Veisla í myrkri

Veisla í myrkri

Hvað á þessi máltíð sameiginlegt með textum þessa sunnudags. Jú fyrir því eru tvær ástæður og þær tengjast báðar textum dagsins. Annar textinn fjallar um myrkur en hinn fjallar um veislu. Hvernig gat ég annað en deilt þessu með ykkur?

Nú í haust sóttum við hjónin veitingastað í Berlínarborg, sem er óvenjulegur fyrir þá sök að hann er hann er rekinn af blindum. Já, þjónarnir eru blindir og gestirnir verða það eiginlega líka, því þeir snæða matinn inni í myrkrasal þar sem nákvæmlega engin birta kemst inn. Við höfðum fengið ábendingu frá fólki sem hafði sótt slíkan stað heim og það fullvissaði okkur um að þetta væri þess virði að prófa.

Borðað í myrkri

Einu gilti hvort augun voru opin eða lokuð, myrkrið var algert og það átti ekki eftir að venjast. Máltíðin hófst með því að Sylvía þjónninn okkar lét okkur setja hönd á öxl sína og dyrnar að matsalnum opnuðust. Í sortanum var hávaði af fólki í samræðum og hnífapör sem slógust í diska og glös. Við fylgdum henni áfram og til hliðar og aftur áfram þar til hún tók hendur okkar og sýndi okkur stólbakið. Við settumst niður og tók nú við flókið borðhald.

Ekki aðeins þurfum við að tileinka okkur þá vandasömu kúnst að finna bitana á disknum með gafflinum, seilast eftir glasinu á borðinu eða sækja þurrkuna til það þurrka munnvikin (sem er nú fremur gert af vana en nauðsyn í myrkrinu) heldur líka það að halda uppi samræðum við ókunnugt og ósýnilegt fólk sem sat hinum megin við borðið. Já, þessi upplifun var mjög sérstæð og hafði hvert tímabil kvöldsins ákveðin sérkenni. Ekki myndi ég þó endurtaka heimsóknina á veitingastað þennan sem en fáar máltíðir eru jafn eftirminnilegar sem þessi!

Af hverju rifja ég þessa sögu upp nú? Hvað á þessi máltíð sameiginlegt með textum þessa sunnudags. Jú fyrir því eru tvær ástæður og þær tengjast báðar textum dagsins. Annar textinn fjallar um myrkur en hinn fjallar um veislu. Hvernig gat ég annað en deilt þessu með ykkur?

Ósýnileg ásjóna

Í lexíu dagsins er talað um það sem ekki fæst séð. „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi,“ segir Drottinn við Móse. Þetta er einn af meginöxlunum í Gamlatestamentinu. Guð – eða JHWH eins og hann nefndur í þeim hluta Biblíunnar er ekki viðfangsefni manna að fást við – það eru skilboðin. Ekki mátti gera líkneski af Guði, ekki mála af honum myndir ólíkt því sem gilti um guði nágrannaþjóðanna sem voru litríkir og gjarnan í mynd dýra. Ekki mátti einu sinni nefna Guð á nafn því að í raun merkir nafnið JHWH ekki annað en „ég er sá sem ég er“ – og er því strangt til tekið hvorki sérnafn né hugtak yfir tiltekna veru. Þessi texti stendur þegar í annarri bók Biblíunnar og þar er staða mannsins gagnvart Guði orðuð: Maðurinn fær ekki séð Guð og lifað.

Ef við hugleiðum það þá sjáum við að enn er Guð að einhverju leyti hulinn okkur mönnum. Jafnvel á okkar tímum þegar veröldin opnast okkur, lífið hér á jörðu á láði, legi og í lofti, eðli ljóss og tíma, meðvitund mannsins og upphafsblossi alheimsins. En samt spyrjum við í sífellu: „Af hverju?“. Af hverju hendir ógæfan þá sem saklausir eru? Af hverju þessar hörmungar í heiminum – nú síðast á Hætí.

Hér er það hlutskipti okkar manna að vera eins og fálmandi í myrkri. Við höfum ekki þá þekkingu að geta séð og skilið allar þær hliðar sem á almættinu birtast. Sumar þeirra eru og verða okkur huldar. Marteinn Lúther lýsir því, m.a. út frá þessum texta, þar sem Guð hylur andlit sitt fyrir mönnunum og við sjáum ekki né skiljum hver vilji hans er.

Að þessu leyti erum við sem í niðamyrkri þótt okkur hafi tekist að varpa ljósi á svo margt annað í kringum okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sinna verkum sem venjulega eru innt af hendi án hugsunar – en verða óskaplega erfið og flókin. Með því móti getum við ekki skilið illskuna og ófarir þær sem að engu leyti má skýra með skynsamlegum hætti.

Skilningur

Og hvers vegna þá? Værum við betur sett með allar upplýsingar um það hvers vegna þessi atburður átti sér stað? Eru atburðir eins og jarðskjálftinn á Hætí tilefni útskýringa? Nei, þeir eru tilefni samhyggðar, tára, skilnings – ekki á frumspekilegum þáttum, heldur skilnings á þeim sem þolir þessar þjáningar.

Kristnir menn játa auðmýkt sína og viðurkenna að á sumum sviðum tilverunnar er sýn okkar engu betri en þess sem hér stendur, er hann reyndi að veiða bita upp á gaffalinn á veitingastaðnum í Berlín. Það er eins og skilningarvit okkar öll nægi ekki til þess að opna fyrir okkur þann möguleika. Hið ótakmarkaða reynist ofvaxið okkar takmarkaða huga. ,,Ásjónu mína færðu ekki séð" segir Guð við Móse. Lífið geymir enn sínar ráðgátur sem við fáum ekki skilið.

Hvernig tengist þessi veruleik kristnum mönnum? Jú, er við tökum við Jesú Kristi inn í líf okkar, er eins og við kveikjum ljós, og greinum fyrir vikið ýmsa þætti í kringum okkur með öðrum hætti en við erum vön að geta gert. Kristnir menn lesa ritninguna með það að leiðarljósi að hún vísi þeim á Jesú Krist og þar mætir okkur – ekki alvitur fyrirlesari sem útskýrir fyrir okkur í stóru og smáu þær ráðgátur sem við glímum við. Nei, Kristur mætir erfiðleikum okkar með öðrum hætti. Þá hugsun má orða með ýmsum hætti en Jón biskup Helgason gerir það með glæsibrag þegar hann segir: „Ísrael trúði því forðum að sá er litið Guð augum hlyti að deyja. Vér trúum því ekki, að sjá Guð er að lifa.“

Að sjá Guð

Hugleiðum söguna þekktu um brúðkaupið í Kana í ljósi þessa veruleika. Þar er eins og talað sé til okkar í táknum – rétt eins og í þeirri viðurkenningu að margt sé á huldu og verður ekki afhjúpað í einni andrá. Kerin eru sex, þau eru tóm og veisluhöldin – allt vísar þetta til einhvers annars og stærra. Og hvað er það við vínið sem á slíkt erindi til okkar að það er inntakið í sjálfu upphafsverki frelsarans í hjálpræðissögunni sem Jóhannes ritar niður?

Veisluhöldin í Kana eiga margt sameiginlegt með máltíðinni sem ég snæddi í niðamyrkri. Hvernig leit umhverfið út? Hvernig litu viðmælendurnir út? Eða þjónninn Sylvía sem var haldreipi okkar og leiðsögn þarna í sortanum?

Textinn fjallar um það hvernig hið ófullkomna verður fullkomið. Aulaskapurinn í gestgjöfunum að eiga ekki nægar veitingar bjargast á yfirnáttúrulegan hátt. Kerin sex sem eru tóm, eru fyllt af vatni og vatnið er hverfult í mollunni. Það fúlnar fljótt og skemmist – en vínið er varanlegra og þolir geymslu jafnvel árum saman. Það er líka – sé þess í hófi neytt – guðaveigar, vín-andi sem hefur allar götur fengið manninn til þess að hugleiða þann veruleika sem stendur okkur ofar. Já, og kerin eru sex eins og dagar sköpunarinnar í fyrstu bók Móse. Vísa til hins nýja upphafs þar sem hið forgengilega fær hlutdeild í óforgengileikanum. Líf okkar, eins og tóm kerin, fær inntak af því sem er dýrmætt og göfugt. Sjálfur tíminn – á þriðja degi vísar fram til upprisunnar sem var einmitt á þriðja degi eftir krossfestinguna. Já, veislan er eitt hið þekktasta tákn himnaríkis þar sem hvorki ríkir skortur né einsemd.

Sagan af brúðkaupinu í Kana talar inn í hina nýju tíma. Að sjá Guð er að lifa – ekki að deyja. Hér mætir Guð okkur í gleðinni og hann fullkomnar hana. Í þjáningunni birtist hann okkur ekki sem fróður beturvitringur sem hefur allt sitt á hreinu en er ónæmur fyrir tilfinningum. Nei, hann mætir okkur eins og sá sem sjálfur hefur upplifað þjáningar og þrautir og þannig mætir hann okkur. Skilningurinn er ekki skilningur á hinstu rökum tilverunnar heldur skilningur þess sem getur fundið til og veit hvað það er að þjást.

Guð kemur til okkar í myrkrinu og umlykur okkur náð sinni. Hann er skjólið í óförunum og óbifanlegt athvarf í heiminum.

2Mós 33.17-23 Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“

Jóh 2.1-11 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“ Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“ Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“ Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.