Bæn er ekki eintal heldur samtal. Ekki bara að tala heldur líka að hlusta. Ekki bara að biðja um, heldur líka að þiggja. Ekki bara að óska, heldur líka að taka á móti. Ekki hneigja vilja Guðs að okkar, heldur uppgötva guðdómlegan vilja hans.
Grace Adolphsen Brame
Það er sagt að bænir breyti ekki guði, en þær breyta sannarlega þeim sem biður. Þannig upplifa margir og ekki síst syrgjendur bæn og íhugun. Fyrirbæn fyrir sjálfum sér og öðru fólki eykur kærleika og samkennd sem mildar og kyrrir hugann. Bæn og íhugun er andleg reynsla sem er dýrmætt að tileinka sér.
Að rækta sinn innri mann er á öllum tímum mikilvægt, en ekki síst þegar áföll og erfiðleikar steðja að. Í slíkum aðstæðum er hugurinn undir svo miklu álagi, hugsanir á fleygiferð og oft erfitt að hugsa skýrt. Margir syrgjendur upplifa að hraði hugans sé mikill og erfitt að koma skipulagi á hugsanir. Það er líka oft þannig að undir álagi festist fólk í hugsunum en vill ekkert frekar en að komast út úr slíkri þráhyggju. Þá er kvíðinn fylgifiskur streitunnar sem fólk tekst á við í sorg. Margir í hópi syrgjenda uppgjötva einmitt bæn og íhugun í slíkum aðstæðum. Bænaiðkunin er sterkt viðbragð gagnvart kvíðanum, þar getur sá sem biður sett í orð það sem veldur honum kvíða eða aðeins andvarpað í bæn af því að hann veit ekki hvað veldur kvíðanum. Margir nota bænir eins og möntrur þegar streitan er mikil til að fá einbeitinguna til baka og leggja kvíðann frá sér. Í bæninni getum við borið angist okkar fram fyrir æðri mátt, lýst umhyggju fyrir öðrum, sett fram einlægar óskir og ekki síður orðað þakklæti okkar. Slíkt mótar huga og sál.
Bænin er fyrst og síðast samvera við almættið og hún er andardráttur trúarinnar. Við bænaiðkun tölum við ekki bara heldur hlustum líka, hlustum eftir hvísli andans. Í kyrrðinni og auðmýktinni sem bæniðkunin felur í sér skapast hlustun og nýjar víddir opnast og nýjar hugsanir koma til okkar. Danski guðfræðingurinn Sören Kierkegaard sagði eitt sinn: ,,Þegar hafið beitir öllum krafti sínum, megnar það ekki að endurspegla mynd himinsins.... En þegar það stillist og dýpkar sökkvir mynd himinsins sér niður í tóm þess. Sál mannsins er haf.“
Við getum líka háð ýmsar glímur í bænalífinu, margir sem missa glíma við sárar tilfinningar og kannski ekki síst gagnvart guði. Ekkja ein sagði við prestinn sem jarðaði manninn hennar að hún væri svo reið guði, hún hefði alla ævi falið sig og sína honum á vald. Nú hrópaði hún og steytti hnefann gegn þeim guði sem hefði ekki verið til staðar til að bjarga manninum hennar. Presturinn tjáði henni að þetta væri fallegasta trúarjátning sem hann hefði heyrt. Hún talaði um guð sem raunverulegan ástvin, hún sýndi honum það traust að opinbera reiði sína og vonbrigði, hún leyfði guði að þekkja sínar stærstu tilfinningar. Þetta var henni mikil huggun og hún ákvað að halda áfram að ávarpa guð með steyttum hnefanum þar til henni væri runninn reiðin. Sorg og þjáning getur líka aukið andlegan þroska fólks og gefið því styrk sem opinberast í dýpra sálarlífi, sem getur birtst í auknum sköpunarmætti og aukinni getu til að eiga gefandi samskipti við aðra.
Þau sem biðja upplifa líka í bænasamfélaginu þá reynslu að þiggja. Það er ekki bara verið að bera fram óskir og eigin hugsanir heldur þiggja af andanum, skynja nærveru þess sem er meira en það sjálft. Slíkt skapar öryggi og frið. Fólk ávarpar almættið með ýmsu móti og margir biðja til æðri máttar án þess að skilgreina guðdóminn eitthvað sérstaklega. Guðsmynd fólks er margbreytileg enda er guðdómurinn örugglega það stór að engin hefur hina endanlegu mynd. Í sorginni upplifir fólk varnarleysi og einmannaleika sem tekur orku og skapar tóm, þá er bænin gefandi afl sem fyllir hugann af hugsunum og óskum sem fela í sér trú, von og kærleika.
Bæniin er verkfæri til að komast í tengsl við sínar innri hugsanir og líka til þess að fela sig á vald æðri máttar, þannig styrkir hún fólk í sorgarferlinu.
En fyrir hverju getum við beðið? Það er hægt að biðja fyrir ástvininum sem er farin. Það er hægt að bera fram fyrir almættið stóru spurningarnar um líf og dauða og biðja um svör. Það er hægt að biðja guð um styrk til að komast í gegnum þjáninguna og finna hamingjuna á ný. Og það er hægt að biðja fyrir öðrum sem eru með þér sorginni.
En hvernig er hægt að hefja sitt bænalíf? Ef t.d. foreldrar þínir eða aðrir kenndu þér bænir fyrir svefninn þá er tilvalið að rifja upp gömlu bænaversin. Þú getur einfaldlega gert eins og í bernsku með því að kyrra hugann fyrir svefninn og segja þessi vers. Þar með ertu aftur farin(n) að ávarpa þinn æðri mátt. Jesús sagði „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.” Þessi orð lýsa reynslu bænarinnar. Gott er að ávarpa Jesú í bæn og biðja í hans nafni. Það gera milljónir manna um alla veröld. Það er einnig gott að taka þátt í bænahópum. Í mörgum kirkjum eru starfandi bænahópar sem eru með fyrirbænarþjónustu. Ef þú vilt ekki koma inn í svona hóp þá getur þú beðið um að vera á fyrirbænalista hópsins og þá veistu að þú ert borin(n) á bænarörmum. Svo er líka bara hægt að andvarp í bæn án orða.
Vertu loftið tæra sem ég anda að mér og höndin sem ég fæ að hvíla í þegar allt, þegar allt er byrði.
Vera Sæther