Upprisa og endurreisn

Upprisa og endurreisn

„Krýsuvíkurkirkja er brunnin.“ Sú fregn barst í byrjun árs og myndgerði efnahagshrunið. Bænarefni er að vel takist að endurreisa kirkju og þjóðarhag.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
16. janúar 2010

„Krýsuvíkurkirkja er brunnin.“ Sú fregn barst í byrjun árs og myndgerði efnahagshrunið. Bænarefni er að vel takist að endurreisa kirkju og þjóðarhag. Haldið var veglega upp á 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju á hvítasunnu 2007. Hátíðarmessuna sóttu 300 manns og sátu flestir utandyra í björtu veðri. Ljóð eftir Matthías Johannessen var frumflutt við nýja tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson sem samdi messusönginn.

Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Áratugum saman var kirkjan sem þúst í landslaginu svipt þeim ósýnilega en helga loga, sem brennur á helgum stöðum. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.

Kirkjuhúsið var eyðilegt eftir að hann hvarf frá því og næma sýn þurfti og trúarskynjun til að uppgötva þýðingu þess á ný. Björn Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, átti þá sýn og lét af umhyggju og fórnfýsi endurgera Krýsuvíkurkirkju fyrir eigið fé og endurvígja hana vorið 1964 og tók Þjóðminjasafnið hana til umsjár. Björn lést skömmu síðar. Sveinn Björnsson, listmálari, sem vann að list sinni í Krýsuvik, tók síðar upp merki hans og ól þá ósk í brjósti að Krýsuvíkurkirkja yrði aftur lifandi bænastaður og kom henni á framfæri. Sveinn gaf kirkjunni nýja altaristöflu, sem hann nefndi ,,Upprisu", rétt fyrir andlát sitt. Við helgistund eftir jarðsetningu Sveins í garði kirkjunnar vorið 1997 var hún hengd upp í kirkjunni og blessuð. Fjölsóttar messur voru síðan haldnar í kirkjunni í byrjun vors og hausts og nokkrum sinnum að auki en altaristaflan var varðveitt í Hafnarfjarðarkirkju á vetrum. Boðið var í Messukaffi í bláu Sveinshúsi í Krýsuvík þar sem Sveinn hafði málað og sýningar voru haldnar á myndum hans. Tengslin milli kirkju og safns styrktu vinabönd trúar og listar.

Krýsuvíkurkirkja laðaði sem tilbeiðslustaður mjög að sér ferðamenn. Fram kom í skrifum þeirra á fjölda tungumála í gestabækur kirkjunnar að látleysi hennar birti þeim grunngildi og verðmæti, sálarþrá og hungur, sem Guð einn svalar á vegferðinni. Í látleysi sínu í máttugu umhverfi dró Krýsuvíkurkirkja fram þá auðmýkt sem nemur návist Guðs í sköpunarundrum. Og inni í öldnum helgidóminum tengdi altaristaflan,Upprisa, óhlutbundin og litsterk, sögu og samtíð og opnaði æðri sýn. Krýsuvíkurkirkja var sem náttúrumynd í landslagi og lét lítt fyrir sér fara, en líka mynd þeirrar trúar, er vex fram af örkorni og á sér fyrirheit um fagra blómgun, því að andi Guðs er lífskrafur hennar. Bruni og aska deyða ekki þann kraft. Í upprisumætti hans verður unnið að endureisn Krýsuvíkurkirkju.