“Hjálpi mér allir heilagir!”

“Hjálpi mér allir heilagir!”

Við biðjum ekki fyrir sálum látinna samkvæmt okkar lútherska kristindómi. Það er vegna þess að við treystum því að þau séu Guði falin, eins og við öll sem viljum kannast við Hann, jafnt í lífi sem dauða. Eilífa lífið á sér upphaf hér í hinu jarðneska þegar við tökum við útréttri hönd Guðs í skírninni og leyfum ljósi hans að skína í orði og verki hversdagsins.

Predikun flutt í Hallgrímskirkju á Allra heilagra messu Textar: Lexían: 5M 33:1-3, Pistillinn: Opb 7.13-17, Guðspjallið: Mt 5.13-16 

Leið pílagrímsins er lítil bók sem út kom í prýðilegri þýðingu Ísaks Harðarsonar fyrir tæpum áratug . Þar segir frá ferðum förumanns um rússneskar sveitir á 19. öld og hvernig hann tileinkar sér bæn hjartans, Jesúbænina, með Biblíu afa síns og visku kirkjufeðranna í ritinu Phílókalía sér til leiðsagnar. Margt verður á vegi pílagrímsins og hann kynnist bæði sælu fólki og vansælu en fær sannarlega að reyna að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs (Róm 8.28).

Það er merkilegt að finna andrúmsloft þessa kvers, ekki síst hvernig sögumaður lítur með virðingu til leiðbeinenda sinna, bæði hinna liðnu sem hann las af bók og þeirra sem mættu honum lifandi á leið hans. Þetta voru heilagir menn, kirkjufeður, múnkar og staretsar, en svo voru nefndir kennarar trúarinnar (rússneska: öldungur).

Að láta ljósið skína Í fyrstu frásögu af fjórum greinir frá samtali pílagrímsins og starets nokkurs, sem varð hans aðal leiðbeinandi. Staretsinn vitnar í Pál postula og Heilagan Ísak frá Sýrlandi og segir: Margra góðra verka er krafist af kristnum manni, en það er bænin sem verður að koma fyrst og fremst, því án bænarinnar verða önnur góð verk ekki gerð, og maður fær ekki fundið veginn til Drottins. Sannleikurinn verður ekki gefinn, holdið með ástríðum sínum og losta verður ekki krossfest, hjartað verður ekki fyllt af ljósi Krists og sameinað Honum með endurlausninni, nema á undan fari tíðar bænir.... Lærðu fyrst að biðja, og þá muntu auðveldlega gera öll hin góðu verkin (bls. 13 og 14).

Þessi orð úr Leið Pílagrímsins komu upp í huga minn við íhugun guðspjalls dagsins, Matt 5.13-16: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.    Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.    Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Jesús felur okkur það hlutverk að vera salt jarðar og ljós heimsins. Það er ekki lítið hlutverk. Orð hans eru hvatning til að láta ekki saltið dofna, ljósið slokkna. Við eigum ekki að dylja trúfesti okkar við hann, heldur “láta ljós okkar skína” í góðum verkum, Guði til vegsemdar.

Heilagleiki Við hverja skírn eru orð Jesú um ljósið sem skíni í góðum verkum höfð yfir. Hvernig  förum við að því? Er það á okkar færi, venjulegs fólks, að gera nokkuð það sem sé Guði til vegsemdar? Jú, það er á okkar færi. Við erum öll frátekin í skírninni til að vinna góð verk, Guði til dýrðar. Við erum öll heilög. Það merkir að við erum helguð Kristi, höfum meðtekið tákn hins heilaga kross í skírninni, “til vitnisburðar um, að hugur þinn og hjarta á að helgast fyrir trúna á hinn krossfesta og upprisna Drottin Jesú Krist”, eins og segir í Handbók íslensku kirkjunnar frá 1981.

Orð staretsins sem vitnað var í hér að ofan eru hjálpleg í þessu sambandi. Þar erum við minnt á “að hjartað verður ekki fyllt af ljósi Krists og sameinað Honum með endurlausninni, nema á undan fari tíðar bænir...”. Ljós okkar fær ekki skinið nema fyrir bæn. Hugur okkar og hjarta helgast fyrir trú.

“Lærðu fyrst að biðja, og þá muntu auðveldlega gera öll hin góðu verkin”. Þetta er lykillinn að því að vera Guði til vegsemdar. Allt byrjar það með bæn. Því bænin færir auðmjúkan hug, beinir sjónunum frá eigin hagsmunum að því sem er öðrum til hagsbóta: “Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var” (Fil 2.3-5). Til þess erum við kölluð að vera með hugarfari Jesú Krists. Það er sannur heilagleiki.

Allir heilagir – allar sálir Þessi dagur, allra heilagra messa, er tileinkaður minningu helgra manna, karla og kvenna. Í kaþólskum sið voru fjöldamargir dýrlingar sem áttu sér hver sinn dag og margar messur haldnar af virðingu við þá. Þessum dögum var saman safnað í þessa einu messu eftir siðbót og að auki skyldi allra sálna messa haldin sama dag. Þjóðkirkjan hefur á síðasta áratugi lyft upp fyrsta sunnudegi í nóvember upp sem minningardegi látinna, samstíga þeirri vakningu sem orðið hefur í þjóðfélaginu í málefnum syrgjenda. Var sannarlega ekki vanþörf á og má minna á þarft starf Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð. Á þessu hausti eru 20 ár frá stofnun samtakanna og verður þess minnst með afmælistónleikum í Neskirkju 15. nóvember nk.

Sr. Birgir Ásgeirsson ræddi hér áðan á Fræðslumorgni um hinar ýmsu birtingarmyndir sorgarinnar. Sorg er tengd svo mörgu sem við verðum fyrir á lífsleiðinni. Það er þarft að gera sér grein fyrir því að margar eðlilegar tilfinningar eru fylgifiskar sorgarferlis. Látum það eftir  okkur að finna til þegar svo ber undir og leyfum sársaukanum að fá útrás eftir þörfum, í tárum, með því að tala við Guð og menn og í annarri tjáningu.

Við biðjum ekki fyrir sálum látinna samkvæmt okkar lútherska kristindómi. Það er vegna þess að við treystum því að þau séu Guði falin, eins og við öll sem viljum kannast við Hann, jafnt í lífi sem dauða. Eilífa lífið á sér upphaf hér í hinu jarðneska þegar við tökum við útréttri hönd Guðs í skírninni og leyfum ljósi hans að skína í orði og verki hversdagsins.

Við biðjum heldur ekki til dýrlinga eða helgra manna, ekki frekar en látinna, þó gamla orðtækið “Hjálpi mér allir heilagir” hafi verið sett sem yfirskrift þessarar prédikunar, svona mest til að vekja athygli. Við horfum til hinna heilögu sem fyrirmynda í trúnni, lesum orð þeirra og lærum af þeim. Og við heiðrum minningu látinna ástvina með því t.d. að tendra ljós á leiðum þeirra vegna þess sem þau voru okkur, vegna tengslanna sem eitt sinn voru og væntumþykjunnar sem enn yljar hjartanu.

Manneskja sem ljós Guðs skín í gegn um Lítill drengur var á ferðalagi með föður sínum í Frakklandi. Þar komu þeir í eina hinna stórbrotnu gotnesku dómkirkna. Drengurinn dáðist að litríkum steindum gluggunum og þeim mörgu persónum sem þar gaf að líta. “Pabbi”, spurði hann, “hvaða fólk er þetta?”. Faðirinn svaraði: “Þetta eru dýrlingar, helgir menn”. “Hvað er það?” spurði þá snáðinn áhugasamur. “Helgur maður er manneskja sem ljós Guðs skín í gegn um”.

Helgur maður er manneskja sem ljós Guðs skín í gegn um. Þetta finnst mér góð lýsing. En hún á bara allt of sjaldan við mig. Samt er ég heilög, tekin frá í skírninni, helguð Kristi með tákni hins heilaga kross á enni og brjóst. Það ert þú líka. Látum það vera okkur umhugsun með hverjum nýjum degi að endurnýja þetta krossmark og þannig minna okkur á hverjum dagurinn skuli markast. Byrjum með bæn og fulltreystum einmitt því að “hann, sem byrjaði í okkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists” (Fil 1.6).

Ef við hefjum daginn með signingu og bæn er strax góð von til þess að ljós Guðs geti skinið í gegn um okkur þann daginn. Það gerist í hinu smáa, ekki síður en í stórvirkjum þeim sem dýrlingarnir flestir eru þekktir fyrir. Smáu hlutirnir í daglega lífinu hafa kannski mest gildi, að svara ekki með pirringi, að taka ekki þátt í baktali, að hafa rétt við í fjármálum, líka þegar við fáum of mikið til baka í búðinni eða tökum óvart með okkur undirskrifaða kreditkortakvittun.

Bænarorð Móður Teresu Þessi hugleiðingarorð á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju hófust með ónefndum starets á leið pílagrímsins. Það er við hæfi að enda þá för með þeirri konu sem flestir myndu eflaust nefna aðspurðir um heilagleika í verki, Móður Teresu. Í litlu kveri hugleiðinga hennar  segir:

Talaðu við Guð. Láttu Jesú einfaldlega biðja í þér. --- Til að geta beðið þurfum við þögn. Því að Guð talar til okkar í þögn hjartans og við svörum með öllu sem í hjartanu býr... ... Allt byrjar með bæn – ... Talaðu því við Guð, leyfðu Jesú að biðja í þér... Lifa sínu lífi sínu í þér – Því það að vera eitt með Kristi er bæn.

Leyfum ljósi Guðs að skína í gegn um okkur. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.