En seg mér lækurinn minn kæri: Hvert?

En seg mér lækurinn minn kæri: Hvert?

Fátt verður jafnan um svör því enginn veit ævina fyrr en öll er en víst er að hann liggur bæði um gróna dali og blómstrandi vinjar sem og brennandi eyðimerkur og vatnslausar auðnir, jafnt í lífi hvers manns og í sögu þjóða.
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
13. apríl 2008
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Drottinn Guð, skapari alls sem er, eins og þú vekur náttúruna alla til nýs lífs á hverju vori,og endurnýjar ásjónu jarðar, þannig viltu einnig endurnýja okkur og gjöra nýja jörð og nýjan himinn þar sem réttlætið ríkir. Lífga okkur, börn þín, og vek okkur af svefndrunganum, gef okkur kraft og kjark trúarinnar, svo að við þorum að trúa, og rísum upp til nýs lífs meðþér, fyrir Drottin Jesú Krist, bróður okkar og frelsara. Amen 1

„Er þetta vegurinn sem ég skal ganga? En seg mér, lækurinn minn kæri: hvert?“
Þannig spyr malaradrengurinn lækinn sem fangar athygli hans og beinir honum veginn til myllunnar og fögru malarastúlkunnar sem hann síðan verður ástfanginn af í ljóðinu Wohin? eða Hvert? úr ljóðabálknum Malarastúlkan fagra sem Franz Schubert samdi tónlist við.

Já, hvert liggur vegurinn sem framundan liggur? Þeirrar spurningar hlýtur hvert mannsbarn að spyrja sig einhvern tíma á lífsleiðinni. Kannski síst í áhyggjuleysi barnæskunnar þegar allt er eins og tímalaust og barnið getur ekki ímyndar sér annað en að þannig verði lífið alltaf, eins og það er einmitt þá stundina, en með unglingsaldrinum vaknar vitundin um hverfulleika þessa heims, vitundin um að allt sé breytingum undirorpið og óhjákvæmilega spurningar á borð við: Hvað á ég eftir að gera þegar ég verð stór? Verður líf mitt hamingjusamt eða þyrnum stráð? Mun ég ganga í hjónaband, eignast börn? Hvert liggur þessi vegur sem kallaður er líf?

Fátt verður jafnan um svör því enginn veit ævina fyrr en öll er en víst er að hann liggur bæði um gróna dali og blómstrandi vinjar sem og brennandi eyðimerkur og vatnslausar auðnir, jafnt í lífi hvers manns og í sögu þjóða, eins og lexía dagsins úr spádómsbók Jesaja segir frá.

Hve ljúft hafa ekki orð spámannsins hljómað í eyrum Ísraelsmanna sem dvöldu í útlegð í Babýlon og þráðu ekkert heitar en að snúa aftur heim? Davíðssálmur 137 tjáir harm útlaganna þar sem þeir sitja við fljót hinnar miklu Babýlonsborgar og gráta yfir örlögum Jerúsalem en það sem margir hefðu litið á sem vonlausar aðstæður fær samt sem áður ekki rænt þá von þeirra eða trúfesti:

„Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni hægri hönd mín. Tungan loði mér við góm hugsi ég ekki til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.“
Sú þrá sem kemur fram í sálminum er ekki eftirsjá eftir því sem var og engin von er til þess að komi aftur heldur er hún grundvölluð í óbilandi trúartrausti á miskunnsemi Guðs og elsku, trausti sem fékk staðfestingu þegar Kýrus Persakonungur braut veldi Babýloníumanna undir sig og veitti í kjölfarið Ísrael leyfi til að snúa aftur heim til Júda og Jerúsalem.

Væntingarnar um þá heimför koma fram í orðunum „Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni“ sem við heyrðum í fyrri ritningarlestri dagsins. Og ekki nóg meðþað heldur boðar hann að hið liðna skipti nú engu máli, nýtt upphaf, nýtt líf sé nú hafið.

Eins prédikar höfundur Hebreabréfsins hið nýja líf sem dauði og upprisa Jesú hefur í för með sér fyrir hinn trúaða: „Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi.“

Hér tæpir bréfritari á atriði sem einkennir líf hvers trúaðs manns; það er hin óaflátanlega leit að guðsríkinu. Samkvæmt Hebreabréfinu skal sú leit einkennast af því að lofa Guð, og iðka velgjörðarsemi og hjálpsemi gagnvart náunga sínum. Guðs ríki í þessum heimi er þannig ekki eitthvað sem hægt er að festa hendur á, eitthvað stöðugt og viðvarandi, heldur eitthvað óáþreifanlegt sem verður raunverulegt í samskiptum fólks.

Með krossfestingu Jesú lauk þeim tíma er Jerúsalem var staðurinn, hvar dýrkendur Drottins skyldu ná sambandi við hann á sérstakan hátt, með bænahaldi og fórnfæringum í musterinu eins og lögmál Móse sagði fyrir um. Páll postuli lítur svo á að trúin á Jesú frelsi manninn undan því oki aðþurfa að uppfylla allar hugsanlegar kröfur lögmálsins og þess vegna stendur hjálpræðið í Jesú jafnt gyðingum sem öðrum þjóðum til boða. Þetta er í samræmi við þá lögmálstúlkun Jesú sjálfs, að lögmálið uppfyllist í tvöfalda kærleiksboðorðinu. Trúin er ekki lengur bundin við lögmálið heldur Krist og sannleika tvöfalda kærleiksboðorðsins. Jesús útlistar þennan nýja veruleika sjálfur fyrir samversku konunni sem hann hittir við brunninn í Samaríu og biður gefa sér að drekka en hún innir hann álits á því deilumáli samverja og gyðinga, hvort tilbiðja skuli Guð á Gerisím-fjalli eða í Jerúsalem:

„Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur aðþið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjiðþað sem þiðþekkið ekki. Við tilbiðjum það sem viðþekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Í orðum Jesú má heyra enduróm af boðskap nafna hans, spámannsins Jesaja, sem flutti Jerúsalembúum svohljóðandi orð Drottins átta öldum fyrr:
 „Hvað varða mig yðar mörgu sláturfórnir? . . . Þegar þér lyftið höndum yðar í átt til mín loka ég augunum og þótt þér biðjið margra bæna heyri ég ekki. Hendur yðar eru ataðar blóði. Þvoið yður! Hreinsið yður! Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum. Hættið að gera illt, lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar.“
Bæði Jesaja og Jesús vissu og boðuðu að Drottinn Guð er guð réttlætisins og kærleikans, persónulegur Guð sem gefur færi á persónulegu sambandi við þá sem tilbiðja hann.

Það er einkenni á trú Ísraels og kirkjunnar að Drottinn er guð sem er í gagnvirkum tengslum við þá sem tilbiðja hann. Gamla testamentið vitnar um upplifun Ísraels af þátttöku Guðs í sögu þjóðarinnar. Það vitnar um hvernig Guðsmynd Ísraels tók breytingum í sögu þjóðarinnar og hvernig skilningur manna á eðli og vilja Guðs breyttist í gegnum tíðina.

 En þótt skilningurinn breyttist var hefðinni ekki kastað fyrir róða; grunnurinn er jafnnauðsynlegur eftir sem áður þó svo húsið sé klætt upp á nýtt. Nýjum túlkunum og nýjum skilningi var einfaldlega bætt við hið gamla, gamlir textar voru notaðir í nýju samhengi, nýir samdir fyrir nýjar aðstæður o.s.frv. Þannig er G.t. einstök heimild um trúarsögu þjóðar í árþúsund og holl áminning um að samband Guðs og manns er síbreytilegt eins og öll önnur sambönd. Það markast af tíma og rúmi hvernig því er háttað; það sjáum við í G.t. jafnt á því hvernig hið opinbera form guðsdýrkunarinnar tekur breytingum, t.d. vegna breyttrar samfélagsgerðar, en einnig hvernig hrikt getur í stoðum hins persónulega trúarlífs, eins og hjá Job þegar áföllin dynja yfir eitt af öðru.

Þannig tekur trúin breytingum á vegferðinni sem Guð og maður eiga saman, þroskast og dýpkar eða jafnvel bíður skipbrot. Hér leikur efinn stórt hlutverk en trúnni fylgir ávallt barátta og efi eins og sr. Sigurjón Árni Eyjólfsson bendir á í nýlegri grein um trúarhugtakið. „Efinn nærir trúna og trúin nærir efann.“

En þar sem trúin nær því að taka á sig mynd persónulegs trausts hins trúaða til Guðs, lætur hún ekki efann slá sig út af laginu, heldur á uppbyggjandi samtal við hann og þannig lærir einstaklingurinn, að jafnvel þótt trúin sé vakin af orði fagnaðarerindisins og taki „mið af upprunalegum vitnisburði ritningarinnar, sem er frumheimild hennar“, þá byggir trúartraustið ekki á sagnfræðilegum líkindum frásagna ritningarinnar heldur á orði fagnaðarerindisins um kærleika Guðs og fyrirgefningu fyrir trúna á Jesú Krist, sem Martin Luther taldi að vekti trúna fyrir tilstilli heilags anda og gerði þannig manninum kleift að nálgast Guð og þiggja fyrirgefningu hans og náð án þess aðþurfa að vinna sér það inn með uppfyllingu lögmálsboða.

Nú greina guðspjöllin öll frá óbifanlegu trúartrausti Jesú þar sem hann gekk þann veg sem á endanum hlaut að leiða hann í dauðann en hann treysti Guði. Það er þetta óbifanlega traust á kærleika og miskunn Guðs sem skín í gegn í guðspjalli dagsins þegar Jesús segir við lærisveinana: Sannlega, sannlega segi ég yður: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.“ Hann talar á svipuðum nótum annars staðar um að með trúnni geti lærisveinarnir flutt fjöll (Matt 17.20; Lúk 12.22-32), ekkert verði þeim um megn. Jesús grípur hér meðvitað til þess stílbragðs aðýkja, til þess að útskýra fyrir lærisveinunum -og okkur- skilning sinn á trúnni sem trausti til Guðs sem fylli manninnöryggi. Í trúnni geti „maðurinn falið sig Guði á vald skilyrðislaust og látið trúartraustið móta líf sitt.“ Slíkt traust er sem „lind lifandi vatns sem streymir fram til eilífs lífs“ en þannig lýsir Jesú trúnni á sig fyrir samversku konunni.

Við getum ekki búist við því að fá svar við spurningunni um það hvert leið okkar liggur frekar en malaradrengurinn knái. Við verðum einfaldlega að ganga veginn sem framundan er, hvort sem hann liggur um frjósama dali og eyðimerkur. En við höfum þegar, í fagnaðarerindi guðspjallanna, fengið svar við spurningunni til hvers og með hverjum skal ganga. Það sem skiptir máli frá kristnum sjónarhóli er, með hverjum er gengið, að gangan sé gengin í trausti á handleiðslu Drottins þannig að sýn Guðs á heiminn sem við göngum í og á manninn sem við mætum á vegferðinni móti okkar eigin sýn.

Þegar það tekst, að láta daglegt líf okkar og alla tilveru verða samofna trúnni, þ.e. traustinu til Guðs, þá það er sannfæring mín-þá er sama hvort leiðin liggur um gróðurvin eða uppblásna auðn, hvert sem við förum hjalar lækur við fætur okkar sem býður okkur er okkur þyrstir að svala okkur á lifandi vatni trúarinnar á Jesú Krist og leiðir okkur um réttan veg. Og í því ljósi verður það algjört aukaatriði hvernig eða hvort við uppfyllum hinar aðskiljanlegustu kröfur heimsins um útlit, hegðun, efnalega afkomu eða hvaðeina annað. „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ Amen.