Sátt

Sátt

Kristin trú byggir á því að við þurfum að öðlast sátt við okkur sjálf og skapara okkar. Öðru vísi getum við ekki unnið góð verk af heilum hug, óskipt í þágu skapara okkar og náunga. Hvert sem verkefnið er, hvort heldur menn leggja sig í hættu á ófriðarslóðum, hvort menn vekja athygli á mannslífum þeim sem við fórnum fyrir hraða og ofsa í umferðinni.

Kirkjan leggur sem kunnugt er sitt af mörkum til þess að bæta umhverfi sitt – í stóru og smáu:

Ráðstefna um félagslegt sáttarferli

Á föstudaginn fór fram mikil ráðstefna í Hafnarfjarðarkirkju þar sem tveir prestar, annar rómversk kaþólskur og hinn evangelísk lútherskur, greindu frá störfum sínum á átakasvæðum víðsvegar um heiminn. Yfirskriftin var félagslegt sáttaferli og var þar greint ferðum þessara tveggja presta til helstu átakasvæða heimsins til þess að sætta andstæðar fylkingar. Engum blandast hugur um það að þarna er unnið samkvæmt boðskap kristinnar trúar þar sem leitað er leiða við að ná fyrirgefningu, sáttargjörð, réttlæti og að endurheimta með því friðinn og sáttina í sundruðum samfélögum.

Stopp!

Nú í síðustu viku fóru fram samkomur víða um land þar sem athygli var vakin á einhverri stærstu fórn sem samfélag okkar virðist reiðubúið að fórna í nafni þeirra lífshátta sem við stundum. Yfirskriftin á þessu átaki er Stopp! og vísar til þess að nú sé tími til kominn að nema staðar, breyta þeirri óheillaþróun sem fram hefur farið hér í umferðarmálum. Sums staðar fóru samkomur þessar fram í kirkju og víðast hvar höfðu þær á sér trúarlegan blæ þar sem farið var með bæn og prestur flutti stutta hugleiðingu. Vitaskuld er það verkefni kirkjunnar að leggja sitt af mörkum til þess að sporna gegn þeim hörmungum sem af umferðarslysunum leiðir.

Undirbúningur og skipulag

Slík verkefni unnin í nafni kristinnar kirkju eiga sér vitaskuld stað á hverjum degi árið um kring og ótal önnur dæmi mætti tíunda af hjálparstarfi og liðsstyrk sem vex upp af hinum kristilega grunni. Þetta þekkja allir. Umhyggja og ábyrgð er sjálfsagður hluti af starfi kirkjunnar og verður ekki skilinn frá henni.

Mönnum mætti líka vera ljóst að betur væri heima setið en af stað farið ef ekki væri unnið eftir ströngustu kröfum um áætlunargerð, fagmennsku og starfið væri skipulagt eftir því sem auðið er.

Rýnt í framtíðina

Við hér í Keflavíkursókn héldum í því skyni austur í Skálholt þar sem starfsfólk og sóknarnefnd lagði fyrstu drögin að framtíðarsýn safnaðarins undir leiðsögn fagmanns á því sviði. Þar var nú heldur betur horft fram á veginn og vöngum velt yfir því hvernig framtíðin muni líta út og hvernig kirkja Krists hér á þessum slóðum getur best mætt kröfum hennar með starfi sínu og aðlögun. Þetta er í anda þess sem að ofan er rætt um. Metnaðurinn er til lítils ef vinnan lýtur ekki ströngu skipulagi.

Já, og þar sem ég skrifa þessi orð á tölvuna mína verður mér litið í kringum mig á skrifborðinu mínu og sé þar farsíma, útkrotað almanak, verkefnalista, fundargerðir og svo auðvitað kaffibollann sem tryggir nú að syfjan sæki ekki á svona í morgunsárið þegar verkefnin kalla.

Hvað með liljurnar og fuglana?

Hvar á þetta tal um liljurnar og fugla himinsins að fyrirstilla? Hvorki sá þau né uppskera né safna í hlöður. Og hvað með áhyggjurnar af morgundeginum? Hvernig fer það saman að skipuleggja sig – hvernig fer það saman að vera manneskja sem hugsar til komandi tíma oft með angur í hjarta og full af kvíða fyrir huldri framtíð – og þess að horfa til liljanna á vellinum og fuglana á himninum sem virðast hafa þegið allt sitt í gjöf frá skaparanum og eru umlukin elsku hans og umhyggju?

Hefur það starf sem hér hefur verið fjallað um ekki snúist meira og minna um slíka ókyrrð hugans þar sem menn rýna inn í þoku hins ókomna og reyna eftir fremsta megni að greina hvað þar er hulið? Er allt þetta brölt ekki í hróplegri andstöðu við þau róandi orð Krists sem flutt eru í þessum hluta fjallræðunnar? Er þeim ekki einmitt stefnt gegn slíkri skipulagningu, gegn slíkri verkaskiptingu?

Notalegt hvísl í eyra

Víst má að einhverju leyti svara þeirri spurningu játandi. Orð Krists eru eins og notalegt hvísl í eyra áhyggjufullra manna sem halda að morgundagurinn komi aldrei nema að hugur þeirra sé þjakaður af áhyggjum og axlirnar lotnar af öllum heimsins byrðum.

Þetta er einn af þessum textum sem kallar fram mynd í huga þess sem les eða hlýðir á. Þarna berast þær um í golunni, liljurnar, baðaðar geislum sólarinnar. Fagurlega skarta þær litum og af þeim leggur ljúfan ilm. Kannske rennur lækjarspræna þar hjá og fuglarnir syngja! Hverju er betra að leiða hugann að þegar kominn er tími til að hvíla sálartetrið og öðlast dýpri slökun. Yfir öllu hvílir einhver sátt, ekkert gerir beinlínis til okkar neinar kröfur og ekkert sendir okkur inn í flóknar áætlanir um komandi tíma og komandi ár.

Dús við skaparann

Nei, þetta er umhverfi sem er dús við skapara sinn og lifir í því samhengi sem við sjáum í sköpunarverkinu þar sem það fær að dafna óáreitt frá brölti okkar mannanna og uppátækjum. Þessa mynd notar Kristur einmitt þegar hann vill að við leiðum hugann að einhverju öðru en því sem tengist áhyggjum að henni veraldlegu afkomu.

Í þessum texta kallast á tvenns konar afstaða. Kristur talar hér ekki gegn ábyrgð og hann boðar ekki fylgjendum sínum að vera einhvers konar blómabörn sem enga stefnu hafa og fylgja engum línum. Kristur talar hér um það þegar við gerumst þrælar ákveðinnar hugsunar.

Þessi hugljúfi og fallegi texti um sköpunarverkið í allri sinni dýrð kemur í kjölfar áminnandi orða um að enginn geti þjónað tveimur herrum. Guði og Mammon. Því inntakið er ekki það að manneskjan eigi að varpa af sér öllu því sem gerir hana að því sem hún er og að hún eigi að taka upp lifnaðarháttu jurta og dýra. Það yrði okkur öllum um megn. Nei, inntakið er að benda á hættuna við það að láta allt okkar líf snúast um auðsöfnun og að benda á það hvernig slíkar áhyggjur af morgundeginum ræna okkur deginum í dag.

Kierkegaard

Ekki er hægt að fjalla um þennan texta án þess að geta danska heimspekingsins Sörens Kierkegaard. Honum var ritningarstaður þessi hugleikinn og benti á er það einmitt þessi sátt sem gerir liljurnar svo fagrar sem þær eru. Þær eru þarna á sínum stað. „Hvað ef ein þeirra tæki nú að fyllast áhyggjum af því að hún gæti gert eitthvað meira, stefnt hærra og gnæft yfir allar hinar. Hvað ef henni litist nú svo á að stöðugleikann þyrfti að rjúfa?“ Svona spurði hann í gamansömum tón og lék sér að þeirri hugsun ef hún næði nú að plata einn fuglinn til þess að slíta sig upp af jörðinni og fljúga með sig upp til himins.

Myndi hún þá ekki fljótt visna? „Hefði blómið verið sátt við hlutskipti sitt“, skrifar Kierkegaard, “hefði það ekki látið áhyggjurnar stýra sér og þá hefði það staðið lengur í fegurð sinni – enn fegurri en Salómón í allri sinni dýrð.“ Áhyggjurnar létu liljuna gleyma því hver hún er. Hún var rifin upp og tærðist þar í háloftunum. Tærðist upp – í orðsins fyllstu merkingu. Þannig getur þráin eftir því sem við ekki getum náð svipt okkur öllu því góða sem við eigum og gerum.

Að tærast upp

Löngunin eftir því að lifa fyrir morgundaginn og áhyggjurnar af öllu því sem hann getur borið í skauti sér geta með sama hætti rænt okkur deginum í dag. Andartakið, líðandi stundin, er hún ekki vettvangur allrar okkar gleði og alls þess góða sem lífið færir?

Inntakið í þessum texta er að vara við því að við látum stjórnast af hinu veraldlega – að við látum auðinn, metnaðinn og veraldarvafstrið stýra öllu okkar lífi. Þjónninn í þá daga var eign húsbónda síns. Hann þjónaði engum öðrum nema þá í nafni þess sem hann sendi. Það var fjarstæða að geta átt tvo slíka herra sem sendu mann út og suður í ólíkum erindum. Nei, enginn getur sannarlega helgað lífi sínu tveimur andstæðum máttarvöldum.

Hér kemur Kristur inn á hinn raunverulega boðskap sögunnar. Sá sem er þjónn Mammons lætur hann ræna sig þeirri ánægju sem hlýst af andartakinu. Kristur bendir okkur líka ekki á að líkjast liljunum og fuglunum, takið eftir því. Við erum jú af öðrum toga runnin. Nei, við getum víst ekki lifað í þeim anda sem þau gera. Hann biður okkur bara um að gera okkur í hugarlund hvað það er sem gerir liljurnar svo fagrar.

Æðruleysi og umhyggja

Í texta dagsins kallar Kristur ekki fram kæruleysi í huga okkar. Kæruleysi er ein andstæða kærleikans og hvergi er ýjað að því að við eigum að láta okkur hag náungans í léttu rúmi liggja. Nei, orð hans kalla fram æðruleysi. Það að við séum sátt við hlutskipti okkar og reynum ekki stöðugt að skara eld að eigin köku og séum ekki stöðugt að hugsa um það hvernig við getum aukið auðlegð okkar og völd á komandi dögum en gleymum þá um leið þeim mikla fjársjóði sem dagurinn í dag er. Ekki dramblæti, eins og postulinn segir, heldur auðmýkt fyrir því sem við getum ekki breytt.

Orðum Krists er ekki beint gegn umhyggjunni. Þeim er beint gegn áhyggjunni fyrir hinu komandi svo að við tærumst upp eins og blómið í sögunni. Áhyggjan getur verið eins og óvinurinn í frásögn postulans sem svolgrar allt upp sem á vegi þess verður. Svolgrar upp stundirnar okkar og dagana – sjálfan vettvanginn fyrir allt líf okkar og öll okkar störf.

Sátt

Kristin trú byggir á því að við þurfum að öðlast sátt við okkur sjálf og skapara okkar. Öðru vísi getum við ekki unnið góð verk af heilum hug, óskipt í þágu skapara okkar og náunga. Hvert sem verkefnið er, hvort heldur menn leggja sig í hættu á ófriðarslóðum, hvort menn vekja athygli á mannslífum þeim sem við fórnum fyrir hraða og ofsa í umferðinni, hvort sem það er hjálparstarf eða viðleitni til þess að laga kirkju Krists að komandi tímum – þá þarf það að vera unnið með þeim hætti að störf okkar eru unnin í gleði.

„Lítið til fugla himinsins“, segir Kristur, „Hyggið að liljum vallarins“ segir hann líka. Hann bendir okkur á þessa sátt sem þar má skynja og ákveðinn frið – jafnvel traust sem sköpunin sýnir skapara sínum. Það traust á einnig að setja mark sitt á líf okkar. Og í því trausti getum við í gleði þjónað náunga okkar og skapara.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.