Vei þér, vei þér

Vei þér, vei þér

Jesús leitaði ekki eftir að menn álitu hann ofuregó veraldar, stærsta strákinn, óháða snillinginn, heldur var sjálf hans helgað æðri og skilgreinandi veruleika, sem varðaði fjölskyldu, vini, þjóð og alla veröldina. Sjálf og líf hans varð farvegur, tilvísun og tákn um erindi Guðs.

[audio:http://db.tt/oG368I0]

Það hark, sláttur og vei í texta dagsins. “Vei þér” segir þar. Viðvörun hljómar. Og við megum gjarnan spyrja okkur um hvað valdi, að maður friðarins, þessi elskulegi og alvinsamlegi Jesús verði skyndilega ógnandi dómsdagsprédikari? Hvað er málið, hverju vill hann miðla? Missti hann sig í dómsýki, fór hann á límingunni? Svo má gjarnan spyrja hvers er valdið til að dæma, t.d að dæma um það hvort heilu borgirnar skuli deyja? Er það okkar að úrskurða í risamálum lífs eða eyðingar? Er það hlutverk okkar að dæma heilu þorpin og samfélögin til dauða? Nei, í slíkum málum ættum við venjulegt fólk, að virða mörk sem við ættum ekki að fara yfir. Þar erum við komin að aðgreiningu milli hins mannlega annars vegar og hins guðlega hins vegar. Hlutverk manna er ekki altækt heldur afmarkað. Okkar manna er að bregðast við hlutverki okkar með ábyrgð og í samræmi við þjónustu við lífið.

Krísa Í tengslum við mál rosa og dóms fór ég að kafa ofurlítið í grísk fræði, Nýja testamentið er jú skrifað á grísku. Ég fletti upp orðinu fyrir dóm og það hljómar svo: Κρίση (frb. kríse). Hljómar það kunnuglega? Kannastu nokkuð við það? Hver ykkar, sem eru í kirkju í dag, þekkja þetta orð Κρίση? Það er orðið, sem er að baki krísu í slangurmáli okkar. Á enskunni varð það að crisis og Krisis á þýskunni og endurómar í líkum orðum í mörgum vestrænum málum. Gríska orðið, sem er notað í Nýja testamentinu getur þýtt kreppa. En önnur merking er það þýði dómur og það að greina rétt á milli, þ.e. rétta greind. Síðan getur það líka merkt skoðun eða afstaða. Orðið hefur því fjölbreytilegar og áhugaverðar málvíddir.

Hvað gerist í krísu, hvort sem það er nú í lífi einstaklinga eða hópa og jafnvel þjóða? Jú, þá eru teknar ákvarðanir, þá eru felldir dómar. Flestir, sem hafa upplifað kreppur vita, að margar ákvarðanir þarf að taka í ógnvænlegum aðstæðum eða eru stundum teknar á skömmum tíma. Sumar á ótraustum forsendum og aðrar þrátt fyrir skort á rökum. Í aðkrepptum aðstæðum geta ákvarðanir verið ofsafengnar og stefna mörkuð með æðiskenndum hætti. Þegar við erum í uppnámi, í krísu, segjum við margt og gerum við margt, sem ekki sýnir mikið vit eða yfirvegun og gerir stundum illt verra. Jón Vídalín talaði um í einni prédikun sinni, að þegar menn væru reiðir flygju þeir með eyrunum! Það er dálítið krassandi en skemmtileg lýsing.

Krísa veldur miklum tilfinningum. Við ættum aldrei taka of afdrifaríkar ákvarðanir í uppnámsaðstæðum. Hið sama gildir í alþjóðlegum krísum – það er vont að fara á alþjóðlegum taugum! Þegar að kreppir og krísan hrín yfir er mikilvægt að fella rétta dóma og iðka góða dómgreind. Dómar geta verið felldir án mikillar greindar en þá fer jafnan illa - það þarf rétta og yfirvegaða greind í dómum til, að dómarnir verði réttir. Íslenska orðið dómgreind ber vitni um orðsnilld og góða hugsun og málgreind.

Ástand, viðbrögð og dómur Í texta dagsins veltir Jesús vöngum yfir andlegu ástandi landa sinna. Hann er greinilega bæði sár og jafnvel hæðinn, minnir á að á undan honum hafi Jóhannes skírari komið með mikilvægan boðskap frá Guði. Landar hans hafi ekki hrifist af meinlæti hans, bindindissemi og boðskap, heldur talið að hann væri geðveikur og hefði illan anda. Ekki hefðu landar hans verið sjálfum sér samkvæmir því þegar næsti sendiboði himinsins, Jesús, kom hefði hann haft allt annan hátt á en forverinn og guðsmaðurinn Jóhannes. Jesús hefði sótt veislur og verið hrókur alls fagnaðar. En þá hafi verið hneykslast á honum og hann kallaður mathákur og vínsvelgur. Sem sé, alveg sama hvað gert væri, enginn áhugi á málum Guðsríkisins, engin skilningur, engin trú. Svo fylgja í texta dagsins ávítur Jesú gegn borgunum þar sem hann hafði farið um og gert gott, unnið verk sem hefðu átt að opna augu hinna blindu, opna hlustir hinna daufu, opna hjörtu hinna þverúðarfullu, opna vitund hinna naumu, opna allar sálargáttir gagnvart erindi Guðs í heimi.

Jesúafstaðan er forsendan Jesús nefndir staðanöfnin Betsaída og Kórasín. Þorpsnafnið Betsaída er þekkt (Lúk. 9.10) en allsendis óvíst hvaða þorp Kórasín var. Svo nefnir Jesús Kapernaum, sem er þekkt af ýmsum kraftaverkasögum Jesú og kannski eru einhver í þessum söfnuði, sem hafa sótt þá hrífandi borg heim við Genesaretvatnið. Dómur Jesú er skýr: “Til heljar mun þér steypt.” “Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér,” segir Jesú. Þessi texti stuðar. Hinn elskulegi og umhyggjusami Jesús fellir dóm, sem er þungur, dómur til heljar. Hinn blíði dæmir til dauða. Á máli íþróttafréttamanna hefði verið sagt að þetta hefði verið úr karakter!

Af hverju var Jesús svona harðorður? Af því að það var afstaðan til hans sjálfs, sem skipti endanlegu máli. Var Jesús svona upptekin af sjálfum sér? Já, tengslin við hann var algert aðalatriði og skilgreiningarmál. Hann hefur örugglega ekki verið upptekinn af sér sem einstaklingi eða snillingi.

Hugmyndin um manninn, sem hreinræktaðan einstakling, óháðan umhverfi, var einfaldlega ekki í hugsun, lífi og menningu þessa fólks. Allir menn voru hluti heildar, annað hvort ættar eða einhverrar heildar sem markaði líf eða dauða hins eina. Þegar Jesús lagði áherslu á tengingu við sig átti hann alltaf við veruleika þess, sem hann var hluti af og var fulltrúi fyrir. Boðskapur Jesú varðaði ekki einhverja narcissistíska, sjálfhverfa sjálfsmynd, heldur erindi Guðs í veröldinni. Áhersla Jesú var ekki á að hann væri ofuregó veraldar, stærsti strákurinn, óháði snillingurinn, heldur var sjálf hans helgað æðri málstað, sem varðaði fjölskyldu, vini, þjóð og alla veröldina. Hann gerði sig ekki að miðpunkti heldur gerði sjálf sitt að farvegi, tilvísun og tákn um erindi Guðs. Og það erindi hét Guðsríki í munni Jesú og honum var falið að ganga erinda þess ríkis og afla því ríki vegsemdar í heiminum.

Ef menn höfnuðu erindi því, sem Jesús flutti, höfnuðu þeir þar með Guði. Við mannfólkið lendum í mörgum pollum og hremmingum í lífinu. En dýpsta krísan í okkar lífi er ef við höfnum lífsanda Guðs og að vera vinir, ríkismenn lífshöfðingjans sjálfs.

Hvað viljum við með þennan Jesú? Í kristninni er það dýpri spurning en dómur yfir siðferði og afstöðu og einstökum borgum. Viljum við lifa í tengslum við Guð og líf heimsins? Í þeim efnum skilur á milli lífs og dauða. Okkar er að meta rétt, skilgreina rétt og skoða líf okkar og samfélag í ljósi boðskapar Jesú. Þar verður dómgreind rétt og heil.

Dæmum ekki - en ræktum með Guði Eigum við að fella dauðadóma og úrskurða til glötunar? Nei, texti dagsins kennir okkur ekki, að við ættum að setjast í dómarasæti og úrskurða um líf eða dauða, lán eða hrylling. Það var ekki erindi Jesú við menn að innræta mönnum dómsýki heldur þjónustulund. Hvorki þú, ég eða nokkur maður annar hefur þekkingu, vit, dómgreind og yfirsýn til að úrskurða um eilífa velferð Kórasín, Kópavogs, Reykjavíkur eða Tripoli. Leyfum Guði að vera Guð og hæstiréttur í málum tíma og eilífðar. Verum hins vegar full af umburðarlyndi, mannkærleika og heilbrigðri dómgreind. Lifum í ljósi Guðs, veitum elsku Guðs inn í öll skot sálar, heimila, kirkju, þjóðfélags, náttúru og veraldar. Þá léttir vei og ógn og lífið fær tækifæri til að blómstra. Heyrum viðvörun til að vel fari.

Amen

Prédikun í Neskirkju 28. ágúst, 2011.

10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - textaröð B

Lexía: Jes 5.1-7 Ég vil kveða um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið, gróðursetti gæðavínvið. Hann reisti turn í honum miðjum og hjó þar þró til víngerðar. Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga. Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns. Hvað varð meira að gert við víngarð minn en ég hafði gert við hann? Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber? En nú vil ég kunngjöra yður hvað ég ætla að gera við víngarð minn: Ég ríf niður limgerðið svo að hann verði nagaður í rót, brýt niður múrvegginn svo að hann verði troðinn niður. Ég vil gera hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þistlar og þyrnar og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni. Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.

Pistill: Róm 9.6-9, 14-18 Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn sem af Ísrael eru komnir. Ekki eru heldur allir börn Abrahams þótt þeir séu niðjar hans. Nei: „Afkomendur Ísaks munu taldir niðjar þínir.“ Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur Abrahams börn Guðs heldur þeir sem fyrirheitið hljóðar um. Guð gaf honum fyrirheit um fæðingu Ísaks þegar hann sagði: „Í þetta mund að ári kem ég aftur og þá mun Sara hafa eignast son.“

Hvað skal um þetta segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Hann segir við Móse: „Ég miskunna þeim sem ég vil miskunna og líkna þeim sem ég vil líkna.“ Það er því ekki komið undir vilja manns eða áreynslu heldur Guði sem miskunnar. Því er í ritningunni sagt við faraó: „Einmitt til þess hóf ég þig að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina.“ Svo miskunnar þá Guð þeim sem hann vill en forherðir þann sem hann vill.

Guðspjall: Matt 11.16-24 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“ Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“