Gefum ekkert eftir!

Gefum ekkert eftir!

Kristin trú er ekki golf eða fornbíll. Hún varðar Lífið sjálft, frelsi manneskjunnar og kærleiksrík samskipti, líka á öldum ljósvakans. Gefum ekkert eftir í þeim efnum. Ræktum trú okkar, verum það sem við erum kölluð til að vera, börn ljóssins, biðjandi fólk sem notar þau úrræði og það bolmagn sem við höfum til að varðveita og virkja kristna trú í landinu, ekki aðeins sem trúararf heldur lifandi afl, öllum landsmönnum til góðs.

Ef þú hlýðir orðum mínum, ef þú geymir boðorð mín hjá þér, ef þú veitir spekinni athygli þína, ef þú hneigir hjarta þitt að hyggindum, ef þú kallar á skynsemina, ef þú hrópar á hyggindin – þá mun þér lærast og veitast þekking á því sem raunverulega skiptir máli.

Þetta er inntakið í lexíu dagsins (Orðskv. 2.1-6). Til að ná færni í einhverju þarf ástundun, einbeitni, athygli. Það gildir sjálfsagt á öllum sviðum lífsins. Ef eitthvað skiptir þig öllu máli munt þú leita að því eins og silfri, grafa eftir því eins og fólgnum fjársjóði. ,,Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera,“ segir Jesús (Matt 6.21). Við þekkjum þetta öll. Ef eitthvað nær að fanga hug okkar – til dæmis eins og að spila golf eða eiga fornbíl – erum við tilbúin að leggja töluvert á okkur til að sinna því, bæta forgjöfina eða halda bílnum fínum, þó það kunni að kosta bæði tíma og peninga.

Lífið sjálft En hér ræðir ekki um áhugamál. Hér er lífið sjálft til umræðu. Guð er kærleikur, segir Biblían (1Jóh 4.16) en stundum er líka sagt að Guð sé Lífið – með stórum staf. ,Ég á líf´ var sungið um árið og núna á eftir syngjum við ,Ég á vin.´ Hvort orðið sem við notum erum við að tala um hinstu rök tilverunnar, það sem við byggjum hversdag okkar á, framtíð okkar, fortíð og nútíð. Ef við erum reiðubúin að leggja ýmislegt á okkur fyrir áhugamál okkar, jafnvel ,fórna´ öðru til að geta ræktað hobbíið hljótum við að vilja gefa lífinu sjálfu óskipta athygli okkar.

En hvernig ræktum við þau hyggindi sem koma tilvist okkar í hag, spekina sem Drottinn veitir, eins og segir í Orðskviðunum? Það gerum við með því að gefa gaum að huggunar- og fyrirgefingarorði Jesú Krists, temja okkur við kærleiksboð Guðs kvölds og morgna og miðjan daginn, kalla á Guð, hrópa á Drottin og hneigja hjarta okkar að anda Guðs í bænum okkar. Þetta getum við gert hvar sem er og hvernær sem er, í einrúmi og með öðrum, áður en við förum framúr á morgnana, við uppvaskið, í bílnum, á göngu, í kirkjunni . . .

Biðjandi fólk um allt land Ég átti samtal við nokkra presta úti á landi í liðinni viku til að segja þeim frá Kristsdeginum sem framundan er og þeirri hugsjón að skrá niður bænahópa um allt land til að við getum átt bænasamfélag í anda, bænanet yfir Íslandi. Hugmyndin er að þau sem geta komið af landsbyggðinni úr slíkum bænahópum verði sýnileg á hátíðinni í Hörpu laugardaginn 27. september þangað sem okkur öllum er boðið að koma til að biðja fyrir Íslandi og gleðjast saman. Það var mjög uppörvandi að spjalla við prestana vini mína og fá staðfest að um allt land kemur biðjandi fólk saman, ýmist í heimahúsum, kapellum eða kirkjum, til að bera fram sín bænarefni og biðja fyrir landinu okkar og ástandi heimsins. Á einum stað hafði bænahópur fallið niður þegar fólk flutti búferlum en í ljós kom að fjölskylda prestsins á staðnum biður saman hvern dag og telst auðvitað fullgildur bænahópur!

Það er dýrmætt að vera hluti af hópi. Þess vegna komum við hér saman í Hallgrímskirkju og öðrum kirkjum landsins hvern helgan dag og víða einnig yfir vikuna. Hér er hópur fólks sem kemur saman á miðvikudagsmorgnum kl. 8 uppi við altarið til bænagjörðar og borðsamfélags – og alveg rúm fyrir fleiri! Svo fer þriðjudagssamfélagið af stað í september með fyrirbænaguðsþjónustunum og fimmtudagshádegin verða líka á sínum stað. En það eiga þess ekki allir kost að mæta í kirkju. Fyrir þann hóp – og svo fjöldamarga aðra líka sem vel komast leiðar sinnar – hafa morgun- og kvöldbænir í útvarpi verið fastur punktur í tilverunni, létt lífið og gefið kost á ósýnilegu samfélagi við aðra hlustendur. Mikilvægasti hluti trúariðkunar er einmitt reglan, ástundunin, að fylla sig af kærleiksorði Guðs og finna hlýjan faðm bænarinnar, stundum með orðum genginna kynslóða, stundum með bænum frá eigin brjósti en alltaf í nærveru anda Guðs.

Að henda út hugarrónni Og nú hefur verið boðað að þessar næðisstundir í samfélaginu á öldum ljósvakans eigi að afnema. Við erum mörg sem höfum mótmælt þessu en því miður virðist ekki á okkur hlustað. Það þýðir þó ekki að gefast upp því eins og bent hefur verið á er Ríkisútvarpið hlutafélag okkar landsmanna og eitthvað hljótum við að hafa að segja um dagskrá þess. Þjóðkirkjufólk er 75% Íslendinga og þar að auki eru rúm 11% sem tilheyra öðrum kristnum trúfélögum. Alls 86% þjóðarinnar telja sig þannig eiga samleið með kristinni trú. Og það veit ég af samtölum mínum við fólk af annarri trú sem í sumum tilvikum kemur frá öðrum löndum að það eru ekki þau sem andmæla sýnileika kristinnar trúar í hinu opinbera rými á Íslandi. Fjölmenning merkir ekki, alls ekki, að henda eigi út því sem byggt hefur verið á hér á landi í þúsund ár. Það hafa líka ríkisstjórnarflokkarnir staðfest í nýlegum ályktunum þar sem talað er um að styðja áfram „öflugt starf þjóðkirkjunnar um land allt enda er íslensk þjóðmenning sprottin úr kristnum jarðvegi“ (Framsóknarflokkurinn, 32. flokksþing) og að „kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi“ (Sjálfstæðisflokkurinn, landsfundur).

Það er því langt í frá að sýn svokallaðra upplýsingamanna á ofanverðri 19. öld um að tækni og vísindi myndu gera trúna óþarfa hafi ræst. Manneskjan leitar hinstu raka tilverunnar, spyr sig um tilgang og biður um andlega leiðsögn. Ekkert slíkt geta vísindi eða fræðileg og menningarleg umræða um trúmál – eins og boðað hefur verið til í stað bænanna á Rás 1 - veitt okkur. Aðeins með því að rækta samfélagið við Guð og annað trúað fólk, ástunda okkar kristnu trú, lesa og hlusta á spekina sem er að finna í Biblíunni og biðja getum við fundið að Guð er – að Guð er líf, að við eigum okkur vin sem veit og skilur, virðir allar sorgir, þrár,“ eins og segir í sálmi þeirra Harðar Áskelssonar og Birgis Ásgeirssonar sem við syngjum hér á eftir (nr. 904 í Sálmum 2013).

Mikilvægi bænar í útvarpi Á fésbókarsíðunni sem stofnuð hefur verið til stuðnings því að Orð kvöldsins og morgunbænirnar verði áfram fluttar á Rás 1 (Orð kvöldsins og Morgunbæn verði áfram á RÚV heitir hópurinn) birtir hjúkrunarfræðingur sem unnið hefur á gjörgæsludeild bréf sitt til ráðamanna Ríkisútvarpsins. Hún segir m.a. frá því þegar hún hjúkraði ungum manni sem var deyjandi:

Eina nóttina rétt áður en hann dó leið honum mjög illa. Hann vildi hlusta á gufuna og undir morgun var lesin morgunbænin og Faðir Vor. Ég hélt í hendina á honum og tók undir með Faðir Vor. Ég gleymi þessari stund aldrei, hann gat ekki tjáð sig en hann horfði í augun mín og kreisti hönd mína og ég fann hann fara með bænina í huga sér með mér. Ég fann þakklætið streyma úr augum hans og frið koma yfir hann. Hann dó 2 dögum seinna. Ég var Rás 1 svo þakklát að hafa þessa bænastund því ég veit í hjarta mér hvað þetta skipti hann miklu máli.

Í gegn um morgunbænina í útvarpinu fékk þessi ungi maður að reyna návist þess vinar sem „biður, blessar, blessun fylgir nafni hans. Í hans nafni nafn ég þáði, náðargjöf, minn sigurkrans“ (BÁ).

Virkjum trú okkar Kæru vinir. Við skulum halda áfram að standa gegn því að kristinni trú sé rutt út úr hinu almenna rými, standa saman að því að virkja trú okkar og sýna mátt samstöðunnar. Heyrst hefur að fólk muni safnast saman fyrir framan Útvarpshúsið við Efstaleiti á næstu dögum og ættum við að fjölmenna þangað ef af verður. Við getum líka beðið fyrir þeim sem hafa vald til að taka ákvarðanir sem varða líf okkar svo margra, að umbreyting megi verða í lífi þeirra; til dæmis með orðum Páls postula í pistli dagsins (1Tím 1.12-17) þar sem hann lýsir sinni eigin umbreytingu:

Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú.

Og svo skulum við taka til okkar hvatningu Jesú í guðspjalli dagsins (Lúk 16.1-9) um að vera kæn í samskiptum okkar við börn heimsins og nota til þess þau úrræði og það bolmagn sem við höfum – en gríska orðið ,mammón‘ má vel þýða á þann hátt, sbr. enska hugtakið ,resource.´ Við getum skrifað bréf, til dæmis til útvarpsstjóra og mennta- og menningarmálaráðherra, skrifað greinar, verið með í hópnum á Facebook og rætt þetta almennt þar sem við erum. Fylgist með hvort boðað verður til mótmæla við Efstaleitið og mætið endilega ef þið getið.

Kristin trú er ekki golf eða fornbíll. Hún varðar Lífið sjálft, frelsi manneskjunnar og kærleiksrík samskipti. Gefum ekkert eftir í þeim efnum. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen (1Tím 1.17).