Að lifa lífinu og deyja því

Að lifa lífinu og deyja því

Við skulum vera alveg edrú í þessu. Spyrjum bara beint: Eigum við bara að taka því si sona að styrkur hjartans, – vonin sem við finnum vaxa með okkur þegar sjón hjartans eflist, – að þessi kraftur sem allir sem iðka bæn þekkja sé sami krafturinn og reisti Krist frá dauðum og lét hann setjast ofar öllu mannlegu valdi?

Það er uppstigningardagur í dag. Dagur sem fæst okkar leggja neina sérstaka merkingu í. Uppstigningardagur! Unga fólkið sér í þessum degi þann möguleika að fara út að djamma líka á miðvikudagskvöldi, vinnandi fólk sér þarna tækifæri til að taka frí á föstudegi og gera langa helgi. Elsti sonur okkar hjóna nýr okkur því enn um nasir er hann var barn í leikskóla en við vorum í háskólanáminu og bjuggum á hjónagörðum að dag einn í miðjum prófatíma að vori ókum við með hann á græna Volvónum sem við áttum og sögðum honum að skottast bara sjálfur inn í leikskólann, því hann var orðinn svo stór strákur og átti að byrja í skóla næsta haust. Drengurinn brokkar út með nestistöskuna sína og við ökum af stað, en sem ég er við það að beygja fyrir næsta horn á Laufásveginum sé ég í baksnýnisspeglinum barn koma hlaupandi á eftir bílnum baðandi út höndum og sé að þetta er hann. Þá var einmitt uppstigningardagur, og ungu guðfræðinemarnir voru ekki betur með á nótunum í kirkjuárinu. En þótt fæstir séu neitt að fatta uppstigningardag þá er sannleikurinn sá að sá atburður sem hann tengist, sagan af uppstigningu Jesú til himna, fjallar um svo mikilvægt málefni að það verðskuldar daginn og fríið og gott betur en það.

Mig langar að spyrja þig og þú þarft bara að svara innra með þér. En svaraðu heiðarlega. Hefur þú einhverntíman þurft að óttast fólk? Hefur þú um lengri eða skemmri tíma, í atvinnu, í fjölskyldu, í vinatengslum eða félagslífi, fundið þig knúinn til að hlýða einhverju sem þú ekki vildir í raun? Hugsaðu um það. Hversu oft í þínu lífi hafa gjörðir þínar stjórnast af öðru en frjálsum vilja þínum, en þess í stað verið drifnar áfram af sektarkennd, eða ótta við höfnun, refsingu eða annað slíkt?

Uppstigningardagur er um þetta vandamál. Eða öllu heldur má orða það svo að uppstigningardagur snúist um það frelsi sem okkur býðst sem fylgjendum Jesú Krists að standa ekki undir dómi manna, óttast ekki vald og lúta ekki hótunum.

Heyrum aftur orð Páls postula úr Efesusbréfinu sem voru flutt frá altarinu hér áðan: „Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum.”

Sjón hjartans! segir postulinn. Hefur þú heyrt þetta orðalag áður? Hann biður Guð um að upplýsa sjón hjarta okkar. Kannt þú að sjá með hjartanu? Sjón augnanna sýnir okkur margt stórkostlegt. En okkar ytri augu geta ekki séð von. Bara hjarta þitt greinir vonina. Þess vegna lokum við augunum þegar við biðjum til þess að ytri augun trufli ekki sjón hjartans.

Frá tæknilegu sjónarhorni og með augum bókstafstrúarinnar er uppstigningardagur vandræðalegur. Það er bara ekki hægt að taka við því sjónrænt með ytri augunum að einhver stigi til himna. Augun í mínum haus mótmæla því alla vega, þau neita að sjá það fyrir sér. Ég gat það svo sem þegar ég var barn en ekki lengur. En eftir því sem ég lifi lengur í samfélagi við frelsara minn Jesú Krist og eftir því sem ég færist nær honum og unni honum heitar þá sér hjarta mitt veruleika uppstigningarinnar án þess að atburðurinn verði teiknaður upp í rúmi og tíma. Ég sé í anda mínum Jesú Krist. Ekki með ímyndunarafli höfuðsins heldur í andanum, í bæn með honum, hjá honum og í honum. Og ég veit að allt vald er honum gefið. En um leið og ég segi þetta þá er mér ljóst að ég tek áhættu með því að segja svona, með því að tala svona um mína eigin trú, vegna þess að það getur hver sem er sagt mig ljúga. Og fólk má segja það. Fólk skal mega segja það. Því það er líka enginn vandi að bulla um trú, röfla um einhverskonar trúarreynslu, þykjast og látast. Ekkert er líka jafn fyndið eins og trúað fólk sem er að reyna að tjá það. Ekkert er jafn hlægilegt… og ekkert er jafn mikilvægt heldur.

Ég segi við ykkur að ég trúi á Jesú Krist sem frelsara minn og að ég elska hann. Þessi setning er í eðli sínu fyndin og gott tilefni til aðhláturs og svo er hún líka sönn. Trúarreynsla er bæði fyndin og sönn og sá sem trúir velur að fyrirverða sig ekki fyrir reynslu sína. „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.” Segir Páll einmitt í upphafi Rómverjabréfsins og talar þar fyrir hönd kristinna manna á öllum öldum. Og í pistli dagsins útskýrir Páll þennan kraft sem allt trúað fólk á reynslu af. Krafturinn sem styrkir hvert það hjarta sem hefur þegið sjón;

„En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn sem [Guð] lét koma fram í Kristi er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi.” (Ef 1.17-23)

Ja, gott ef satt reynist verður maður nú að segja. Við skulum vera alveg edrú í þessu. Spyrjum bara beint: Eigum við bara að taka því si sona að styrkur hjartans, – vonin sem við finnum vaxa með okkur þegar sjón hjartans eflist, – að þessi kraftur sem allir sem iðka bæn þekkja sé sami krafturinn og reisti Krist frá dauðum og lét hann setjast ofar öllu mannlegu valdi? Er það því sem við megum trúa? Því með því erum við að segja að frumaflið, sjálfur náðarkrafturinn sé okkur kunnur og nálægur… – Ég ætla ekkert að segja þér hverju þú átt að trúa, en ég skal segja þér að ég trúi því sem hér er skráð. Ekki bara vegna þess að það er skráð, heldur vegna þess að ég þekki Jesú, nálægð hans, mátt hans og frelsi. Og mér er algerlega sama þótt það sé fyndið eða fáránlegt í augum einhvers fólk. – Guð blessi það fólk og hlæi með því. – Já, það er fyndið að trúa, en það er bara miklu meira en fyndið. Það breytir lífinu og gerir það þess virði að lifa því og deyja því. Sá sem ekki trúir vill lifa lífinu, en sá sem á trú þráir bæði að lifa lífinu og deyja því. Sá er munurinn, held ég. Og þá erum við komin að kjarna máls.

Ég spurði þig áðan hvort þú hafir einhverntíman þurft að óttast fólk? Hvort þú hafir um lengri eða skemmri tíma, í einhverjum aðstæðum fundið þig knúinn til að hlýða einhverju sem þú ekki vildir í raun? Hversu oft í þínu lífi, spurði ég, hafa gjörðir þínar stjórnast af öðru en frjálsum vilja þínum, en þess í stað verið drifnar áfram af sektarkennd, eða ótta við höfnun, refsingu eða annað slíkt?

Samfélagið við hinn upp risna og upp stigna Jesú frelsar mann frá nákvæmlega þessu. Trúin á Jesú frelsar mann frá óttanum við valdið í heiminum og gefur manni þá innri fullvissu sem mótar sjálfsmyndina að maður stendur ekki undir dómi manna, bíður ekki eftir því hvað heiminum finnst heldur hvað Jesú finnst.

Ég segi það alltaf við fermingarkrakkana svona til þess að einfalda málið að kristinn maður hugsi alltaf þrisvar. Fyrst hugsi hann ‚hvað langar mig?‘ Síðan hugsi hann ‚hvað myndi Jesús gera?‘ og loks spyrji hann sjálfan sig ‚og hvað vil ég þá?‘ Þannig er hugur og hjarta þess sem gerst hefur lærisveinn Jesú frjáls til þess að þekkja sinn eigin vilja og leyfa honum að mótast að vilja frelsarans sem stóð frammi fyrir yfirvaldinu Pílatusi sem spurði ógnandi: Veistu ekki að ég hef vald? „Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að krossfesta þig?“ En Jesús svaraði: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér væri ekki gefið það að ofan.“

Sú trú að allt vald sé að ofan, hefur þau hagnýtu áhrif að allt mannlegt vald verður afstætt. Enginn hefur vald og allir hafa vald, því að allt vald er hinum upp risna og upp stigna frelsara gefið og hann eflir okkur öll að völdum í eigin lífi, kallar okkur öll til þess að lifa ábyrgu og góðu lífi. Þannig ávarpar uppstigningardagur stærsta vandamál veraldarinnar, hann ávarpar misnotkun valdsins sem birtist svo víða og skemmir svo mikið í samskiptum manna. Eyðileggur bæði ástarsambönd og samskipti ríkja, skaddar jafnt vináttutengsl sem samstarf á vinnumarkaði og líka samskipti okkar við náttúruna sem við menn höfum beitt stjórnlausu valdi og þvingunum. Uppstigningardagur hafnar aðferð þvingunarinnar, hann hafnar hótuninni og krefur okkur um að lifa í frelsi.