Þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá — Mismunandi leiðir að sama marki

Þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá — Mismunandi leiðir að sama marki

Ef líta má á tillögu mína sem ásættanlegt lágmark fyrir þjóðkirkjuákvæði virðist mega skoða tillögu Bjarna og Péturs sem visst hámark í því sambandi. Má líta svo á að fengið sé nokkurs konar gólf og þak í raunhæfri umræðu um útfærslu á því þjóðkirkjuákvæði sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar kallar á.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
01. nóvember 2012

Þann 27. okt. s.l. birtu Bjarni Randver Sigurvinsson og Pétur Pétursson athyglisverða grein í Mbl. undir fyrirsögninni „Þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskrá“. Undirritaður fagnar greininni og telur hana til þess fallna að fleyta áfram umræðu um þetta mikilvæga mál.

Apologia!

Vissulega hnykkti mér við að vera sakaður um að „hundsa“ vilja meirihluta þjóðarinnar sem og að tillaga sú sem ég hef kynnt að nýju þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni hafi „... ekkert að gera með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar“. Hugsanlega ræðst mat þeirra Bjarna og Péturs af því að þeir birtu grein sína áður en nokkrar skýringar höfðu komið fram um tillögu mína (sjá Hvers konar þjóðkirkjuákvæði? á trú.is 29. 10. s.l.). Það er þó ekkert víst. Afstaða okkar til núgildandi þjóðkirkjuákvæðis í stjskr. (62. gr.) er að verulegu leyti tilfinningaleg. Um það er ekkert nema gott eitt að segja. Við verðum þó að geta rætt um málið einnig á öðrum nótum.

Tillaga mín byggðist á niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar 20. okt. s.l. varðandi fyrstu spurninguna á atkvæðaseðlinum, bókstaflegri merkingu þriðju spurningarinnar og niðurstöðum kosningarinnar í þeirri sömu spurningu. Þá tók hún mið af þeirri aðferðafræði sem Stjórnlagaráð hafði viðhaft varðandi 19. gr. í frumvarpi sínu. Þeirri aðferð er mögulegt að beita áfram ef vilji er fyrir hendi þótt efnislegu inntaki greinarinnar sé mikið breytt eins og gert er í tillögu minni. Þannig hefur hún „með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar að gera“.  Í grein sinni virðast þeir Bjarni og Pétur hins vegar aðeins byggja á niðurstöðum í spurningu nr. 3 og þeirri túlkun að í atkvæðagreiðslunni hafi verið spurt um óbreytt þjóðkirkjuákvæði. Þetta er þó ekkert aðalatriði máls en er nefnt hér í framhjáhlaupi.

Gólf og þak

Sjálfur lít ég svo á að í þeirri tillögu sem ég hef kynnt að nýju þjóðkirkjuákvæði sé sett fram nokkuð sem kalla má ásættanlegt lágmark fyrir okkur sem greiddum þjóðkirkjuákvæði „Já“-yrði okkar. Tillaga hljómar þannig: Kveða skal á um stöðu þjóðkirkjunnar sem og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga í lögum. (Hér mætti „annarra“ vissulega falla brott). Nú samþykkir Alþingi breytingu á ákvæðum laga um stöðu þjóðkirkjunnar og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Þrátt fyrir að ákvæðið sé knappt og því svipi til ákvæðis Stjórnlagráðs samræmist það vel „Já“-yrðinu. Af ákvæðinu er ljóst að í landinu starfar þjóðkirkja, að málefni hennar heyra undir opinberan rétt, að staða hennar sem þjóðkirkju er skilgreind í lögum og að þjóðin hefur síðasta orðið þegar um breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar er að ræða rétt eins og nú er. Látið var staðar numið við þessa lágmarksbreytingu á 19. gr. Stjórnlagaráðs í þeirri von að hún skapaði sem mest jafnvægi milli niðurstaðnanna í sp. 1 og 3 í atkvæðagreiðslunni og þar með sátt í samfélaginu.

Tillaga Bjarna og Péturs er á þessa leið: Ríkisvaldið styður og verndar evangelísk-lútherska þjóðkirkju á Íslandi og stendur vörð um sambærileg réttindi annarra skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í landinu. Þessi tillaga er vissulega hefðbundnari en tillaga mín og heldur inni meiru af klassíska orðalaginu sem okkur mörgum finnst vænt um. Ástæðurnar fyrir því að ég kaus að taka ekki með áskilnaðinn um stuðninginn og verndina eru þó ekki aðeins þær sem að framan getur. Auk þeirra var ég minnugur þess að a.m.k. einn mjög málsmetandi maður í þjóðkirkjunni lét það álit í ljós fyrir fáum misserum að tvísýnt væri hvort sú sjálfstæða kirkja sem þjóðkirkja okkar vissulega er þyrfti á stuðningi og vernd ríkisvaldsins að halda og ætti að kalla eftir honum.

Að mínu mati eru svo a.m.k. tveir hnökrar á tillögunni. Það virðist ekki ljóst hvað orðin „... og stendur vörð um sambærileg réttindi annarra skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga“ merkja. Að hvaða leyti skal réttur þeirra vera sambærilegur? Er um sama rétt að ræða eða aðeins svipaðan rétt? Orðalagið opnar með öðrum orðum fyrir vafa og ólíkar túlkanir. Stjórnarskrárákvæði verða að vera skýr og greinileg. Þá er ekki ljóst hvað punkturinn á eftir „... í landinu“ merkir. Er hann endanlegur eða er eitthvað undan skilið í kynningunni? Þá á ég við hvað þeir Bjarni og Pétur hyggjast gera við ígildi 2. mg. 79. gr. núg. stjskr. („Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu, til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“). Einhverjum kann að virðast augljóst að þeir félagar hafi aðeins sleppt þessu atriði þar sem það sé óumdeilt. Punkturinn getur þó haft allt aðra merkingu. Eins og tillagan er sett fram í Mbl.-greininni gefur hún þjóðkirkjuákvæðinu að nýju sömu stöðu í stjskr. og það hafði fyrir 1915 en þá var orðunum „Breyta má þessu með lögum“ bætt við ákvæðið. Sú breyting kallaði síðan á fyrrgreindan fyrirvara um þjóðararkvæði sem kom inn 1920. Það skiptir máli hvort þessi sé merking punktsins eða ekki.

Ef líta má á tillögu mína sem ásættanlegt lágmark fyrir þjóðkirkjuákvæði virðist mega skoða tillögu Bjarna og Péturs sem visst hámark í því sambandi. Á þennan hátt má líta svo á að fengið sé nokkurs konar gólf og þak í raunhæfri umræðu um útfærslu á því þjóðkirkjuákvæði sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar kallar á.

Norska leiðin

Mér segir svo hugur um að ýmsir séu gagnrýnir á báðar tillögurnar sem hér eru til umræðu vegna þess að þær nefna báðar önnur trú- og lífsskoðunarfélög í sömu andrá og þjóðkirkjuna. Mörgum finnst líklega að í þjóðkirkjuákvæði eigi aðeins að ræða um þjóðkirkju. Ég fagna því þeim samhljómi sem fram kemur í þessu efni. Skýrari staða trú- og ekki síður lífsskoðunarfélaga og aukinn jöfnuður milli þeirra og þjóðkirkjunnar er grundvallaratriði í trúmálarétti fyrir 21. öldina. Nauðsyn ber til að þeirrar stefnumörkunar sjái stað í stjórnarskrá sem á að endast í næstu áratugi að lágmarki. Hér kemur og fleira til. Í tengslum við aukakirkjuþing í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar vísaði margt kirkjuþingsfólk til nýendurskoðaðrar stjórnarskrár Norðmanna sem mikilvægrar fyrirmyndar fyrir okkur. Þar er einmitt þessi leið farin að kveða á um stöðu þjóðkirkjunnar, trúfélaganna og lífsskoðunarfélaganna í einni og sömu grein (nr. 16) en þar segir: Alle Indvaanere af Riget have fri Religionsøvelse. Den norske Kirke, en evangelisk-luthersk Kirke, forbliver Norges Folkekirke og understøttes som saadan af Staten. Nærmere Bestemmelser om dens Ordning fastsættes ved Lov. Alle Tros- og Livssynssamfund skulle understøttes paa lige Linje. (http://www.lovdata.no/all/hl-18140517-000.html#16) Á það má benda að tillaga þeirra Bjarna og Péturs fer mjög nærri þessari norsku stjórnarskrárgrein. Raunar mælir ekkert gegn því að fá ákvæðið þannig að láni frá Noregi. Þó ber þess að gæta að fram til ársins í ár var lúthersk trú ríkisátrúnaður í Noregi. Þess var m.a. krafist að a.m.k. helmingur ráðherra í ríkisstjórn væru þjóðkirkjumenn. Með þessari grein er verið að leggja þetta gamla fyrirkomulag niður og innleiða í staðinn þjóðkirkjuskipan sem nýjung í stjórnarskrá Noregs. Það kallar á meiri umbúnað en nauðsynlegur er hjá okkur sem búum að gamalgrónu þjóðkirkjufyrirkomulagi sem hefur fengið nákvæma útfærslu í lögum. Sá munur skýrir frávik mitt frá 62. gr. í okkar stjskr. sem og norska ákvæðinu.

Þjóðkirkjuákvæðið og gildi samfélagsins

Í grein Bjarna og Péturs virðist sá algengi skilningur ráða ferðinni að þjóðkirkjuákvæðið feli í sér yfirlýsingu um grunngildi samfélagsins. Þessi skilningur felur í sér að það sé að meira eða minna leyti vegna 62. gr. í núg. stjskr. sem við getum staðhæft að við séum kristin þjóð, getum haft kross í þjóðfána okkar og sungið: „Ó, Guð vors lands,...“ — Þessi skilningur hvílir á afar veikum grunni og til eru margar jafnkristnar þjóðir og við sem ekki búa að sambærilegu þjóðkirkjuákvæði. Sem betur fer hvílir samfylgd kirkju og þjóðar ekki á stjórnarskrárákvæði. Sambandið er lífrænna en svo.

Þjóðkirkjuákvæðið — 62. gr. stjskr. — er raunar allt þar sem það er séð. Það er ákvæði sem áskilur einni kirkju, evangelisku lútersku meirihlutakirkjunni, vernd og stuðning trúarlega hlutlauss ríkisvalds „að því leyti“ sem hún er þjóðkirkja. Í ákvæðinu felst hvorki meira né minna. Þetta er frændum okkar Norðmönnum fullljóst. Þar í landi reynir fólk ekki að lesa neina gildishlaðna merkingu inn í trúfrelsis- og þjóðkirkjuákvæðið sem að framan getur. Þvert á móti hefja Norðmenn hina endurskoðuðu stjórnarskrá sína með sérstakri gildagrein. Strax og þeir hafa lýst yfir sjálfstæði konungsríkis síns segja þeir í annarri grein stjórnaskrárinnar: Værdigrundlaget forbliver vor kristne og humanistiske Arv. Denne Grundlov skal sikre Demokratiet, Retsstaten og Menneskerettighederne. (http://www.lovdata.no/all/hl-18140517-000.html#16)

Við sem áhuga höfum á samfélagsgildum ættum að hugleiða hvort nægilega vel sé búið um þennan mikilvæga þátt menningar okkar í stjórnarskránni — þeirri núgildandi sem og frumvarpi Stjórnlagaráðs —  í stað þess freista þess að lesa hann inn í ákvæði sem í raun fjallar um annað.

Stjórnlagaráð brá á það ráð að lýsa gildum samfélags okkar í aðfaraorðum að frumvarpi sínu sem væntanlega er ætlað að fylgja því alla leið nái það fram að ganga. Þar segir:

Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornstein­ um.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreyti­ leika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða. (http://stjornlagarad.is/other_files//stjornlagarad/Frumvarp-til-stjornarskipunarlaga.pdf)

Hér ber að staldra við og spyrja hvort eitthvað vanti upp á gildagrunninn að mati okkar þjóðkirkjufólks, hvort honum sé best fyrir komið í aðfaraorðum eða hvort unnið skuli að samningu sérstakrar gildagreinar í ætt við þá norsku fremst í stjórnarskrá okkar.

Ýmsar leiðir færar

Í kjölfar þess að 19. gr. í frumvarpi Stjórnlagaráðs var hafnað í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu hefur myndast tómarúm í frumvarpinu. Það verður að fylla með þjóðkirkjuákvæði eins og við köllum eftir sem svöruðum þriðju spurningunni á atkvæðaseðlinum með „Já“-i. Til þess eru ýmsar leiðir.

Auðvitað má stoppa í gatið með núverandi 62. gr. stjskr. Þrátt fyrir að hún hafi staðið vel með þjóðinni um langt skeið og sé okkur mörgum kær er líklegt að þar með væri aðeins tjaldað til skamms tíma. Hætt er við að fljótt skapaðist spenna og núningur sem mundi hraða harðri umræðu um samband og tengsl ríkis og kirkju og flýta aðskilnaðarþróun hugsanlega um marga áratugi. Vissulega mundi það líklega kæta marga. Þó ekki alla! Sé þessi leið farin virðist líka óhjákvæmilegt að semja nýja stjórnarskrárgrein sem tryggði stöðu skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga.

Einnig mætti fara norsku leiðina en þá með betri þýðingu og staðfærslu en fram kemur í grein Bjarna Randvers Sigurvinssonar og Péturs Péturssonar

Þá mætti byggja á fyrrnefndri tillögu minni um lágmarksákvæðið.

Loks vil ég minna á tillögu sem ég hélt mjög á lofti meðan á störfum Stjórnlagaráðs stóð. Nú þegar 19. gr. í frumvarpi þess hefur verið hafnað er e.t.v. ástæða til að draga hana fram að nýju í lítið eitt breyttri mynd. Tillagan fól í sér að eftir ákvæði um trúfrelsi, nú líklega 18. gr. í frumvarpi Stjórnlagaráðs, komi:  

Ríkisvaldið verndar öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slíka breytingu skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu. Nánar skal kveðið á um stöðu þjóðkirkjunnar í lögum.