Það er ótvíræð niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um mótun nýrrar stjórnarskrár að hafa beri í henni ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi. Þetta þýðir að þeirri tillögu stjórnlagaráðs var hafnað að einungis beri að hafa ákvæði þar sem segir: „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.“ Tillaga stjórnlagaráðs fól í sér umtalsverða stefnubreytingu þar sem horfið var frá frjálslyndu þjóðkirkjufyrirkomulagi yfir í það sem mætti skilja sem ríkiskirkjufyrirkomulag með orðalaginu „kirkjuskipan ríkisins“, jafnvel þótt möguleikinn á breytingum með almennum kosningum hafi áfram verið til staðar og áfram sé staðið vörð um trúfrelsi. Fram kemur í Fréttablaðinu 24. okt. sl. að lögfræðinganefndin, sem yfirfer stjórnarskrárdrögin, hafi þegar fengið í hendur tillögu Hjalta Hugasonar prófessors þess efnis að í stjórnarskránni skuli einungis kveðið „á um stöðu þjóðkirkjunnar sem og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga í lögum“. Jafnframt kemur þar fram að Hjalta hafi verið sérstaklega falið að gera tillögu að þessu breyttu stjórnarskrárákvæði í ljósi niðurstöðu kosninganna.
Margt er við tillögu Hjalta að athuga. Í orði kveðnu kemur hún til móts við vilja meirihlutans en í raun er hann hundsaður, látinn falla um sjálfan sig. Stjórnarskrá er ætlað að árétta grunngildi samfélagsins en hvergi kemur fram í tillögunni í hverju þau eru fólgin í tilfelli þjóðkirkju, annarra skráðra trúfélaga eða svonefndra lífsskoðunarfélaga (sem kjósa að skilgreina sig frá hvers kyns trú). Þá er sjálfgefið í nútíma þjóðfélagi að setja þurfi lög sem varða trúfélög og önnur félagasamtök með einum eða öðrum hætti og því er óþarfi að tilgreina slíka þörf í stjórnarskrá. Loks má vera ljóst að þeir sem greiddu atkvæði með stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju hafi ekki haft það í huga að eingöngu ætti að felast í því að kveðið skuli á um stöðu hennar og annarra skráðra félagasamtaka í lögum. Tillaga Hjalta hefur því ekkert að gera með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Það sem þarf er að árétta grunngildi þjóðkirkju fyrir samfélagið í stjórnarskránni en til þess er vísað í núverandi stjórnarskrá þegar talað er um að ríkisvaldið eigi að styðja kirkjuna og vernda. Í ljósi niðurstöðu kosninganna má færa rök fyrir því að beinast liggi við að halda ákvæði núverandi stjórnarskrár um þjóðkirkjuna óbreyttu í nýrri stjórnarskrá. Þar er vísað til frjálslyndrar þjóðkirkju sem varðveitir þá trúarhefð sem samofin hefur verið menningu landsmanna allt frá því þegar land fyrst byggðist, þjónustar innan trúarhefðarinnar alla sem til hennar leita og starfar með öllum, óháð trúarafstöðu, sem vilja stuðla að jákvæðum samskiptum milli fólks í friðsömu samfélagi.
Stjórnarskráin þarf að árétta vægi þessarar menningarlegu trúarhefðar með því að tryggja stuðning og vernd við þær trúarstofnanir sem varðveita hana. Vegna sögu sinnar, þjónustu og stærðar er eðlilegt að þjóðkirkjan skipi þar sérstakan sess, en í raun mætti útvíkka núverandi stjórnarskrárákvæði þannig að stuðningurinn og verndin nái einnig til allra félaga sem hlotið hafa skráningu og myndað með því formleg tengsl við ríkisvaldið, hvort sem þau skilgreina sig sem trúfélög eða lífsskoðunarfélög og hvort sem þau kenna sig við kristna trúarhefð eða einhverjar aðrar.
Ákvæði um stuðning og vernd felur hvorki í sér mismunun né skerðingu á sjálfstæði trúarsafnaða. Það leysir ekki heldur trúfélög undan þeirri ábyrgð að hlýða landslögum. Og það þýðir engan veginn að ekki megi gagnrýna með málefnalegum hætti viðkomandi trúarstofnanir og trúarhefðir. Með ákvæðinu um stuðning og vernd er tryggt að trúarhefðir séu metnar að verðleikum í hinu opinbera rými og þeim ekki vikið til hliðar á þeirri forsendu að lítið sem ekkert sé um þær sagt í stjórnarskrá.
Útfæra mætti nýtt stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkjuna á þessa leið: „Ríkisvaldið styður og verndar evangelísk-lútherska þjóðkirkju á Íslandi og stendur vörð um sambærileg réttindi annarra skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í landinu.“ Þessi tillaga er ekki á skjön við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.