Fyrr í vetur bárust fregnir af því í fjölmiðlum að múslimar úr röðum stúdenta við Háskóla Íslands hefðu fengið leyfi hjá deildarforseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar til að biðjast fyrir í kapellu Aðalbyggingarinnar yfir ramadanhátíðina. Beiðni múslimanna sýnir ekki aðeins einlæga og sjálfsagða þörf þeirra fyrir að fá að iðka trú sína í háskólasamfélaginu heldur leiðir hún einnig í ljós víðsýna og umburðarlynda afstöðu þeirra til kristinna manna og helgistaða þeirra.
Þessi jákvæða afstaða múslimanna ætti engum að koma á óvart sem þekkingu hefur á trúarbragðafræðum, enda líta þeir svo á að trúarbrögðin gyðingdómur, kristindómur og islam eigi sameiginlegar rætur hjá ættföðurnum Abraham og varði öll trúna á hinn eina sanna Guð sem allir hlutir séu runnir frá, enda þótt þau greini á um með hvaða hætti hann nákvæmlega leiði manninn aftur til sín. Að kristnum skilningi opinberast Guð í persónu Jesú Krists og mætir manninum í lífi hans og boðun, krossdauða og upprisu, en múslimar segja að Jesús hafi aðeins verið spámaður sem hafi vísað veginn fram að Múhameð. Óhætt er að segja að margir kristnir menn á Íslandi hafi glaðst yfir því að þessir múslimar hafi viljað leita Guðs í bæn í kristinni kapellu en að sama skapi komu einnig fram ýmsir sem ýmissa hluta vegna gagnrýndu á opinberum vettvangi bænaiðkun þeirra þar.
Í öllum trúarbrögðum eru skiptar skoðanir um hvernig líta beri á önnur trúarbrögð. Þannig tala trúarbragðafræðingar um þröng (exclusive), opin (inclusive) og jafnvel fjölhyggjuleg (pluralistic) viðhorf innan allra trúarbragða til annarra og jafnvel innan sjálfra helgirita þeirra. Jafnt kristnir sem múslimar, sem hafa þrönga eða jafnvel í sumum tilfellum sértrúarlega afstöðu til annarra, myndu líklega gagnrýna það að helgistaðir þeirra yrðu notaðir til bænahalds af mönnum sem kenna sig við önnur trúarbrögð. Sumir myndu jafnvel ganga svo langt að tala um tvo aðgreinda guði þessara trúarbragða vegna ágreinings þeirra um með hvaða hætti Guð opinberi sig í vissum efnum. Aðrir myndu segja að taka verði tillit til þess að staðurinn hafi eingöngu verið helgaður viðkomandi trú, hvað sem sagt verður um önnur trúarbrögð. Þeir sem hafa opna afstöðu til annarra trúarbragða eru hins vegar tilbúnir að viðurkenna hvað þeir eigi sameiginlegt og mætast á þeim grundvelli á m.a. helgistöðum sínum án þess þó að draga úr vægi þess sem aðskilur, en þeir sem teljast fjölhyggjusinnaðir líta svo á að flestar ef ekki allar leiðir til Guðs eða hins háleita sannleika, hvernig sem hann er skilgreindur, geti að lokum reynst jafngildar. Út frá sjónarhóli trúarbragðafræðinnar geta öll þessi viðhorf átt rétt á sér. Fjölmörg dæmi eru um að kapellur og kirkjur þjóðkirkjunnar um land allt standi opnar öðrum kristnum kirkjudeildum sem ekki kenna sig við evangelísk-lútherska trúarhefð, svo sem rómversk-kaþólsku kirkjunni og Nýju postulakirkjunni. Þá eru sömuleiðis fjölmörg dæmi um bæði þvertrúarlega fundi og athafnir í íslenskum kirkjubyggingum á undanförnum árum. Síðastliðið sumar bauð t.d. biskup Íslands guðleysingjanum Dalai Lama, forystumanni einnar helstu greinar tíbetísks búddhisma, til „samtrúarlegrar friðarstundar“ í Hallgrímskirkju þar sem fulltrúar nokkurra trúfélaga í landinu fengu sömuleiðis að halda ávarp og lesa texta úr helgiritum sínum. Í þessum hópi voru m.a. fulltrúar Ásatrúarfélagsins, Bahá’ía og Félags múslima á Íslandi en forystumaður þess síðast nefnda söng þar heilan kafla úr Kóraninum. Í raun er það yfirlýst stefna þjóðkirkjunnar að hvetja alla til að leita til Guðs og biðja til hans hvort sem er innan kirkjubygginga hennar eða utan, en sjálf gerir hún það í nafni Jesú.
Auðvitað skiptir máli hvernig staðið er að þvertrúarlegum samskiptum og athöfnum og þarf m.a. að gæta þess að helgihaldi allra hlutaðeigandi sé auðsýnd gagnkvæm virðing. Þannig er eðlilegt að ætlast sé til að þeir múslimar sem kjósi að biðja til Guðs í kristinni kapellu auðsýni helgihaldinu þar tilhlýðilega virðingu og hylji t.d. ekki trúartákn á borð við krossa. Engin ástæða er til að gagnrýna umgengni þeirra í háskólakapellunni og hefur raunar framkoma þeirra öll verið til fyrirmyndar. Öll trúfélög múslima á Íslandi hafa að sama skapi lagt sitt að mörkum til að stuðla að jákvæðum samskiptum fólks af ólíkum trúarbrögðum hér á landi, m.a. í gegnum Samráðsvettvang trúfélaga.
Kapella Háskólans er ekki aðeins hlaðin kristnum trúartáknum, heldur er hún líka friðað mannvirki sem ekki verður breytt. Þess vegna getur hún ekki til frambúðar þjónað sem samtrúarlegt rými þar sem öllum væri gert jafnhátt undir höfði. Því ber að fagna að rektor skuli segja að Háskólinn hafi í hyggju að bjóða stúdentum upp á annað trúarlega hlutlausara bæna- og hugleiðsluherbergi eins og víða tíðkast erlendis. Vonandi mun þó kapellan einnig standa öllum opin sem það vilja og eru tilbúnir að sýna hinu kristna helgihaldi þar tilhlýðilega virðingu óháð trúarafstöðu og trúarbrögðum. Fjölmargir þjóðkirkjumenn myndu fagna því.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2009.