Þægindaramminn

Þægindaramminn

Allt í kringum okkur er fólk að sækjast eftir völdum. Fólk er stöðugt að reyna að ná kosningu, fá aukin frama, ná á toppinn. Þessi viðleitni á sér stað sérhverja stund, frá degi til dags, frá einni viku til annarrar, frá einum mánuði til annars, frá ári til árs. Hver verður fyrstur, annar, þriðji? Í sjálfu sér er þetta ekkert slæmt, einhver ætti að vera á toppnum. Það gæti jafnvel verið gott fyrir einhvern að vera á toppnum. En í sjálfu sér er fólk með þessum hætti að hlýða eigin hégómagirnd.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Allt í kringum okkur er fólk að sækjast eftir völdum. Fólk er stöðugt að reyna að ná kosningu, fá aukin frama, ná á toppinn. Þessi viðleitni á sér stað sérhverja stund, frá degi til dags, frá einni viku til annarrar, frá einum mánuði til annars, frá ári til árs. Hver verður fyrstur, annar, þriðji? Í sjálfu sér er þetta ekkert slæmt, einhver ætti að vera á toppnum. Það gæti jafnvel verið gott fyrir einhvern að vera á toppnum. En í sjálfu sér er fólk með þessum hætti að hlýða eigin hégómagirnd.

Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinana Jakob og Jóhannes, syni Sebedeusar langar til að ná alla leið á toppinn. Og þeir koma til Jesú og biðja hann að gera sér þann greiða að koma þeim báðum á toppinn. Þeir vilja fá að sitja við hlið hans í dýrðinni á himnum, annar til hægri handar og hinn til vinstri. Frásagan í guðspjallinu kennir að   lærsveinarnir voru metnaðarfullir og hégómafullir. Þegar þeir sáu sigur Jesú fyrir sér í hillingum þá ætluðu þeir að tryggja sér sæti sem næst Jesú í dýrðinni. Saga guðspjallsins kennir okkur jafnframt að lærisveinarnir skildu Jesú alls ekki þrátt fyrir að hafa verið með honum í nærri því þrjú ár. Þeir trúðu ekki öðru en að Jesús væri Messías sem myndi setja á stofn konungsríki á jörðinni. Krossdauði Jesú átti eftir að kollvarpa þessum hugmyndum þeirra. Jesús kom til að ríkja í hjörtum mannanna fyrst og fremst.

Það var reyndar svo lítið magnað að lærisveinarnir skyldu getað tengt dýrð við galileiskan trésmið sem stofnaði til fjandskapar og andstöðu við rétttrúaða trúarleiðtoga sem kynni að valda því að hann yrði krossfestur en krossfesting var viðurkennd aftökuaðferð Rómverja á þessum tíma. Þó að lærisveinarnir Jakob og Jóhannes hafi verið afvegaleiddir þá voru hjörtu þeirra á réttum stað. Þeir trúðu alltaf að Jesús myndi vinna fullnaðarsigur. En Jesús spurði þá báða hvort þeir gætu drukkið þann kaleik sem hann drykki eða skírst þeirri skírn sem hann skírist? Hér notar Jesús tvær samlíkingar. Kaleikurinn er hér tákn fyrir lífsreynsluna sem Guð úthlutar mönnum og hér er Jesús ekki að tala um skírn sína í ánni Jórdan heldur þá eldskírn sem hann þarf að ganga í gegnum í aðdraganda krossfestingarinnar, Jesús er að spyrja þá að því hvort þeir séu tilbúnir að ganga í gegnum þá hræðilegu lífsreynslu sem hann þarf að að gera. Getið þið staðist hatur,sársauka og dauða eins og ég hef mátt þola?

Þeir svöruðu því játandi án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað fælist í jáyrði þeirra. Þessir tveir lærisveinar áttu síðar eftir að þola þjánigar sakir trúar sinnar á Jesú, Jakob var hálshogginn og Jóhannes bróðir hans þjáðist að sönnu fyrir Krist. Jesús gaf sig Guði á vald en síðustu æviár á þessari jörð benda  til þess að hann vissi að Guð, faðir hans á himnum, sendi hann til jarðarinnar til að þjóna jarðarbúum í kærleika. Sú vegferð markaðist af þjáningu og dauða alla leið upp á krossinn eins og hann segir sjálfur í guðspjalli dagsins.

„Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ ( Mark 10.45)

Hér talar ekki sá sem vill tróna efstur í hverri goggunarröð og hverjum þeim valdapíramída sem reistur er í þágu valda og yfirráða. Sannarlega er boðskapur Krists af öðrum toga. Völdin eru ekki markmið starfa hans. Yfirráðin eru ekki mælikvarði á árangurinn og yfirgangurinn sem þarf að sýna til þess að ná þeim fram verður ekki prófsteinn á mannkosti og hæfni til þess að skara fram úr. Hann segir að það sé aumasti hégómi að láta sýna sér lotningu og sækjast eftir mannvirðingum. Það er háleitasta og nytsamasta þekkingin að þekkja sjálfan sig vel og kannast við smæð sína.

Jesús snýr mælikvörðum heimsins algerlega á hvolf og segir að sá sem sé tilbúinn að axla kross sinn verði settur fremstur í goggunarröðina. Þjónar krossins einir finna veg sælunnar og hins sanna ljóss. Mælikvarði Guðs eru hjörtu mannanna. Þau eru sá prófsteinn sem allt hvílir á þegar upp er staðið. Jesús var sendur til að þjóna samfélaginu sem hann var hluti af, sjálfu mannkyninu í víðustum skilningi. Þegar kristnu frumsöfnuðurnir voru að mótast þá horfðu þeir til Jesú Krists sem fyrirmyndar leiðtoga. Hann sóttist ekki eftir völdum og áhrifum. Þjónustan við nærsamfélagið skipti hann mestu máli. Þjónustan við náungann var mikilvægust í huga hans.Hann gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að styrkja og efla þá sem í kringum hann störfuðu í eigin leiðtogahlutverki. Það yrði til blessunar fyrir allt samfélagið.

Þegar fyrstu kristnu söfnuðurnir voru að mótast þá fóru söfnuðurnir að líta á Krist sem leiðtoga sinn og fyrirmynd. Það var árangursrík aðferð, gefandi og tilgangsrík og olli því að safnaðarmeðlimirnir litu í auknum mæli í eigin barm og spurðu hvað það gæti gert fyrir samfélagið í anda Jesú Krists frá Nazaret. Á þeim tíma þegar sjúkir, holdsveikir, fátækir, já og útlendingar voru hafðir utangarðs í samfélögum, hlúðu kristnir menn að slíku fólki og veittu því fæði og klæði. Já og húsaskjól. Þetta vakti athygli í því umhverfi þar sem þeir störfuðu og þær gegndarlausu ofsóknir sem þeir máttu þola viku smám saman fyrir aðdáun. Þarna urðu þeir sem áttu sér Krist að fyrirmynd, sjálfir að fyrirmynd þeim sem vildu eiga tilgangsríkt líf.

Kristur hvetur okkur til þess að vera þjónandi leiðtogar hvar sem við stlörfum að þessu leyti. Spyrjum ekki hvað aðrir geti gert fyrir okkur. Spyrjum frekar hvað við getum hvert og eitt gert fyrir samfélagið sem við lifum og hrærumst í. Spyrjum okkur einnig að því hvort við séum tilbúin til að hlýða Jesú Kristi og þjóna fólki í kærleika líkt og hann gerði? Finnum við til með samfélaginu sem við erum partur af? Viljum við láta hendur standa fram úr ermum í því skyni að reyna að gera samfélagið betra? Viljum við láta að okkur kveða? Viljum við hvert og eitt þjóna samfélagi okkar eftir bestu getu? Erum við tilbúin að fórna okkur sjálfum eins og Abraham sem var tilbúinn að fórna sínum eigin syni að boði Guðs? Hann fór út fyrir sinn eigin þægindaramma. Erum við tilbúin til þess?

Ekkert kallar eins vel fram í okkur þá sterku kennd sem það er að vera maður en það þegar við hlúum að náunga okkar, ekki síst þeim sem standa utan garðs.

Nokkur umræða hefur verið hér á landi um málefni hælisleitenda. Lekamálið svokallaða varð til þess að þáverandi innanríkisráðherra varð að segja af sér. Því miður hefur tekið alltof langan tíma að vinna úr málum þeirra sem hér hafa leitað hælis. Óvissa hælisleitenda hefur verið nagandi og valdið heilsubresti þeirra til líkama og sálar. Sumir þeirra hafa talað um það í fjölmiðlum að sér finnst lífið tilgangslaust því að íslendingar virðist ekki vilja taka við þeim með aðgerðaleysi þeirra. Það þarf að setja meira fjármagn í þennan málaflokk, fjölga starfsfólki í því skyni að stytta þann tíma sem fer í að fara yfir mál þeirra sem leita hælis hérlendis.

Við íslendingar erum bundnir af Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðannna. Í ljósi þessa sáttmála hafa íslendingar tekið við flóttafólki sem sest hafa hér að, nú síðast á Akranesi ef ég man rétt. Við höfum tilhneigingu til að varpa öndinni léttar ef einhverjir aðrir landar okkar vilja taka að sér flóttafólk en við sjálf. Við íbúar Norðurþings þurfum að líta í eigin barm að þessu leyti og óska síðan eftir þvi að fá að taka að okkur flóttafólk, t.d. frá Sýrlandi. Það er okkar skylda að líta til með okkar minnsta bróður og systur nær og fjær. Fordómar af sér ótta í þessu sambandi en fræðsla og samtal minnkar fordóma og óttinn hverfur þá sem dögg fyrir sólu. Rauði kross Íslands þekkir þetta af eigin raun og hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu hælisleitenda hérlendis. Rétturinn sem hælisleitendum er veittur til ríkisfangs er í þeim anda sem Jesús boðaði og hann orðar svo vel í guðspjalli dagsins. Hlutverk okkar er ekki það að drottna heldur að þjóna.

Ég hef alltaf dáðst af fólki sem hefur farið út fyrir þægindaramma sinn til að þjóna öðru fólki í kærleika. Þar má t.d. nefna félagsskapinn: ,,Lækna án landamæra“. Læknar hafa þá farið t.d. frá Evrópu til stríðshrjáðra svæða til að þjóna fólki í kærleika í anda frelsarans frá Nazaret. Svo höfum við lesið um íslendinga sem hafa farið erlendis á vegum Rauða krossins til að aðstoða fólk í þróunarlöndum, hjápa því að verða sjálfbjarga. Þetta er líka eitt af verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar erlendis. Fyrir nokkrum árum ákvað íslensk kona að fara til Nairóbí í Kenía til að setja þar á fót skóla í fátækrahverfum borgarinnar. Sagt var frá starfi hennar í íslenskum fjölmiðlum. Sannarlega fór þessi kona út fyrir sinn þægindaramma.

Svo segir í fornri helgisögu að munkur einn hafi átt að skipta mat úr eldhúsi kklaustursins með fátækum á ákveðinni klukkustund. Einhverju sinni lá hann á bæn. Hann varð þá fyrir reynslu sem minnti hann á atburðina á Karmel og Hermon. Jesús stóð frammi fyrir honum í dýrðarljóma. Munkurinn varð frá sér numinn af sýninni í litla klefanum sínum. Hann lofaði meistarann og tilbað hann. En allt í einu hringdi klukkan sem kallaði hann til þjónustunnar við fátæklingana. Hann hafði enga löngun til að fara en klukkan hélt áfram að hljóma og að lokum varð hann að yfirgefa klefann. Þegar hann var á leiðinni heim aftur frá hinum tötralegu og óhreinu þurfalingum hugsaði hann: ,,Jesús er ekki lengur í klefanum mínum. Þar er myrkur.“ En hvað sá hann. Jesús var þar ennþá og hann sagði við munkinn: ,,Það var gott að þú fórst. Ef þú hefðir ekki farið hefði ég orðið að fara.“

Þessi saga kennir okkur að ef við leitum Krists til þess að færa öðrum hamingju þá nálgast Kristur okkur æ meir. Hún kennir okkur líka að við getum breytt umhverfi okkar til batnaðar ekki síst í þágu þeirra sem glíma við fátækt, t.d. barna.

Samkvæmt skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla - Save the Children, sem kom síðastliðið vor,og rætt er um í Fréttablaððinu í gær, kemur fram að um 16% íslenskra barna, eða um 12.000 börn, eiga á hættu að búa við fátækt. Þar kemur jafnframt fram að allt að 30% barnanna búa í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel við mikið þröngbýli. Um 40% barnanna búa við þær aðstæður að húsnæðiskostnaður er fjölskyldunni þungur baggi - og henni jafnvel ofviða. Of stór hluti heimilistekna fer í húsnæðiskostnað og því er fjármagn af skornum skammti til annarra þátta á borð við tómstundir barnanna eða heilsueflingu. Börnin búa í mörgum tilfellum við tíða flutninga, sem gerir það að verkum að þau missa tengsl við gamla félaga og vini og ná ekki að eignast nýja eða verða hluti af hópnum á hverjum stað. Þau eiga því á hættu að verða félagslega einangruð. Húsnæðismál hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri á Íslandi, ekki síst vegna mikils kostnaðar barnafjölskyldna og óöryggis á leigumarkaði.

Í nýútkominni skýrslu Velferðarvaktar velferðarráðuneytisins, sem Barnaheill eiga sæti í, eru sett fram markmið til að vinna bug á fátækt. Eitt af þeim markmiðum er að stjórnvöld tryggi að allir eigi öruggt heimili, ekki síst að börn búi við tryggt húsnæði til lengri tíma. Barnaheill - Save the Children á Íslandi hvetja stjórnvöld til að vinna hratt og örugglega að því að ná þessu markmiði. 9 Mikilvægt er að hafa ávallt í huga að börn bera ekki ábyrgð á þeirri stöðu sem þau eru í. Börn sem alast upp við fátækt eru jafnframt líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar. Að alast upp við fátækt hefur víðtæk áhrif á möguleika barna til framtíðar. Bernskan er afar mikilvæg og líður hratt. Því er brýnt að vinna hratt að því að tryggja öllum börnum bestu mögulegu aðstæður til að þroska hæfileika sína og eiga gott líf. Á Íslandi er að finna fátækt. Eftir hrun hefur komið í ljós að það eru ekki einungis öryrkjar og ungar íslenskar mæður með börn sem geta fest í fátækargildru heldur einnig ungt ómenntað atvinnulaust fólk. Við þessu þarf að bregðast með því að efla framboð á hvers kyns menntun og efla félagsfærni unga fólksins og hjálpa því að komast út á vinnumarkaðinn.

Við þurfum að hugsa í lausnum þegar við þjónum náunganum í kærleika. Þá munu hinir síðustu verða fyrstir og ná á toppinn.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Lexía: 1Mós 22.1-13 Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns.

Pistill: Heb 13.12-13 Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

Guðspjall: Mrk 10.35-45 Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“