Þjóðkirkjan og kristniboðið

Þjóðkirkjan og kristniboðið

Sigurbjörn biskup var eitt sinn spurður hvort hann óttaðist dauðann. - Já, sagði hann þungt, ég óttast hann. - Veist þú hvað tekur við? - Nei, svaraði hann. Um það hef ég ekki hugmynd. Nú þorði spyrjandi ekki að inna frekar og á datt þögn.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
11. nóvember 2009

Kristniboðið - mynd af vef SÍK

Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum, segir Jesús. Hefur Þjóðkirkjan gegnt þessu skíra boði Drottins síns? Þjóðkirkjan hefur í gegnum aldir gegnt þessu boði af trúmennsku hvað varðar nýjar kynslóðir sem upp hafa vaxið meðal hennar. Hún hefur opnað þeim faðm sinn við helga skírnarlaug og gert sérhvert barn sem þangað er borið að lim á líkama hins upprisna Drottins, meðlim í fjölskyldu Guðs og kennt þeim það sem hann kenndi henni, að elska hann og náunga sinn. Það hefur leitt ómælda blessun yfir þessa þjóð við ystu voga.

Um aldir var ekki annað sem hún gat gert til að gegna boði Drottins síns. Hún mundi þó hvernig hún hafði verið leituð uppi af sendimönnum hans og átti þó þá þegar í hirslum sínum margan mola þess fjársjóðar sem hann útdeilir sínum. Hún mundi í þúsund ár nöfn Friðriks biskups, Þorvaldar víðförla, Þangbrandar og Stefnis, sögu Auðar djúpúðgu, Helga magra, Melkorku og Brákar sem varðveittu gersemin. Hún var að hálfu kristin þegar árið 1000 þegar hún vafðist í heilu lagi inn í alltumlykjandi faðm yfirbjóðanda engla og þjóða, ei þurfandi stað né stundir, stað haldandi í kyrrleiks veldi, sem Lilja vitnar.

Það eru til hrífandi bréfaskriftir frá nítjándu öld sem mega kallast fyrsta andvarp þeirrar hugsunar að nú sé komið að því að Íslensk kirkja beri ljós sitt til þeirra sem í myrkri sitja að yfir þau sem búa í löndum náttmyrkranna megi skína hið mikla ljós Fagnaðarerindisins. Það var sr. Jón lærði Jónsson á Möðrufelli sem ritaði tengdasyni sínum sr. Hálfdani Einarssyni á Eyri við Skutulsfjörð um það erindi. Sr. Jón hafði orðið fyrir áhrifum af Ebeneser Henderson sem hér fór um og reyndi ma að vekja áhuga fyrir þessu.

Sr. Hálfdan tók sér að hjarta umhyggju tengdaföður síns fyrir fjarlægum þjóðum og hugðist senda son sinn Helga til þeirra en það gat ekki orðið vegna óstyrkrar heilsu hans. Þess í stað varð Helgi Hálfdanarson prestskólakennari í Reykjavík, skrifaði áhrifarík guðfræðirit og orti marga sálma sem við gleðjumst enn við að syngja.

Það varð hins vegar fyrir áhrif frá Noregi að hér varð til leikmannahreyfing sem tók upp boðkefli Drottins. Ólafur Ólfsson fór til Kína og sr. Jóhann Hannesson. Löngu seinna fór sr. Felix Ólafsson til Eþíópíu og eftir hann röð kristniboða. Svo sneru Skúli Svavarsson og margir eftir hann för til Keníu eftir að Eþíópía lokaðist. Í Konsó í Eþíópíu og Pókot í Keníu eru nú fjöldi safnaða sem hefur kristni sína frá okkar norðlæga landi og þakkar Guði fyrir það seint og snemma.

En þetta átti sér ekki jarðveg í safnaðarstarfi Þjóðkirkjunnar. Oftast hafa kristniboðarnir talað fyrir daufum eyrum um kristniboðið í kirkjum landsins og málefni þess sjaldan ratað á dagskrá stjórnandi ráða hennar og nefnda. Þetta hefur valdið mörgum okkar sársauka og blygðun.

En nú hefur nýrra borið við um sinn. Söfnuðir landsins hafa komið auga á að enn bíða margir eftir fagnaðarboðunum góðu og að það sé að nokkru á okkar ábyrgð. Miklir hvata menn þessa hafa verið biskuparnir dr. Sigurbjörn, Pétur og Karl. Í mörgum söfnuðum er nú unnið af áhuga að eflingu kristniboðs með hjálparstarfi. Fermingarbörn hafa um árabil gert sér ómak að því að ganga fyrir dyr landsmanna á aðventunni og safna framlögum og hópar innan safnaða hafa haft fjáraflanir og sinnt kynningarstarfi. Það er að lifna yfir kristniboðsáhuga Þjóðkirkjunnar með hjálparstörfunum.

Í haust hefur verið unnið að tengslamyndun milli safnaða á Íslandi og í Afríku og þar opnast gluggar til áhugaverðs útsýnis um víðar lendur kristninnar þar sem framrás hennar blasir við og hleypir kappi í kinn að láta nú ekki eftir nein lönd né einstaklinga úr röðum okkar hér tapast á vit myrkursins þar sem flestir vitar slökkna og mannsins för verður aðeins á vit hins óttalega.

Sigurbjörn biskup var eitt sinn spurður að því hvort hann óttaðist dauðann og hann svaraði: Já, ég óttast hann. Spyrillinn var þrumu lostinn og fannst fokið í flest skjól. Eftir langa þögn, þar sem um huga spyrjandans flugu hugsanir um það hvort öll andans ljós væru nú slökknuð, segir doktor Sigurbjörn: - En ég veit HVER tekur við. Jesús tekur við hverjum þeim sem hefur sett von sína til hans. Hann bregst engum sem á hann treystir.

Allir menn þurfa að fá tækifæri til þess að kynnast honum sem kom úr ljóssins heimi og varð ljós mannanna. Allir þurfa að þekkja þann kærleika sem græddi menn og vakti vonir sem ekki bregðast og lét ekki staðar numið á morðtóli krossins, heldur sigraði dauðann og dró til sín fallna syni og dætur föður okkar allra og leiddi í óslitinni sigurför héðan og til eilífðar Guðs. Þetta má ekki láta ósagt nokkrum einasta manni.

Sumir halda að Jesús haf aldrei beinlínis sagt þau orð sem við köllum skírnar- eða kristniboðsskipunina og er að finna í niðurlagi Mattheusarguðspjalls. Þau orð mættu svo sem hafa týnst án þess að efast þyrfti um innihald þeirra eða vilja hans. Hver setur ljósið undir mæliker og hylur það? Hver getur þagað sem hefur opinberast leyndardómur trúarinnar? Hvernig getur dáð krossins og sigur upprisunnar legið í þagnargildi? Hvernig getum við brugðið skugga á ljós eilífðarinnar? ( Þessar setningar eru tileinkaðar Þormóði Geirssyni, nýlega látnum efnismanni og sorg hans nánustu.) ÉG LIFI, sagði Jesús og ÞIÐ MUNUÐ LIFA.

Innihald fagnaðaerindisins hefur kraft sem brýtur alla múra og flæðir um löndin. Þau boða að sönn elska útrekur óttann; óttann sem er undirrót allra illra verka í heiminum. Þeim sem reiðir sig á Drottin verður ekki ógnað með efnahagskreppu, stórri né smárri, hann verður ekki rekinn af honum til óyndisverka heima né heiman. Hann þarf ekki að véla um hag sinn og óheill náungans. Sá maður er fullríkur að gefa hverjum sem þarf, jafnvel sinn síðasta bita, því hann veit að Drottinn sér um sína.

Heimurinn batnar stórlega við hvern þann mann sem varpar trausti sínu á Guð. Það hafa margir reynt en fáir á jafn rækan hátt og AA fólkið, aftursnúnir alkohólistar. Mætti sá umsnúningur sem þau hafa reynt sannast á öllum, því hver er sá sem ekki þarf að snúa við af rangri leið. Sú rétta verður aldrei greið.

Látum nú, öll Þjóðkirkjunnar börn, það á okkur sannast að við viljum vera salt jarðar og ljós á vegi samferðarmanna okkar hvort þeir ganga okkur þétt við hlið að álengdar fjær, já jafnvel á fjarlægum stigum leiðarinnar héðan til himins. Syngjum sigursönginn svo hátt að heyrist um alla jörð, látum góð verk okkar enduróma hann. Guði föður til dýrðar og Syni hans í Heilögum anda. Amen.