhúsi á þessari stundu? Hvaða ljós skyldu nú lýsa skærast og bjartast í kvöld? Hvaða ljós lýsa þér þessi jól? Hvort er heimili þitt gistihús eða fjárhús?

Mikið óska ég mér þess að jólin greipi það í huga þér að Jesús Kristur þarf á þér að halda. Barnið litla þarfnast þess að eiga skjól hjá þér, innra með þér, svo það geti leitt þig á veg þess lífs sem það geymir fyrir þig. Jesús lifir ekki sjálfs sín vegna heldur vegna þín. Án þín vill hann ekki lifa. Það gildir einu hvaða ljós maðurinn finnur upp, hann mun alltaf þurfa á leiðarstjörnu að halda sem vísar honum veginn í lífinu, því að öll manngerð ljós slokkna um síðir, öll þau ljós sem maðurinn tendrar slokkna, og síðast slokknar sjálfur lífsins logi. En ljós Jesú Krists lifir að eilífu. Hann á ævinlega ljós fyrir þig. Hann er leiðarstjarnann, bjartari en nokkur stjarna á dimmum næturhimni, ljós lífsins, kominn í heiminn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Já, glatist ekki, heldur lifi. Vegna þess að jólin eru ekki aðeins hátíð þess ljóss sem lýsir af fallegu jólatré eða kertaljósum á veisluborðum. Jólin eru fyrst og fremst hátíð þess ljóss sem skín inn í myrkur mannlegs lífs, inn í myrkviði erfiðleika, sorgar og þjáninga, einsemdar og sjúkleika, inn í það líf sem er á villigötum og virðist í þann mund að glatast, verða tilgangsleysi og vonleysi að bráð.

Einhvers staðar varpa slíkir skuggar og aðrir myrkri sínu yfir jól margra, allt of margra. Sumir þeirra eru nær okkur en við höldum. Ég vildi óska að ég gæti látið jólastjörnuna skína við þeim öllum. En vitið að hún er á sínum stað og ber með sér ljóma þess ljóss sem bregður birtu sinni yfir myrkrið, ljós Jesú Krists, ljósið sem vísar veginn til hins upprunalega, fagra og örugga, minninganna sem við eigum öll og varða mest í lífinu og snerta okkur dýpst. Ljós jólanna.

Þar er fólgin birta trúar, vonar og kærleika. Og sú birta skín úr augum barnsins litla í Betlehem, Guðs þíns, sem er komin til þess að finna þig og segja að þú skalt ekki óttast; þú skalt ekki láta hugfallast, segir Drottinn Guð þinn, því að ég er með þér. Ég er þinn Guð. Ég styrki þig, styð þig og leiði þig mér við hönd. Ég er frelsari þinn.

Þetta vilja jólin segja þér. „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn. Hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Megi þessi jól leiða þig inn í fjárhúsið í Betlehem, á fund Jesú Krists, frelsara þíns. Megi friður hans og kærleikur varðveita þig, hugsanir þínar og hjarta þitt, um allan tíma.

Amen.