Siðbótin var menningarbylting

Siðbótin var menningarbylting

Það breyttist svo margt með siðbót Lúthers á Íslandi. Þetta var í raun menningarbylting. Áherslan á beint og milliliðalaust samband Guðs og manns skipti sköpum. Höfðað var til einstaklingsins, frumkvæðis, ábyrgðar og siðferðis.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
04. júní 2011
Flokkar

Við biðjum með orðum séra Einars Sigurðssonar:

Send þú mér, sannleiksandi, sáð til allra dáða, hreina trú hjarta mínu. Og heita elsku mér veitir. Speki svo einninn aukist, að ég skilji Guðs vilja, dygð réttu við, drottinn, svo dugi bæn hjartans væna. Í Jesú nafni, Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Hér við hlið kirkjunnar stendur minnisvarði um sr. Einar Sigurðsson, sem sat þennan stað árin 1590 til 1627 eða í 37 ár. Dánarár sr. Einars er oftast sagt vera ári fyrr eða 1626, en þá stenst ekki munnmælasagan um að sr. Einar hafi safnað fólkinu hér í sveitinni í kirkju þegar Tyrkirnir komu með ránum og gripdeildum árið 1627. Gerði þá svo svarta þoku umhverfis staðinn hér, að Tyrkir fóru villur, rugluðust í ríminu, hófu að grafa sér göng ínn í dokkina hér sunnan undir kirkjunni og talið að sjáist för eftir og heitir nú Tyrkjalá, en þeir náðu aldrei til kirkjunnar og fólkið bjargaðist. Guði var þökkuð sú frelsun fyrir bænastyrk sr. Einars.

Þannig hefur kirkjan og kristin trú verið samofin inn í þjóðlífið um aldir og kjölfesta í gildismati, siðum og lögum. Kristin trúaráhrif hafa verið allt um kring, mótað líf og dagfar. Fyrr á öldum var kirkjan einasta stofnunin sem sameinaði þjóðina um leið og hún var fólkinu skjöldur og skjól í blíðu og stríðu. Og í innan kirkjunnar blómgaðist menningin og gerir enn. Miklu skipti að burðarmenn í prestastétt risu hátt í andans verkum sínum. Þar á meðal var sr. Einar Sigurðsson, en verður að segja að hans hlutur í menningarsögu þjóðarinnar hefur verið vanmetinn. Sr. Einar var mikið skáld og er því haldið fram að meira sé til af ljóðum eftir hann en nokkurn annan Íslending. Eigi að síður er hann fyrst og fremst nú þekktur fyrir jólasálminn fallega, Nóttin var sú ágæt ein, við lag Sigvalda Kaldalóns.

Með gildum rökum má halda því fram að sr. Einar hafi verið á meðal þeirra sem mest lagði að mörkum svo lúthersk siðbót varð almenningseign á Íslandi, færði siðbótina inn á baðstofuloftin, inn á heimili landsmanna, með sálmakveðskapnum, sem ekki einungis var sunginn, heldur brúkaður í bænagjörð með guðrækninni á baðstofuloftinu.

Það breyttist svo margt með siðbót Lúthers á Íslandi. Þetta var í raun menningarbylting. Áherslan á beint og milliliðalaust samband Guðs og manns skipti sköpum. Höfðað var til einstaklingsins, frumkvæðis, ábyrgðar og siðferðis. Fólkið yrði að kynna sér Guðsorðið, gera sér það handgengið og rækta samfélagið með Guði. Messan skyldi fara fram á íslensku með áherslu á bænagjörð, predikun og fallega lofsöngva. Þá þurfti að kenna fólki að lesa. Siðbótin fól í sér umfangsmikla vakningu í alþýðumenntun, að allir ættu að geta lesið og skrifað. Kirkjunni og prestunum var falið að sjá um skólana og uppfræðsluna. Biblían var þýdd á íslensku og fyrsta prentsmiðjan var sett upp á Hólum. Þarna stóð í forystu sr. Guðbrandur biskup á Hólum. Og það varð að semja, skrifa, yrkja og þýða. Og þá kallaði sr. Guðbrandur á sr. Einar Sigurðsson, skólabróður sinn, og hvatti til verka, sem ekki lét sitt eftir liggja. Í sálmabók Guðbrands sem kom út árið 1589 voru sex sálmar eftir sr. Einar og átti svo helminginn af kvæðunum í Vísnabók Guðbrands frá 1612 sem náði útbreiðslu og var mikið lesin heimilsbók á Íslandi um langa tíð

Umbyltingin sem varð í þjóðlífinu á Íslandi með siðbót Luthers hafði gríðarleg áhrif. Guðræknin á baðstofuloftinu blómgaðist og varð svo alveg fram á síðustu öld. Enn eru á meðal okkar fólk sem ólst upp við húslestur og bænagjörð á baðstofuloftinu. Um aldir var sr. Einar Sigurðsson því eins og heimagangur á íslenskum heimilum um langa tíð í gegnum kveðskap sinn og hafði mikil áhrif á trúar-og menningarlíf þjóðarinnar. Ljóst er að sr. Hallgrímur Pétursson þekkti vel til verka sr. Einars og fetaði brautina sem hann ruddi og er margt mjög líkt með kveðskap þeirra beggja.

Líklega hefur enginn Austfirðingur risið hærra í menningarsögu þjóðarinnar með verkum sínum en sr. Einar. Hann fæddist á Hrauni í Aðaldal árið 1538. Eftir námslok á Hólum varð hann prestur á Möðruvöllum, en svo í Nesi í Aðaldal þar sem hann bjó við sára fátækt og þrengingar. Þar missti hann fyrri eiginkonu sína, Margréti Helgadóttur og fimm af átta börnum þeirra. Oddur var á meðal barnanna þriggja sem komust á fullorðinsár, varð ungur biskup í Skálholti og markaði djúp spor í íslenska sögu. Síðar kvæntist sr. Einar Ólöfu Þórarinsdóttur. Eitt af fyrstu verkum sr. Odds á biskupsstóli var að skipa föður sinn í gott brauð sem var Heydalir. Börnin þeirra sr. Einars og Ólafar urðu mörg og komust flest á fullorðinsár, þar á meðal margir prestar sem komu víða við í sögu í landsins, m.a. sr. Gísli sem varð prófastur fyrir vestan og sr. Ólafur, skólameistari og skáld í Skálholti, sem síðar varð prestur í Kirkjubæ í Hróarstungu og sonur hans sr. Stefán var prestur og skáld í Vallanesi. Annað barnabarn sr. Einars var sr. Bjarni Gissurarson prestur og skáld í Þingmúla. Sr. Einar færði ævisögu sína 77 ára gamall í letur í bundnu máli í 204 erindum. Í síðasta erindinu yrkir sr. Einar:

Mun ég við auka meðan ég lifi Um barnabörnin hvað ber til sagna Þau eru nú á þessu ári. Sjötíu nærri sögð á lífi.
Við andlát hans voru afkomendurnir orðnir á annað hundrað. Talið er, að allir núlifandi Íslendingar geti rakið ættir sínar til sr. Einars.

Sr. Einar Sigurðsson var burðarmaður í í íslenskri sögu. Það stendur upp á okkur, Austfirðinga, að halda á lofti minningu hans og verkum, fyrir þjóðina. Núna á umbrotatímum í þjóðlífinu er mikilvægt að rækta og glæða sambandið við sögu þjóðarinnar. Menningin og framtíðin hvílir á sögu aldanna. Enn gildir að uppvaxandi kynslóð fái að vita um heimkynni sín, rætur sínar og kjölfestu. Þar er kristin trú hornsteinn. Frumglæðir þess sem við þráum mest: Mannhelgi, mildi, hjálpfýsi og von. Guð er aflvakinn sem bregður birtu sinni yfir mannlífið, nærir fegurðina og ástina og blómgar náttúrna með sístæðri sköpun sinni. Grunntónninn í íslenskri alþýðusögu er óbilandi traust á Guði, sem er í nánd, lifir með og í öllu sem gerist og er að skapa gott úr illi, líkn úr þraut, ljós úr myrkri, líf af dauða. Það var þessi endurómur sem siðbót Lúthers færði fólkinu, sannkallað fagnaðarerindi sem fólkið tók opnum örmum og hefur haft í veganesti sínu allt fram á þennan dag.

Árið 2017 verður haldið upp á 500 ára siðbótarafmæli Lúthers. Þá stefnum við, Austfirðingar, á að hafa lokið byggingu safnaðar-og menningarmiðstöðvar hér við kirkjuna í minningu sr. Einars Sigurðssonar, Einarsstofu, sem megi bera verkum hans og sögu vitni, en um leið vera samastaður gróandi mannlífs í nafni trúar og vonar, vitnisburður og leiðarljós fyrir komandi kynslóðir til eflingar fallegri menningu í landinu. Undirbúningur er þegar hafinn og renna m.a. fjármunir í formi afgjalds fyrir urðun af sorpi í Heydalalandi fyrir Hérðasmenn og Seyðfirðinga í sérstakan sjóð til þess að fjármagna bygginguna. Fyrsta skóflustunga að byggingunni verður samt ekki tekin fyrr en fjármögnun er lokið.

Mörgum er ofarlega í huga þegar sr. Einar ber á góma hvort kenna eigi hann við Eydali eða Heydali. Þar sýnist sitt hverjum og margar kenningar á lofti. Staðurinn er landnámsjörð og er getið í Landnámu og Njálu sem Heydala. Eigi að síður virðist ljóst útfrá ljóðstöfum kveðskapar sr. Einars að hann hafi kennt sig við Eydali. Í fundargerðarbók núverandi sóknarnefndar, sem nær til fyrstu ára síðustu aldar, er athyglivert að sjá að hvort tveggja eru notuð staðarnöfnin Heydalir og Eydalir svo ljóst er, að lengi hafa verið skiptar skoðanir um þetta. Hvað um það, þá er þetta staðurinn sem sr. Einar Sigurðsson sat og orti flest og sín fegurstu kvæði. Hér erum við samankomin í djúpum sporum íslenskrar sögu. Okkur er falið að verðveita þau spor og marka ný mannlífinu til heilla. Það gerum við í dag, leggjum lóð á þær dýrmætu vogarksálar, komum hér saman, virðum og þökkum, vonum og byggjum og treystum samfélag í mætti trúar, vonar og kærleika. Í Jesú nafni Amen.