„Bleika byrjun birta morguns Áin rennur til sjávar Fagur heyrist fuglasöngur Sólstafir lýsa Næðir úti norðurljósin skína“
Félagar úr kórnum okkar gengu um á Skálholtsvöllum þar sem árnar mætast. Hópurinn var á ferð ásamt öðrum sjálfboðaliðum héðan úr kirkustarfinu í Keflavík nú í byrjun mánaðarins. Þar tók hann þátt í vinnu sem kallast skapandi forysta. Stórmerkilegt verkefni það, sem miðar að því að laða fram sköpunarkraftinn úr fólki. Okkur hættir jú til að ganga of varlega um þær miklu orkulindir sem í okkur sjálfum búa og virkja þær ekki nema að undangengnu löngu og flóknu umhverfismati.
Áin rennur til sjávar
Kórinn hélt út úr Dómkirkjunni árla morguns í litlum hópum og þar horfði fólk í kringum sig, andaði að sér, hlustaði, deildi hughrifunum hvert með öðru og fangaði þau svo í orð. Þeim var að lokum raðað í ljóð sem heitir Sólstafir. Svo varð til melódía og verkið var frumflutt seinna um daginn og aftur degi síðar, við guðsþjónustu í Skálholti.
„Áin rennur til sjávar“ segir í ljóðinu og ef til vill lýsa þau orð þeirri lotningu sem því fylgir að horfa á fljótið renna sína leið í árdegisbirtunni þegar bæði sést bjarma af sólu í austri og leiftur norðurljósa í vestri. Svo sameinast áin úthafinu. Þar mætist hið tímanlega og hið tímalausa, svo ég reyni nú líka að setja mig í skáldlegar stellingar. Steinn Steinarr er auðvitað búinn að orða þetta allt, en þetta ferli er efni í mörg ljóð. Allt, jú hluti af hinni dýrmætu hringrás vatnsins sem teygir sig um gjörvalla jörðina, meðal annars um líkama okkar.
Áin Jórdan
Í guðspjallinu sem hér var lesið er sagt frá atburðum sem gerðust úti í á. Þetta var áin Jórdan og í henni stóð Jóhannes skírari, ófrýnilegur maður að sögn. Klæddur kyrtli úr úlfaldahári, át engisprettur og villihunang – hálfgert tröll. Hann var þó ekki eins og torfærutröllin sem Ólafur Elíasson sýndi föst úti í ánni.
Nei, hann var ekki fastur hann Jóhannes, frekar en vatnið sem rann um fætur hans. Og þrátt fyrir villimannslegt yfirbragðið gekk fólkið á fund hans og leitaði ráða hjá honum. „Hvað eigum við að gera?“ spurði fólkið hann. Jóhannes hefur ekki þurft að leita langt yfir skammt þegar hann hugleiddi svarið. Jú, hann var hluti af þessari spámannlegu hefð sem við lesum um í Biblíunni.
Þetta gat ekki verið skýrara – hjá Jóhannesi skírara. Hann tók þegar að tala um þá sem snauðir eru og hvatti hina til þess að leggja þeim lið. Já, hann þurfti ekki að leita langt yfir skammt. Biblían er öll á þessum nótum. Enginn hópur er nefndur jafn oft í ritningunni og þeir sem fátækir eru og fá orð koma þar oftar fyrir en orðið fátækt í einhverri mynd.
Fátækt
Yfir 300 ritningarstaðir fjalla um fátæka og marga þeirra þekkjum við: Kristur segir að allt það sem við gerum einu hans minnstu systkina það gerum við honum. Og postulinn lýsir þeirri umhyggju sem ríkir í kristnu söfnuðunum þar sem menn eru örlátir þrátt fyrir sára fátækt. Jú Jesús hvetur okkur líka til þess að horfa inn á við og njóta kyrrðarinnar í áhyggjuleysi. Hann bendir á liljur vallarins og fugla himinsins sem hvorki vinna né spinna og segir að morgundagurinn muni hafa sínar áhyggjur. En ræðu þeirri lýkur á þessum orðum: „leitið fyrst ríkis hans og réttlætis og þá mun allt þetta hlotnast yður að auki“.
Það er því ekki að undra þótt sá sem brautina ruddi fyrir Jesú skyldi taka sér þessi orð í munn þegar hann var spurður stórrar spurningar. Hér ber allt að sama brunni. Ritningin minnir okkur á skyldur okkar – að gefa og miðla því áfram sem okkur hefur verið fært.
Galíleuvatn og Dauðahafið
Náttúran flytur okkur hinn sama boðskap. Sú mikla hringrás sem einkennir allt lífið og er forsenda þess – byggir í raun á sömu forsendum. Hún byggir á því að miðla því áfram sem tekið hefur verið á móti, ekki satt? Sælla er að gefa en þiggja. Þetta er boðskapurinn sem lindarvatnið flytur með sér þar sem það rennur sína leið í gegnum landið með spriklandi fiski, sefgróðri og alls kyns kvikindum sem þar þrífast.
Ég sagði það áðan að Jóhannes hefði ekki þurft að leita langt yfir skammt að svarinu. Honum hefði nægt að horfa niður fyrir sig á rennandi vatnið í þessar merkilegu á. Jórdan var eins og slagæð sem rann um sólbakaða vellina þarna fyrir botni Miðjarðarhafs. Hún rennur reyndar ekki til sjávar. Hún rennur í tvö vötn sem við höfum öll heyrt talað um. Annað vatnið er Geneseretvatn, eða Galíleuvatn. Þar sigldu lærisveinarnir á bátum og veiddu fisk og margar frásagnir af Jesú gerast einmitt þar. Vatnið var fullt af lífi og í kringum það voru frjósamir akrar sem nutu þeirra strauma sem frá því runnu.
Já, allt var það frá ánni Jórdan. En áin rennur í annað vatn sem er harla ólíkt, já í raun alger andstæða hins lífríka Galíleuvatns. Hvaða vatn skyldi það vera? Það er Dauðahafið, svo brimsalt að þar þrífst varla nokkurt líf.
Af hverju í ósköpunum voru þessi vötn svo ólík ef þau áttu sömu uppsprettuna? Jú, annað þeirra miðlar vatninu aftur frá sér en hitt lokar það allt inni. Það þarf ekki meira til. Annað þeirra miðlar vatninu áfram. Þar ríkir hið náttúrulega lögmál hringrásarinnar. Hitt, er dautt vegna þess að úr því rennur ekkert vatn. Það bara safnast saman í hyldýpinu og söltin streyma í það. Það miðar engu áfram.
Í Jesú nafni
Nú er Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Nú er ár fátæktar hér á Íslandi – nú eru ár fátæktar. Hið þriðja hófst nú fyrr í þessum mánuði þegar tvö ár voru liðin frá hruninu og þær minningar voru rifjaðar upp hjá Keflvíkingum í Skálholti en við vorum líka á þeim slóðum þann 6. október 2008. Víst sækir sú hugsun að fólki að við séum harla máttlaus og stundum heyrist kvartað undan því að hvergi sé forystu að fá á þessari eyðimerkurgöngu sem við sjáum ekki fyrir endann á.
Hér á Suðurnesjum standa túrbínurnar innpakkaðar í skemmum og skapa ekki önnur verðmæti en vaxtagreiðslur sem renna að endingu úr landi. Verra er það með orkulindirnar sem í brjóstum okkar búa ef ekki rofar senn til. Nei, það fer meira fyrir þolendum en gerendum nú á þessum tímum. Hér virðast vera fleiri fórnarlömb en leiðtogar, hvað þá skapandi leiðtogar.
Hvað eigum við að gera? spyrjum við líka. Hér fyrir viku voru ráðamenn hvattir til þess í Jesú nafni að greiða leiðina okkar Suðurnesjamanna út úr eyðimörkinni. Fróðlegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðunum. Þykir sumum sem þar hafi verið farið frjálslega með Jesú nafn, ef til þess kæmi að stífla rennandi ár og virkja orkuna úr þeim sem svo er nýtt til þess að knýja hér umdeilt álver. Hér takast á sjónarmiðin sem eiga það þó sameiginlegt að í báðum tilvikum horfa menn upp á rofna hringrás, stíflaða á eða skapandi hendur sem sitja í aðgerðarleysi. Uppistöðulón eða gjaldþrota fólk. Og um þetta er rætt í kirkjunni.
Félagslegur boðskapur
Mörgum finnst gott að geta komið sér notalega fyrir á kirkjubekk, gleyma amstrinu og dorma jafnvel undir kunnuglegum frösum úr stólnum. Við bjóðum nú stundum upp á slíkar messur, þótt við auglýsum þær ekki sérstaklega! En enginn sá sem er af holdi og blóði getur þagað þegar hann horfir upp á það ástand sem hér er, í atvinnulífi, í velferðarmálum, í málefnum sjúklinga, aldraðra og deyjandi. Sætir það virkilega furðu þótt menn rísi upp og hvetji til þess, í Jesú nafni – að gripið sé til aðgerða?
Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“ „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum.“
Með öðrum orðum. Verið eins og Galíleuvatn, ekki vera Dauðahafið.
Engar einfaldar lausnir
Hér eru engar einfaldar lausnir, en það á ekki að hamla okkur, við erum ekki einfaldar sálir. Við erum hins vegar skapandi einstaklingar sem eigum að starfa og hugsa eins og leiðtogar, eða með öðrum orðum – fólk sem vill láta gott af sér leiða, hvert á sínu sviði. Íslenskt samfélag þarf að taka til sín áminningu Jóhannesar því hún á ekki aðeins við þær auðlindir sem fjármagnið er. Nei, hún á líka við um völdin sem við höfum og áhrifin sem við sækjumst eftir. Íslensk stjórnmál eru gegnsýrð þeirri hugsun að áhrif snúist um takmörkuð völd fremur en þjónustuna sem á sér engin takmörk.
Við eigum að taka orðin hans Jóhannesar til okkar sem segir okkur að gefa af því sem við eigum. Þeir sem eiga mikið eiga að hugsa til hinna, ekki í Þórðargleði yfir óförum þeirra sem er einkenni lítilmenna. Heldur í umhyggju og kærleika þess sem veit og skilur að sælla er að gefa en þiggja. Við eigum að miðla hugmyndum hvert til annars, huggun og styrk, hvatningu og menntun. Síðast en ekki síst eigum við að halda áfram að miðla boðskap Jesú Krists sem hefur náð til hjarta okkar kynslóð eftir kynslóð. Hann hefur talað inn í aðstæður sem láta kreppuna okkar líta út eins og sælutíð.
Áin rennur
„Áin rennur til sjávar“ ortu kórfélagar þar sem þeir stóðu í morgunbirtunni á hinum helga stað. Dagur tók við af nóttu og þótt sjónarspilið beri fyrir á hverjum degi er hver morgunn nýr og einstakur. Nú á degi fátæktar hugleiðum við þær þjáningar sem verða þegar verðmætin safnast fyrir á fárra höndum en fjöldinn líður. Hér á þessu svæði er hringrás atvinnulífsins rofin og stefnir í óefni ef ekki verður tekið í taumana. Við þurfum skapandi hugsun og ríkulegt örlæti þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum, samfélaginu til framdráttar. Hér heyrum við afrakstur skapandi vinnu kórfélaganna – sem hefst á gömlum húsgangi og leiðir svo út í hughrif kórfélaganna.
Megi algóður Guð blessa samfélagið okkar og auðga okkur af skapandi örlæti hvert til annars. Í Jesú nafni Amen.