María og Joiti

María og Joiti

Lofsöngur Maríu er magnaður texti og þar fæst innsýn í mikilvæga þætti hins biblíulega boðskapar sem lýtur að því að trúaðir einstaklingar eiga ekki að láta það viðgangast að fólk sé kúgað og niðurbeygt.

Fer ekki ágætlega á því, í þeirri tíð sem verið hefur undanfarið að velta vöngum yfir því hve langt er til jólanna? Nú rétt fyrir páska, birtist okkur þessi fjarlægi boðberi fæðingarhátíðar frelsarans - sjálfur boðunardagur Maríu, einmitt níu mánuðum áður en jólin ganga í garð. Hún stígur fram á sjónarsvið kirkjunnar í þeirri hrynjandi daganna sem við köllum kirkjuár - sjálf mærin, María mey, sem hefur verið viðfangsefni skálda og tilbeiðslu allt frá upphafsárum kristinnar trúar.

Máría

María hefur höfðað til kristinna manna og með sama hætti hafa gyðjur annarra trúarbragða sem búa yfir sömu eiginleikum átt greiðan aðgang að hjörtum fólks. Stytturnar og myndirnar sem við sjáum af henni eiga sér hliðstæður víða. Mærin með barnið í fanginu er sístætt viðfangsefni listamanna á öllum tímum. Vart finnum við nánari tengsl en á milli móður og brjóstmylkings. Það sýnir móðurástina sem má yfirfæra á svo marga aðra þætti í mannlegu eðli.

Maríukvæðin eru mörg og bera þess merki hversu ríkur átrúnaðurinn á Guðsmóðurina hefur verið í gegnum tíðina. Í kaþólskum sið beindi fólk bænum sínum til Maríu og átti hún að milda reiði hins almáttuga Guðs. ,,Máría, ljáðu mér möttul þinn, mæðir hretið skýja”, svona yrkir Einar Ólafur Sveinsson og kallast á við þess hefð. Hann leitar til hennar og biður um líkn frá kuldanum, hörkunni og eldinum sem sækir að dauðlegu fólki. Sú afstaða lýsir vel því hlutverki sem María hefur haft. Mild og auðmjúk hefur hún verið móðurímyndin, erkitýpa hinnar hlédrægu og hljóðlátu konu sem menningin hefur alla tíð hampað en um leið litið þær konur hornauga sem staðið hafa gegn ríkjandi gildum og ögra þeim sem beita ofbeldi og stjórna með ofríki.

Þau sem þoldu órétt og sátu í sárum sínum eftir yfirgang ofbeldismanna leituðu til Maríu eftir huggun og mildi andspænis hörku heimsins. Tónskáldin hafa mörg hver ort út frá ákallinu, sem ómað hefur við slíkar aðstæður. Heil María, Ave Maria, þú sem nýtur náðar Guðs. Og þar mætir hún manneskjunni í umkomuleysi sínu en býr sjálf yfir hinni hljóðlátu tign, auðmjúk en um leið af öðrum heimi.

Joiti

Mér varð hugsað til þessara eiginleika Maríu er ég sá í sjónvarpinu heimildarmynd um stöðu kvenna á Indlandi. Yfirskriftin er ,Dóttir Indlands, og er þar rakið hlutskipti stúlkunnar Joiti sem þoldi misþyrmingar og loks dauða af hendi ofbeldismanna. Í viðtölum við böðla hennar og verjendur þeirra opnuðust gáttir inn í heim misréttis og kvenhaturs. Þeir réttlættu gjörðirnar með vísan til þess að munur kynjanna væri slíkur að konur kölluðu yfir sig slíkar hörmungar ef þær ekki læddust með veggjum og sýndu undirgefni í stóru sem smáu. Voðaverkin voru því það sem við segjum, toppurinn á ísjakanum. Að baki bjó óréttlætanleg sýn á stöðu kvenna sem fléttaðist inn í flókna stéttaskiptingu sem ríkir á þessum slóðum og á sér sannarlega hliðstæður víðar. ,,Máría ljáðu mér möttul þinn” - yrkir skáldið og leitar þar til mildis hennar og umhyggju mitt í hinum harða heimi. Það fór ekki hjá því að bænir okkar beindust þangað einnig þegar áhorfandanum féllust hendur yfir þeim hörmungum sem lýst var í mynd þessari.

En, hlutskipti Maríu hefur ekki síður verið það að staðfesta ákveðna stöðu kvenna í hinum kristna heimi. Hin milda ásjóna hennar hefur verið hugsuð sem fyrirmynd kvenna. Hún sýnir þolgæði og mætir óréttlætinu í auðmjúkri þögn og samþykki.

Hin róttæka María Á boðunardegi Maríu hugleiðum við stöðu kvenna, ekki aðeins í fjarlægum heimshlutum heldur einnig hér í okkar eigin samfélagi. Nú er unnið að því að opna augu fólks fyrir dulinni birtingarmynd kynjabundins misréttis. Þar er átt við ofbeldið sem fram fer innan veggja heimilisins og eru konur í langflestum tilvikum fórnarlömg slíkra óhæfuverka. Það kann að hljóma ótrúlega, en 60% morðmála á Íslandi eru skilgreind sem heimilisobeldi. Við stöndum frammi fyrir því að það sem við kennum við innsta kjarna kristins siðferðis - að hlúa að rétti hins varnarlausa - hefur til skamms tíma mætt afgangi í réttarkerfi og löggæslu hérlendis.

Guðspjall þessa dags vitnar til hennar Maríu:

,,Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.”

Já, hér er það sannarlega hin hlédræga mær sem birtist okkur en það segir þó ekki alla söguna.

Þegar við lesum áfram hinn vel þekkta lofsöng Maríu, birtist okkur önnur mynd af mærinni og Guðsmóðurinni. Þessi unga stúlka sem vart hefur verið komin langt af táningsaldri á til okkar ríkulegt erindi. Hún sendir frá sér yfirlýsingu sem beint er gegn ofríki og ofbeldi þeirra sem níðast á hinum minni máttar. Lofsöngur Maríu er magnaður texti og þar fæst innsýn í mikilvæga þætti hins biblíulega boðskapar sem lýtur að því að trúaðir einstaklingar eiga ekki að láta það viðgangast að fólk sé kúgað og niðurbeygt.

María stillir sér upp við hlið spámanna Biblíunnar sem fluttu hinn sama boðskap. Hvers virði eru fórnir þær sem trúaðir færa Guði sínum á altarinu ef trúin birtist ekki í umhyggjunni til náungans? Hverju skipta trúarjátningar þeirra manna sem ganga um í myrkri haturs og ofríkis í garð þeirra sem minna mega sín? Þessi tónn birtist okkur æ ofan í æ í heilagri Ritningu. Þegar sá sem María bar undir belti tók að hóf boðun fagnaðarerindis síns lýsti hann hlutverki sínu svo hljóðandi:

,,Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.”

Hér er kveðið við sama tón þar sem fagnaðarerindið beinist að hverjum þeim sem þolir órétt og býr við bág kjör í þessum heimi. Sköpun Guðs og kærleikur hans þarf á höndum okkar og kærleika að halda og Kristur beinir orðum sínum til allra þeirra sem láta sér annt um náunga sinn. María stendur með sama hætti upp mitt í heimi óréttlætis og kúgunar og talar inn í aðstæður kvenna eins og hinnar indversku Joiti og kallar á réttlæti og endurnýjun hugarfars og menningar. Hún lýsir verkum Drottins með þessum orðum:

Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.

Takið eftir þessum róttæka boðskap frá hinni ungu konu sem dagur þessi er helgaður. Hér mætir okkur sterkur pólitíski tónn Biblíunnar sem brýnir fyrir okkur að orðin eru innantóm ef þar fylgir ekki með einlægur vilji til að bæta hag þeirra sem undirokaðir eru. Hér er horft til framtíðar að þeirri skipan sem er trúuðu fólki samboðin og krefst hugrekkis og einlægs vilja til að bæta það samfélag sem þeir eru hluti af.

Fortíð eða framtíð? María, hefur mætt þjáðum á öllum tímum og borið smyrsl á sárin eftir hörmungar og þrautir, sem oftar en ekki hafa verið af manna völdum. Í ávarpi þessu er hún á hinn bóginn sú sem talar inn í framtíðina og vill skapa betri heim þar sem slíkt órétti á sér ekki stað. Þar sem valdsins fólki er steypt af stóli en smælingjar eru upp hafðir. Þar sem hungraðir njóta gæða en ríkir ganga frá borðinu tómhentir.

Og eftir stendur þetta mikilvæga erindi til okkar, okkar sem horfum framan í brotinn heim óréttlætis og misskiptingar auðs. Það er okkar hlutskipti að ganga fram og bæta það sem misfarið hefur. Ekki síst ef voðaverk eru unnin í nafni trúar - hverrar ættar sem hún kann að vera. Biblían er skýr hvað þetta varðar og hún kallar fram í okkur samhygðina, samlíðanina með þeim sem er þjáður og þarf á kröftum okkar og kærleika að halda.

Já, nú er boðunardagur Maríu og rétt áður en páskahátíðin gengur í garð er eins og hin, stóra hátíð kristinnar trúar gægist inn og minni á sig. Kirkjuárið er hringur og vísar í margar áttir. Saga Maríu er sagan af því þegar Jesús gerðist maður og rétt eins og boðskapurinn er sá að við eigum að huga að náunga okkar og láta okkur annt um þá sem minna mega sín er vettvangur fagnaðaerindisins hér á jörðinni. Hann fæddist af konu og hann gekk í rykinu og hitanum í hinu forna Ísraelsríki. Rétt eins og engillnn vitraðist Maríu, vitjar Guð okkar. Minnir okkur á að láta ekki óttann ráða för heldur ganga fram hugrökk og sterk til varnar þeim sem undirokuð eru og vinna þannig að framgangi réttlætis og kærleika í þessum heimi.