Undanfarinn áratug hafa miklar breytingar orðið til batnaðar á réttarstöðu samkynhneigðra á Íslandi og hafa margir orðið til að fagna því. Ísland hefur gerst aðili að evrópskum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum þar sem bannað er að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar og andi þeirra hefur skilað sér inn í löggjöf og stjórnarskrána. Liður í þessu ferli voru lög um staðfesta samvist samkynhneigðra sem með þeim réttarbótum sem veitt voru með lögum á liðnu ári gera það að verkum að flestir samkynhneigðir mega vel una við lagalega stöðu sína í íslensku samfélagi.
Hér er þjóðkirkjan ekki undantekning. Innan hennar hefur fólk fagnað þessari þróun og lagt lóð á vogarskálina á undanförnum árum og áratugum og má þar nefna siðfræðikennsluna við guðfræðideild Háskóla Íslands. Biskup Íslands sagði kirkjuna ekkert hafa að athuga við lagasetningu um borgaralega staðfestingu samvistar samkynhneigðra árið 1996 og hann hefur samið blessunarform fyrir þá presta sem vilja blessa þetta sambúðarform í kirkju. Kenningarnefnd þjóðkirkjunnar hefur samið ágæta skýrslu um staðfesta samvist og helgisiðanefnd þróað áfram blessunarform biskups. Efnt hefur verið til rannsókna og málfunda um biblíulegar forsendur fordæmingar á samkynhneigð og fræðimenn komist að því að þær séu ekki fyrir hendi. Kenningarnefndin tekur undir þetta og segir að þjóðkirkjan styðji „þá einstaklinga af sama kyni sem staðfesta samvist sína og skuldbindingar“. Hún segir ennfremur: „Þjóðkirkjan vill standa með þeim í vilja þeirra og viðleitni til að lifa saman í ást og trúmennsku.“
Kenningarnefndin áréttar þá staðreynd að samkvæmt lútherskum kirkjuskilningi sé hjónavígslan hvorki sakramenti né á forræði kirkjunnar heldur lúti hún sifjarétti og lögum frá Alþingi. Sjöunda grein Ágsborgarjátningarinnar segir að til að sönn eining ríki í kirkjunni sé nóg „að menn séu sammála um kenningu fagnaðarerindisins og um þjónustu sakramentanna. En ekki er nauðsynlegt, að alls staðar séu sömu mannasetningar eða helgisiðir eða kirkjusiðir, sem menn hafa sett.“ Nefndin talar auðvitað út frá lúthersku sjónarmiði og hún getur því ekki svarað spurningu fyrir trúfélög sem nálgast þetta viðfangsefni út frá öðrum guðfræðlegum forsendum svo sem rómversk-kaþólsku kirkjuna, hvítasunnusöfnuðina og rétttrúnaðarkirkjurnar. Lúthersk kirkja lagar sig að og viðurkennir vald alþingis og ríkisstjórnarinnar – aðilar sem Lúther mundi einu nafni kalla furstann – og setur sig ekki yfir valdsvið þeirra nema þær gangi augljóslega gegn því sem er kjarni trúarinnar: þjónustan við Guð, sakramentin, boðskapur Jesú Krists og þjónustan við náungann.
Nú ber furstinn hag samkynhneigðra fyrir brjósti og má ekki líða neitt sem skyggir á mannhelgi og jafnan rétt þeirra á við aðra. Nefnd á hans vegum hefur beint tilmælum til þjóðkirkjunnar að hún endurskoði afstöðu sína til staðfestrar samvistar samkynhneigðra með það fyrir augum að vígsla þeirra megi fara fram í kirkju sem þýðir að prestar þjóðkirkjunnar verða ekki aðeins vígslumenn þegar um er að ræða hina hefðbundnu hjónavígslu karl og konu heldur einnig vígslu samvistar samkynhneigðra. Í þessu sambandi er mikilvægt að muna að þjóðkirkjan gerði enga athugasemd við lög frá alþingi um staðfesta samvist þegar þau voru sett árið 1996 og því einnig að Alþingi er í lófa lagið að afnema lögformlegan vígslurétt forstöðumanna trúfélaga.
Alkunna er að það eru skiptar skoðanir um vígslu samkynhneigðra í þjóðkirkju bæði meðal almennings og presta. Kannanir sýna að meirihluti almennings mun vera henni fylgjandi, en nokkur minni hluti presta er það, þótt líklegt sé að nú séu fleiri í þeirri stétt fylgjandi slíkri vígslu en fyrir nokkrum árum. Kirkjustjórnin hefur tekið sér umhugsunarfrest fram á þetta ár til að taka afstöðu til málsins og virðist nú auðveldar en áður að ná samkomulagi um þetta mál en áður. En ef þetta mál stefnir engu að síður í það að skapa óeiningu og klofning innan þjóðkirkjunnar þá virðist það fýsilegur kostur að furstinn afnemi vígslurétt presta og hverjum og einum sé þá í sjálfsvald sett hvort þeir leiti eftir blessun í kirkju eftir að borgaraleg athöfn hefur farið fram.
Margt í áðurnefndu áliti kenningarnefndar mælir með því að stofnanir þjóðkirkjunnar samþykki að þeir prestar sem vilja gerast vígslumenn staðfestrar samvistar fái réttindi til þess. Þjóðkirkja verður eðli sínu samkvæmt að rúma ólík sjónarmið um málefni sem ekki rjúfa einingu hennar sem kristinnar kirkju og það gerir vígsla samkynhneigðra ekki ef sjöunda grein Ágsborgarjátningarinnar er höfð í huga. Hún getur hæglega lagt grunninn fyrir vígslu staðfestrar samvistar í kirkju sem lögformlegs gjörnings þannig að samkynhneigðir hafi val eins og aðrir um borgaralega eða kirkjulega vígslu. Þar sem biskup Íslands hefur nú í sjö ár afhent þeim prestum sem vilja form til að fara eftir við blessun staðfestrar samvistar í kirkju, er kirkjuleg athöfn í sambandi við sambúð samkynhneigðra ekki lengur einkamál viðkomandi para og þeirra presta sem leitað er til. Hún er framkvæmd sem er að öðlast stöðu hefðar og er því ekki sálgæsla við einstaklinga heldur opinber athöfn sem framkvæmd er í samfélaginu fyrir augliti Guðs. Á þennan hátt hafa helgisiðir kristninnar þróast í gegnum ár og aldir, tekið er tillit til aðstæðna, nýungin prófuð og reynslan metin og það sem sættir og sameinar Guð og menn og eflir frið og kærleika í söfnuði og samfélagi varir áfram því þannig starfar andi Guðs.
Við erum mörg í þjóðkirkjunni sem viljum fagna með samkynhneigðum vinum okkar, skólasystkinum og skyldmennum og skorum því á prestastefnu, biskupafund og kirkjuþing að taka jákvætt í þann möguleika að prestar þjóðkirkjunnar sem vilja geti verið vígslumenn við staðfestingu samvista samkynhneigðra. Hér er um að ræða þá lögformlegu stofnun sem nú er komin góð tólf ára reynsla á. Hér er ekki verið að gera hina ævafornu sögulegu og menningarlegu hjúskaparstofnun karls og konu kynhlutlausa. Hún var á tímum Biblíunnar og bæði fyrr og síðar grundvallarstofnun samfélagsins. Félagsleg regla byggðist á henni og hún teygði anga sína inn á svið sem nú eru sérstök aðgreind starfssvið sem lúta sérstakri löggjöf og sérfræði í t.d. atvinnulífi, menntunarstofnunum, félags- og heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Fjölskyldan og hjónabandið hefur í nútímalegu samfélagi snúist í æ ríkari mæli um það vera vörn og skjól fyrir heilbrigða og sjálfstæða samkennd og tilfinningalegt öryggi sem byggir á djúpum, varanlegum og gagnkvæmum mannlegum tengslum. Hvorki kirkjan né aðrar þjóðfélagsstofnanir geta framleitt slík tilfinningatengsl eða slíka samkennd af sjálfu sér en þær geta búið í haginn fyrir slíkt hjá fólki í þágu þess sjálfs og þjóðfélagsins alls.
Í því ferli sem hér hefur verið lýst er blessun staðfestrar samvistar samkynhneigðra að breytast í vígslu. Þannig vígsla yrði sambærileg hinni ævafornu hjónavígslu karls og konu – en ekki það sama. Eining í samfélagi og evangelísk-lútherskri þjóðkirkju byggir ekki á því að allir séu eins heldur að allir virði og meti hver annan. Samkynhneigðir hafna hjónabandi karls og konu fyrir sitt leyti – þeir eru „hinsegin“ og vilja vera það og hafa rétt til þess að vera það. Þeir hafa skapað sér hinsegin menningu og hinsegin fræði. Við sem erum hinsegin að þeirra mati þurfum ekki að breyta okkur til þess að njóta samvista við samkynhneigða heldur að virða þá og meta og deila með þeim lífinu í öllum þessum myndum í gleði og sorg.
Á sama hátt og Íslendingar telja það mannréttindi sín að rækta og verja sérstöðu sína um leið og þeir telja sér í vaxandi mæli skylt að nálgast alþjóðleg viðmið og alþjóðlega mannasiði, telja lesbíur og hommar að gott samkynhneigt líf snúist um það að njóta svigrúms til sömu athafna og lífsforma og aðrir um leið og þeir verði að eiga kost á því að njóta sérstöðu sinnar og rækta hana. Velfarnaður í upplýstum nútímalegum þjóðfélögum byggir á því að jafnræði og mannhelgi séu í heiðri höfð og þetta eru gildi sem kristnin hefur þrátt fyrir allt borið með sér gegnum aldirnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2007.