Fyrir stéttleysingjana

Fyrir stéttleysingjana

Dalítar á Indlandi eru stéttleysingjar. Þeir lifa utan við hið hefðbundna stéttakerfi og verða þeir enn fyrir mismunun og ofbeldi, þrátt fyrir lagaumbætur.

Bagmusa Dalit Cobbler Community - Sonargaon, Bangladesh

Dalítar á Indlandi eru stéttleysingjar. Þeir lifa utan við hið hefðbundna stéttakerfi og verða þeir enn fyrir mismunun og ofbeldi, þrátt fyrir lagaumbætur. Dalítar búa við fátækt og eru varla teknir gildir í mannlegu samfélagi á Indlandi. Þetta kom fram á fundi sem haldinn var um aðstæður Dalíta í tengslum við alþjóðlega bænaviku fyrir einingu kristninnar. Því miður er þetta líka staðreyndin að einhverju marki innan kirknanna á Indlandi, þrátt fyrir að Dalítar séu um 80% kristins fólks þar í landi. Gegn þessu vilja kristnir námsmenn á Indlandi berjast og biðja okkur um að taka undir með þeim í bænum þeirra og vitundarvakningu fyrir réttlæti til handa Dalítum og öðrum jaðarhópum samfélagsins. Á fundinum fjallaði Bjarni Gíslason frá Hjálparstarfi kirkjunnar um þá erfiðleika sem Dalítar búa við og hvernig hægt sé að vinna að bættum aðstæðum þeirra, ekki síst barnanna, t.d. í gegn um samstarf við indversku hjálparsamtökin Social Action Movement.

Við eigum samleið

Um allan heim les kristið fólk saman efni frá Indlandi í þeirri alþjóðlegu bænaviku sem nú stendur yfir. Þetta árið var það Kristilega stúdentahreyfingin á Indlandi sem ásamt öðrum tók saman efnið. Dagarnir átta bera hver um sig yfirskrift sem minnir á að við erum fólk á ferð, að við eigum samleið á göngu okkar hvert með öðru og með Guði. Að ganga er viljastýrð og virk athöfn og gefur mynd af þeim kröftuga ásetningi sem einkenna ætti lærisveina Krists, hans sem gekk inn í mannkynssöguna og býður öllum að slást í för með sér. Sönn eftirfylgd við Krist er í samhljómi við orðin úr Orðskviðunum (12.28a): Á vegi réttlætisins er líf.

Gegn misrétti og óeiningu

Fyrir Dalítasamfélögin er leiðin til réttlætis og frelsis óaðskiljanleg frá þeirri samleið sem kristið fólk á í trúnni á Jesú Krist. Kristnu fólki á Indlandi ber að hafna stéttaskiptingunni, segja ungmennin sem sömdu efnið, rétt eins og kristið fólk á heimsvísu ætti ekki að sætta sig við óeiningu sín á milli. Þess vegna komum við saman í guðsþjónustum og samverustundum til að biðja fyrir þeirri einingu sem er vilji Krists fyrir kirkju sína og við erum kölluð til að brjóta niður þá múra sem skilja okkur að innbyrðis. Tökum áskorun indversku ungmennanna og hugleiðum einnig í okkar samhengi hvað það merkir að gera það sem Guð væntir af okkur.

Bænavika fyrir einingu kristninnar

Í bænaviku fyrir einingu kristins fólks – Week of Prayer for Christian Unity – kemur kristið fólk um allan heim saman um bænarefni, ritingarlestra og vitnisburði sem trúsystkini okkar í fjölbreyttum kristnum kirkjum, stundum frá öðrum heimshluta, hafa undirbúið. Þannig er þessi sérstaka bænavika bæði alþjóðleg og samkirkjuleg. Slík bænavika hefur verið haldin á heimsvísu frá 1908, víða í janúar ár hvert, en hér á landi frá 1980 eftir stofnun Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi árið 1979. Það er Alkirkjuráðið í samvinnu við Páfaráðið fyrir einingu kristninnar sem safnar efninu saman og kemur því á framfæri við kristnar kirkjur um allan heim og nær þátttakan langt út fyrir raðir aðildakirkna þessara stofnana, eins og raunin er t.d. hér á landi.

Ljósmynd: The Advocacy Project