Gleðin

Gleðin

Gleðin er björtust í litrófi mannlegra tilfinninga og getur sprottið fram eins og morgunfugl af hreiðri. Allir þekkja hana en of fáir rækta hana eða leyfa henni að njóta sannmælis. Hún klingir í eyrum og lyftir fólki upp yfir áhyggjur dagsins.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
13. apríl 2008
Flokkar

Það eru gleðidagar í kirkjunni okkar um þessar mundir.  Ekki að það séu aldrei annars gleðidagar þar á bæ, jafnan ríkja gleðidagar í kirkjunni og kjarni hennar byggist nú einmitt á gleðiboðskap, sem við heyrum sérstaklega á helgum páskum.

En gleðidagar kallast fjörutíu dagar milli páska og uppstigningardags. Sunnudagurinn í dag nefnist Jubilate á latínu og þýðir fagnið!  Fagna skal upprisu frelsarans, Kristur er upprisinn, fagna skal lífinu og allri þeirri gleði, sem það færir okkur. Fögnum og verum glöð!

Við þurfum að leyfa okkur að gleðjast meira, við þurfum að tileinka okkur hluti til þess að gleðjast yfir. Auðvitað er óhjákvæmilegt að verða var við skugga lífsins, sem gera menn sorgmædda, það eru fullir fréttatímar af hörmungum og angist, þess vegna er það enn brýnna og nauðsynlegra að fjalla um gleðina.

Ef gleðin gleymist, þá er voðinn vís. Við höfum jú ætíð gleðifrétt kirkjunnar, við höfum t.d. þessi orð, er hvetja og uppörva við hvaða aðstæður sem er, orð Drottins:

“Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig, mun lifa þótt hann deyi. Ég lifi og þér munuð lifa.”

Mikið lifandis ósköp er gott að heyra þessi fagnaðarorð og lifa eftir þeim. Þau eru jafn uppörvandi og árstíminn, sem nú gengur í garð, þegar sólin hækkar á lofti, daginn tekur að lengja, og fuglarnir syngja.

Vorið er upprisa, vorið er lífið. Það veitir von, því þar verðum við vitni að því þegar fjölbreytilegt líf brýst fram, brýst undan þunga vetrar.

Vísdómsmaðurinn Gunnar Hersveinn skrifar svo skemmtilega um gleðina:

“Gleðin er björtust í litrófi mannlegra tilfinninga og getur sprottið fram eins og morgunfugl af hreiðri. Allir þekkja hana en of fáir rækta hana eða leyfa henni að njóta sannmælis. Hún klingir í eyrum og lyftir fólki upp yfir áhyggjur dagsins.  Hún er létt á fæti, frísk sem fiskur og kát sem kið.”

Þannig er gleðinni svo vel lýst og vísdómsmaðurinn tjáir sig áfram um gleðina. Hann talar um hina barnslegu einlægni í gleðinni, barnið hlær án þess að vita ástæðuna, sömuleiðis skvetta kýrnar afturendanum þegar þeim er fyrst hleypt út á vorin, það er sýnileg og sönn gleði, án mikilla pælinga.

Getur verið að flóknar hugsanir okkar fullorðna fólksins séu gleðinni hindrun? Látlausar hugsanir um veikt gengi og hækkandi stýrivexti.  Hver veit?

Heimspekingurinn talar einnig um þá hættu að gleyma gleðinni, sú hætta er nefnilega alltaf handan við hornið. Það getur verið mun erfiðara að tileinka sér gleðina heldur en áhyggjurnar, rétt eins og það getur verið mun erfiðara að ná af sér aukakílóum fremur en að bæta þeim á sig, svo einhver líking sé notuð, kannski ekki sú besta, en þið skiljið vonandi við hvað er átt.

Mér finnst fólk ekki leggja næga áherslu á gildi gleðinnar, það er heldur algengara að neikvæðri umræðu sé haldið á lofti, það veldur djúpri vanlíðan og áhyggjum. Neikvæð umræða beinir sjónum frá gleðinni, hún blindar þátttakendur í slíkri umræðu.

Neikvæð umræða um annað fólk varpar skugga á sjálfsvirðingu þeirra, sem ræða saman á þeim nótum, og rýr sjálfsvirðing skapar enn meiri vanlíðan. Við eigum að deila gleði með öðrum og tala um aðra með þeim hætti, þá líður okkur sjálfum mun betur og það er alltaf gott markmið að stuðla að eigin vellíðan. 

Við eigum að gleðjast yfir velferð annarra og ræða hana, en ekki hlakka yfir óförum náungans. Þekktur erlendur guðfræðingur nokkur lýsti einu sinni einkennilegum þankagangi mannskepnunnar þegar hann talaði um það að manneskjunni þætti að vissu leyti notalegt þegar illa gengi hjá öðru fólki. 

Talsvert ögrandi speki og í meira lagi sjokkerandi, en ég er ekki frá því að hún feli í sér fáein sannleikskorn og þá má m.a. líta til þess þegar fjölmiðlar eru að fjalla um fólk og ógæfu þess með mjög svo ítarlegum hætti, oft án heimilda.

Í þessu ljósi öllu er því þeim mun meiri ástæða til þess að tala meira um gleðina, miklu meira en gert er, tala um það besta við gleðina, sem er löngunin til að deila henni með öðru fólki, gefa með gleði.

Það eru gleðidagar. Guð gleður, sá er gleðina gefur. Öll hjálpræðissagan, saga Guðs, endar í gleði “hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður”, segir Drottinn. Hann er að tala til lærisveina sinna, hann er að uppörva þá.

Við erum komin inn á kveðjufund, sem sagt er frá í Jóhannesarguðspjalli, en guðspjallstextar gleðidaganna eru flestir úr því ágæta guðspjalli. Munum það að guðspjall felur í sér merkinguna góðar fréttir, gleðifréttir.

Og Jesús Kristur færir lærisveinum sínum gleðifréttir á kveðjufundi. “Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.”

Áhyggjur breytast í fögnuð, gleðin er við völd, horft er til upprisunnar og þjáning og dauði aðeins undanfari. Jesús er aðeins að undirbúa lærisveina sína, undirbúa þá undir brottför sína en um leið endurkomu.

Magnað að heyra líkinguna um fæðingarþraut konunnar. Líkingin sú er verulega góð. Fæðingin er móður ekki þrautalaus. 

Þrautin sú gleymist hins vegar um leið og barnið hefur heilsað heimi, gleðin yfir nýfæddu barni er þrautunum yfirsterkari, þar heyrum við af mætti gleðinnar, gildi gleðinnar, hún stendur eftir þegar upp er staðið.

Alltaf tekur eitthvað jákvætt við, aldrei erum við skilinn eftir með áhyggjur þegar Guð talar, hið neikvæða er nefnt aðeins til þess að undirbúa hið jákvæða, hina eilífu gleði, og þess vegna megum við vita að hún er fyrst og fremst og því ákjósanlegust til samfélags.

Hafðu það í huga þegar þú tekur nú á móti vorsólinni og hlustar á söng Lóunnar, það eru gleðivakar rétt eins og orð Drottins, þar sem segir:

“Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast upp í fögnuð.”

Ég fór í húsvitjun á hjúkrunarheimilið Skógarbæ í nýliðinni viku. Á helgistund fjallaði ég um gleðina, bar fram uppistöðuþanka þessarar prédikunar, sem ég flyt ykkur hér í dag.

Eftir helga stund settist ég niður og ræddi við aldraða og lífsreynda konu. Hún sagði mér frá sannri trú sinni og þrátt fyrir öll árin, sem reytt höfðu af henni fjaðrirnar, þá átti hún eftir það stærsta og mesta, sanna og lifandi trú.

Hún bætti því við að henni hefði þótt gott að hlýða á hugvekju um gleðina og tók undir það að gildi gleðinnar þyrfti stöðugt að hafa í heiðri og minna sífellt á.

Þá vitnaði hún til orða úr bók Nehemía, bók sem fjallar um það þegar gyðingar fá heimfararleyfi frá Babýloníu og um endurreisn musterisins, gleðirík tímamót og gleðidagar í sögu gyðingaþjóðar. 

Tilvitnun gömlu konunnar dregur í raun allt saman, sem hér hefur verið sagt, og birta skein úr andliti hennar, þegar hún fór með orðin úr Nehemíabók:

“Gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar.” Og hún meira að segja lagaði textann að sjálfri sér og sagði: “Gleði Drottins er hlífiskjöldur minn.” Hún fann sig örugga, hún fann athvarf í þessum orðum, sem voru ekki aðeins orð, heldur hrein og tær gleði, er veitir djúpstæða vernd.

Eftir samtalið jókst gleði mín, ég gekk glaður út í vorsólina og styrktist í þeirri trú að þrátt fyrir allan hamaganginn í þessum heimi, hörmungar og angist, þá er það gleðin, sem stendur uppi sem sigurvegari, því Kristur upprisinn hefur sigrað heiminn, og þannig orðar hann það sjálfur við lærisveina sína í guðspjalli Jóhannesar. “Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér.  Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir, ég hef sigrað heiminn.”

Við skulum gleðjast og fagna í Jesú nafni.