Bréfið ljóta

Bréfið ljóta

“Einu sinni var ung stúlka á ferð. Löng leið um fjöll og dali hafði rænt hana veikum kröftum. Hún var nærri lömuð á sál og líkama. Þá hafði tíminn áður en ferðin hófst verið enn þá hræðilegri. “ Þessi orð gætu átt við stúlku á flótta í dag, frá Úkraínu, sýrlandi, Jemen eða öðru stríðshrjáðu landi. Þessi orð voru sögð um Maríu móður Jesú Krists. Hún var eitt sinn umkomulaus flóttamaður.


“Einu sinni var ung stúlka á ferð. Löng leið um fjöll og dali hafði rænt hana veikum kröftum. Hún var nærri lömuð á sál og líkama. Þá hafði tíminn áður en ferðin hófst verið enn þá hræðilegri. “ Þessi orð gætu átt við stúlku á flótta í dag, frá  Úkraínu, Sýrlandi, Jemen eða öðru stríðshrjáðu landi. Þessi orð voru sögð um Maríu móður Jesú Krists. Hún var eitt sinn umkomulaus flóttamaður.

Í ævisögu sinni, Horft um öxl af Hálogalandshæð, segir sr. Árilíus Níelsson frá því þegar hann á prestskaparárum sínum á Eyrarbakka var kærður til biskups Íslands. Tilefnið var jólaprédikun í Eyrarbakkakirkju  árið 1944. Þá geisaði einmitt stríð í Evrópu. Í jólaræðunni  segir að María hafi verið trúlofuð manni en ófrísk af barni “sem algjörlega var vafi  á”. Hún væri með öðrum orðum ófrísk eftir annan mann en Jósef unnusta sinn. Slíkt varðaði dauðasekt.  Í upphafi árs 1945 hringdi biskupinn yfir Íslandi, hr. Sigurgeir Sigurðsson í sr. Árilíus til að upplýsa um að bréf hafi borist biskupi frá 14 Eyrbekkingum þar sem krafist var að presturinn yrði tafarlaust leystur frá störfum. Sagði biskup að þetta væri “hið ljótasta bréf“ sem til væri í bréfasafni biskupsstofu. Fór sr. Árelíus til fundar við biskupinn næsta dag.

Orðin sem ég vitnaði til hér í byrjun eru orð sr. Árilíusar úr umræddri jólaprédikun.  Sr Árilíus var iðulega kallaður guðlaus kommúnisti. Guðlaus prestur er væntanlega sá sem ber hag hinna minnstu bræðra fyrir brjósti. Sr. Árelíus var ekki áminntur fyrir jólaræðuna eða hótað uppsögn, hann segir reyndar að biskupinn hafi sjálfur haft sömu skoðanir og ræðan birti.

Við teljum okkur lifa frjálslynda tíma. En er það svo í raun? Í dag fær prestur tiltal, formlega áminningu og hótum um brottrekstur úr starfi fyrir að skrifa nokkrar línur á facebook. Þar var ekki jólaræða í helgu guðshúsi aðeins nokkrar línur um hag flóttamanna - hinna minnstu bræðra í samfélaginu. Biskup dagsins í dag er líka sammála umræddum presti um tilefnið.

“En um tárin hennar Maríu litlu, allt hugarangrið, sálarangistina, ófrelsið, þjáningarnar, vonlausa ástina hennar, um það spurði enginn. Aðeins sparkað, hrækt af vesalings blindum og skilningsvana bræðrum og systrum. “  Þessi orð koma úr jólaræðunni umræddu og auðveldlega geta þau átt erindi við okkur í dag þó þau hafi mætt hörðum hjörtum á sínum tíma.