Áfram með vinsældavagninum

Áfram með vinsældavagninum

Eðlilegt er að fólki sé mikið niðri fyrir þegar um örlög barna, framtíð fjölskyldna og líf og dauða er að tefla. Þær djúpu og heitu tilfinningar geta þó afvegaleitt umræðuna. Mér finnst það til dæmis bera vott um fallegt hugarfar og góðan vilja að bjóða fram sumarhúsið sitt fyrir landflótta fjölskyldu en ég er alls ekki viss um að það sé af illum hvötum þegar á það er bent að ef til vill dugi slík úrræði skammt. Meira þurfi til.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
05. september 2015

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með hvernig umræðan um flóttamenn hefur þróast hér upp á síðkastið. Mér sýnist að skelfilegar myndir af sjóreknum líkum flóttafólks á ströndum Miðjarðarhafsins hafi hleypt af stað mikilli samúðarbylgju hér uppi á Íslandi og víðar. Hverjum rennur ekki til rifja að sjá slíkar myndir?

Viðbrögð almennings við myndunum voru skiljanleg og fyllsta ástæða væri til að hafa sverar áhyggjur af þjóð sem hefði brugðist við þeim með pókerfési og hjartakulda. Að mínu mat er það alvarlegt dómgreindarleysi að vanvirða og hæðast að því þegar manneskjur finna til með þeim sem eru í neyð. Alltaf þegar heitar og heilagar tilfinningar eru annarsvegar geta vanhugsuð orð hleypt öllu í bál og brand. Það mættu bæði leiðarahöfundar og skopmyndateiknarar hafa í huga.

Undanfarin ár hafa margir hamrað á því að allt sé ómögulegt á Íslandi og ekki sé nema skiljanlegt að fólk flýi land í stórum stíl; hér vilji enginn búa lengur nema aumingjar og fávitar. Þau sem dirfst hafa að benda á, að Ísland sé eitt ríkasta land í heimi og að fjölmargar alþjóðlegar kannanir sýni að hér séu lífskjör með þeim bestu í veröld víðri, hafa verið sökuð um undirlægjuhátt og meðvirkni með vanhæfum ríkisstjórnum.

Umræðan um flóttafólkið virðist hafa beint athygli þjóðarinnar upp frá eigin nafla. Ísland getur orðið að liði í þessu máli vegna þess að landið er ríkt og innviðir sterkir – og það sem mikilvægast er: Hér búa ekki eintómir fávitar og aumingjar heldur þjóð sem þorir að finna til með öðrum og vill einlæglega miðla öðrum af gnóttum sínum og gæðum.

Því hefur líka verið haldið fram að Íslendingar eigi að leysa sín vandamál áður en þeir komi öðrum til hjálpar. Að sjálfsögðu er það óviðunandi að í ríku landi eins og okkar séu þegnar sem hvorki eiga til hnífs né skeiðar. Saga mannsins sýnir samt að hið fullkomna ríki er ekki til – og stundum hafa þau ríki verið hættulegust mannkyni þar sem allt er talið í lagi og engin vandamál mega vera. Við munum alltaf geta bætt þjóðfélagið eitthvað og ef við eigum að bíða með að hjálpa öðrum þangað til við erum búin að uppræta öll þjóðfélagsmein á Íslandi munum við einfaldlega bíða endalaust og ekki lyfta svo mikið sem litlaputta fyrir aðra.

Þótt garðurinn minn þarfnist aðhlynningar, vökvunar og þar þurfi að halda illgresi í skefjum þýðir það ekki að ég mér sé fyrirmunað að bjóða þeim þar athvarf sem hefur misst garðinn sinn.

Eðlilegt er að fólki sé mikið niðri fyrir þegar um örlög barna, framtíð fjölskyldna og líf og dauða er að tefla. Þær djúpu og heitu tilfinningar geta þó afvegaleitt umræðuna. Þannig er það ekki sjálfgefið að þau sem hvetja til þess að varlega sé farið af stað og engu stillt út í gluggana sem ekki er til í búðinni séu vondar manneskjur sem sé skítsama um flóttafólkið. Mér finnst það til dæmis bera vott um fallegt hugarfar og góðan vilja að bjóða fram sumarhúsið sitt fyrir landflótta fjölskyldu en ég er alls ekki viss um að það sé af illum hvötum þegar á það er bent að ef til vill dugi slík úrræði skammt. Meira þurfi til.

Íslenskur geðlæknir sem unnið hefur í flóttamannabúðum efast um að landið ráði við að taka við hundruðum flóttamanna. Sá fjöldi þurfi sérfhæfða þjónustu sem ekki sé til staðar hér. Á vefsíðunni Eyjunni segir læknirinn að Íslendingar megi ekki taka við fleiri flóttamönnum en þeir ráði við.

„Hins vegar eigi sannarlega að taka við einhverjum og gera það eins vel og hægt er og hjálpa því fólki svo sómi sé að,“ er haft eftir honum. Þótt botnlaus skelfingin sem flóttafólkið býr við kalli á skjót viðbrögð og raunhæfar aðgerðir er alltaf ástæða til að staldra við þegar gefið er til kynna að sum mál séu þannig að þau megi helst ekki ræða.

Við Íslendingar getum staðið okkur miklu betur í að aðstoða fólk í neyð. Sumt getum við gert sjálf – eins og til dæmis það að taka á móti flóttafólki á okkar góða landi, veita því húsaskjól, lífsviðurværi, menntun og heilbrigðisþjónustu. Við skulum endilega taka á móti eins mörgum og við treystum okkur til að hjálpa þannig að sómi sé að.

Annað getum við ekki gert ein og sér heldur aðeins í samstarfi við aðrar þjóðir og alþjóðleg hjálparsamtök. Þótt nauðsynlegt sé að takast á við flóttamannavandann með því að bjóða flóttafólki skjól er ekki síður brýnt að ráðast að rótum þess vanda. Það verður ekki gert með framlagi einstakra þjóða heldur aðeins í samstilltu átaki á breiðari vettvangi.

Á heimasíðu UNICEF á Íslandi kemur fram að daglega láti að meðaltali átta börn lífið eða særist í átökunum í Jemen. 1,8 milljón barna eiga á hættu að veikjast af vannæringu. Meira en 800.000 börn hafa neyðst til að flýja heimili sín í Nígeríu vegna vopnaðra átaka þar í landi, svo nokkuð sé nefnt.

Tíunda hvert barn í heiminum býr á átakasvæði.

Verkefnin eru því ótalmörg. Einbeittur og góður vilji er ómetanlegur en úthaldið er ekki síður mikilvægt. Því hefur verið haldið fram að með því að lýsa yfir löngun til að hjálpa flóttafólki sé verið að hoppa upp á einhvern vinsældavagn. Slíkt hopp er bara af því góða ef fólk hoppar ekki af þeim ágæta vagni aftur strax á næstu stoppistöð heldur lætur hann bera sig lengra áfram á leið sem er bæði löng og ströng.

Pistill þessi birtist upphaflega á bloggsíðu minni svavaralfred.blog.is.